Flokkur: Veðrið

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

12.10.2021 22:09

Vedráttan óblíd sydra

Sunnlendingar hafa ekki farid varhluta af vedráttunni sl. sumar og núna í haust þar sem lítt hefur vidrad til útiverka sökum sólarleysis og rigninga. Stormasamt hefur og verid oft á tídum. Ágætt þó um mánadar skeid frá midjum júlí og fram í midjan águst en ad ödru leiti slappasta sumar í manna minnum. Bjartvidri hefur verid óvenju sjaldgæft í haust, adeins dagur eda dagpartur einstaka sinnum. Þessu hefur verid algjörlega öfugt farid fyrir nordan og austan sem ekki hafa fengid þvílíkt sólarsumar svo lengi sem menn muna.

Úti vinnandi menn, málarar og smidir eru óhressir med tídarfarid einmitt þau misserin sem mest er ad gera í vidhaldsverkum og nýbyggingum sem sjaldan eda aldrei hafa verid eins umfangsmikid sökum ört vaxandi byggdarlags á Árborgarsvædinu sem margir líkja vid hamfarir. Fólk streymir ad eins og óstödvandi fljót svo vart hefst undan ad byggja hús, blokkir, skóla og innvidi til ad mæta búsetuásókninni.

Ferdaþjónustan hefur mátt muna fífil sinn fegri, en Kóvid hefur höggvid í undirstödur þessa atvinnurekstrar sídustu tvö ár og þó virdist svo sem þessi idnadur sé ad rísa á lappirnar ad nýju og erlendir gestir farnir ad heimsækja gamla þorpid þó ekki sé svipur hjá sjón sem ádur var.

Þrátt fyrir allt virdist vera næg atvinna fyrir heimanenn og adkomna, einkum í byggingaidnadi, verslun og þjónustu.

29.04.2021 22:50

Veðurfar í Árborg

Veðurfar í Árborg telst milt m.v. landið í heild en úrkomusamt.  Veðurathuganir hafa lengst af verið stundaðar á Eyrarbakka en fyrir áratug var bætt við sjálfvirkri veðurstöðin sem hefur nú alfarið tekið við hlutverki veðuathugunarmannsinns. Fyrir fáum árum gekkst bæjarfélagið   fyrir veðurstöð á Selfossi og  vegagerðin kom upp stöð við Ingólfsfjall.
Haldbær langtímagögn eru hinsvegar frá veðuathugunarstöðinni á Eyrarbakka.

[ ] Meðal hiti áranna 1931 -1960 var 4,6°C
[ ] Meðal hiti áranna 1975 - 1987 var 4,0 °C
[ ] Meðal hiti ársins 2019 var 5,2°C
[] Júlí er hlýastur en janúar og febrúar kaldastir.
[ ] Meðalúrkoma er um1342 mm á ári.
[ ] Október er úrkomusamastur en maí og júní þurrastir. Úrkomusamara er ofan til á svæðinu en þurrara við ströndina.
[ ] Algengustu vindáttir í þessari röð: NA-SA-SV-N-NV-S-A-V
[ ] Nóvember, desember, janúar og febrúar eru vindasamastir. Maí, júní, júlí og ágúst eru lygnastir.

Nýtt hitamælaskýli og úrkomumælir var settur niður á Eyrarbakka 1961 og var í notkun til 2018. Sama ár var byrjað á veðurathugunum í Hveragerði.

01.12.2020 22:13

Mannlegum vedurathugunum lokið

Fyrir rýflega ári síðan eða meira var hætt að mæla úrkomu á Eyrarbakka þegar síðasti veðurathugunamaðurinn hætti störfum og sjálfvirka veðurstöðin tók alfarið við hlutverkinu, en hún mælir í staðinn rakainnihald lofts.
Hinsvegar er hægt að styðjast við þá staðreynd að meðal úrkoma er hlutfallslega meiri á Eyrarbakka en í Reykjavík eins og meðfylgjandi graf sýnir.



26.07.2015 22:03

Himinn og haf renna saman

Það sem af er sumri hefur veðrið verið með ágætum þó hlýindi séu ekki umtalsverð. Vorið var hinsvegar kalt og gróður tók seint við sér. Bændur margir upp til sveita búnir með fyrri slátt, en sláttur hér við ströndina lítt hafinn. Hér á myndinni sem tekin var í dag virðist sem himinn og haf nánast renni saman.

15.03.2015 12:54

Stormar og brim

Veturin hefur verið stormasamur og brælugjarn. Hér er brimið í hámarki eftir síðasta storminn á laugardagsmorgun. Um kl. 10 náði óveðrið hámarki á Bakkanum með vindhraða sem mældist mest 26 m/s og hviður um 38 m/s. Óverulegt tjón varð af veðrinu.

02.12.2014 20:15

Óveðrið 2014 og 1991

Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið, 30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig. Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr veðrinu um miðnætti.

 

Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu 3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57 m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum, járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um Suðvesturland.

08.10.2014 22:23

Gosmistur frá Holuhrauni

Gosmistur frá Holuhrauni lagðist yfir Flóamenn í dag. Áfram er spáð mengun á þessu svæði.

09.10.2013 22:22

Sumarveðrið 2013

Fyrsti snjór vetrarins féll hér í fyrrinótt en tók fljótt upp þegar á daginn leið. Vesturfjöllin eru þó enn fagurhvít og fyrsti hálkudagurinn var í morgun. Sumarið hefur verið með afbrigðum votviðrasamt og kaldara en á undangengnum 10 árum. Sólardagar voru fáir og heiðskýra afar sjaldan. Meðalhitinn í september var um 7°C og frost mældist í mánuðinum tæp 4 stig. Í heitustu mánuðunum komst hitinn hæst í 19,7 stig í júlí og ágúst 19,5 stig og 18 stig í Júní.

01.04.2013 20:37

Að áliðnum vetri

Það er sem vorið liggi í loftinu, enda eru farfuglarnir farnir að streyma til okkar. Álftir og gæsir eru löngu komnar. Tjaldurinn kom fyrir skemstu, sannkallaður vorfugl og vera má að einhver hafi heyrt í lóu. Ferðamannatíminn er handan við hornið og brátt mun gamli Bakkinn iða af lífi og fjöri, eins og í þá gömlu góðu daga, þegar Eyrarbakki var upp á sitt besta. Veturinn hefur farið mildum höndum um okkur hér á Bakkanum, og varla hægt að segja að nokkur vetur hafi orðið, stórviðri engin, né frosthörkur og nánast ekkert snjóað. Svona mildir vetur koma hér af og til, stundum tveir eða þrír hver á eftir öðrum. Myndin er tekin á síðasta degi marsmánaðar og sólin rís upp á austurloftið.

05.10.2012 00:03

Frostaveturinn 1918

Sjaldan hafa eins miklir kuldar hrjáð landsmenn eins og veturinn 1918, nema ef vera skildi veturinn 1880 til 1881 sem talinn er að hafi verið mun kaldari. Engu að síður var veturinn 1918 nefndur "Frostaveturinn mikli". Mesta kuldatíðin hófst 6. janúar og stóð tæpar þrjár vikur hér sunnanlands en lengur fyrir norðan. Á sama tíma hafði verið viðvarandi kolaskortur í landinu til upphitunar vegna veraldar stríðsins sem þarfnaðist óhemju magns kolaeldsneytis. Á Stokkseyri og Eyrarbakka voru menn hræddir um að ísalög mundi brjóta bátana og þann veg eyðileggja útræðið í byrjun vetrarvertíðar, því með ströndinni mældist stundum -22°C og hefur þá mörgum þótt kalt í beituskúrunum á Bakkanum. Sumstaðar á landinu var þó mun meira frost, eða allt að -30 stigum. Hagalaust var á suðurlandi um veturinn alveg fram í febrúar, en þá tók að hlána hratt við suðurströndina með austan stórviðrum í stað norðan kaldviðra og um miðjan febrúar voru grös tekin að grænka. Hafþök voru þá fyrir öllu Norðurlandi, vestan fyrir Horn og suður með Austurlandi, en rekís eða íshrafl alveg suður að Papey. Tvö bjarndýr að minstakosti voru skotin á þessum vetri, annað í Sléttuhlið, hitt á Melrakkasléttu. Hvalir sáust dauðir í hafísvök norður af Siglufirði. Mannheldur ís var um tíma á höfninni í Reykjavík og á Seyðisfirði var lagnaðarísinn 10 þumlunga þykkur. Þá skemdist mikið af útsæðiskartöflum landsmanna vegna kuldana og sumstaðar fraus í brunnum. Í Vestmannaeyjum var sjávarhitinn aðeins 1 gráða þegar kaldast var. Drapst þá koli og sandsíli þar í hrönnum í höfnni. Sunnlenskir sjómenn töluðu um að hafstraumar væru harðari en venjulega þennan vetur, en yfirleitt er talið að óvenju mikil hafísmyndun, norðanstormar og háþrýstingur  hafi orsakað þennan mikla kulda á landinu. 

26.09.2012 22:54

Veðrið 1881-1910

Samfeldar veðurathuganir voru gerðar á vegum dönsku veðurstofunnar á Eyrarbakka frá 1. jan. 1881 til 31. des. 1910. Peter Nielsen var þá veðurathugunarmaður fyrir dönsku veðurstofuna.  Á þessu tímabili  var meðalúrkoma á Eyrarbakka 1094 mm á ári. Mesta úrkoma var árið 1884 (1384 m.m.); minst árið 1891 (777 m.m.). Flestir úrkomudagar voru árið 1884, (212),fæstir árið 1892 (139). Árið 1900 var nákvæmlega meðalár (177 dagar), hið eina í þessi 30 ár. Árs meðalhiti á Eyrarbakka var 3,6 °C og meðal lágmark + 0,5 stig. Mestur hiti, sem mældist á þessu tímabili, var 22,6°C 17. júlí 1891. Mesta frost var -24,8 stig  28. mars 1892. Peter skilgreindi vindaflið á eftirfarandi hátt frá kvarðanum 0-6: 0= Logn, kaldi: 0-3 m/s 1=andvari samsv: 4-5 m/s, 2=gola: 6-10 m/s ,3=stinnur: 11-15 m/s, 4=harður: 16-20 m/s, 5=stormur: 21-30 m/s, 5=ofviðri yfir: meira en 30 m/s. Að meðaltali var hægviðri í 84 daga á ári eða 0 kvarðinn. Kvarðinn 5 eða ofviðri varði í 8 skipti, einn dag hvert í þessi 30 ár. Að jafnaði blæs hér á ári: 38 daga úr norðri; 73 daga úr landnorðri; 15 daga úr austri; 61 dag úr landsuðri; 25 daga úr suðri; 42 daga úr útsuðri; 13 daga úr vestri, og 14 daga úr útnorðri.

Heimild P. Nielsen/Þjóðólfur 1917.

Veðustofa Íslands setti upp veðurathugunarstöð á Eyrarbakka árið 1923 og var fyrsti veðurathugunarmaðurinn Gísli Pétursson læknir, en  hann andaðist 19. júní árið 1939  og tók Pétur sonur hans þá við og starfaði til ársins 1980. Sigurður Andersen, póst- og símstöðvarstjóri, annaðist mælingar til ársins 2001. Emil Frímannsson tók svo við og hefur hann verið veðurathugunarmaður á Eyrarbakka síðan. Sjálfvirk veðurathugunarstöð var sett upp í nóvember 2005 og hefur hún mælt ýmsa þætti veðurs síðan. Á seinni stríðsárunum dvöldu tveir bretar í Húsinu á Eyrarbakka og gerðu veðurathuganir fyrir breska flugherinn sem hafði aðsetur í Kaldaðarnesi. Nýtt hitamælaskýli var reist á Eyrarbakka i júlí 1961, og um leið var þar settur úrkomumælir með vindhlíf og eru þessi tæki enn í notkun.

Veðurklúbburinn Andvari/Heimildir: eyrarbakki.is, þjóðólfur 1917, Veðráttan 1939, 1961.

06.09.2012 21:37

Þurkasumarið 2012/1907

Þurkasumur koma öðru hverju og eflaust mörgum bóndanum þótt nóg um þurkana hér sunnanlands þetta sumarið þó allur almenningur og ferðamenn láti sér vel líka sólskínið og góða veðrið. Kartöfluuppskera er frekar rír og grasvöxtur víðast sunnanlands í lágmarki af völdum þurka. Sumarið 1907 var einnig mikið þurkasumar hér sunnanlands, þornuðu upp lækir og lindir sem og vatnsbrunnar svo að vatnslaust mátti heita á öðruhverju heimili. Sumstaðar þurftu smjör og rjómabú að hætta starfsemi þegar lækir þornuðu með öllu. Í Reykjavík þornaði lækurinn sem og flestir brunnar. Var því oft að flytja vatn um langann veg þá um sumarið, en í september tók loks að rigna rétt eins og nú.

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari / Huginn 1907.

15.08.2012 23:02

Heiti vindstiga

Veðurklúbburinn Andvari

Eftirfarandi er heiti vindstiga samkv. gamla Beaufort kvarðanum.

5 vindstig eru 8-10 m/s (1 meter á sekúndu er 3,6 kílómetrar, 1,9 hnútar og 2,2 mílur á klukkustund)

 
 Vindstig íslenska
Beaufort
 FæreyskaDanska 
 0 Logn Logn             Stille
1 Andvari  Fleyr           Svag luftning
2 Kul  Lot              Svag brise
3 Gola Gul            Let brise
4 Kaldi  Andövsgul   Jævn brise
5 Stinningsgola Stívt andövsgul   Frisk brise
6 Stinningskaldi                                 Strúkur í vindi 

 Kuling
7 Allhvass vindur Hvassur vindur 

 Stiv kuling
8 Hvassviðri    Skrið 

  Haard kuling
9 Stormur     Stormur     

  Storm
10 Rok Hvassur stormur 

 Stork storm
11 Ofsaveður   Kolandi stormur 

Orkanagtig storm  
12 FárviðriÓdn   

 Orkan                                                                                                                                   

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari Eyrarbakka

22.07.2012 22:50

Brim

Það brimaði talsvert á Bakkanum í dag eftir storminn sem slóst með suðurströndinni í gær. Það var strekkingur á Bakkanum og nokkrar rokur af og til, en ekkert aftakaveður. Talsvert hefur ringt í dag eftir einn lengsta þurkakafla sem komið hefur á þessum slóðum, en vart hefur komið dropi úr lofti í allt sumar og jörð því orðin skraufa þurr. Einhver dýpsta sumarlægð sem komið hefur hér við land er um þessar mundir að færast yfir landið, en hún mælist nú 973.8 hPa hér á Bakkanum.
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43