Færslur: 2007 Maí

31.05.2007 17:12

Enn eitt met.

Enn eitt dagsmetið var slegið á Bakkanum í dag þegar hitinn fór upp í 17.7 °C kl.14 en í gær náði hitinn hámarki um kl.19 þegar veðurstöðin mældi 17.5°C. Eldra dagsmet fyrir hæsta hitastig þann 31.maí var 15,3°C árið 1990

Þessi heiti loftmassi á rætur að rekja til A-Evrópu, aðalega suður Svíþjóðar og Póllands


Local veðurspá  fyrir sjómannadaginn á Eyrarbakka: (Með fyrirvara um að hún gæti hæglega farið í vaskinn)

Suð austanátt og 5 m/s skýjað og dálítil rigning fyrripart dags en þornar upp e.h.. Hiti 10-12°C

30.05.2007 21:23

Nýtt met.

Það fór eins og veðurfræðingar höfðu spáð fyrir "Heitur dagur í dag"!

Í dag var nefnilega hið allrabesta veður og komst hitinn hæðst í 17°C á Bakkanum um kl 16 sem er nýtt met yfir hæsta mælda hita fyrir daginn 30.maí hér á nafla alheimsinns.
Eldra metið fyrir þennan dag mánaðarinns á Eyrarbakka var sett árið 2002 en það var 16,5°C

Það vantar þó tæpar 3° á að slá við mánaðarmetinu fyrir maí sem sett var þann 5.maí 1988 en þá fór hitinn hæðst í 19,8°C

26.05.2007 17:51

Veðurstofan með nýja síðu!!

Veðurstofa Íslands er nú komin með nýja og glæsilega heimasíðu.
Þar má sjá veðrið í myndrænu formi auk ýmissa veðurupplýsinga. Auðvelt er fyrir alla að spá í veðrið fram og aftur. Hér 
getið þið séð veðrið fyrir Suðurland.

25.05.2007 14:24

Kuldaboli sleikir landsmenn.




Neðra kortið gildir fyrir Hvítasunnudag kl.12  en það efra gildir kl.12 í dag og á því má sjá kuldatúngu þá sem sleikt hefur landsmenn að undanförnu. Smámsaman tekur þó að hlýna eftir helgi og má þá vænta að hægt verði að setja niður kartöflur víðast hvar á landinu.Á Hvítasunnudag verður hlýjast á suðvesturhorninu og gæti hitinn skriðið yfir 10° um miðjan daginn.Úrkomulaust verður á Bakkanum a.m.k fram á miðvikudag í næstu viku ef fjarlægustu spár ganga eftir.
Kortin eru frá Meteoblue.

21.05.2007 21:28

P.Nielsen brimverji no.1

Peter Nielsen veðurathugunarmaður (1880 til 1911) og faktor á Eyrarbakka athugaði sjólag flest árin þrisvar á dag (kl 8, 14 og 21 (9,15 og 22 skv. okkar tíma). Hann skipti sjólagi sem hann kallaði (brænding = brim) í 7 flokka 0 - 6 á eftirfarandi hátt

Styrkur 0 : Alsléttur sjór, þá sést ekkert brim á skerjunum.

Styrkur 1 : Rólegur sjór. Brimar á skerjum á stöku stað

Styrkur 2 : Brýtur fyrir öllum skerjum, en ekki á Sundinu.

Styrkur 3 : Brot alstaðar, einnig á mestum hluta Sundsins; þó getur það yfirleitt heppnast fyrir opna fiskibáta að stinga sér yfir brimið, með því að sæta lagi.

Styrkur 4 : Óbrotið brim yfir öllu. Inn og útsigling varasöm, Að öllu hættuleg fyrir opna báta og minni mótorbáta.

Styrkur 5 : Voldugt brim; Sjórinn brýtur við sjóvarnargarða.

Styrkur 6 : Voldugasta brim. Sjórinn gengur yfir sjóvarnargarða og langt upp á land.

Við brimstyrk 0, 1 og 2 geta róðrabátar og hæfilega djúpristir mótor og gufubátar yfirleitt siglt út og inn sundið með hliðsjón af sjávarföllum og siglingamerkjum.

Við brimstyrk 3 geta hæfilega stórir gufu og mótorbátar siglt út og inn 1-2 tímum fyrir og eftir háflóð.

Við brimstyrk 4, 5 og 6 er inn og útsigling ekki örugg fyrir farkost af nokkru tæji.


Þýtt úr dönsku.- Dönsk heimild Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Hér er síðan samantekt fyrir hvert ár (árin sem vantar var Nielsen utanlands):

Fjöldi daga á ári (einhverjar athuganir vantar eða brotum er sleppt):

ár

B0

B1

B2

B3

B4

B5

B6

alls

1881

86

78

69

93

29

10

0,33

365

1882

104

55

73

83

43

7

0,00

365

1883

99

55

67

80

47

7

1,67

355

1884

90

51

69

120

30

4

2,00

364

1885

107

81

69

89

14

3

0,00

363

1886

109

70

73

94

16

3

0,00

365

1887

103

61

64

101

31

4

0,33

364

1888

137

48

70

72

36

2

0,67

365

1889

113

66

70

75

35

6

0,00

365

1890

92

61

75

83

46

8

0,00

365

1891

118

57

67

67

50

7

0,00

366

1892

136

76

60

67

24

3

0,00

366

1893

 

 

 

 

 

 

 

 

1894

 

 

 

 

 

 

 

 

1895

117

58

59

105

21

4

0,00

364

1896

87

50

73

127

26

3

0,67

366


Nýtt Brim þakkar Trausta Jónssyni fyrir þessar áhugaverðu og fróðlegu upplýsingar.

21.05.2007 09:47

Skelfilegt hretviðri.

Fjöllin voru hvít í morgun og kuldi í lofti.Á Eyrarbakka var 4° hiti kl 8 í morgun en aðeins 1°C, slydda og krapi á vegum tæpum þrem kílómetrum fyrir ofan þorpið. Á Hellisheiði var 0°C og á Hveravöllum var 1 stiga frost.

Þetta kalda loft er upprunnið ofan úr háloftunum yfir Grænlandsjökli og berst með öflugri lægð sem ruddist yfir jökulinn í gær og er nú stödd á Grænlandssundi.

Í fyrravor 22 apríl var einnig kalt í veðri en þó ekki snjór eins og nú.en í byrjun maí mánaðar í fyrra komst hitinn hæðst í 20°C ,en það sem er af þessum mánuði nú hefur hitinn vart farið hærra en 12°C á Eyrarbakka og finnst mörgum vorið nú vera kalt.

Sterkt og víðáttumikið háþrýstisvæði yfir Azoreyjum spilar stóra rullu í þessu veðurfari hér á norðurslóðum þessa dagana.

Vorskipsleiðangur fékk gott veður!
Frá markaðstorginuÞað var margt um manninn á Bakkanum um helgina enda var veðrið gott,bæði föstudag og laugardag en dálítið ringdi síðdegis á sunnudeginum og má segja að veðurspá Brimsins hafi gengið nákvæmlega eftir.
Fjölbreytt dagskrá með handverki, söng og sýningum á gömlum ljósmyndum og handverki auk markaðstorgs og veitingum stóð fólki til boða á hátíðinni. Á Rauða naflanum héldu Swing bræður uppi fjörinu og krambúð var í verslun Guðlaugs Pálssonar og markaðstog var sett upp á Bakkahlöðum (Frystihúsi).Einnig var mikið um að vera á Stokkseyri þar sem hluti hátíðarinnar fór fram. Það er mál manna að vel hafi tekist til og ljóst að saga þorpanna eru þeirra helstu menningarverðmæti sem sjálfsagt er að virkja með þessum hætti sem Friðrik Erlingsson hefur haft forgöngu fyrir.

17.05.2007 00:09

Hvernig viðrar á vorskipið?

scantours.com/images/DenmarkÁ föstudaginn hefst vorhátíðn "Vorskipið kemur"á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem glæsileg dagskrá er í boði og þorpin taka á sig mynd 19.aldar. En hvernig viðrar á Stokkseyrarbakka um hátíðina? Eftir að hafa vafrað yfir nokkrar veðuspásíður er þetta niðurstaðan.

Föstudagur (Freysdag)18.maí: Rigningu sem spáð er aðfaranótt föstudags,styttir upp um hádegi, en þó nokkuð skýjað verður yfir daginn en tekur svo að létta til undir kvöld. Hæg NA átt og hiti um 10 - 12 °C að deginum en gengur síða í norðanátt og bætir í vind.

Laugardagur: Léttskýjað að morgni en þykknar upp yfir daginn en helst til þurt. NNV blástur og hiti um 10°C yfir daginn.

Sunnudagur: Kólnar nokkuð aðfaranótt sunnudags, jafnvel að frostmarki en hiti um og yfir 8°C að deginum.Færist í SA og Sunnan átt með rigningu síðdegis
.

Þess má geta að  vöruskipin komu ávalt inn á leguna þegar háflóð var og á föstudaginn er háflóð kl:19
Dagskrá hátíðarinnar er viðamikil og að mörgu leiti frumleg og líklegt að gestir hátíðarinnar hverfi aftur í tíman og upplifi lifandi stað og stund um aldamótin 1900
Dagskrána má nálgast á www.eyrarbakki.is

15.05.2007 09:02

Krían komin á Bakkann.

mynd.mbl.Krían er einn af þekktari fuglum landsins og snemma í morgun sáust nokkrar kríur á flugi yfir Eyrarbakka og eru nú farnar að helga sér varpstöðvar. Hefur hún þá lagt að baki langt og strangt flug, jafnvel alveg frá Suðurheimsskautinu. Krían verpir tveim til þrem eggjum í efnislítið hreiður sem ekki er oft meira en smá dæld. Eggin eru brúnleit með dökkum dílum. Kríur verpa í stórum hópum (kríuvörpum) og þeir sem leggja leið sína um þau á varptíma eiga oft fótum sínum fjör að launa því að krían er þekkt fyrir að sækja hart og óvægið að þeim sem gera sig líklegan til að ógna hreiðri hennar. Lætur hún sig ekki muna um að gogga hressilega í höfuð fólks. Krían lifir aðalega á því sem er að hafa í sjó eða vatni, þá mest á sílum en einnig skordýrum. Illa hefur horft með sandsílisstofnin undanfarin tvö ár sem er aðalfæða kríunar en líkur eru á að sandsílið hafi nú náð sér á strik og því minni líkur á að varp kríunar misfarist eins og í fyrra.

Krían yfirgefur síðan landið á haustin og heldur þá aftur af stað suður á bóginn, allt til suðurskautsins.

14.05.2007 12:00

Fíflavandinn ógurlegi!

Nú þegar maísólin skín á þessum fallega degi sprettur upp eitt vandamál sem heitir Túnfífill (Taraxacum spp.) Hann er mjög algengur um allt land, bæði í túnum, úthaga og til fjalla,en ekki síður í görðum Eyrbekkinga. Þar er þessi planta ekki velkominn gestur,því hún fjölgar sér ört og fer illa með blettinn. Eftir blómgun(Flugur bera frjókorn frá frævlunum á frævurnar og fræ myndast) lokar fífillinn blómakörfunni um hríð, en opnar hana svo aftur þegar fræin eru fullþroskuð, og heitir þá biðukolla. Hún nýtir þá vindinn til að dreifa sér yfir á næstu lóðir í nágreninu.

Það færist í vöxt að menn hafi ofnæmi fyrir frjókornum þessarar plöntu. Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið sem kemur fram í nefi og augum. Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða. Eitt helsta einkenni frjókornaofnæmis og það margir finna fyrst fyrir, er kláði í augum. Aðeins örfá frjókorn í loftinu geta framkallað augnkláða. Augun verða rauðsprengd og það rennur úr þeim. Fyrstu einkenni frá nefi eru síendurteknir hnerrar. Önnur einkenni sem miklum óþægindum valda er kláði í nefinu. Versti tíminn er maí og júní þegar loftið er þurt.

Baráttan við þetta illgresi getur verið endalaus,þó til séu ýmis verkfæri og eitur til að stemma stigu við fíflinum, þá er hún er lúmsk og kann fyrir sér ýmsa klæki til að komast af.

Hvenær kemur krían?
Venjulega hefur krían komið á Bakkan á bilinu 14-16 maí svo nú er bara að vera á verði og athuga hver verður fyrstur til að sjá kríuna.Í fyrra kom hún þann 16.

06.05.2007 22:25

Skuldahalar fjúka út í veður og vind!

Mynd:mbl.isNú er sumaraið komið! Það má marka af því að verstöðvarnar á Eyrarbakka eru óðum að tæmast af ófáum hjólýsum og öðrum skuldahölum sem Eyrbekkingar hafa geymt fyrir höfuðborgarbúa og annað ferðaglatt fólk yfir veturinn.

Um leið og sólin gægist fram úr skýjunum fyllast þjóðvegirnir af þessum hvítu flykkjum aftan í fjallajeppum malbiksfólksins, öðrum ökumönnum til mikillar armæðu. En fyrr en varir kemur vindhviða eins og oft er hér á Fróni og allur húsakosturinn þeytist út fyrir veg. Þannig fóru margir skuldahalar fyrir lítið síðasta sumar og nú heyrum við í fréttum (www.mbl.is ) að fyrstu hjólhýsin á þessu sumri sem er rétt að byrja hafi orðið íslenskri veðráttu að bráð. Það er ljóst að Íslendingar þurfa að hafa vel fyrir snobbinu!

02.05.2007 23:36

Af hitametum og hlýnun jarðar.

Nýliðinn aprílmánuður var með þeim hlýjustu sem sögur fara af hér á landi frá því samfelldar mælingar hófust á ofanverðri 19. öld segja fréttirnar í dag. Veðurstofan segir í veðurfarsyfirliti, að tíðarfar hafi almennt verið hagstætt í mánuðinum en hans verði einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs. Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þann 29. þegar hiti komst í 23°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki.
Á síðasta ári fór hitinn á Eyrarbakka í aprílmánuði hæðst í 10°C og var meðalhitinn þá um 2 stig og mesta frost var þá 11 stig en nú var hitinn oftast á bilinu 10 -12°C og mest 14 - 15 stig í lok mánaðarins sem er talsvert stökk frá því í fyrra.

Ástæðan fyrir þessum hitabylgjum er mikill hiti í Evrópu vestanverðri þar sem sömu sögu er að segja og hitamet fallið þar umvörpum. Síðan var það frekar tilviljun að hæð yfir Norðursjó beindi þessu heita lofti inn á landið og þá helst austan og norðanvert.
Svo er spurningin hvort þetta sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal því breskir veðurfræðingar hafa spáð allt að 8 hitabylgjum í sumar og ekki ólíklegt að enn eigi met eftir að falla áður en þessu sumri líkur. Eflaust má túlka þessa forspá þannig að loftslagshlýnunin sé nú komin á mikið skrið.

Almennt er nú viðurkennt að loftslagshlýnunin sé af manna völdum, en nokkrir danskir vísindamenn vilja halda öðru fram. Þeir eru með þá kenningu að hlýnunin stafi ekki síður af aukinni varmalosun frá sólinni og því sé hlýnunin mun örari en reiknilíkön gefa tilefni til. Það er nefnilega ekkert sem segir að varmalosun sólar sé ætíð sú sama heldur mun líklegra að losunin sveiflist til á löngum tímabilum með samsvarandi veðurfarssveiflum á jörðinni. En væntanlega munu vísindin skera úr um þetta álitamál fyrr eða síðar.

  • 1
Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43