Færslur: 2009 Maí

31.05.2009 22:14

Suðurlandsskjálftar fyrri tíma

VeðurklúbburNú þegar jörðin skelfur undir Grindavík réttu ári frá Suðurlandsskjálftunum miklu, er tilvalið að rifja upp Sunnlenska skjálftasögu. Hér koma nokkur brot úr sögu landskjálfta á Suðurlandi:


1013
. Landskjálftar miklir og létust 11 menn. 1164. Landskjálfti í Grímsnesi og létust 19 menn . 1182. Landskjálfti og dóu 11 menn . 1308. Landskjálfti mikill fyrir sunnan land og víða rifnaði jörð og féllu niður 18 bæir, en 6 menn dóu 1339. Landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land að fénaði kastaði til jarðar svo að ónýttist. Hús féllu um Skeið og Flóa og Holtamannahrepp og víðast hið neðra milli Þjórsár og Eystri-Rangár. Fjöldi bæja féll til jarðar eða hús tók úr stað. Létust nokkur börn og  gamalmenni. 1370. Landskjálfti svo mikili um Ölfus, að ofan féllu 12 bæir, en 6 menn fengu bana. 1391. Lajdskjálftar um Grímsnes, Flóa og Ölfus. Nokkrir bæir féllu alveg, en aðra skók niður að nokkru, rifnaði víða jörð. Létust nokkrir menn . 1546. Landskjálfti um fardaga, mestur í Ölfusi. Hús hrundu víða. Allt Hjallahverfi hrapaði. 1581. Mikill jarðskjálfti. Hröpuðu víða bæir á Rangárvöllum og 6 í Hvolhrepp og mannskaði varð þá víða. 1630. Jarðskjálftar þrír um veturinn. Hrundu margir bæir í Árnessýslu, fórust þar menn nokkrir og fénaður. Gerði og mikið tjón í Rangárvallasýslu. Urðu 6 menn undir húsum fyrir austan Þjórsá. 1671. Mikill landskjálfti í Grímsnesi og Ölfusi, hröpuðu hús víða. 1706. Miklir jarðskjálftar, hrundu 24 lögbýli u m Ölfus og utarlega í Flóa og margar hjáleigur. Hrundi staðurinn í Arnarbæli og 11 hjáleigur þar umhverfis. Viðir í húsum mölbrotnuðu og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar. Sumstaðar snerust hey um í  heygörðum svo botninn stóð upp, en torfið niður. 1732. Landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum. að spilltust nær 40 bæir þar og í Eystrihrepp, en 11 bæir hrundu í grunn . 1734. Afar harður landskjálfti í Árnessýslu. Hrundu þar 30 bæir, en 60-70 býli spilltust. 7 menn eða 8 dóu undir húsbrotunum og margt af nautpeningi. 1784. Í ágúst gengu um Suðurland einhverjir hinir mestu landskjálftar, sem komið hafa á Íslandi. Voru þeir harðastir í Árnessýslu, en einnig mjög skæðir í Rangárvallasýslu. Þeirra gætti og mjög við Faxaflóa. Margir urðu undir húsum í Árnessýslu og varð að grafa þá upp úr rústunum . Hlutu ýmsír meiðsl, en aðeins þrír týndu lífi, tveir í Árnessýslu og einn í Rangárvallasýslu. Í Árnessýslu féllu 69 bæir til grunna, 64 gjörspilltust, og alls urðu 372 bæir fyrir stórskaða. 1459 hús féllu algerlega. Í landskjálftum þessum féllu eða skemmdust öll hús í Skálholti, önnur en kirkjan. 1838. Jarðskjálftar í Árnessýslu, urðu harðastir á Eyrarbakka . Nokkrir menn meiddust. 1896. Miklir jarðskjálftar á Suðurlandi, urðu stórkostlegar skemmdir  í Árness og Rangárvallasýslum. Fjöldi fólks meiddist og 2 hlutu bana. Samkvæmtskýrslum presta gjörféllu í Rangárvallasýslu 603 bæjarhús, 1507 skemmdust mikið, 1038 skemmd ust lítið, en aðeins 170 voru óskemmd með öllu. í Árnessýslu gjörféllu 706 bæjarhús, 1260 urðu fyrir miklumskemmdum , 1849 skemmdust lítið og 644 ekkert. Fjöldi peningshúsa féll einnig og skemmdist, þó allmiklu færri hlutfallslega en bæjarhús. Ölfusárbrúin varð fyrir miklum skemmdum. Þjórsárbrúin skemmdist einnig, en minna.

1912. Öflugur Jarðskjálfti sem átti upptök sín að rekja til Heklu enda var skjálftinn mestur á svæðinu í kringum eldfjallið og mældist 7.0M. Tjón af völdum skjálftans varð umtalsvert. 30 bæir hrundu frá Þjórsá og að Eyjafjöllum. Fólkið sem missti heimili sín átti erfitt uppdráttar og varð það að búa í útihúsum þar sem bæirnir voru óíbúðarhæfir. Eina mannfallið í skjálftanum varð þegar sperra féll á barn sem sat í örmum móður sinnar og lést það samstundis. Skjálftinn fannst vel á Eyrarbakka, sprunga kom í húsið Skjaldbreið og er hún þar enn. 2000 Tveir öflugir jarðskjálftar. Kom sá fyrri 17. júní og voru upptök hans austarlega í Holtum, en hinn síðari reið yfir 21. júní og átti upptök í Flóa, skammt sunnan Hestfjalls. Skemmdir urðu talsverðar á upptakasvæðum jarðskjálftanna. ,,Sérstaklega má nefna Hellu, en þar varð umtalsvert tjón í fyrri skjálftanum. Þar fyrir utan voru það sveitabæir og sumarhúsabyggðir sem urðu helst fyrir tjóni. 2008. Þann 29. maí kl. 15.46 tók jörð að skjálfa suðvestanlands, skjálftinn fannst reyndar alla leið norður til Akureyrar og vestur á Ísafjörð. Tvöfaldur Suðurlandsskjálfti upp á 6,3 á Richter skók jörðina samtímis og olli miklu tjóni á húseignum í Hveragerði, Ölfusi, Selfossi og Eyrarbakka en litlum sem engum slysum á fólki.

 

Þess er vert að geta í sambandi við skjálftahrinuna á Reykjanesi þessa dagana að árið 1926 þá um vorið og fram á  haustið gekk yfir mikil skjálftahrina. Í oktober þ.á. gekk orðið svo mikið á að slökkva þurfti á Reykjanesvita sökum titrings sem ágerðist svo mjög að vitinn sprakk þvert yfir.

 

Heimild: Frjáls þjóð 1960, Veðurstofa Íslands, Lifandi Vísindi. islandia.is, Veðráttan.

28.05.2009 21:59

Útvarp Eyrarbakki

Morgunútvarp RUV heimsótti Bakkann í morgun og útvarpaði frá Gónhól. Áhugasamir geta hlustað á upptökuna Gónhóll
Frostfiskur
Leníngradsinfónían
Fangelsismál

26.05.2009 23:15

Þrumuveður í Þrengslum

Það gránaði í Vesturfjöllin í dagÞað gránaði í vesturfjöllin eftir þrumuveðrið sem gekk yfir Hellisheiði í dag og slabb gerði ökumönnum erfitt fyrir á leið sinni yfir heiðina. Þessu veðri olli óstöðugt loft og kuldi í háloftunum ásamt miklu hitauppstreymi sökum sólarhita. Eyrarbakki var með þriðja hæðsta hitastig á landinu í dag 13.5°C sem varla telst mikið á þessum árstíma. Á hálendinu var víða frost og var hámarkið við Brúarjökul -6,8 °C

22.05.2009 00:35

Siggi Guðjóns

Sigurður Guðjónsson og áraskipið Farsæll á Syningunni Íslendingar og hafið 1968,Mynd: Alþ.bl.Sigurður Guðjónsson á Litlu Háeyri (1903- 1987) var þjóðkunnur skipstjóri um áratuga skeið, fræðimaður og rithöfundur. Hann hóf sjósókn frá Eyrarbakka um fermingaraldur eins og þá var alsiða meðal ungra manna við sjávarsíðuna. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur, en þar gerðist Sigurður háseti á togurum. Þá lá leið hans í Stýrimannaskólann þar sem hann lauk meira fiskimannaprófi 1930 en síðan var hann stýrimaður á kveldúlfstogurunum þórólfi RE 134 sem frændi hans Kolbeinn Sigurðsson stýrði og síðan skipstjóri á Skallagrím RE 145, en á honum sigldi hann margsinnis um kafbátaslóðir þjóðverja á stríðsárunum og lét ekkert aftra sér að koma skipreka mönnum til hjálpar ef svo bar undir. Hápúnktur skipstjórnarferils Sigurðar var þegar hann stýrði bæjarútgerðartogaranum Hallveigu Fróðadóttur RE 203. Sigurður lauk farsælum togaraferli sínum á Ingólfi Arnarsyni RE, en eftir það fór hann að starfa að ýmsu heima á Eyrarbakka. Sigurður var um skeið stjórnarformaður Skipstjóra og stýrimannafélagsins Ægis í Reykjavík og skrifaði hann oft greinar í sjómannablaðið Víking. Helsta áhugasvið hans var siglingatækni íslendinga á miðöldum. Honum var einkar hjartfólgin saga Eyrbekkingsins Bjarna Herjólfssonar frá Drepstokki, er sigldi fyrstur manna meðfram austurströnd Ameríku ásamt áhöfn sinni nokkru áður en Leifur heppni steig þar fæti.

 

Þegar Sigurður var kominn í land stóðu framfaramál þorpsins honum næst. Hann hóf að vinna að lendingarbótum fyrir báta Eyrbekkinga, stóð að rekstri Slippsins og upbyggingu Sjóminjasafnsins sem og varðveislu áraskipsins Farsæl, en það  var eitt af mörgum sem Steinn Guðmundsson í Steinsbæ smíðaði á sínum tíma. Hann var um tíma í stjórn Hraðfrystistöðvarinnar og var forgöngumaður um tilraunir til humarveiða ásamt Vigfúsi Jónssyni oddvita og Magnúsi Magnússyni í Laufási.

 

Sigurður kenndi um nokkur ár í Barnaskólanum á Eyrarbakka, m.a. íslandssögu og smíðar, en einnig sjóvinnu. Þá kenndi hann sjóvinnu og siglingafræði við gagnfræðaskólann á Selfossi um skeið. Sigurður stundaði einnig stórtæka kartöflurækt á Eyrarbakka og hafði af því lífsviðurværi fram á efri ár.

 

Sigurður var sonur Guðjóns Jónssonar bónda og formanns á Litlu Háeyri og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna Núpi. Faðir Guðjóns var Jón Jónsson bóndi og formaður frá Litlu Háeyri, en kona hans var Þórdís Þorsteinsdóttir frá Simbakoti, systir Elínar seinni konu Þorleifs Kolbeinssonar ríka á Stóru Háeyri.

 

Byggt á minningagreinum Mogunblaðsins um Sigurð Guðjónsson.

18.05.2009 00:25

Eyrarbakki í sumarfötin

Eyrarbakki í sumarfötin. Mynd: AÁEyrarbakki var klæddur í sumarfötin í blíðskaparveðri á laugardaginn  16.maí. Íbúar og velunnarar þorpsins mættu við Gónhól kl. 10 þar sem  Barnaskólinn, Björgunarsveitin og Kvenfélagið skipulögðu aðgerðir.  Sjálfboðaliðar hreinsuðu fjöruna, vegkanta, garða og torg allan daginn  og hittust svo aftur við Gónhól kl. 16.00 þar sem var sameiginleg  grillveisla í boði Vesturbúðar og Gónhóls á Eyrarbakka, Hp  flatkökubaksturs á Selfossi, Kjöríss í Hveragerði Vífilfells og  Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.
 Aðstandendur framtaksins og þátttakendur skiluðu okkur snyrtilegu þorpi og glöðum einstaklingum eftir vel unnið dagsverk.

13.05.2009 22:52

Vindasöm vika

Veðurklúbburinn AndvariFrá 7.-13.maí hefur vindhraðinn aðeins einu sinni farið undir 5 m/s á stöð 1395, en það var á miðnætti 9-10. maí en þá sneri vindátt úr hvassri norðanátt í hvassa suðaustanátt. Þá hlýnaði jafnframt úr 7° hádegishita í 11° hádegishita. Á þessu tímabili hafa vindhviður farið upp í 22 m/s eða sem jafngildir stormi, en vindur hefur verið að jafnaði 10-15 m/s sem verður að teljast óvenjulegt í svo langan tíma. Vonast menn nú til að sjá fyrir endann á þessari veðráttu, enda biðin orðin löng eftir reglulegu grillveðri, en allt bendir líka til þess að hægt verði að grilla á hverjum palli um komandi helgi.

12.05.2009 09:19

Krían er kominn

Krían kom í morgunKrían er kominn á Bakkann og er með fyrra fallinu að þessu sinni. Hún hefur  þá lagt að baki langt og strangt flug, jafnvel alveg frá Suðurheimsskautinu. Krían lifir aðalega á því sem er að hafa í sjó eða vatni, þá mest á sílum en einnig skordýrum. Undanfarin ár hefur hún búið við kreppu í sílastofninum og því átt örðugt með að koma upp ungum, auk þess sem hún hefur oft verið rænd eggjum sínum, sem hefur gert henni enn erfiðara með viðhald stofnsins sem hefur verið á undanhaldi hin síðustu ár, en vonandi gengur betur hjá Bakkakríunni í sumar.

10.05.2009 21:15

Fiskhaldari biskups

Einarshöfn í baksýnKlemens Jónsson hét bóndi er bjó í Einarshöfn á Eyrarbakka. Hann var bæði skipasmiður og formaður á egin skipi, en auk þess hafði hann umsjón með fiski Skálholtsbiskups á Eyrarbakka. Þann 7.júli 1728 lagði Jón Árnason  biskup (1722-1743) fyrir Klemens að hann sýni kaupmanninum á Eyrarbakka gamlann fisk sem biskup átti og velja eitthvað úr honum ef hann vilji. Þar næst skuli hann láta Norðlendinga þá er beðið höfðu um fisk, hvern um sig hafa það er hann hafi  þeim ávísað og það af þeim fiski sem kaupmaður vildi ekki, en væri þó sæmilegur fyrir íslenska. Þar á eftir mátti Klemens að selja öðrum á 5 hesta fyrir 20 álnir hvert hundrað fiska. En það af fiskinum sem maltur væri orðinn eða það lélegur að ekki gengi út á þessu verði, vildi biskup eiga sjálfur til heimabrúks og handa flökkulýðnum er gerði sig heimankomna að Skálholti dag hvern. Jón var með stjórnsamari biskupum landsins en gerði ekki betur en að halda í horfinu um fjárhag stólsins og var hann þó fjárgæslu- og reglumaður. Það kann að vera skýringin á því að hann valdi sér lélegasta fiskinn. Áður hafði Jón verið skólameistari á Hólum og er það líklega ástæðan fyrir því að honum þótti vænna um norðanmenn en aðra.

 

Heimild: m.a.(Saga Eyrarbakka) Lesb.Morgunbl.22.tbl.1959

03.05.2009 20:30

Humarbærinn- humarævintírið mikla

Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf.Hraðfrystihús var byggt hér árið 1943. það tók við afla bátanna til verkunar og  kom sér upp aðstöðu til söltunar, skreiðaverkunar og lifrarbræðslu. Árið 1954 voru síðan hafnar tilraunir til humarveiða frá Eyrarbakka og voru upphafsmenn þess aðalega Sigurður Guðjónsson skipstjóri frá Litlu Háeyri sem tók á leigu Ófeig II  og Vigfús Jónsson oddviti og framkvæmdastjóri HE. Vigfús lét m.a. kanna markaði erlendis fyrir humarinn og var bandaríkjamarkaður heppilegastur í þessu tilliti.
 

Hugmyndir um humarveiðar vöknuðu hérlendis árið 1939 og lét þá fiskimálanefnd ásamt Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) kanna möguleg humarmið hér við land, en íslenskir togarar höfðu þá oft fengið svokallaðann leturhumar í trollin einkum suður af Reykjanesi og við Vestmannaeyjar, en í skólabókum þess tíma var leturhumar ekki talin til nytjadýra. Fram til ársins 1954 var hraðfrystihúsið í Höfnum lengst af  eitt um humarvinnslu hérlendis.


HumarUm sumarið 1954 hófu tveir bátar frá Eyrarbakka humarveiðar á Selvogsbanka og austur af Stokkseyri með ágætum árangri og fljótlega bættist þriðji báturinn við humarveiðiflotann. Í framhaldi þessa góða árangurs hófu Stokkseyringar og Þorlákshafnarbúar veiðar á humri. Þetta varð til þess að nýr atvinnuvegur þróaðist á Eyrarbakka og á Stokkseyri næstu ár. 50 til 60 skólabörn víða að fengu vinnu við humarvinnsluna á Eyrarbakka þá þrjá mánuði sem humarvertíðin stóð og annað eins á Stokkseyri. Humarmjöl var síðan framleitt úr úrganginum og þótti verðmætt í fóður. Þó humarveiðar og vinnsla séu nú aflögð á Bakkanum má enn fá ljúfenga humarmáltíð á Rauða húsinu á Eyrarbakka og á veitingastaðnum Við fjöruborðið á Stokkseyri.

01.05.2009 15:24

Húsbílabragur

Tjaldsvæðið á EyrarbakkaHúsbílafólk setti svip sinn á bæjarbraginn í dag og þorpið iðaði af ferðaglöðu fólki.

Tjaldstæðið á Eyrarbakka opnaði formlega með pompi og prakt í dag 1. maí og þar voru komnir fjöldi húsbíla í morgunsárið. Geymslurnar í Gónhól voru einnig opnaðar og út streymdu bæði húsbílar og tjaldvagnar í löngum röðum.
 
Björgunarsveitin Björg hefur umsjón með tjaldstæðunum á Eyrarbakka og Stokkseyri og er aðgangseyrir 500 pr.mann og rafmagnstenging kr. 300

  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43