Færslur: 2007 Júlí

30.07.2007 22:10

Stígvélahelgi framundan

Hún er heldur ókræsileg veðurspáin fyrir verslunarmannahelgina,en eins og þetta kort frá Meteoblue sýnir þá er gert ráð fyrir víðáttumiklu úrkomubelti sem leggst yfir landið á föstudag með stórrigningu sunnanlands og þá einkum í Vestmannaeyjum (græni flekkurinn á kotinu)

Það má sem sagt búast við hundblautri stígvélahelgi.

29.07.2007 20:09

Seinni hálfleikur

Nú er sumarið hálfnað (miðsumar samkv. gömlu tímatali) og veðrið skiptir um tóntegund. Veðurfræðingar spá nú rigningu á þessum slóðum alla næstu viku og eru það umskipti frá þurkum og blíðviðri í næstum tvo mánuði.

Veðurfarið í Evrópu hefur verið með undarlegasta móti það sem af er sumri með rigningum og flóðum á Bretlandseyjum en sjóðandi hitabylgjum sunnar í álfunni. Hér á Fróni höfum við hinsvegar notið einstakrar sumarblíðu og veðursældar allt frá júní byrjun og þurkum svo miklum að elstu menn muna ekki annað eins. En nú er von á vætu sem mögum þætti kærkomin og ætti þá ekki að vera þörf á að skamta vatnið lengur hjá henni Árborgu

17.07.2007 20:55

Met á met ofan.

Hæsta hitastig dagsinns 21.2°C telst lílkega met á veðurstöð 923 (Eyrarbakka) fyrir daginn í dag.

Eldra dagsmet frá 2003 var 19,5°C

Þurrvirðiskaflinn ef svo má segja slær nú einig öll met.

Svo má gera ráð fyrir að met sólskínstunda í júlí sé í fallhættu þó Nýtt brim hafi ekki nákvæmar upplýsingar um eldri sólskinsstundamet.

16.07.2007 20:54

Beðið eftir regni

Undanfarnar vikur hefur þurkatíð ráðið lögum og lofum á Suðurlandi og er svo komið að grös eru víða farin að brenna á túnum og lóðum svo mjög að til vandræða horfir.

Ekki er vitað til að svo langvarandi þurkatíð hafi áður ríkt á Suðurlandsundirlendinu og lifa menn nú í vonini um að fá smá vætu, en varla hefur komið dropi úr lofti síðan í byrjun júní. Veðurspár gera þó ráð fyrir að úr rætist undir næstu helgi.
En nú er svo komið að bændur margir hverjir eru farnir að bölva þurkinum og óska eftir venjulegru rigningasumri,

09.07.2007 19:54

Sunnlensk hitabylgja heldur áfram.

Dagshámark hitastigs næstum jafnað í dag þegar hitinn náði 22,4°C kl.18 nú siðdegis,en met þessa dags frá árinu 1991 hljóðar upp á 23 °C

En nú má lofa að dagsmet morgundagsins verði hættu,því áfram er spáð sól og hita.

08.07.2007 20:23

Sól og sumar

Það var sólríkur sunnudagur á Bakkanum í dag sem og víðast sunnanlands. Hitin fór mest í 21,8°C kl. 18:00 sem er rétt undir dagsmetinu á Bakkanum frá 1963 sem var 22,2°C og mánaðarmetinu frá 1991 23°C. Ekki er útilokað að þetta met muni falla í ár.

04.07.2007 18:19

þrumur og eldingar

Mikið gekk á á Suðvesturlandi seinnipartinn i dag um 3 leitið þegar kváðu við þrumur og eldingar sem stóðu yfir í um klukkustund og má segja að Grímsnesið og Flóinn hafi logað stafnana á milli. Hávaðinn var mikill og minnti óneitanlega á slík veður í útlandinu,en mun sjaldgæfari er þessi sjón á þessum slóðum. Í kjölfarið fylgdu svo hitaskúrir.

Annars var veðrið gott hér um slóðir,hæg suðvestanátt og hitinn mest rúm 16°C og sólarglæta öðru hvoru.

Brimið er nú í fríi næstu vikur og verður því lítið vakað yfir veðrum og brimi á næstunni,enda allt með rólegasta móti á þessum vígstöðvum nú um stundir.

03.07.2007 20:27

júní góður.

Veðurstofan hefur gefið út yfirlit fyrir nýliðinn júní mánuð og kemur þar fram að júní var hlýr og þurr víðast hvar á landinu. Hlýjast að tiltölu var á Vestfjörðum þar sem hiti var meir en þremur stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 2000 sem er athyglisvert.
 
Á Hveravöllum var meðalhitinn 7,7 stig og hefur ekki orðið hærri frá upphafi mælinga þar árið1965.
Yfirlit Veðurstofu 

Júní var óvenju þurr á Bakkanum eins og víðast hvar á landinu, hiti komst hæst í 20,2°C þann 25 júní. Nánast brimlaust hefur verið allan mánuðinn en það er þó ekkert óvenjulegt á þessum árstíma.
  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43