Færslur: 2014 Júní

22.06.2014 11:49

Jónsmessuhátíðin 2014

15. Jónsmessuhátíðin var haldin á Eyrarbakka um helgina og margt um manninn á förnum vegi. Hér er brúðubíllinn kominn til að skemta yngstu kynslóðinni.

Bakkamenn sóttir heim á pallinn. Viðburðir ýmiskonar voru víða um þorpið. Hér spilar Valgeir stuðmaður yfir borðum hjá Vígfúsi, jarli af Gónhól sem bauð gestum og gangandi upp á fískisúpu.

Framkvæmdir hafa staðið yfir á lóð Gamla-bakarísins um hríð og var þessi glæsilega lóð almenningi til sýnis.

Söfnin voru opin og makverðir hlutir gamla tímans til sýnis, eins og t.d. hér í Beituskúrnum. Það var sagt að þegar beitustrákarnir komu af dansleik var farið beint í beituvinnuna svo sjómennirnir kæmust til sjós í bítið. Þá var oft lítið sofið.

Á Garðstúninu var farið í "Kíló". Austurbekkingar á móti Vesturbekkingum. Sagt var að leikar hafi endað með jafntefli.

Múgur og margmenni var mætt í fjöruna að kveldi dags undir ræðuhöldum og stuðtónlist.

Í lokinn var kveikt í bálkestinum, en fólk hélt áfram að skemta sér í góða veðrinu fram eftir nóttu,  hvort heldur í "Frystihúsinu" eða Rauðahúsinu.

05.06.2014 21:42

Sú var tíðin, 1938

Jóhanna HannesdóttirLandbúnaður skilar þorpsbúum arði

Á Bakkanum voru tímarnir breyttir, sjávarútvegurinn svo að segja horfinn og þess í stað að byggjast upp í Þorlákshöfn og verslunin hefur að mestu flutt sig að Selfossi. Höfuð máttarstoðir þorpsbúa voru því fallnar. 2/5 hlutar íbúanna höfðu flutt burt á undangengnum 25 árum, allt fólk á besta aldri. Eftir sátu barnafjölskyldur og gamalmenni. Þessa þróun hafði nú tekist að stöðva og fólki tekið að fjölga lítilega á nýjan leik. Ný máttarstoð, "landbúnaðurinn" hafði dafnað um nokkurn tíma og skilað þorpsbúum arði. Stórfelld kartöflurækt vegur þar einna þyngst ásamt góðum skilyrðum til sauðfjárræktar, en þar koma til töluverð landakaup hreppsins og framræsting þeirra. Nýbýlið Sólvangur var stofnað á 33ha. landi ofan við þorpið og kúabúskapur hafinn þar. Menn voru þó ekki tilbúnir að gefast upp á fiskveiðum og var farið í það að kalla eftir fjármagni til hafnarbóta. Var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri kosinn til þessa leiðangurs. [ Þjóðtrúinn á Eyrarbakka hafði áður fyr talið þann mann gegna hlutverki "tortímandans" í þessu máli.] Annað helsta baráttumál Eyrverja um þessar mundir var að fá byggða raflínu frá Sogsvirkjun til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þá þegar var hafinn undirbúningur að hönnun og útreikningum á Eyrarbakkalínu frá Ljósafoss orkuverinu þá um haustið.[ Talið var að rafvæðingin mundi bera sig miðað við 150-260W notkun á mann, en það svarar 3 til 4 ljósaperur á íbúa. Þess skal geta að nú í sumar (2014) var verið að taka hluta af þessari línu niður]. En nú var heimstyrjöldin á næstu grösum, svo 8 ár liðu þar til fyrsti staurinn var reistur.

Stjórnmálin við ströndina

Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkurinn á Eyrarbakka sameinuðust um listaframboð fyrir sveitastjórnarkosningar sem fram fóru 30. janúar 1938. Var listinn af sumum kallaður "Þjóðfylkingin" sem borinn var fram af verkalýðsfélaginu Báran, með stuðningi vinstriflokkanna þriggja. Listinn var þannig skipaður: Bjarni Eggertsson (A) Bergsteinn Sveinsson (F) Gunnar Benediktsson (K) og Þorvaldur Sigurðsson formaður Bárunnar (A) í baráttusæti. Vigfús Jónsson (A) Þórarinn Guðmundsson (F) Jón Tómasson (A) Sigurður Heiðdal (F) og Ólafur Bjarnason (A).  Í hreppsnefnd voru 7 sæti og var Sjálfstæðisflokkur (B) þar í meirihluta með 6 sæti. Kosningaúrslitin urðu þannig að íhaldið (B) fékk 154 atkvæði og 3 menn. Sameinaður listi "Bárunnar" (A) 154 atkvæði og 3 menn. Því varð að hafa hlutkesti um úrslitaatkvæðið í hreppsnefnd og hlaut sjálfstæðisflokkur fjórða manninn. Sjálfstæðismenn í hreppsnefnd voru þeir Ólafur Helgason kaupmaður, Jóhann Bjarnason útgerðarmaður, Jón Jakopsson bóndi og Sigurður Kristjánsson kaupmaður.

Á Stokkseyri sameinuðust Framsókn og Kratar um lista, en Kommúnistar fóru fram sér. Sameinaði listin á Stokkseyri var þannig skipaður: Helgi Sigurðsson (A), Sigurgrímur Jónsson (F), Björgvin Sigurðsson (A), Sigurður I Gunnarsson (A) og Nikulás Bjarnason (A). Kosningaúrslit urðu þau að sameinaður listi (A) fékk 98 atkv. og 3 menn. Kommúnistar (B) 31 atkv. og engann mann kjörinn. Sjálfstæðisflokkur (C) 104 atkv. og 4 menn. Bjarna Júníusson, Símon Sturlaugsson, Þorgeir Bjarnason og Ásgeir Eiríksson.

Samband ungra kommúnista (S.U.K.) hélt fjölmennt æskúlýðsmót við Þrastalund, sóttu þangað ungmenni frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjavík og Hafnarfirði um hvítasunnu og reistu þar tjaldbúðir.

Tvö sjálfstæðisfélög voru stofnuð, annað á Eyrarbakka [23.10.1938] og í stjórn þess sátu Þorkell Ólafsson, Kristján Gíslason, Guðmundur Jónsson, Þorgrímur Gíslason, og Sigurður Kristjánsson oddviti. Hitt félagið var stofnað í Sandvíkurhreppi [22.10.1938], en fyrsti formaður þess var Sigurður Ó Ólafsson í Höfn. Þá var í undirbúningi stofnun sjálfstæðisfélags á Stokkseyri.

Sósíalistafélag var stofnað skömmu síðar á Eyrarbakka, [20.11.1938] og í stjórn þess sátu: Gunnar Benediktsson, form. Bergur Hallgrímsson, Þórður Jónsson, Vigfús Jónsson og Stefán Víglundsson.

 

1. maí haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu 1938.

 

Á fjölmennum fundi verka og sjómannafélagsins Bárunnar voru borin upp mótmæli við brottvikningu Héðins Valdimarssonar úr Alþýðuflokknum, en ágreiningur var milli hans og Alþýðusambandsstjórnarinnar í sameiningarmálum. [Héðinn var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn og átti þátt í að sameina vinstrimenn.] Í framhaldi samþykkti Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri vantraust á Alþýðusambandsstjórnina í samfloti með Dagsbrúnarfélögum og fleirum. Leiddi það til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði.

Á fundi Bárunnar 16. apríl 1938 var samþykkt áskorun um að A.S.Í. beitti sér fyrir því að afgreiðslu frumvarps á Alþingi um stéttarfélög og vinnudeilur yrði frestað þar til félögin og sambandið hafi fengið tíma til að kynna sér frumvarpið og fjalla um það.  1. maí var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu og var það verkalýðsfélagið "Bjarmi" sem stóð fyrir hátíðarhöldunum. Fjölmargar ræður voru fluttar og verkalýðurinn hvattur til einingar. Um kvöldið var svo haldinn dansleikur. Fundur var haldinn í Bárunni í oktober. Þar var þess krafist samhljóð að skipulagi Alþýðusambandsins yrði breitt í hreint lýðræðislegt verkalýðssamband, án tillits til stjórnmálaskoðanna. Á fundinn mættu 82 félagsmenn og var hart tekist á um frávísunartillögu, en hún kol felld. Þorvaldur Sigurðsson formaður Bárunnar flutti af Bakkanum um haustið og í desember var haldinn aðalfundur í félaginu og nýr formaður kosinn. Um formannsembættið tókust á þeir Gunnar Benediktsson fyrir sósíalista og Kristján Guðmundsson fyrir krata og sigraði hinn síðarnefndi með 56 atkvæðum gegn 38. Aðrir í stjórn komu allir úr herbúðum krata, Guðmundur Jónatan Guðmundsson skipstjóri, varaformaður með 52 atkv. Í meðstjórn Þórarin Guðmundsson verkamaður, Hjörtur Ólafssson kennari og Eyþór Guðjónsson verkamaður. Í varastjórn sátu Ólafur Ólafsson verkam. Marel Þórarinsson verkam. og Sigfús Árnason verkam. Um 100 félagsmenn mættu og þótti fundarsókn vera með eindæmum góð.

Iðnaðarmannafélag Eyrarbakka fékk 800 kr. ríkisstyrk til skólahalds.

Í verinu: Ógæftir háðu sjósókn framan af vertíð Eyrverja. Af Bakkanum gengu aðeins 3 vélbátar, en 9 bátar af Stokkseyri og frá Þorlákshöfn gengu 10 opnar trillur. Afli dágóður þegar gaf á sjó, en fiskur hafði þá oft legið lengi í netum þegar unt var að vitja. Heldur minna aflaðist frá Eyrarbakka [58 lestir] en árið á undan, en meiri afli barst á land á Stokkseyri [260 lestir] og í Þorlákshöfn [194 lestir]. Um 30 manns störfuðu við sjávarútveg frá Eyrarbakka um þessar mundir.

Látnir: Ingigerður Jónsdóttir (84) frá Nýjabæ. Oddur Oddsson (71) gullsmiður, þjóðfræðaritari og símstjóri á Ingólfi Eyrarbakka. [bjó lengi í Regin] Guðmundur Jónsson (71) frá Kaldbak. Þórður Snorrason (60) verslunarmaður frá Káragerði, kona hans var Sigríður Jónsdóttir. Bjarnfinnur Þórarinsson (49) Búðarstíg, sjómaður Bjarnasonar frá Nýjabæ, Eb. Kona hans var Rannveig Jónsdóttir. [Börn þeirra voru Hjalti, Sverrir, síðar skipstjóri og Guðrún (Stella).] Þórarinn Guðmundsson (48) frá Vorhúsum. Árni Bjarnason (27) sjómaður Tjörn.[fórst með Víði VE.] Hrafnhildur Haraldsdóttir (15) Brennu. Sveinbarn Jónsson (0) Smiðshúsum.

Eyrbekkingar fjarri: Sólveig Eiríksdóttir (47) í R.vík Pálssonar. Jón Árnason (84) rennismiður, þá í Keflavík. [vel þekktur fyrir rokkasmíði] Jón Ásbjörnsson (62) verslunarmaður frá Brennu, bjó í Rvík, tók þátt í sveitarstjórnarmálum.

Víðfrægur sægarpur, Jón Sturlaugsson frá Stokkseyri lést þetta ár.

Sandkorn: Sjómannanámskeið á Eyrarbakka hélt Sigurjón P Jónsson skipstjóri. Eyrbekkingurinn Axel Jóhannsson skipstjóri á togaranum "Maris Stella" frá Boston setti aflamet þar vestra. Kvenfélagið á Eyrarbakka mintist hálfrar aldar afmælis síns þann 25. apríl 1938. Vikur hefur verið numinn úr fjörunni sem byggingarefni í hús, en það var Pípuverksmiðjan H/F sem hóf að steypa hús úr Eyrarbakkavikri. Reis fyrsta vikurhúsið í Kleppsholti R.vík. Byrjað var að byggja vitann við Baugstaði, en hann átti upphaflega að rísa á Loftstaðahól.[ http://brim.123.is/blog/2012/07/01/620567/  ] Margir höfuðborgarbúar fengu sér bíltúr  með leigubílum út á Eyrarbakka og Stokkseyri um verslunarmannahelgina, en fátítt var um einkabifreiðar á þessum árum. Sigurgeir Sigurðsson regluboða Eiríkssonar verður biskup. Templarar á Eyrarbakka stofnuðu nýja stúku er tók nafn sitt af eldri stúku Eyrbekkinga, "Eyrarrós".  Æðstitemplar var Sigurður Kristjánsson kaupmaður og oddviti, en umboðsmaður Gunnar Benediktsson skólastjóri. [ Þeir Gunnar og Sigurður voru samherjar á þessu sviði, en á öðru, harðir pólitískir andstæðingar] Bílaöldin átti 25 ára afmæli á Íslandi, (1913) en fyrst bíllinn kom þó töluvert fyr, en það var bíll Didlev Thomsen. (Thomsen-bíllinn 1905, en honum var ekið í reynsluakstri frá Reykjavík til Eyrarbakka og var bifreiðastjóri í þessari ferð var Tómas Jónsson.) Árnesingum var mörgum í nöp við bílanna og vildu banna þeim allar leiðir. Skipakomur: es. Selfoss kom hér við miðsumars.

Iðnaður: Gólfdúkagerð starfaði hér þennan vetur, þó í smáum stíl. Að framleiðslu þessari stóð Samband Íslenskra heimilisiðnaðarfélaga og voru konur þar í aðalhlutverki. Nokkuð var einig framleitt af treflum og gólfklútum til sölu sem gafst vel.

Sjóslys: Tveir menn frá Eyrarbakka fórust með vélbátnum "Víði" frá Vestmannaeyjum, þann 6. febrúar 1938, þeir Jón Árni Bjarnason háseti frá Tjörn og Halldór V Þorleifsson háseti frá Einkofa,  báðir ungir og ókvæntir. Aðrir í áhöfn voru Vestmannaeyingar og fórust þeir allir.

Þann 17. mars 1938 brimaði snögglega við Eyrar, en þá voru allir bátar á sjó. Einn Bakkabátur náði heimalendingu, en hinir tveir komust inn í Þorlákshöfn. Á Stokkseyri náðu þrír bátar lendingu, en þeim fjórða "Ingu"  hlekktist á í sundinu er brotsjór reið yfir og tók af stýrishúsið og tvo menn er þar voru og druknuðu þeir báðir. Fimm öðrum skipverjum sem á bátnum voru bjargaði Ingimundur Jónsson frá Strönd. Þeir druknuðu hétu: Guðni Eyjólfsson (29 ára) formaður á "Ingu" og Magnús Karlsson vélstjóri. Fjórir aðrir Stokkseyrarbátar [Fríður, Haukur, Hersteinn og Síssí] hurfu frá og héldu til hafs. Lík Guðna fanst síðan landrekið vestan Stokkseyrar í byrjun maí. [Í ofsaveðri sem gekk yfir um haustið sleit Sísí upp og skemdist mikið, en bátinn átti Guðmundur Böðvarsson. Í sama veðri sleit "Inga" upp, sem var þá á Eyrarbakka, en skemdir urðu litlar.]

Úr grendinni: Í Hveragerði var sett upp þangmjölsverksmiðja og var þanginu ekið þangað frá Eyrarbakka og Stokkseyri og þurkað við hverahita.  Skaffaði þetta nokkrum mönnum vinnu, en mjölið var nýtt til fóðurbætis. Bílvegur var ekki kominn til Þorlákshafnar, og ef maður þurfti að komast á sjúkrahús varð að bera sjúklingin 2 ½ klst. leið út að vegi. [Alvarleg slys voru orðin nokkuð tíð hér austanfjalls á þessum árum með tilkomu vélvæðingarinnar, en ekkert sjúkrahús var enn risið í héraðinu og varð að flytja alla sem þess þurftu vestur fyrir fjall.]

Tíðin: Fárviðri gekk yfir landið þann 5. mars og olli víða miklu tjóni í sveitum sunnanlands. Hér á Bakkanum fauk þakið af Barnaskólanum, Veiðafærageymsla Jóns Helgasonar fauk, og reykháfar á nokkrum húsum gáfu sig. Kartöflur voru settar niður á tímabilinu 6. maí til 9. júní. Uppskera var góð þetta árið. Þann 23. og 24. oktober 1938 gerði sunnan ofsaveður. Stórbrim gerði í kjölfarið, sem vant er til í slíkum veðrum. Sjór gekk þá inn um hliðin á sjógarðinum og yfir kartöflugarða þar fyrir innan og út fyrir götu. Þá braut brimið talsverðan hluta sjógarðsins austan Hraunsár, áleiðis til Stokkseyrar. Þann 6. nóvember gerði óvenju mikið ísingaveður sunnanlands og skemdust símalínur víða, svo sem hér á Eyrarbakka og í Ölfusi. 16. desember gerði ofsaveður, en heppilega voru allir bátar komnir á hlunna.

Heimild: Alþýðubl. Bíllinn, Morgunbl. Nýja Dagblaðið, Nýtt land, Verkamaðurinn, Vesturland, Vísir, Þjóðviljinn.

  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43