Færslur: 2014 Nóvember

25.11.2014 20:52

Sú var tíðin, 1943

Eyrbekkingar blása til stórsóknar í atvinnusköpun!

Endurreisn útgerðar og sjósóknar standa fyrir dyrum. Eyrbekkingar stofna hlutafélag til kaupa á vélbátum. Eyrarbakkahreppur og almennir þorpsbúar taka höndum saman um hlutafjársöfnun og á haustmánuðum hafði þegar safnast 75 þús. kr. í hlutafé. Markmiðið var að kaupa báta 15-26 tonn að stærð um leið og fært þætti að styrjöldinni lokinni, og huga að sem bestri nýtingu sjávarafurða og störfum sem við það kunna að skapast. Að undirbúningi þessa máls stóðu Magnús Magnússon í Laufási, Vigfús Jónsson, Guðmundur Jónatan Guðmundsson, Jón Guðjónsson og Jón Helgason. [Félagið sem hér um ræðir var Óðinn h/f, en við það er "Óðinshús" kennt]

 

 Verkalýðsbarátta: Báran á Eyrarbakka mótmælir ríkisstjórninni með svo hljóðandi tillögu: "Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkisstjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir, þar sem í því felst stórfeld skerðing [20%] á kaupi launþega í landinu og skorar á alþingi að fella það." Samskonar mótmæli bárust frá V.l.f. Bjarma á Stokkseyri og "Snót" í  Eyjum.

Flokkur verkamanna frá Eyrarbakka og Stokkseyri voru kallaðir til starfa í Reykjavík við lagningu hitaveitunar þar.

 

Hjónaefni:

Trúlofun Ingibjörgu Jónsdóttur frá Hofi og Hjalta Þórðarsonar frá Reykjum á Skeiðum. [Ingibjörg var dóttir Jóns b Stefánssonar verslunarmanns í Merkigarði].

 Eyrbekkingurinn Sigurður Ólafsson frá Þorvaldseyri Eb, gekk að eiga Málfríði Matthíasdóttir frá Patreksfirði. Ólafur Ólafsson frá Þorvaldseyri Eb, lögregluþjónn í Rvík og síðar húsasmíðameistari giftist Guðbjörgu M Þórarinsdóttur [fyrri kona].

Margrét Guðjónsdóttir frá Litlu-Háeyri og Ragnar Jónsson frá Árnanesi, Hornafirði gengu í hjónaband.  [Foreldrar Margrétar voru Guðjón Jónsson formaður á Litlu-Háeyri og Jóhanna Jónsdóttir frá Minna-Núpi.]

Eggert Ólafsson frá Þorvaldseyri trúlofaðist Helgu Ólafsdóttur úr Vestmannaeyjum.

Anna Sigríður Lúðvíksdóttir, læknis Norðdahl gafst Ólafi Tryggvasyni lækni. Þau settust að á Breiðabólstað á Síðu.

Ólafur Magnússon [símaverkstjóri] trúlofaðist Sigrúnu Runólfsdóttur frá Fáskrúðsfirði.

[ Magnúsar Árnasonar og Sigurborgu Steingrímsdóttur]

 

Afmæli:

90 ára, Þórey Hinriksdóttir í Einkofa, en hún var ættuð frá Eyri í Kjós.

80 ára, Jón hómópati Ásgrímsson. Hann stundaði einkum smáskamtalækningar og kartöflurækt á Eyrarbakka.

73. ára afmæli átti Jónína Guðmundsdóttir.

65 ára Þóra Jóhannsdóttir Jónssonar trésmiðs frá Eyrarbakka og Ingunnar Einarsdóttur.

50 ára, Ólafur Bjarnason verkstjóri að Þorvaldseyri Eyrarbakka. [Ólafur var verkstjóri hjá Vegagerðinni. Með konu sinni Jenny Jensdóttur átti hann 12 börn.] Guðjón Jónsson vélstjóri og verkstjóri. [Hann starfaði sem verkstjóri hjá síldarverksmiðju dr. Paul á Siglufirði.] Ásgeir Guðmundsson prentari í Rvík. [ Guðmundar Höskuldssonar bókbindara á Eb.]

 

Látnir: Eiríkur Árnason (88) b. frá Þórðarkoti. Guðrún Guðmundsdóttir (84) frá Eyfakoti. Guðbjörg Pálsdóttir (74) Steinskoti. Sigurður Erlendsson (73) frá Traðarhúsum Guðný J Jóhansdóttir (69) á Austurvelli. Kristín Jónsdóttir (61) frá Merkigarði (Hofi). Sigurður Bjarni Ólafsson (18) frá Þorvaldseyri. [Sonur Ólafs Bjarnasonar og Jennyar Jensdóttur]

 

Fjarri heimahögum: Aðalsteinn Sigmundsson sem um áratug var skólastjóri á Eyrarbakka og stofnandi U.M.F.E. féll útbyrðis af björgunarskipinu "Sæbjörgu" í hauga sjó. Hann fékk hjartaslag, er hann reindi að bjarga sér á sundi.

Sigurður Guðbrandsson frá Flóagafli. Hann féll milli skips og bryggju. Sigurður var skipstjóri á "Skálafelli" frá Hafnafirði. Hann var sonur Guðbrands Guðbrandssonar og Katrínar Einarsdóttur í Flóagafli, síðar Eyrarbakka.

Sigurjón Jónsson (54) skipstjóri, sonur Jóns Sigurðssonar í Túni og konu hans Guðrúnar Magnúsdóttur frá Sölkutóft. Sigurjón var síðast stýrimaður á varðskipinu "Ægi", en banamein hans var krabbamein.


Sandkorn:

Jónatan Jónsson 21. árs gamall Eyrbekkingur slapp með naumindum úr vélarúmi "Stíganda RE" þegar eldsprenging varð út frá steinolíugufu. Hann brendist illa á höndum og andliti. 

Haraldur Guðmundsson á Háeyri stendur fyrir kolavinnslu í Tindafjalli á Skarðsströnd. 

Vilborg Sæmundsdóttir tók við útsölu barnablaðsins Æskunnar á Eyrarbakka og jók hún sölu blaðsins um 125% á fyrsta árinu.

Úrvals leikfimiflokki U.M.F.E. stjórnaði Sigríður Guðjónsdóttir.

Sigurður Guðmundsson í Breiðabliki taldi ráðlegast að hafa aðeins tvo stjórnmálaflokka í landinu, einn til hægri og hinn til vinstri.

Uppfinningamaðurinn Hjörtur Thordarson og einn efnaðasti íslendingurinn vestanhafs var giftur Júlíönnu Hinriksdóttur frá Eyrarbakka.

Tveir Eyrbekkingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum drukku af hinum eitraða tréspíra sem vélbátur þar bar á land, en fjöldi manna í Eyjum lést af völdum drykkjarins. Annar Eyrbekkingurinn veiktist, en hinn kenndi sér ekki meins.

Guðmundur Daníelsson ræðst til kennarastarfa við barnaskólann á Eyrarbakka.

Félagar úr U.M.F.E. hófu að æfa leikritið "Ævintýri á Gönguför".

Jónsmessuhátíðin nr.3 var haldin 26. og 27. júní 1943 fyrir forgöngu Eyrbekkingafélagsins.

Vélbátaferðir milli Vestmannaeyja, Stokkseyrar og Eyrarbakka voru farnar þetta sumar.

Þorpsbúar voru um 580 manns 1943.

Finnur Jónsson listmálari leitaðist við að fanga fegurðina á Eyrarbakka.

Pétur Gíslason veðurathugunarmaður á Eyrarbakka hóf sendingar veðurskeyta tvisvar á dag.

[ Áður voru veðurskýrslur sendar nánaðarlega.]

Pétur Pétursson þulur í útvarpinu var fæddur á Eyrarbakka, Péturs Guðmundssonar barnakennara og Elísabetar Jónssdóttur, en hún fluttist til Reykjavíkur með sín 11 börn eftir fráfall hans.

 

Úr grendinni:

Tveir Sunnlendingar létust úr fossforeitrun, Verslunarmaður hjá KÁ á Selfossi [Þorsteinn Guðmundsson] og ung stúlka [Lilja Sveinsdóttir] frá Ósabakka á Skeiðum. Talið var fullvíst að eitrunin stafaði af tilteknu rottueitri í túbum sem seldar voru í verslunum sunnanlands m.a. á Eyrarbakka og Selfossi. [Lúðvík Norðdahl héraðslæknir taldi að hver 90 gr. nægði til að drepa 50 manns. Hver túpa innihélt 37gr. af fossfór]

Hressingarhæli fyrir drykkjumenn var formlega tekið í notkun á Kumbaravogi við Stokkseyri.Frá Stokkseyri gengu 6 þilfarsbátar 1942 og 1943, gerðu út á reknet og öfluðu allmikla síld. Áhugamenn um gistihús á Stokkseyri [Pétur Daníelsson, Páll Guðjónsson og Jón Magnússon.] stofna þar til reksturs hótels í nýreistu 8 herb, húsi "Hótel Stokkseyri" með 100 manna veitngasal [Nú félagsheimilið Gimli]. Axel Björnsson var ráðinn hótelstjóri. Siglingar milli lands og Eyja voru nú aðalega frá Stokkseyri yfir sumarið, en einnig einhverjar frá Eyrarbakka. [ Um 4000 manns fóru milli lands og Eyja þetta sumar á litlum bátum] Stokkseyringafélagið var stofnað í Reykjavík og voru stofnendur vestan heiðar 176. Formaður var Sturlaugur Jónsson. Í Tryggvagarði á Selfossi voru nú komnar 5000 plöntur. Gufuketill sprakk í Mjólkurbúi Flóamanna og einn danskur maður skaðbrendist [Malling Andreasen var kyndari í M.B.F og var honum tjaslað saman af hersetulæknum]. Ölfusárbrú liggur undir skemdum sökum umferðarþunga og uppistöðuteinar slitnað. Þegar er farið að huga að hönnun nýrrar brúar. Egill Thorarensen var ókrýndur konungur Selfyssinga, að mati heimamanna. Kaupfélagstjóri var hann og útgerðarstjóri, sem og pólitískur leiðtogi. Nú bætti hann enn einni rós í hnappagatið, með því að hefja bíórekstur á Selfossi. Kaupfélagið undir hans stjórn, rak útibú á Eyrarbakka og Stokkseyri, verslun, saumastofu, bifreiðaverkstæði og íshús á Selfossi, ásamt útgerð í Þorlákshöfn.

 Tíðin: Hellisheiði var ófær um tíma í byrjun árs, en fært var um Þingvallaveg til Reykjavíkur. Umhleypingar og hríðarveður síðari hluta febrúar með snjóþyngslum, en veður fór batnandi um miðjan mars. Vorið var kalt og umhleypingasamt. Kartöfluuppskera var góð þetta árið. Úrkomusamt haust og umhleypingar fram á vetur.


Heimild: Alþýðubl. Eining, Fálkinn, Jörð, Morgunbl, Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir.


 

21.11.2014 17:14

Annáll drukknaðra í Ölfusá

1508, eða nálægt því ári, eftir messu við krossinn í Kallaðarnesi var ferjubáturinn, teinæringur ofhlaðin fólki og sökk með öllu. Um 40 manns druknuðu. Á meðal þeirra var sr.Böðvar Jónsson að Görðum á Álftanesi.

1516, drukna í einu 5 menn í Ölfusá við Arnarbæli.

1521, eða síðar á dögum Ögmundar biskups drukna í einu 5 menn á Fossferju.

1542, sigldu menn úr Þorlákshöfn fyrir Óseyri hlöðnu skipi, mjöli og skreið að Hrauni í Ölfusi. Kom til áfloga svo skipinu hvolfdi og með 11 menn er druknuðu allir. Var þar á meðal Hrafn prestur Ölfusinga.

1571, Erlendur Erlendsson í Kallaðarnesi druknar á ferjuleið að Arnarbæli.

1584, Jón Sigurðsson í Kallaðarnesi drukknar á ferjustaðnum með mönnum sínum. Þá druknuð 3 feðgar á Fossferju í Flóa (Selfossi). Fluttu þeir eitt naut og klofnaði skipið.

1625, Sigurður Árnason í Ölfusi druknar í Ölfusá.

1627, drukna 10 menn á Kotferju í Ölfusá. [Mesta ferjuslys á íslandi]

1645, drukna af veikum ís á Ölfusá, Jón Halldórsson ráðsm. í Skálholti ásamt mági sínum og Böðvari Steinþórssyni nema í Skálholti.

1654, druknar Gísli Jónsson aðstoðarprestur í Arnarbæli í svokölluðu "díki" með undarlegum atburðum.

1657.  Skip Kotferju sökk fyrir ofhleðslu og druknuðu 3 en 1 komst af.

1660, druknar Hákon Bjarnason í ánni við Þorleifslæk í Ölfusi. Fór á hestbak úr bát og sukku báðir.

1678. Einar Klemensson druknar í Þorleifslæk við Ölfusá.

1686. Maður druknar af ís skamt frá Arnarbæli.

1687. Piltur 8 ára Jón Oddsson prests í Arnarbæli druknar í Ölfusá af ís er hann ráfaði á eftir föður sínum er fór ríðandi.

1693. Maður druknar í Ölfusá, en sá hét Erlendur Filippusson.

1697. Menn ætluðu að tvímenna hest á ísi yfir Ölfusá. Féll sá aftari af og niður um ísinn og druknaði.

1704. Tveir hrísmenn úr Öndverðanesskógi fórust með bát sínum á Ölfusá.

1709. Karl og tvær konur ungar úr Kallaðarnessókn vildu til kirkju í Laugardælum. Gengu þau upp Ölfusá á ís sem féll undan og druknuðu þau.

1725. Maður vildi ríða eftir eggjum út í hólma í Ölfusá við Langholt og druknaði hann.

1734. Tveir menn drukna í Ölfusá.

1744. Árni próf. Þorleifsson í Arnarbæli féll af baki í læk í Ölfusi og druknar.

1750 eða þar um bil, druknar í Ölfusá strokufangi úr járnum á stolnum hesti.

1793. Einar Brynjólfsson sýslumanns druknar í Hólmsós í Ölfusi.

1800. Í Óseyrarnesi sökk skip af ofhleðslu og druknuðu 7 manns, aðalega Skaptfellingar í kaupstaðarferð. Þar á meðal var Snorri Ögmundsson ferjumaður í Nesi. 4 mönnum var bjargað.

 

Í Óseyri Óms- við -kvon

áin tók sjö manna líf.

Markús prestur Sigurðsson

sínu hélt, en missti víf.

 

1820, druknar farandkona í Ölfusá.

1831. Maður frá Oddgeirshólum ferst í Ölfusá.

1842. Hannes frá Sandvík druknar í Ölfusá.

1844. Bát með 5 mönnum hvolfdi við hólma í Ölfusá nærri Ármóti í Flóa. Druknuðu tveir, en einn bjargaði sér á undarlegu sundi. Tveir héldu dauðahaldi í grjótnibbur og var þeim bjargað.

1853. Ferjubát er flutti kú og 3 menn hvolfti í Ölfusá er kýrin braust um. Druknuðu þar sr. Gísli Jónsson í Kálfhaga og Guðni Símonarsson hreppstjóra í Laugardælum. Þriðji maður komst á kjöl og var bjargað.

1858. Sigurður frá Litlabæ á Álftarnesi var ferjaður yfir Ölfusá með Óseyrarnesferju ásamt kindum og tveim hundum. Ferðinni var heitið austur í Hraunshverfi.  Hundarnir báðir og kindur fundust síðar reknar upp úr ánni. Er talið að hann hafi rekið féð um flæðileirurnar og talið að maðurinn hafi tínst þar.

1869. Runólfur Runólfsson vegaverkstjóri í Reykjavík hafði sótt verkalaun sín og undirmanna til sýslumanns út á Eyrarbakka. Hann ætlaði svo aftur yfir Ölfusá við Laugardælaferju. Reið hann gæðing, ölvaður og lagði út á ána á hestinum. Fórst þar bæði maður og hestur. 9 mánuðum síðar fanst lík hans rekið við Óseyrarnes og með því peningar allir.

1873. sr. Guðmundur E Johnsen í Arnarbæli skírði barn í Hraunshól, [Eyleif, son Ólafs Eyjólfssonar og Guðrúnar Hermannsdóttur.] Jón Halldórsson á Hrauni fylgdi presti heim og fóru ríðandi á veikum ís og hurfu báðir um vök á áni vestan við Arnarbæli.

1877. Gamall maður bilaður á geði fórst í Ölfusá af ísi.

1887. Arnbjörg Magnúsdóttir frá Tannastöðum fanst örend í ánni. Hafði verið veik á geði.

1890. Maður er sundreið Ölfusá til að sækja ferju, druknaði í áni.

1891. Við smíði Ölfusárbrúar druknaði þar maður enskur af slysförum.[ Arthur Wedgwood

Jacksons]

1895 Páll Pálsson vinnupiltur á Kotströnd hélt heimleiðis frá Kirkjuferju eftir erindi þar. Villtist út á ána í frosti og byl. Tapaði hestum sínum niður um ísin og vöknaði svo að sjálfur fraus í hel á ísnum. Á sama ári fyrirfór sér í Ölfusá, Sigríður Þorðvarðstóttir á Egilstöðum í Ölfusi.

1917. Filippus Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxavitjun.

1919. Helgi Ólafsson prests Helgasonar á Stóra-Hrauni var á austurleið í brúðkaup systur sinnar. Lík hans fanst og hesturinn dauður í sandbleytu (við Hólmsós).

1922. Tómas Stefáns skrifstofustjóri við Landsímann í Reykjavík, var að klifra upp vírstrengi  Ölfusárbrúar, en féll í ána og druknaði.

1933. Maður frá Oddgeirshólum fórst í Ölfusá.

1942. Baldvin Lárusson bílstjóri steyptist í ána af Ölfusárbrú og druknaði. Sama ár druknar setuliðsmaður í áni. [Er nú komið fullt 100 manna er sögur fara af að farist hafa í eða við ána.]

1944. (Þegar Ölfusárbrú brast, féll mjólkurbíll með henni í ána, en bílstjórinn bjargaðist á varadekkinu.)

1947. ( Sjómaður, Reykjalín Valdimarsson á togaranum Kára synti yfir Ölfusá undan Kaldaðarnesi. Hann komst heill yfir á 20 mínútum.)

1963. Lárus Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxveiðar. Hann var ósyndur.

1964. Gísli Jóhannsson skrifstofustjóri sídarútvegsnefndar druknar í Ölfusá við stangveiði á Kaldaðarnesengjum ("Straumnesi").

1975. Maður talinn hafa fallið í Ölfusá og druknað. Lík Hallgríms G Guðbjörnssonar fannst þar árið eftir.

1976. Ungur maður vatt sér út á brúarstengi Ölfusárbrúar og féll í ána og druknaði. [Þórarinn Gestson frá Forsæti II]

1979. Kajak hvolfdi í Ölfusá og ræðarinn [Rúnar Jóhannsson úr Hafnafirði] druknaði.

1984. Maður féll í ána við Ölfusárbrú og druknaði. [Hilmar Grétar Hilmarsson]

1986. (Barn féll í Ölfusá, en annar drengur bjargaði honum).

1989. (Litlu munaði að bifreið lenti í ánni eftir að hafa ekið á ljósastaur.)

1990. Bifreið var ekið út í Ölfusá og druknuðu tveir ungir menn [Örn Arnarson frá Selfossi ásamt félaga sínum Þórði M Þórðarsyni]. Tvær ungar konur er í bílnum voru björguðust.

1992 (3ja ára barn féll í Ölfusá, en var bjargað af íbúa í grendinni)

1996. Kona fannst látinn í Ölfusá við Kirkjuferju. [Agnes Eiríksdóttir] Sama ár óð ölvaður maður út í Ölfusá við brúnna, en bjargaði sér sjálfur á land.

2000. Guðjón Ingi Magnússon, ungur maður frá Selfossi féll í Ölfusá og druknaði.

2007. (Bíll hafnaði út í Ölfusá í mikill hálku. Björgunarsveit bjargaði ökumanninum.)

2014. Maður úr Þorlákshöfn steypti sér í ána af Óseyrarbrú og druknaði. Maður ók bíl sínum í ána við Ölfusárbrú. Fanst hann heill á húfi daginn eftir.

 

Þessi skrá er ekki tæmandi yfir alla þá sem horfið hafa í Ölfusá. Þess hefur ekki altaf verið getið í heimildum, eða heimildir ekki fundist.

  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43