Færslur: 2013 Janúar

20.01.2013 15:14

Sú var tíðin,1914

Árið 1914 voru 925 íbúar í Eyrarbakkahreppi. Fyrir vestan Eyrarbakka var mælt fyrir ísvarnargarði vegna bátalægis hér og áætlun og teikningar gerðar um verkefnið. Mælingamenn voru líka að störfum fyrir væntanlega Flóaáveitu. Sjúkrahúsmálin voru mikið í umræðunni, en fé til byggingar sjúkrahúsins skorti. Afla og atvinnuleysi var hér mikið að vetrinum og sætti reindar furðu hversu menn komust hér af við þessar aðstæður. Garðræktin, sem hér var stunduð, átti mikinn þátt í þvi, enda var Eyrarbakki annar mesti kartöfluræktarhreppur landsins, á eftir Ytri-Akraneshrepp. Hagur almennings á þessu ári, var samt æði erfiðari en næstu árin á undan. Aðalega urðu verkamenn einna harðast úti. Síðsumars brast á heimstyrjöld og áhrifa þess átti eftir að gæta hér í verslun og þjónustu mjög fljótt og ekki bætti það atvinnuhorfur verkafólksins. Vöruverð hækkaði grimmt og lánsverslun hættu kaupmenn. Nú varð að staðgreiða allar vörur. Ullarverð hækkaði talsvert á móti og kom sauðfjárbændum vel.  Kvillasamt var þetta ár, því hér gekk Barnaveiki, Kíghósti, Taugaveiki og lungnabólga. Ingólfsverslunin á Háeyri brann til kaldra kola þetta ár, en litlu munaði að tök næðust á eldinum með nýjum slökkviáhöldum er keypt voru hingað á fyrra ári.

Fiskveiðar og útgerð: Fiskifélagsdeildin "Framtíðin" á Eyrarbakka taldi 180 manns árið 1914 og voru félagsmenn víða að úr Árnessýslu. Einn æfifélagi var í deildinni, A. J. Lefolii stórknupmaður. Aflalaust var í byrjun vertíðar, en af Stokkseyri gengu 10 mótorbátar og Bakkamenn höfðu 2 til 3, auk hinna opnu róðrarbáta sem fækkaði nú með ári hverju. Hafnaraðstæður voru kannaðar í Þorlákshöfn öðru sinni, nú með hugsanlega vélbátahöfn í huga, en áður höfðu hafnaraðstæður verið kannaðar í Þorlákshöfn vegna hugmynda um hafskipahöfn. Erlendir botnvörpungar sópuðust að fiskimiðunum en afli heimamanna var engu að síður ágætur því fiskgengd var mikil. Brimdagar háðu þó oft sjósókn. Um sumarið gekk ekki fiskur og síldin kom seint. Haustvertið gekk einnig illa og oft aflalaust. Á Stokkseyri voru 4 vélbátar í smíðum, en aðeins tveir róðrabátar gengu þaðan 1914. Samtals áttu Stokkseyringar 14 vélbáta við árslok og voru þetta ár að byggja bryggju fyrir þá.

Skipakomur: Mótorskipið "Venus" kom til Stokkseyrar eftir harða og langa útivist, með vörur til Ingólfsverslunar, fór utan á miðju sumri hlaðið ull kom aftur frá Noregi síðsumars hlaðið salti o.fl. til sömu verslunar. Þá kom þar gufuskipið "Magnhild" með vörur til Stokkseyrarfélagsins, en það var 1.300 smálestir að stærð. Skipstjóri var M. Clausen. Skipið hélt síðan austur til Vík í Mýrdal. "Hjálparinn" var í ferðum héðan milli lands og Eyja. Svo kom "Vonin" til Einarshafnarverslunar eftir mánaðar útivist og Faxaflóabáturinn Ingólfur kom við tvisvar með vörur til Kf. Heklu. Í sumarbyrjun kom skonnortan "Laura" til Einarshafnar með timbur. Gufuskipið "Agder" kom hér tvívegis um vorið, með kolafarm, hlekktist á skeri í seinna skiptið er stýrið bilaði og skemdi skrúfuna, "Steinar" eimskip frá Noregi kom síðan til að sækja "Agder" og var með því kafari til að sinna viðgerðum. Sennilega var það í fyrsta sinn sem kafari kemur við störf á Eyrarbakka. Nýtt stýri sem kafarinn kom fyrir, var smíðað hér á Eyrarbakka. Skonnortan "Yrsa" með timbur til Kf. Heklu. Skonnortan "Eva" með kol til Kf. Ingólfs á Stokkseyri. Vélbáturinn "Ásdís" frá Vestmannaeyjum kom við á leið til Reykjavíkur, hafði í togi vélbát er Guðmundur Ísleifsson á Háeyri hafði keypt frá Vestmannaeyjum, kom "Ásdís" aftur við í bakaleið og sótti farþega til Eyja. Flóabáturinn "Ingólfur" kom til Þorlákshafnar með búslóð Þorleifs Guðmundssonar er þangað flutti búferlum. Seglskipið "Svanen" kom til Stokkseyrar með timbur til Kf. Ingólfs. Fyrsta haustskipið á Bakkann að þessu sinni, "Vigelant" með kol til Kf. Heklu. Til Stokkseyrar kom "Gústav E. Falck" til Kf. Ingólfs. Eimskipið "Anglo Dane" kom hér með vörur til Kf. Heklu. Seglskipið "Vonin" kom frá Reykjavík með vörur úr flutningaskipinu "Botníu" til Einarshafnarverslunar.

Verslun og þjónusta: Kaupfélagið Ingólfur greiddi hæsta útsvar í Eyrarbakka og Stokkseyrarhreppi árið 1914, en verslanir félagsins voru á báðum stöðum. Í byrjun vetrar var Ingólfsverslunin á Eyrarbakka seld Jóhanni V Daníelssyni, er henni hafði veitt forstöðu, en skömmu fyrir jól brann verslunarhúsið til kaldra kola. Verslanirnar Einarshöfn, Hekla og Ingólfur báru hæstar skattgreiðslur þetta ár.  Smáverslanir voru nokkrar, svo sem Jóns Jónssonar á Stokkseyri og Andrésar Jónssonar á Eyrarbakka. Konráð R Konráðsson settur læknir hér á Eyrarbakka hafði aðsetur í Kirkjuhúsi og rak þar litla lyfjabúð en síðan í Gunnarshúsi Jónssonar trésmiðs. Gísli Pétursson frá Húsavík fékk svo Eyrarbakkalæknishérað, en þeir kepptu um. Gísli kom sér fyrir í húsi Sveinbjörns Ólafssonar verslunarmans. Símon Jónsson opnar verslun sína í Sigtúni á Selfossi. Vöruverð tók strax að hækka þegar fregnir af heimstyrjaldarhættu og bankahruni í evrópu bárust hingað til lands. Stóru verslanirnar brugðu á það ráð að fækka starfsfólki og tóku af þann sið að lána út á krít. Smákaupmenn sáu sér þá leik á borði. Ljósmyndarinn Kjartan Guðmundsson setti upp ljósmyndastofu í barnaskólanum um sumarið. Haraldur Blöndal ljósmyndari hafði aðsetur sitt í húsakynnum Kf. Heklu. Sigurður Tómasson úrsmiður í Reykjavík undirbjó úrsmíðastofu á Eyrarbakka.

Í

þróttir og skóli: Íþróttanamskeið var haldið hér á Eyrarbakka í byrjun ársins á vegum íþróttasambands íslands. HeIgi Agústsson frá Birtingaholti sá um kennslu. Knattspyrnufélag Eyrarbakka, keppti við Norðmenn af skipum þeim er hér láu inni og var leikið 3 kvöld í röð. Fyrsta kvöldið höfðu Eyrbekkingar 4 mörk á móti 2 mörkum Norðmanna. Annað kvöldið var jafntefli og þriðja kvöldið höfðu Eyrbekkingar sigur 5 mörk gegn 1 marki Norðmanna. Einn Dani var í liði Norðmanna, lék sá allra manna best, en af Eyrbekkinga hálfu lék best verslunarmaðurinn. Tómas Hallgrímsson. Fjölmennt Íþróttamót Skarphéðins var haldið að Þjórsártúni samkv. venju. Í unglingaskólanum voru kennd þessi fög: íslenaka (skrift og lestur) Saga, landafræði, náttúrufræði, (heilsufr og eðlisfr.) stærðfræði (reikn.) danska, enska, söngur og líkamsæfingar. Fyrir skólanum gekk Helgi Hallgrímsson kennari, nemendur þó fáir. Sigurður Þorkelsson kenndi börnum sem voru undir skólaskildualdri að stafa. Foreldrafundur var haldinn í fyrsta sinn. Þar var ákveðið var að skólanefnd Barnaskólans léti framvegis fara fram læknisskoðun á börnum í byrjun hvers skólaárs, en það var Helgi kennari Hallgrímsson sem lagði til. Konráð læknir tók að sér skólaskoðun hér á Eyrarbakka og Stokkseyri, en hún var þá í fyrsta sinn framkvæmd hér. Reindust um 80% barna vera með skemdar tennur og meira en helmingur barna voru meira og minna kirtlaveik.  

Menning: Leiklist og dansleikir voru vel sóttir hér við sjávarsíðuna. Það lá við uppþoti þegar skemmtannaglaður karlpeningurinn hugðist framlengja dansleik Kvennfélagsins á Sumardaginn fyrsta í Fjölni um eina klukkustund eða til kl. 3 um nóttina og greitt aukreitis fyrir leiguna. Framákona ein, fröken Guðmunda Nielsen formaður skemmtinefndar, brást reið við og hvatti stúlkurnar heim með fortölum og máttu þá herrarnir hafa þann kost einan að dansa við sjálfan sig.

Samgöngur: Bifreiðaumferð jókst til muna á sunnlenskum vegum, þó ferðalög með þeim þætti dýr lúxus.

 Andlát: Þórey Guðmundsdóttir, Tómassonar, prests í Villingaholti. Hún þótti einkennleg að ýmsu leyti, fremur vel gefin, minnug og fróð um margt. Fór hún lengi um með ýmsan varning, gamlan og nýjan, og seldi þeim er hafa vildu. Háöldruð var hún og hrum orðin. Guðrún Magnúsdóttir í Túni, var 59 ára gömul. Brynjúlfur Jónsson, fornfræðingur og heimspekingur var víða kunnur fyrir ljóð sín og rit. Hann hafði ávalt vetrardvöl á Bakkanum, en jafnan á faraldsfæti að sumrum, (Barnsmóðir hans Guðrún vinnukona Gísladóttir dó sama ár). Erlendur Jónsson þurrabúðarmaður. Guðmundur Jónsson þurrbabúðarmaður. Guðrún Oddsdóttir. Jón Þórarinsson ársgamalt barn, Magnús Magnússon. Margrét Leonhartsdóttir. Sigríður Vigfúsdóttir. Sigurborg Magnúsdóttir. Viktoría Þorkellsdóttir. Þorbergur vinnumaður Magnússon í Nýjabæ. Þórey Guðmundsdóttir.

Tíðarfar og landbúnaður: Þorrinn var umhleypingasamur og harðneskjulegur. Vorið hélt innreið sína með sól og blíðu. Marinn bræddi snjóinn og hagavænt var fljótt, en þá gerði harðinda vorhret. Síðan þokugjarnt og suddarigning algeng. Svo orti Brúsi:

Alt er hauðrið hjarni slótt,

hvergi er skjól við næðing,

- þó hefir sólin blett og blett

brætt úr klakalæðing.

Hjá öllum þorra útaf ber,

ef ei batinn kemur.

Heyjafengur horflnn er,

hurð við jarka nemur.

Vætusumar brast svo á og gerði bæði bændum og fiskimönnum erfitt um vik að þurka afurðir sínar. Grasvöxtur góður og brakandi þerririnn eftir hundadaga stóð stutt því fljótlega lagðist í rosa og stórrigningar svo slægjur velktust og fóru á flot, engjar kaffærðust í vatni svo fá dæmi voru um að sumri. Rættist þó úr er leið á ágústmánuð. Við sumarlok gerði mikið hvassviðri, Vélarbátur nýr sem lá í Þorlákshöfn og Þorleifur kaupm. Guðmundsson átti, sökk og brotnaði svo að aftan að vélin fór úr honum. Þar sleit upp uppskipunarskip frá Einarshafnarverslun. Vélarbát sleit upp hér á Eyrarbakka og lenti hann á skeri, brotnaði þó ekki til muna. Hey fuku nokkuð frá bændum hér. Kindur Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri þóttu vænstar hér um slóðir. Vænsta ærin vóg 61,5 pund og vænsta lambið 35 pund. Veturinn var umhleypingasamur.

Heimild: Suðurland 1914 ofl.

08.01.2013 23:08

Sporin í sandinum

             

  Á nýju ári er venjan að líta yfir farinn veg og líta á spor sín í sandinum og sjá hve langt þau leiða. Það er hinsvegar venja hér á "Briminu" að horfa enn lengra til baka og sjá hvers minnast má af sporum liðins tíma áður en alda gleimskunar máir þau út. Á þessu ári verða 40 ár liðin frá því að sr.Valgeir Ástráðsson stofnaði Æskulýðsfélag Eyrarbakkakirkju (Æ.F.E) og er sá félagsskapur eflaust mörgum hálfrar aldar Eyrbekkingum enn í fersku minni. Höfuðstöðvar félagsins voru í Brimveri, þar sem nú stendur leikskóli með sama nafni. En Brimver eldra var gömul vegasjoppa utan af landi sem U.M.F.E. fékk undir félagsstarfsemi sína. Þarna komu saman ungmenni til leiks og starfa. Um tíma var mikil gróska í þessu félagi en skammlíft varð það. Haldin voru m.a. kvikmynda og tónlista kvöld og skipulögð ferðalög víða um land. Húsið var fyrst staðsett austur á íþróttavelli, en síðan flutt þar sem leikskólinn stendur nú. Var það mikið afrek hjá litlu félagi að gera húsið upp og halda í því gróskumikla starfsemi á sínum tíma. Síðar var þetta hús notað sem fyrsti leikskólinn hér á Bakkanum og sjálfsagt að margir uppkomnir Eyrbekkingar eigi þaðan minningar, en því miður á ég ekki mynd af þessu ágæta húsi sem síðan vék fyrir nýjum leikskóla.

 

Þá eru einnig 40 ár síðan þorpsbúum fjölgaði skyndilega í einni svipan svo að segja, þegar allmargar fjölskyldur úr Vestmannaeyjum settust hér að í kjölfar eldgossins þar áHeimaey. Ungir Eyjapeyjar og Bakkameyjar, Bakkapeyjar og Eyjameyjar renndu hýru auga hvort til annars, er mæst var á stéttinni við Laugabúð.

 

70 ár eru liðin síðan hlutafélag um Hraðfrystistöð Eyrarbakka (H.E.) var stofnuð og Útgerðarfélagið Óðinn og urðu þessi félög lengi helstu máttarstólpar þorpsins þó ýmsir erfiðleikar væru þó alltaf handan við hornið. Flestar konur á Bakkanum og eldri karlar margir unnu hjá þessu ágæta fiskvinnslufyrirtæki á sínum tíma. Ungt fólk margt hóf þar sína fyrstu atvinnu, einkum þegar farið var að vinna humar, en mörg ungmennin unnu einnig í saltfiski á sumrin og ætið var einhver leyndardómsfull stemming yfir þessum vinnustað yfir há vertíðina. Yngri menn og frískari fóru margir til sjós á þeim bátum sem gerðir voru út héðan. Með tíð og tíma lagðist þessi starfsemi niður hér á Bakkanum.

06.01.2013 00:31

Brim á Bakkanum

Það hefur verið brimasamt við ströndina undanfarna daga og einkum nú um helgina þar sem fjallhár öldur rísa langt úti við brimgarðinn. Hér má sjá tóma bjórdós sem einhver aldan hefur skolað á land. Margir hafa lagt leið sína um fjöruna í dag til að horfa og hlusta á ægi í sínum ógnarham.

  • 1
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41