Færslur: 2008 Apríl

28.04.2008 22:36

Hrossagaukurinn kominn

Hrossagaukurinn er kominn með sitt sérkennilega hnegghljóð sem myndast þegar hann steypir sér skáhalt niður á við í loftinu. Til hans sást upp í Breiðumýri en þar er einmitt kjörlendi fyrir Hrossagauk.

Bakkakrían er enn ókomin. Fréttir hafi verið um komu kríunar austur á Hornafirði en kríurnar okkar koma venjulega milli 14 og 16 maí.

26.04.2008 22:36

Grænfinkur í heimsókn.

Mynd af GrænfinkuNokkur hópur af Grænfinkum (Chloris Chloris) sáust á Bakkanum í dag og virðast hafa tekið sér bólfestu um sinn a.m.k. í einu elsta grenitré staðarins.

Grænfinka er þekktur flækingsfugl hér á landi. Fuglinn er á stærð við snjótittling með áberandi olífugrænan lit.

25.04.2008 10:22

Kvenfélagið 120 ára

Eugenia ThorgrímsenKvenfélagið á Eyrarbakka á 120 ára afmæli í dag en félagið var stofnað hinn 25. apríl 1888 af 16 konum, að tilstuðlan stúkunnar Eyrarrósarinnar og lagði hver til 1 krónu í stofnfé. Eugenia Thorgrímsen var ein stofnenda og fyrsti formaður Kvenfélagsins á Eyrarbakka.

Á undanförnum árum hefur félagið veitt ýmsa styrki til góðgerðamála.

Núverandi formaður félagsins er Eygerður Þórisdóttir.

24.04.2008 15:24

Gleðilegt sumar.


Í dag er sumardagurinn fyrsti og þar sem vetur og sumar frusu ekki saman að þessu sinni getum við vænst þess að sumarið verði í blautara lagi samkvæmt þjóðtrúnni en vonum náttúrulega að ekkert sé að marka þessa gömlu hjátrú og sumarið verði bara gott. Vonum bara að sólin fari að láta sjá sig.

Á Bakkanum er ýmislegt um að vera í dag og fánar dregnir á húni á hverjum bæ. Kvenfélagið heldur upp á 120 ára afmæli sitt á Stað og börnin í Brimveri halda listasýningu svo eitthvað sé nefnt.

Þorpsbúum fjölgar ört þegar sumarhúsin fyllast af fólki og líf færist yfir göturnar. Út úr hverri skemmu streyma húsbílarnir í röðum eins og lömb á vorin að fagna sumrinu. Hafið kyrrist og brimaldan stríða kveður að sinni.

Gleðilegt sumar.

23.04.2008 09:18

Síðasti vetrardagur.

Gróðurinn er að vakna til lífsins og grasið grænkar. Á morgun er sumardagurinn fyrsti og er nú að vita hvort sumar og vetur frjósi saman, því samkvæmt þjóðtrúnni veit það á gott sumar ef það gerist. Veðurspár eru þó ekki bjartsýnar um að það gerist hér á suðurlands undirlendinu. Um miðnætti er spáð 6 stiga hita og skúrum á Bakkanum.

21.04.2008 13:05

Nemendur BES voru bestir

Í stóru upplestrarkeppninni sem er tíu ára um þessar mundir atti Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri  kappi við skólana á Selfossi og í Hveragerði. Haft var á orði að krakkarnir sem kepptu í ár væru óvenjulega færir lesarar og falleg framkoma þeirra og fas vakti athygi dómenda og styrktaraðila.

Nemendur BES slógu í gegn og hlutu  Eygerður Jónasdóttir og Ágúst Bjarki Sigurðsson fyrstu og þriðju verðlaun. Þetta er þriðja árið í röð sem okkar krakkar vinna til verðlauna.
Heimasíða BES

18.04.2008 10:11

Ferjurnar.


Skipið fyrir miðri mynd var eitt af tveimur ferjum sem notaðar voru í tíð Vesturbúðarinnar til vöruflutninga milli skips og fjöru. Ekki tókst að varðveita þau.

17.04.2008 09:03

Byggt við Sólvelli

Framkvæmdir við Sólvelli eru í fullum gangi um þessar mundir þar sem verið er að steypa upp viðbyggingu sem er um 125 m² að grunnfleti á þremur hæðum og kemur hún til með að bæta aðstöðu dvalargesta til muna.
Sólvellir var áður læknisbústaður en er nú dvalarheimili fyrir aldraðra á Eyrarbakka og var húsið tekið í notkun sem slíkt 1. nóvember 1987. Dvalarheimilið var sett á fót fyrir tilstilli samtaka áhugamanna á Eyrarbakka um dvalarheimili.

15.04.2008 10:52

Eyrarbakkahreppur verður 111 ára í vor.


Árborg, sameinað sveitarfélag Eyrarbakka ,Stokkseyrar, Sandvíkur og Selfoss verður 10 ára í vor og af því tilefni verður skipulögð 10 daga afmælis- og menningarhátíð sem hefst 8. maí n.k.

Þess er skemst að minnast að sl. haust var haldið upp á 60 ára afmæli Selfoss og þar með gefin tónninn fyrir að halda upp á afmæli hvers staðar fyrir sig í sveitarfélaginu.

Afmælis og menningarhatíðinni lýkur 18.maí en einmitt þann dag á Eyrarbakkahreppur 111 ára afmæli og væri því vel við hæfi að halda sérstaklega upp á þann dag á Eyrarbakka og draga fánann að húni.

13.04.2008 16:11

Hrafnahret.

Allt komið á kaf í snjó á Bakkanum, en vonandi að þetta sé síðasta hretið og þessi skelfilegur vetur senn að baki. Einhver spáði því að vorið kæmi á þriðjudaginn og víst er að öllum er farið að hlakka til að taka á móti því.

Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret.

11.04.2008 17:57

Óþægilegur sannleikur.


 Al Gore var með fyrirlestur á dögunum um hinn óþægilega sannleika. En það er hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda. Gæti verið að sannleikurinn í þessu máli sé púra bisness í formi skattheimtu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda? 

01.04.2008 13:25

Kaldur marsmánuður að baki, en lóan er komin.


Marsmánuður var kaldur venju fremur og úrkoma oft í hvítu formi. Norðaustanáttir viðvarandi flesta daga. Nú er hádegissólin tekin að verma og nær að bræða vakir á ísinn á Hópinu eins og sést hér á myndinni.

Lóan er komin:
Fulgalífið hefur tekið kipp að undanförnu eins og fuglatalningin hér gefur til kynna.

Tjöldum tjölgar og fyrsta heiðlóa ársins í fjörunni.
  • 1
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41