Flokkur: Stormar

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

15.03.2015 12:54

Stormar og brim

Veturin hefur verið stormasamur og brælugjarn. Hér er brimið í hámarki eftir síðasta storminn á laugardagsmorgun. Um kl. 10 náði óveðrið hámarki á Bakkanum með vindhraða sem mældist mest 26 m/s og hviður um 38 m/s. Óverulegt tjón varð af veðrinu.

02.12.2014 20:15

Óveðrið 2014 og 1991

Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið, 30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig. Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr veðrinu um miðnætti.

 

Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu 3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57 m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum, járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um Suðvesturland.

08.10.2011 20:11

Það brimar við bölklett

Það brast á SA stormur um stund snemma í morgun þegar meðalvindhraði fór í 22 m/s, versta vinhviðan var 28.7 m/s á veðurathugunarstöðinni. Mikil rigning fylgdi veðrinu, en kl. 9 í morgun voru mældir 14 mm og nú hafa 9 mm bæst við í dag. Nú er strekkingsvindur og hefur færst til suðvestanáttar með brimgangi.

28.08.2011 23:12

Fregnir af ferðum Irenar

Spá um ferðir Irenu
Irene er nú 975 mb. hitabeltisstormur (POST-TROPICAL CYCLONE ) og veikist, en að sama skapi breiðir stormurinn sig yfir stærra svæði. Vindhraði er um 24 m/s. Stormurinn mun fara yfir Kanada í nótt og á morgun.  Stormurinn mun síðan taka stefnu á Íslands strendur og munu áhrifa Irenu fara að gæta víðsvegar um land á fimtudag með austan strekkingi. Gert er ráð fyrir að stormurinn muni síðan þrengja sér inn á Grænlandssund með vindhraða um 21m/s. Hinsvegar bendir allt til þess að besta veðrið verði á Bakkanum á meðan íslandsheimsókn Irene stendur, en að öllum líkindum mun brima talsvert hér við ströndina í kjölfarið.

27.08.2011 23:47

Áhrifa Irene mun gæta sunnanlands

Gert er ráð fyrir að fellibylurinn IRINE sem nú hrellir íbúa á vesturströnd bandaríkjanna muni leggja leið sína norður á bógin eins og kortið hér til hliðar sýnir. Áhrifa hennar fer að gæta hér við land upp undir næstu helgi en mun standa stutt. Irine mun því verða fyrsta haustlægðin með strekkings austanátt víða um sunnanvert landið, einkum við fjöll. Lægðin mun væntanlega draga með sér talsverða úrkomu á suðausturlandið. Á Bakkanum verður að öllum líkindum skaplegasta veður, vart meira en 6 m/s þó hvasst verði í nærliggjandi sveitum.

Irene er nú 1. stigs fellibylur á norðaustuleið með ströndum Carolínu fylkis.

28.04.2011 20:02

Íslenska rokið

21 m/sÍslendingar eru svo sem ekki óvanir roki og rigningu, þó menn kysu annan árstíma fyrir belginginn. Stormviðri í apríl með brimgangi eru heldur ekki nýlunda þó fátíð séu. 13.apríl 1926 voru nokkrir Bakkabátar hætt komnir í veðri sem þessu, en um það má lesa hér. Í dag var enn eitt stormviðrið, en aðeins fáir dagar eru liðnir frá sunnanveðrinu nú um páskana. Mestur vindur var ASA 21 m/s samkv. veðurstöðinni hér og hviður um 27 m/s. Veðurglöggir menn spá nú sumri og sól með hægum andvara á Bakkanum frá og með næsta þriðjudegi og telja mestar líkur á að þetta einkennandi sumar-staðviðri við sjávarsíðuna muni haldast  með minniháttar skúrum vel fram í júnímánuð.

25.04.2011 13:48

Páskaveðrið

Það hvessti hressilega um vestanvert landið um það leiti sem páskahelgin gekk í garð. Á Bakkanum gekk á með stormhviðum, en meðalvindur náði sér þó ekki verulega á strik þó allhvast væri um tíma í sunnanáttinni, en meiri fróðleik um páskalægðina má finna hér.
 Framundan er vætusöm vika við ströndina, en svo mætti vorið fara að koma í öllu sínu veldi, vonandi.

10.04.2011 23:13

Hvellurinn

Mörkin fuku á íþróttavellinum
33 m/sÞað gekk á með vitlausu veðri um suðvesturhornið í dag, en hér í grend var einna hvassast á Hellisheiði, en þar fóru hviður yfir 40 m/s, einnig var mikið hvassviðri í Grímsnesinu og Svínavatn rauk út í veður og vind. Á Bakkanum var sunnan stormur um tíma síðdegis og náði vindhraðinn í hviðum mest 33 m/s, en sumstaðar þó hægari inn í þorpinu. Þessu fylgdi mikið brim sem fór vaxandi eftir því sem á kvöldið leið. Væntanlega mun verða stórveltubrim næstu tvo daga í kjölfarið og svo áfram út vikuna samfara éljaveðri. Um næstu helgi mun líklega bæta heldur betur í brimið á Bakkanum og hugsanlega mesta skemtun til áhorfs ef byrtir til.

11.02.2011 23:26

"Illviðrið" gert upp

Ekki verður sagt að mikið hafi látið af veðrinu á Bakkanum á meðan meint ofsaveður gekk yfir sumstaðar. Mesti vindhraði var 22 m/s og mátti heita stormur frá því laust eftir miðnætti til miðmorguns. Mestu hviður náðu þó upp undir 30 m/s. Það voru þá helst Stórhöfði, Búrfell, Tindafjöll og e.t.v. Miðdalsheiði sem gátu státað af "Ofsaveðri" á svæðinu hér sunnan jökla.

08.02.2011 23:16

Stormur

28 m/sAustan stormur ræður nú ríkjum hér sunnanlands með slyddurokum. Á bakkanum náði vindhraðinn í 28 m/s sem kallast Stormur (ROK á vindstigaskalanum , þ.e. 10 vindstig) með hviðum allt að 35 m/s og var svo vítt og breytt um Suðurland og út með Reykjanesinu. Hvassara var þó á Hvammi og Steinum undir Eyjafjöllum þar sem hviður fóru upp í 50 m/s. Sumstaðar í uppsveitum var heldur meiri vindur en niðri við stöndina.

07.01.2011 23:47

Hassviðrið

21 m/sþrettándinn fór víðast hvar út um þúfur enda bálhvasst um allt land og í morgun var kominn á norðan stormur. Hvassast var á Bakkanum um kl. 9 í morgun 21 m/s, en stakar stormhviður gengu á alla nóttina allt að 25- 29 m/s. Annarstaðar á landinu var yfirleitt hvassara, en mesti vindur mældist á Bláfeldi 38.6 m/s. Mikil vindkæling var í gærkvöldi enda talsvert frost. Þannig jafnaðist vindkælingin á við 30 stiga frost um tíma.

17.12.2010 23:00

Norðan belgingur

Stækka kortiðMikið norðan hvassviðri gekk yfir landið í dag. Hér á Bakkanum var brostinn á stormur á milli kl.18 og 19 í kvöld og fóru stakar vindhviður í tæpa 30m/s. Heldur hefur lægt með kvöldinu en þó er enn bálhvasst.

Eins og sjá má hér á kortinu er norðurálfa nær alhvít af snjó og á það einnig við um ísland þó svo við séum á auðum depli hér suðvestanlands. Þá má greina hvernig íslands forni fjandi (gulur) læðist að Vestfjörðum og suður með Grænlandi. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

04.11.2010 23:50

Fárviðrið 1938

Gömul brimmyndAðfararnótt 5. mars 1938 gerði mikið aftakaveður um allt land, en stóð þó aðeins yfir í tvo tíma. Veðurhæðin náði víðast 12 vindstigum sem eru um 33 m/s og urðu skemdir víða um suðvestanvert landið. Á Eyrarbakka ætlaði allt af göflunum að ganga og mundu menn ekki annað eins veður enda urðu þá miklar skemdir á húsum. Þakið fauk af barnaskólanum og kastaðist um langan veg. Veiðafærahjallur Jóns Helgasonar fauk um og reykháfar hrundu niður af húsum. Menn töldu það heppni að fjara var þegar mesta veðrið gekk yfir annars hefði ver farið.

25.10.2010 22:19

Fyrsti snjórinn á þessum vetri

Fyrsti snjórinn kom og fór. Það byrjaði að snjóa um hádegi og skömmu síðar var kominn svarta mugga. En síðdegis var allur snjór farinn, enda þá komin bullandi rigning. Annars var ekki slæmt veður á Bakkanum í dag þó hvasst væri á heiðinni og úti fyrir ströndinni, t.d. var austan stormur í Surtsey í allan dag, en hér komst vindur mest í 12 m/s en var þó yfirleitt hægari.

Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41