Flokkur: Hret

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

25.07.2009 10:57

Kartöflunum bjargað

-2°CÞað gerði næturfrost á Eyrarbakka í nótt. Um kl 3 hafði hitinn fallið niður fyrir frostmark og var lágmarkinu náð um kl.5 -2.2°C sem var næstmesta frost á láglendi í nótt, en á Fáskrúðsfirði var -2.3°C.

Ekki veit ég til að svona mikið frost hafi áður komið í júlí á Eyrarbakka. Gögn um lægsta hitastig á Eyrarbakka 25. júlí sem ég hef var 1.9°C árið 1967.

Minsti hiti í júlí  sem mælst hefur áður á Eyrarbakka var þann 15.júlí 1979 þegar lágmarkið var 1,4°C  og í öðru sæti yfir lágmarkshita í júlí var 8.júlí 1973 og 18. júlí 1983 þegar lágmarkið var 1,5°C.

Um miðnætti var dagljóst að næturfrost var í vændum og varð því að gera tilraun til að bjarga kartöflugarðinum hér á bæ frá áfalli. Brugðið var á það ráð að setja upp garðúðarann og láta hann vökva alla nóttina. Tókst sú aðgerð með ágætum og sá ekki á grösum þrátt fyrir  tveggja stiga frost um nokkurn tíma.

24.07.2009 09:08

Kuldakastið

Hæð við Grænland og Lægð á Noregshafi sáu til þess að heimskautaloftslag færðist yfir landið síðasta sólarhringinn með kulda og snjókomu á hálendinu.

Um kl.4 síðdegis í gær höfðu hitatölur á Eyrarbakka þokast upp í 13°C sem þykir ekki mikið á þessum árstíma, en þá tók hitastigið að falla hratt, eða um eina gráðu á hverri klukkustund og var lágmarkinu náð um kl 3 í nótt. Hitafallið hafði stöðvast í tæpum 2°C og tók að stíga á ný.

Víða á Rángarvöllum var frost í stutta stund í nótt. Í þykkvabæ var -1.1°C og á Hellu -1.6°C.  Kartöflugrös eru viðkvæm og falla jafnan við fyrstu frost, en ekki hafa borist spurnir af því hvernig horfir með uppskeruna í kartöflubænum.

23.07.2009 14:21

Miðsumarhret

Nú þegar miðsumarhretið gengur yfir norðlendinga er tilvalið að rifja upp eitt versta miðsumarhret sem yfir landið gekk þennan dag 1966. Köldustu dagarnir voru 23. og 24. júlí það ár.


Eins og sjá má á kortunum hér til hliðar frá Veðurstofunni, þá eru þau nokkuð lík, annað frá hádegi í dag en fyrir neðan frá hádegi 23.júlí 1966 en þá var vindur heldur meiri en nú, en hitastigið með svipuðu móti. þá fuku hey víða og girðingar lögðust niður. þá skemdust kartöflugarðar á nokkrum stöðum. Nokkuð var um ungadauða norðan heiða og sumstaðar króknaði fé auk ýmis annars tjóns sem hretið olli. Hitinn var fyrir neðan frostmark á Hveravöllum þessa daga 1966 en komst lægst í rúma +1°C í morgun, hvað sem verður næstu nótt. Minnsti hiti í dag var á Gagnheiði -2°C


heimild: Veðráttan júlí 1966

22.07.2009 14:34

Ótíðindi

Framundan er sólarlítil helgi hjá okkur.  Hitinn verður slakur í norðanáttinni  á fimmtudag og föstudag  en við gætum verið að tala um eins stafs tölu í því samhengi. Þá mun eitthvað skvettast úr honum , einkum á sunnudagsmorgun. Þeir sem hyggja á ferðalög til fjalla þurfa vetrarútbúnað, því gert er ráð fyrir snjókomu á hálendinu norðanverðu.

29.01.2009 17:00

Púðursnjór og frostþoka

Fallegur púðursnjór yfir öllu.
Það hefur kingt niður snjó síðustu daga og vetrarlegt um að lítast. Fyrir stuttu var vor í lofti en nú hefur vetur konungur vaknað aftur af værum blundi. Í morgun var púðursnjór yfir öllu og frostþoka.
Veðurspáin hljóðar upp á hæga vestlæga eða breytilega átt, skýjað með köflum og stöku él. Norðaustan 3-8 og léttir heldur til á morgun. Frost 0 til 5 stig. Áfram kalt.
Snjór í matinn
Snjór í matinn.
Frost
Snjórinn á rafstöðvarhjólinu myndar stjörnu.
Brimið á Bakkanum og snjórinn
Stráin standa stjörf í snjóklæðum gengt briminu á Bakkanum.

13.04.2008 16:11

Hrafnahret.

Allt komið á kaf í snjó á Bakkanum, en vonandi að þetta sé síðasta hretið og þessi skelfilegur vetur senn að baki. Einhver spáði því að vorið kæmi á þriðjudaginn og víst er að öllum er farið að hlakka til að taka á móti því.

Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret.

25.05.2007 14:24

Kuldaboli sleikir landsmenn.




Neðra kortið gildir fyrir Hvítasunnudag kl.12  en það efra gildir kl.12 í dag og á því má sjá kuldatúngu þá sem sleikt hefur landsmenn að undanförnu. Smámsaman tekur þó að hlýna eftir helgi og má þá vænta að hægt verði að setja niður kartöflur víðast hvar á landinu.Á Hvítasunnudag verður hlýjast á suðvesturhorninu og gæti hitinn skriðið yfir 10° um miðjan daginn.Úrkomulaust verður á Bakkanum a.m.k fram á miðvikudag í næstu viku ef fjarlægustu spár ganga eftir.
Kortin eru frá Meteoblue.

21.05.2007 09:47

Skelfilegt hretviðri.

Fjöllin voru hvít í morgun og kuldi í lofti.Á Eyrarbakka var 4° hiti kl 8 í morgun en aðeins 1°C, slydda og krapi á vegum tæpum þrem kílómetrum fyrir ofan þorpið. Á Hellisheiði var 0°C og á Hveravöllum var 1 stiga frost.

Þetta kalda loft er upprunnið ofan úr háloftunum yfir Grænlandsjökli og berst með öflugri lægð sem ruddist yfir jökulinn í gær og er nú stödd á Grænlandssundi.

Í fyrravor 22 apríl var einnig kalt í veðri en þó ekki snjór eins og nú.en í byrjun maí mánaðar í fyrra komst hitinn hæðst í 20°C ,en það sem er af þessum mánuði nú hefur hitinn vart farið hærra en 12°C á Eyrarbakka og finnst mörgum vorið nú vera kalt.

Sterkt og víðáttumikið háþrýstisvæði yfir Azoreyjum spilar stóra rullu í þessu veðurfari hér á norðurslóðum þessa dagana.

Vorskipsleiðangur fékk gott veður!
Frá markaðstorginuÞað var margt um manninn á Bakkanum um helgina enda var veðrið gott,bæði föstudag og laugardag en dálítið ringdi síðdegis á sunnudeginum og má segja að veðurspá Brimsins hafi gengið nákvæmlega eftir.
Fjölbreytt dagskrá með handverki, söng og sýningum á gömlum ljósmyndum og handverki auk markaðstorgs og veitingum stóð fólki til boða á hátíðinni. Á Rauða naflanum héldu Swing bræður uppi fjörinu og krambúð var í verslun Guðlaugs Pálssonar og markaðstog var sett upp á Bakkahlöðum (Frystihúsi).Einnig var mikið um að vera á Stokkseyri þar sem hluti hátíðarinnar fór fram. Það er mál manna að vel hafi tekist til og ljóst að saga þorpanna eru þeirra helstu menningarverðmæti sem sjálfsagt er að virkja með þessum hætti sem Friðrik Erlingsson hefur haft forgöngu fyrir.

08.04.2007 23:06

Um Hrafnahret.

Lítið fór nú fyrir páskahreti því sem spáð var,en þó er ekki úti öll nótt enn um smá hret á glugga. Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret. En nú er eimitt 9 nætur til sumars og nú er spáð slyddu í mesta lagi hér syðra en snjókomu noðan til á landinu. Ein vísa er til um Hrafnahret og hljóðar svo:






Gat ei þolað hrafnahret
héðan flýði úr Bólu.
Um blindan svola brátt ég get.
Brenndi stolið sauðaket.

Höfundur:
Stefán Tómasson læknir á Egilsá f.1806 - d.1864

04.04.2007 11:03

Það verður Páskahret!

það er nú orðið ljóst að Páskahret verður þetta árið á páskadag og hljóðar spá Veðurstofunar þannig fyrir páskahelgina:

Á föstudaginn langa: Austan 8-13 m/s og slydda eða rigning sunnanlands, en dálítil snjókom síðdegis fyrir norðan. Hiti 1 til 6 stig sunnanlands, en annars vægt frost.
Á laugardag fyrir páska: Suðaustan 10-15 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig sunnanlands, en nálægt frostmarki fyrir norðan.
Á páskadag: Ákveðin suðvestanátt og skúrir, en hvöss norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 7 stig.
Á annas í páskum: Gengur í hvassa norðanátt með snjókomu norðanlands, en léttir til syðra. Kólnandi veður

Þetta verða talsverðar sviftingar þar sem sérstaklega hlýtt hefur verið á norður og austurlandi í byrjun mánaðarins og komst hitinn hæðst þessa fyrstu daga aprílmánaðar í 21,2°C á Neskaupsstað sem er líklega met fyrir mánuðinn.Hiti aðeins einu sinni mælst hærri á þessum árstíma, að sögn Trausta Jónssonar (mbl.is), veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Það var 19 apríl árið 2003 þegar hiti mældist 21,4 stig á Hallormsstað.

Gras er nú tekið að grænka hér sunnanlands og má búast við að hægist um vöxtin þegar það kólnar,en trjágróður er lítið sem ekkert kominn af stað svo engar líkur eru á skemdum þó kólni eitthvað undir frostmark.


 

02.04.2007 09:22

Páskahretið?

Veðurstofan spáir heldur leiðinlegu um páskana,en horfur eru þannig  á fimmtudag (Skírdag): Hæg vestlæg átt, en norðlæg um landið norðanvert. Dálítil snjókoma á norðanverðu landinu, skúrir vestanlands, en annars úrkomulítið. Hiti um frostmark nyrðra, en hiti annars 1 til 6 stig. Á föstudaginn langa: Suðaustan strekkingur með rigningu eða slyddu, en snjókomu fyrir norðan. Heldur hlýnandi. Á laugardag: Suðlæg átt, víða hvöss og rigning eða slydda. Fremur svalt. Á sunnudag (Páskadag): Útlit fyrir norðanhvassviðri með snjókomu fyrir norðan, en björtu syðra.
veðurstofan getur ekki um annan í páskum í horfum sínum enn sem komið er en samkv. heimildum Brims þá mun verða miklar líkur á snjókomu eða slyddu þann dag hér syðra og kólnandi veðri.
 Nokkrar hitatölur á Suðurlandi  kl. 9 í morgun:Vestmannaeyjabær 6°C,Hella,Þingvellir,Hveragerði og Eyrarbakki, 3°C

Í marsyfirliti veðurstofu Íslands má sjá að nýliðin mánuður var fremur órólegur, var þó lengst af hagstætt til landsins, en til sjávarins var gæftalítið og tíðin talin slæm. Þrátt fyrir hlýindi vel yfir meðallagi voru þrír marsmánuðir á síðustu árum hlýrri en þessi (2003, 2004 og 2005). Lægsti hiti á landinu í mars mældist á Kolku nærri Blöndulóni -21,4 stig þ.1., en lægsti hiti í byggð mældist í Möðrudal þ.20., -19,9 stig.

Hæsti hiti mældist á Sauðanesvita þ.31., 16,9 stig. Hiti fór í 18,4 stig á Dalatanga síðar um kvöldið þ.31. Það hámark telst til aprílmánaðar í bókum Veðurstofunnar því hámarks- og lágmarkshitamánuðum lýkur kl.18 síðasta dag mánaðar. Þ. 28. mars árið 2000 mældist hiti á Eskifirði 18,8 stig og er það hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, en á mannaðri stöð hefur hiti orðið hæstur á Sandi í Aðaldal í 27. mars 1948. þannig að ekkert met var slegið að þessu sinni. 

  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43