Færslur: 2008 Desember

30.12.2008 08:48

Flugeldasýning Bjargar


Björgunarsveitin Björg hélt ágæta flugeldasýningu við bryggjuna í gærkvöldi, en sveitin hélt nýverið upp á 80 ára afmæli sitt. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Stofnfélagar urðu 116 talsins og voru orðnir 130 í lok ársins 1928, þetta var þá fjölmennasta sveitin fyrir utan Reykjavík.

Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna eru opnir í 4 daga á milli jóla og nýárs. Einnig er Þrettánda flugeldasala sunnudaginn 6. janúar 2009

Áramótabrenna verður fyrir vestan Nesbrú á gámlárskvöld að venju.

18.12.2008 14:44

Heilbrigðisstofnun vill loka!

Stórslysaæfing við heilsugæsluseliðHeilbrigðisstofnun hyggst loka heilsugæsluselum á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. janúar n.k. vegna þess hversu aðsókn er dræm.

Getur verið að Eyrbekkingar og Stokkseyringar séu heilsuhraustari en almennt gerist?

Það mætti þá líka lækka skattana okkar ef við fáum ekki að njóta sjálfsagðrar þjónustu þegar á þarf að halda á borð við aðra þéttbýliskjarna.
 

16.12.2008 21:49

Vinir í raun

Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu stundum að hleypa út í Þorlákshöfn fyrr á öldum, en þar var þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brima. Þann 16.mars árið 1861 leit út fyrir bærilegt sjóveður. Réru þá þau þrjú skip sem gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð og flest skip frá Stokkseyri. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti snögglega í svo þvílíkt ofsabrim að skipunum var ómögulegt að ná lendingu, fyrir utan tvö frá Stokkseyri. Fimtán skip sem sátu á miðunum máttu nú hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó, en náðu þó öll happasælli lendingu og aðeins ein ár brotnaði.

 

Vertíðarmenn í Þorlákshöfn brugðust skjótt við að vanda og óðu í sjóinn svo langt sem stætt var til að taka á móti skipunum og hjálpa þeim í lendingu. Skipin voru síðan flutt landveg þá strax um kvöldið og daginn eftir. Skipin voru dregin á ísum, sem þá lágu yfir allt. Margir Þorlákshafnarbúar fylgdu skipunum áleiðis og léttu undir á langri leið til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

 

Heimild: Þjóðólfur 29-30 tbl.13.árg.

11.12.2008 21:12

Olaf Rye

Tilbúin myndSkonnortan Olaf Rye var í eigu Eyrarbakkaverslunar og var hið vandaðast og besta skip og taldist með stærri skipum er hingað komu. Í oktober 1859 átti það að losa stóran kornfarm og aðrar nauðsynjar á Eyrarbakka. Skipið komst þó ekki inn í höfnina, líklega vegna brims og var því siglt til Hafnafjarðar, en þar átti Leofolii einnig verslun Levinsens. Þegar skipið hafði verið losað þessum varningi, þá var það lestað salti sem átti að sigla með til Njarðvíkur. Þegar til Njarðvíkur kom lenti skipið í norðan fárviðri og fórst. Hafnfyrðingum skorti hinsvegar ekki kornvöru þennan veturinn, en aðra sögu er að segja veturinn 1861.

Þann 1.oktober 1861 strandaði stórt verslunarskip        sem legið hafði á ytrilegunni á Eyrarbakka. Lokið var við uppskipun þegar atburðurinn gerðist. Skipið hafði flutt 900 tunnur af matvælum auk annars varnings til Eyrarbakkaverslunar. Skipið átti síðan að halda til Hafnafjarðar með 150 tunnur af matvælum til verslunar Levinsens en þar var þá orðið kornlaust, sem og í Reykjavík. Á Bakkanum hafði skipið auk þess verið lestað 70 skipspundum af saltfiski og fáeinum sekkjum af ull þegar það slitnaði upp af ytrilegunni sem jafnan hefur verið talin ótraust, en annað var ekki í boði þar sem á innri legunni lá jaktskip sem verið var að lesta nautakjöti til útflutnings, en það var nýmæli hér á landi, sem verslunarstjóri Thorgrímssen stóð fyrir. Skipið brotnaði í spón og sökk að hluta. Allir menn björguðust, en þetta var 4 vöruskipið sem ferst á Eyrarbakka frá árinu 1846.

Heimild. Þjóðólfur og Íslendingur 1859 og 1861.

10.12.2008 21:06

Waldemar

Dæmigerð aldamóta skonnortaKaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.

Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855   

08.12.2008 21:37

Sögulegt atvik

Líkan af herskipiÞann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum)  og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps)  væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.

 

Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.

 

Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.

Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820

02.12.2008 20:53

Þurrabúðarmenn

Efnahagur þurrabúðarmanna á Eyrarbakka á 18.öld grundvallaðist af fiskveiðum ásamt tilfallandi verkamannavinnu. Fiskveiðarnar voru stundaðar á opnum árabátum og voru tímabundin uppbót á sauðfjárbúskapinn. Bátar og lendingar voru í eigu útvegsbænda og kaupmanna, en vinnuaflið voru vinnumenn leiguliðar. og þurrabúðarmenn. Á þessum tíma var búseta flestra á Bakkanum bundin við vetrarvertíðina, en á sumrin fóru flestir burt í atvinnuleit. Atvinna var af skornum skamti og urðu menn að snapast hingað og þangað eftir kaupavinnu.

 

Verslunin veitti nokkrum hópi vinnu við afermingu vöruskipana og nokkur hópur kvenna og barna hafði vinnu við saltfiskverkun. Karlmenn leituðu stundum alla leið til Reykjavíkur eftir plássi á þilskipum (Kútterum). Á milli vertíða ríkti þó iðulega nokkurt atvinnuleysi meðal þurrabúðarmanna, einkum á haustin og var því eginlega tekið sem sjálfsögðum hlut. Þó fengu alltaf einhverjir að starfa við undirbúning þorskvertíðar með því að dytta að manvirkjum, endurnýja veiðarfæri og áhöld.

 

Skreið var oft gjalmiðill þurrabúðarmanna. Það leiddi til þess að þurrabúðarmenn þurftu oft að versla upp á krít og hélst sá siður meðal almennings á Bakkanum langt eftir 20.öldinni. Í byrjun aldarinnar fór efnahagur þurrabúðarmanna að batna, einkum eftir að fyrstu vélabátarnir komu til sögunar eftir 1904 og aukin landbúnaður. Timburhús komu þá í stað moldarkofanna. Um þetta leiti kom sjómanna og verkamannafélagið Báran til sögunar sem hagsmunasamtök sem styrkti stöðu þeirra gagnvart kaupmönnum og útgerðarmönnum. Félagið kom síðar inn sem sterkur pólitískur þáttakandi í þróun þorpsins.

 

Það sem vó einna þyngst í bættum hag þurrabúðarmanna var þegar Eyrarbakkahreppur keypti land stuttu eftir aldamótin 1900 og bútaði í skika og lagði þeim til leigu. Þurrabúðarmönnum gafst þá tækifæri að koma sér upp smá bústofni og nýttust nú margir moldarkofarnir sem fjárhús eða hlöður. Samtímis tóku þeir að rækta kartöflur með stuðningi verkamannafélagsinns Bárunnar sem reindist þurrabúðarmönnum sterkur bakhjarl.

 

Árið 1900 voru fjölskyldur verkamanna á Eyrarbakka um 75% af heildarfjölda íbúanna, en afgangurinn að mestu fjölskyldur landeigenda og vel stæðra útvegsmanna og kaupmanna, en þau tilheyrðu efri stétt samfélagsins. Danskir verslunarmenn við Lefolii verslun höfðu einnig djúp áhrif á þróun þorpsins, einkum hvað varðar menningu,listir og heilsugæslu og studdu oft dyggilega við hvert framfaraspor á þeim grundvelli. Þessi blanda skóp  samhelt samfélag þar sem allir litu á sig sem eina heild  þ.e.Eyrbekkinga. (Oft nefndir Bakkamenn af nærsveitungum.) Þó átti þorpið til að skiptast á köflum, annarsvegar í Austurbakka þ.e. land Háeyrar og svo hinsvegar í Vesturbakka í landi Skúmstaða, sem var í eigu verslunarinnar. Oft var rígur milli þessara landeigenda vegna deilna sem komu upp varðandi forgang að höfninni. Þá skiptust íbúarnir ósjálfrátt í tvær fylkingar, þ.e. Asturbekkinga og Vesturbekkinga. Þessi rígur hélst langt fram eftir 20 öldinni, meira þó í gamni en alvöru.

Heimild: m.a. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1985.

  • 1
Flettingar í dag: 23
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 266957
Samtals gestir: 34349
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:12:41