Færslur: 2007 Júní

25.06.2007 22:25

Dagsmet slegið.

19,7°CHitamet í dag!
Kl 18 í kvöld var sett nýtt dagshitamet á veðurstöðinni á Eyrarbakka þegar hitinn fór í 20,2°C þá hafði dregið frá sólu og og vindur snúist úr SV til Noðanáttar.

Samkvæmt bestu heimildum Nýs Brims þá var eldra dagsmet 25 júní fyrir stöð 923 á Eyrarbakka sett árið 1963 en þá fór hitinn hæst í 16,8°C (18,8°C árið1925 en mælingar þá voru óáræðanlegar)

Enn vantar tæpar 3°C til að slá methita í júní frá árinu 1999 sem sett var þann 30. upp á 22,6°C (6.jún 1924 24,1°C en mæling óáræðanleg)

Óvarlega má marka af þessu hlýnun andrúmsloftsinns þó svo dagsmet hafa nú verið slegin tvisvar í júní á þessu ári eins og í maí. Líklega á árið 2002 flest júní dagsmetin eða samtals 5

25.06.2007 12:34

Getum við barist við hitann?

Mengun/ mynd:le ficaroCO2 vandinn.
Talsvert hefur verið rætt um loftslagshlýnun undanfarin ár og sýnist sitt hverjum um orsakir þess. Flestir vísindamenn eru sammála um að hlýnun loftslags sé af mannavöldum, þ.e. aukin útblástur CO2 sem veldur svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Aðrir halda því fram að aukin virkni sólar,eða náttúruleg sveifla jarðar um braut sólar sé orsökin fyrir hlýnun og vissulega er hægt að sýna fram á að hlýskeið og ísladir hafi komið og farið án þess að maðurinn hafi komið þar nærri einhverntíman í fyrndini og skemst er að minnast litlu ísaldar 1300-1700.

trae.dkEr kolefnisjöfnun lausnin?
En hlýnunin er staðreind samkvæmt öllum mæligögnum en hinsvegar afar óljóst hversu lengi hlýnunin komi til með að vara og hvenær hún nær hámarki. Ómögulegt að spá um hvort hægt sé að sporna við þessum breytingum þó viðleitni sé vissulega til þess meðal flestra þjóða með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við erum jafnvel vakin upp við það að nú þurfum við að kolefnisjafna bílinn okkar og ef til vill verðum við innan skams farin að kolefnisjafna útigrillið,börnin,hundinn og köttin og okkur sjálf. Þetta getur hjálpað til við að kæla heiminn á meðan landrými fyrir skógrækt er nægjanlegt.Einn stæðsti CO2 útblástursgjafinn er flugið og túrisminn og óvíst að flatarmál Íslands dugi fyrir þann skóg sem þyrfti til að kolefnisjafna þessa atvinnugrein. Ef við fengum til baka öll þau tré sem væri búið að höggva í regnskógum S-Ameríku gætu horfurnar verið betri.

14°meðalhiti í júní?
Hin neikvæðu áhrifa hlýnunar er þegar farið að gæta hér á landi þó aðeins sé um tæpa 1° meðaltalshlýnun að ræða á síðustu 50 árum en muni líklega hækka um 1,8-4°C til loka aldarinnar.Við sjáum jökla hörfa með tilheyrandi uppblæstri sem skyggir á sólu og landeyðingu eins og gerst hefur að undanförnu í hvössum vindi. Hlýnun hafsins í kjölfar loftslagshlýnunar hefur slæm áhrif á gengd fiskistofna og þar afleiðandi á fuglalíf. Sandsíli fæða margra fiska og fugla er t.d. horfið úti fyrir suðurströndinni með skelfilegum afleiðingum fyrir þær tegundir sem lifa á því. Smám saman mun sjávarborð hækka vegna hlýnunar sjávarins og bráðnunar jökla, einkum Grænlandsjökuls með vaxandi flóðahættu og landrofi. Talið er að sjávarborð hækki um 28-43 sentimetra á öldinni. Aukin uppgufun sjávar leiðir til aukningar skýjafars sem hefur þær afleiðingar að veturinn verður hlýrri fyrir bragðið þar sem varmatap verður minna en sumrin aftur svalari þar sem skýin draga úr inngeislun sólar.Þá mun úrkoma í formi rigningar aukast á sumum svæðum,einkum á norðanverðu Atlantshafi. 

Stormar eða stillur?
Telegraph.co.ukSumir spá verri veðrum, stormum og fellibylum í kjölfar hlýnunar en það er raunar ekkert sem staðfestir að svo muni verða,líklegra er að hitabylgjur og þurkar verði helsta vandamálið sunnar í álfuni. Helsta áhyggjuefni Íslendinga væri hvaða áhrif hlýnunin hefur á lífríkið, fiskistofna í hafinu umhverfis landið og í ám og vötnum, á fuglalíf og fæðukeðjuna þar sem ýmsir hlekkir geta auðveldlega brostið eða jafnvel nýir komið inn. Hvaða áhrif hefur hlýnunin á gróðurfar.t.d. þörunga og vatnagróður? Mun súrnun hafsins valda þörunga og fiskidauða í stórum stíl? Mun gróðurfar breytast á hálendinu? Munu svartir sandar verða að grænum engjum innan tíðar? Framtíðin býður upp á óþrjótandi ransóknarverkefni fyrir fræðimenn, sem munu gera okkur kleift að búa okkur undir óvissa framtíð.

http://www.jochemnet.de/fiu/Gulfstream.gifLoftslagsvin
Norður-Atlantshafið er mun hlýrra en önnur svæði á sömu breiddargráðum, vegna innstreymis hlýrra hafstrauma norður á bóginn. Hlýr yfirborðssjór streymir norður, kólnar síðan og sekkur til botns á hafsvæðinu norðan Íslands og austan við Grænland; þessi kaldi djúpsjór flæðir síðan suður á bóginn eftir botni Atlantshafsins. Þetta kerfi í heild er nefnt "Meridional Overturning Circulation" (MOC) á meðal fræðimanna, en meðal þátta þess eru Golf-straumurinn sem streymir norður  og botnstraumar sem flæða í suður. Þetta kerfi er viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum. Menn hafa velt fyrir sér þeirri spurningu hvað gerist þegar aukin ferskvatnslosun vegna bráðnunar jökla leiðir út í þetta kerfi? Mun kerfið þá stöðvast?

MOC-kerfið vaktað
Núverandi loftslag norðvestur Evrópu myndi umbyltast ef MOC-kerfið stöðvaðist. það er talið að það hafi gerst áður á forsögulegum tíma og valdið mikilli kólnun á þessu svæði, jafnvel ísöld. Líkan á vegum Hadley-miðstöðvarinnar í Bretlandi bendir til þess að slík röskun myndi valda 3-5°C kólnun við norðvestur-Atlantshaf.
Haffræðirannsóknir við Ísland sýna þó sterkt innstreymi hlýs Atlantssjávar úr suðri, með merkjanlegri aukningu á hitastigi og seltu frá 1996 svo ólíklegt að einhver bráð hætta sé á ferðum á kólnun en aftur á móti eru áhrif hlýnandi hafstrauma vandamál nútímans.Ljóst er að bráðnauðsynlegt er að vakta þessi hafsvæði stöðugt á næstu árum.

22.06.2007 09:43

Sólstöðublót.

Stonehenge/ TimesnewsNú um stundir eru svokallaðar sólstöður (sólhvörf), þ.e.sú stund þegar sól kemst lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, á tímabilinu 20.-22. júní ?sumarsólstöður og 20.-23. desember vetrarsólstöður.

Það hefur lengi verið siður meðal margra evrópuþjóða að halda upp á þessi tímamót með einhverjum mannfögnuði þar sem fólk safnast saman á einhverjum tilteknum stað með söng og dansi.

Talið er að Stonehenge í Wiltshire á suðvestur Englandi sé einn af þeim stöðum sem sólstöðublót voru haldin af hinum fornu Drúitum. En hvort sem það var þannig þá hefur Stonehenge fengið þetta hlutverk í nútímanum og í gær komu þar saman 24.000 nútíma"Drúitar" sem sungu og dönsuðu í takt við bumbuslátt og blótuðu að heiðnum sið.

Summer solstice

BaugstaðarvitiÍ 10 viku sumars ár hvert, gjarnan á Þórsdegi komu víkingar saman til blóts um sumarsólstöðurnar og hafa eflaust verið víða hér á landi tilteknir blótstaðir þó slíkir staðir séu lítt þekktir og fá ummerki sem má setja í samhengi við þennan forna sið. Vísast er að slík blót voru haldin á þingvöllum þegar eftir að alþingi var sett þar á landnámsöld. Ekki er með fullu vitað hve mörg blót víkingar héldu á ári hverju,en líklega hafa þeir blótað um jafndægur að vori og hausti, um sumar og vetrarsólstöður,en jafnvel hvern mánuð en alþekkt eru Þorrablót og Höfuðblót sem haldið var að hausti,einnig er talið að vorblót eða sumarblót hafi verið haldið á Sumardeginum fyrsta. Fornar heimildir segja til um að landnámsmenn í neðanverðum Flóa hafi komið saman á flötunum við Baugstaðarós eða nokkurn vegin þar sem Baugstaðarviti stendur í dag til þinghalds,blóts, mannfagnaðar og leikja ýmiskonar,svo sem glýmu og skilminga um þetta leiti árs.
En gaman væri að vita fyrir víst hvort örnefnið "Baugstaðir" sem hefur verið kent við kalmansnafnið Baug, hafi orðið til í þessu samhengi sem "Hringur" samanber "Stonehange".

21.06.2007 12:16

Hvalreki mikil búbót fyrir Stokkseyringa?

Áður fyrr var hvalreki mikil búbót fyrir þá sem höfðu aðgang að slíkum reka,en happafengur af þessu tagi var hinsvegar tiltölulega sjaldgæfur þegar hvalveiðar voru með mestum blóma, en á síðustu árum hefur orðið vart hvalreka í vaxandi mæli, bæði sunnan lands og norðan.

Nú til dags er hvalreki hið mesta óhapp því landeiganda er gert að sjá um að fjarlægja og urða skepnuna, en ef til vill gætu Stokkseyringar gert sér mat úr þessum búrhval sem rak þar á land á dögunum. Úr hvalspikinu gætu þeir unnið lýsi og tappað á flöskur, selt það svo aðkomumönnum sem heilsusamlegan töfradrykk (Stokkseyrar elíxer). Kjötið gætu þeir reykt og saltað og selt japönskum ferðamönnum eða lagt í súr og notað í desert á næsta þorrablóti. Grindina væri síðan hægt að stilla upp á væntanlegu skrímslasafni á Stokkseyri enda voru hvalir taldir til sjóskrímsla í fyrndinni
.

18.06.2007 11:47

Jónsmessuhátíð

Jónsmessa hefur alla tíð verið með öðru sniði á Íslandi en sunnar í Evrópu nema ef vera skildi á Eyrarbakka. Í Evrópu er hún miðsumarshátíð. Þar tíðkuðust svallveislur miklar, brennur og dansleikir sem fyrr á tímum tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum. Á norðurlöndum er miðsumarhátíðin gjarnan haldin með brennum og bjórdrykkju og á upphaf sitt sem bændahátíð en á ekkert skilt við galdrabrennur miðalda heldur var það trú manna að með bálinu mátti fæla burt nornir og tröll og ýmsa djöfla sem lögðust á bændasamfélagið til forna og var þá stundum haldin svona brenna á Valborgarmessu í maí. Um næstkomandi helgi munu Eyrbekkingar halda í þennan forna sið og leggja eld að brennu í 9 sinn eftir að þessi siður var endurvakinn og kyrja miðsumarsöngva í heila nótt og fram á morgun.

Danir kalla sína brennur "Sankti Hans bál" Sankti Hans er gælunafn á Jóhannesi skírara. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta (24.des)og lengsta degi (24.júní) ársins á norðurhveli jarðar, en Rómverjar hafa ekki reiknað þetta alveg rétt því lengsti sólargangur er 21 júní og sá skemsti 21.des. Jónsmessan var reyndar ekki um miðsumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sumarið taldist þá ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Einhventíman á síðustu öld tóku danir upp þann sið að setja "Heksen på båled" þ.e að brenna brúðu af galdrakellingu á bálinu og er talið að sá siður hafi komið með þýsku verkafólki sem fluttist til Kalundborg um 1920.

Jónsmessuhátíð lagðist af hér á landi einhventíman fyrir löngu en var þó haldin á Eyrarbakka á fyrrihluta síðustu aldar og stóðu danskir verslunarmenn aðalega fyrir uppákomum í tilefni Jónsmessunar. Líklega lagðist hátíðin af á landsvísu vegna kólnandi veðurfars sem tafði fyrir öllum vorverkum og kom enn frekar í veg fyrir að menn gætu gert sér glaðan dag á Jónsmessu. Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi og síðan þegar verslunin lagðist af á Bakkanum og danirnir hurfu á braut hvarf þessi siður með þeim þaðan þar til hann var endurvakinn árið 1998.

Jónsmessunótt þykir þó enn með mögnuðustu nóttum ársins en þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsa dulda krafta og til að tína jurtir til lækninga. Hlýnandi veðurfar ætti ekki að skemma fyrir að þessi hátíð skipi sér fastan sess sem til forna.

16.06.2007 00:10

Hagnast á hlýnun!

Það er ekki alveg samkvæmt ritgerð Al Gore's, að hlýnun jarðar hafi mögulega nokkra kosti.
Það gæti nú samt verið bærilegra að búa á norðlægum slóðum svo sem á Íslandi í framtíðinni ef hlýnunin heldur áfram sem horfir. Til dæmis yrði nánast óþarfi að hafa áhyggjur af því að snjótittlingar hafi ekki nóg að borða yfir blá veturinn. Nytjaskógrækt gæti orðið arðbær atvinnugrein hér á landi og landbúnaðarhéruðin munu blómstra í gróskumikilli akuryrkju út við heimskautsbaug, þá gæti Akureyri haft sitt nafn með rentu.
Kostnaður við húshitun mun minka jafnt og þétt og snjómokstur gæti heyrt sögunni til eftir nokkur ár og við íslendingar getum hætt að nota nagladekk og sparað okkur og þjóðarbúinu stórfé og um leið dregið úr svifriksmengun.
Flutningaskip geta bráðum siglt skemri leið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og sparað tíma, peninga og eldsneyti öllum til hagsbóta og dregið þannig úr mengun. Á Íslandi sem yrði þá í alfaraleið væri hægt að setja á fót risastóra miðlunarhöfn fyrir vörur sem mundi skapa mikla atvinnu.

Það væri hinsvegar verra ef stjórnmálamönnum dytti í hug að hirða þennan hagnað almennings með einhverskonar hlýnunarsköttum.

13.06.2007 15:45

Svört skýrsla Hafró.

Í skýrslu Hafró um nytjastofna má sjá að eitthvað verulega mikið er að í lífríki sjávar.
Svo er að sjá sem helstu fiskistofnar og selir egi við verulegan fæðuskort að etja. Landsel fækkar nú um 4% á ári og sömu leiðis fækkar útsel verulega þó veiðar á þessum tegundum séu óverulegar.

Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur lækkað verulega á síðustu árum og er meðalþyngd flestra aldursflokka í eða við sögulegt lágmark. Sama gildir um Ufsa og Ýsu enda eru þessar tegundir í samkeppni um sömu fæðuna.

Auk loðnu virðist magn nokkurra annarra mikilvægra fæðutegunda svo sem rækju og sandsílis hafa dregist saman á undanförnum árum og bendir þróunin þar til verulegrar minnkunar á stofnstærð Sandsílis.

Sandsíli er til að mynda helsta fæða kríunar sem hefur átt í vök að verjast síðustu tvö til þrjú ár vegna skorts á sandsíli sem og ýmsir bjargfuglar. Í byrjun maí sást nokkuð af sandsíli við Vestmannaeyjar en hvort það sé í einhverjum mæli er enn ekki vitað.

Margir telja ástæðuna fyrir skorti á sandsíli og loðnu vera vegna hlýnunar sjávar og loftslagsbreytinga.Margt bendir einnig til að hryggning sandsílis hafi misfarist árið 2004-2005 þar sem lítið hefur fundist af þeim árgangi.

Þyrfti ekki að stöðva veiðar á fóðurfiski í þessu ljósi ?
 Meira.

12.06.2007 13:07

Veðurútlitið á lýðveldisdaginn 17 júní.

Mynd:wunderground.comwunderground.com spáir þannig fyrir Eyrarbakka þann 17. júní nk.

Sunnudagur
Skýjað með köflum. Hám. 53° F. / 12° C. Vindur ASA 11 mph. / 18 km/h.

Sunnudagskvöld

Skýjað með köflum. Lágm. 50° F. / 10° C. Vindur Austur 6 mph. / 10 km/h.

11.06.2007 22:59

Hitamet í dag.

Í dag náði hitinn á Eyrarbakka hæðst í 18°C kl 17:00 og sló þar með út eldra dagsmeti fyrir 11. júní sem sett var árið 2003 sem var 17°C. Áður höfðu fallið hitamet í maí fyrir dagana 30. og 31. með 17° hita.

Mánaðarmet fyrir júní var sett þann 30 júní 1999 en þá fór hitinn hæðst í 22,6°C
Ekki skal útilokað að þetta met kunni að falla síðar í mánuðinum.


Horfur eru á bjartviðri fram yfir miðvikudag (óðinsdag) en ekki eru líkur á að hitin nái sömu hæðum og í dag hvað sem síðar kann að verða.

09.06.2007 21:38

Ískyggilegt veður!

Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu þó að horfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn sína til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.

Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil,svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en allir á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir. Mennirnir höfðu þá barist gegn veðrinu og snjóbilnum í nær sólarhring sleitulaust þar til veður tók að ganga niður. 

Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra næstu daga á eftir. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.

Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.

Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi. Því má ætla að töluvert frost hafi verið þennan dag og vindkæling mikil. 

Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.

Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi hafi verið bjargað ásamt mönnum sínum um borð í franska skútu  úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.


Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnat á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröd"

07.06.2007 21:07

Fjallasperringur og önnur fyrirbæri.

Einhverju sinni hafði óþurkatíð gengið um lágsveitir sunnanlands og kom þaðan einn bóndi út á Bakka með ull sína sem ekki var sem þurrust. Nielsen gamli hjá Lefolii verslun kemur þar að og skoðar ullina,vegur hana og metur en líst ekki nógu vel á. Hann segir því við bónda " Hver í helvide, kan du ikke thurka dína ull í fjallasperr sem Olaf í Selslæk?"

"Fjallasperringur" hét algengt veðurfyrirbæri í uppsveitum Rángárvalla, Á vorum og sumrum, fram til haustnátta, mynda austanvindarnir, fyrir atbeina jöklanna, ýmist stórfellt regn eða helliskúrir, sem steypast vestur yfir allt Suðurlandsundirlendið að norðanverðu, en ná þó sjaldnast  ofar en upp á Rangárvöllum, á móts við Tindafjallajökul. Norður af Heklu er þá aftur á móti norðlægari vindstaða, ýmist með þeyvindum eða þræsum á vorum, þurrviðrum á sumrum og frostum á vetrum. Önnur fyrirbæri af sama toga nefnist "Hornriði" þ.e. sterkviðrisstrengurinn og dembuskúrirnar, niður við sjávarströndina. Því var nefnt í tengslum við sjólagið, "hornriðaalda", "hornriðabrim", og "hornriðasjór".í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan sterkviðrinu á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni. Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriðasjór eða  harðinda-brim. "Austantórur" þ.e. austan skúraveður en þó bjart yfir austurfjöllum.

07.06.2007 12:43

Íslenski vindpokinn.


Það er eitt og annað sem Brimið fær í pósti, þessi mynd segir allt sem segja þarf um veðrið á Suðurlandi undanfarna daga. Horfunar framundan eru þó hægari vindur og minkandi brim en áfram súld eða skúrir og hiti breytist lítið. Á sunnudag eða einkum mánudag má þó búst við breytingum og bjartara veðri um stundarsakir.

Einu sinni var Bakkaveðrið þennan dag árið:
1997  Hvöss NNA og hitastig - 1 til 6°C og snjófukt um nónbil.
1987 Vestan gola og hiti 4 til 14°C og sól öðru hvoru.
1977 NNA kaldi og hiti 1 til 10°C
1967 NNA kaldi og 7 til 8°C
En í dag var sunnanátt 4-5 m/s og 9 til 12°C

05.06.2007 21:00

Voldugt brim.

Það er mikilfenglegt að sjá brimið þessa dagana og einkum núna þegar rokinu og regninu hefur slotað og sólin tekin að skína í bili.

Eftir brimstiga P,Nielsens þá hefur brimið verið í 4 -5 stigum síðan síðdegis á sunnudag og telst það vera nokkuð óvenjulegt. Meðaltalið fyrir Júni er 1 dagur með svo miklu brimi.

Á síðasta sólarhring mældi veðurstofan 20 mm úrkomu á Bakkanum sem telst nokkuð. Sólahringsgsúrkomumet fyrir 5 júní var hinsvegar sett árið 1969 en þá mældist 30,5 mm, (frá kl.9 til 9 )vel blautur dagur það
.

"Stormur" heitir þessi vísa eftir Björn Pétursson Sléttu, Fljótum. f.1867 - d.1953

Griðum hafnar hrannar rót
heiftum safnar brýnum.
Stríðir hrafninn húna mót
honum nafna sínum

Þakka svo Pétri Stefánssyni fyrir þessar brim og veðurvísur sem hann sendi mér eftir afa sinn og læt þær fljúga hér inn þegar á við.

04.06.2007 13:04

Súld og suddi


Þeir eru heppnir sem eiga regnkápur og ullarhosur og geta því verið úti.
það hefur nefnilega verið úrkomusamt á suðvesturhorninu síðasta sólarhringinn með strekkings vindi af suðaustri og lítur út fyrir að svo verði áfram næstu daga.

Ástæðan er þessi mikla lægð suðvestur af landinu og hæðirnar tvær sem loka fyrir leið hennar austur á bóginn. Þannig á lægðin ekki aðra möguleika en að blása úr sér þar sem hún er niður komin.

Ástandið á því eftir að batna þegar eftir miðja vikuna,en hitastig breytist þó lítið ef marka má veðurstöðina Falling.rain.com

Lægðin hefur valdið töluverðu sjávarróti með tilkomumiklu 3-4 stigs brimi á Bakkanum samkv. brimskala P.Nielsens fyrrum faktors í Húsinu á Eyrarbakka og veðurathugunarmanns dönsku veðurstofunar á sínum tíma.

Veðurspáin fyrir Sjómannadaginn hér fyrir neðan fór nú heldur betur í vaskinn, þar sem vel hvessti síðdegis með helli rigningu og hitastigið féll niður fyrir 10°C.

Nýliðinn maímánuður var fremur kaldur á landinu að sögn Veðurstofunnar. Mjög hlýtt var um land allt fyrstu daga mánaðarins og einnig um mikinn hluta landsins síðustu dagana. Einkum var kalt á tímabilunum 4 til 11. og 19. til 27. og snjóaði þá sums staðar.
Á Bakkanum var hlýjasti dagurinn 31.maí en þá náði hitinn hámarki í 17,7°C en kaldast var þann 21. þegar hitinn féll undir 4°C og var sumstaðar í 0°C í næsta nágreni. Annars var hitastigið oftast um 10°C

Yfirlit Veðurstofunar umTíðarfarið í  maí

  • 1
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41