Færslur: 2007 September

27.09.2007 21:58

Brimið í dag


Brim í súld og sudda.
Það gekk á með hvössum rokum og rigningarsúld í dag og mældist úrkoma 31 mm á Bakkanum (31mm úrkoma/24klst  mælist nýtt dagsmet á Bakkanum) en er þó ekkert miðað við 220 mm á Ölkelduhálsi í Henglinum eins og fram kemur á veðurbloggi Einars Sveinbjörnssonar 
Í uppsveitum var rigningin drjúg, t.d. 38mm á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Stormur var á Stórhöfða að venju en einnig sló í storm á Sámstöðum á Rángárvöllum.Á Bakkanum fóru hviður mest í 19 m/s en annars var strekkingsvindur fram eftir degi,en síðdegis tók að rofa til. Þetta veður á rætur sínar að rekja til hitabeltisstormsins Jerry sem þaut hér framhjá og er líklega núna kominn á Norðurpólinn.

26.09.2007 21:26

Leiðindaveður.

Það sem menn kalla leiðindar veður hér um slóðir er þegar rigningin kemur flöt í andlitið í suðaustan strekkings vindi og þannig er veðrið núna,bara hund leiðinlegt. Töluvert hafrót og vaxandi brim er á Bakkanum í dag. Næstu daga er stórstreymt enda fullt tungl.Veðurspákonan í sjónvarpinu spáir áfram þessu hvassa blauta þúngbúna gráa slepjulega leiðindarveðri.

24.09.2007 12:02

Hvassviðrið


Það var ansi hvasst á landinu um helgina og hér sunnanlands fór meðalvindur upp í 34m/s á Stórhöfða um miðnætti aðfaranætur sunnudags með hviðum allt að 41m/s sem er 147,6 km/klst en það mundi nægja til að teljast styrkur 1.stigs fellibyls. En mesta hviðan var á bænum Steinum undir Eyjafjöllum þar sem vindur fór í 47 m/s á laugardagskvöldið. Á Bakkanum fóru hviður öðru hvoru upp í 20 m/s sem telst stormur en annars var allhvast eða strekkingsvindur.

Í dag eru tvö ár frá því að fellibylurinn Ríta gekk á land í Texas og varð 100 manns að bana. Fellibylurinn skildi eftir sig eiðileggingu upp á 5.8 billjón dollara í Texas og Louisana.Meðalvindhraði Rítu var um 192 km/klst sem svarar 53 m/s eða ríflega12 gömul vindstig.

22.09.2007 20:30

Beðið eftir storminum

Það var strekkingsvindur af NA á Bakkanum í dag og stormur á miðunum.

Úti fyrir ströndinni við Ölfusárósa liggur þessi fraktari fyrir akkerum og gæti verið að bíða af sér óveðrið suður af landinu.

Í Vestmannaeyjum hafa vinhviður farið upp í 38m/s þó veðrið hér sé skaplegra eða allt að 19 m/s í hviðum.

Eins og sést á myndinni þá er brimlaust á Bakkanum í dag.

21.09.2007 15:57

Blíðu veður á Bakka.



það var ekki svona gott veður  21.september árið 1865, en þá olli stórflóð miklu tjóni á fiskiskipum og sjógarðshleðslum á Bakkanum.

Undanfarið hefur verið rigningartíð Sunnanlands en þrátt fyrir það hefur lítið vatn safnast í Hópið framan við Steinskotsbæina. Hópið er reyndar gamalt sjávarlón sem lokaðist af  þegar sjórinn hlóð upp malarkambi fyrir framan það endur fyrir löngu. Síðan rann lítil á úr því til sjávar þegar hópið hafði nóg aðrensli ofan af mýrunum, en í dag er þarna aðeins smá pollur.

18.09.2007 08:44

Skolmórautt síki, gruggað upp af gröfu.


Nú í rigningartíðinni hafa hálf uppgrónir skurðir vart haft undan að flytja regnvatnið til sjávar og því ekki úr vegi að stinga niður skóflu. þetta síki sem hér er verið að dýpkva er rétt norðan við Bakkan á svokölluðu "Flóðasvæði" eins og það heitir á skipulagi.

Veðurstofan spáir norðanátt næstu dægrin svo þá byrtir til hér syðra en norðanmenn fá þá blessuðu rigninguna.

16.09.2007 16:45

Hvítnar í fjöll.


Það hafði hvítnað í fjöllin eftir norðan kalsaveðrið í gær og er Ingólfsfjall og Hengillinn komin með hvítan kúf. Frost -1°C var á Bakkanum undir morgun en á Kálfhóli sem er innar í landi náði frostið -4°C.
Nú er bjartviðri og norðanátt og má búast við frosti í nótt en á morgun er það rigningin samkvæmt þessari spá norðmanna.



I morgen kl 11 Regn 3,0 mm Svak vind Svak vind, 2,1 m/s fra søraust 1022 hPa

15.09.2007 14:01

Selfoss á afmæli.

SelfossÞorpið Selfoss verður 60 ára í dag og eflaust munu margir selfyssingar taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni dagsins þrátt fyrir veðrið. En á morgun mun þó rætast úr samkvæmt þessari ágætu norsku veðurspá
www.yr.no/sted/Island/Suðurland/Selfoss

Brim á Bakkanum óskar Selfyssingum til hamingju með daginn.

14.09.2007 18:23

Uppskera


Kartöflurnar spruttu ágætlega á Bakkanum þetta sumarið og nú er komið að því að taka þær upp  fyrir veturinn.

Annars var lítilsháttar næturfrost liðna nótt og komst í tæpar -2°C

13.09.2007 21:15

Rjúkandi brimstrókar.



Það var með glæsilegasta móti brimið í dag þegar hvöss norðanáttin feykti brimlöðrinu á loft og myndaði fallega stróka,en það voru fáir aðrir en heimamenn sem nutu fegurðarinnar á Bakkanum í dag.

Vindrokurnar náðu mest upp í 25 m/s
.

13.09.2007 16:12

Þytur í laufi.

það hvín í laufum trjánna nú þegar norðan bálið ríður yfir. Trjárækt er orðin mikil víða um land og ekki síst hér sunnanlands. þessu fylgir sérstakur hvinur þegar vindurinn blæs og hljómar mismunandi eftir tegundum trjáa.

12.09.2007 22:21

Met úrkoma?

Úrkoman sem féll á síðustu 24 klst var 75 mm samkvæmt vef veðurstofunar og telst líklega sólahringsmet fyrir þennan dag mánaðarins. Það næstmesta sem rignt hefur á Bakkanum að því er ég kemst næst var 14. nóv.1961 þegar mældist 100,5 mm á sólarhring en mesta úrkoma var mæld 6.janúar 1947 107,5mm

Á Selfossi flæddi vatn upp úr niðurföllum í kjöllurum þegar ræsi höfðu ekki lengur undan og voru slökkvuliðsmenn við dælurnar. Markaskurðurinn milli hinna fornu hreppa Eyrarbakka og Sandvíkur var svo orðinn barmafullur af vatni undir kvöld.

12.09.2007 13:39

Beljandi á Bakka.

Nú skvettir kári heldur betur úr klaufunum og ætti nú að fylla í skurðinn hjá Guðmundi bónda í þessu úrhelli. Velti því upp hvort bændur sem veita vatni af jörðum sínum í Þjórsá muni bara að gefa það Landsvirkjun þegar áin hefur verið virkjuð?
Kotferjutjörnin í henni Litlu Sandvík og Hópið á Bakkanum ættu líka að fá sinn skamt í dag.

11.09.2007 11:04

Hvað eitt síns tíma bíður

það er bjart yfir Bakkanum í dag en þó einhver svali í lofti sem veit á haustið, en í gær blés byrlega í lofti á meðan menn funduðu um skipulagsmál frystihúsreitsins og margur maðurinn steig þar í pontu og pexaði um húsagerðalist.

10.09.2007 12:03

Þeir sem eiga rigninguna verða ríkir í dag!

Landið bláa hefur nú skipt litum og allt er orðið grátt, því í dag er það lárétt rigningin og súldin sem ræður ríkjum sem við Sunnlendingar erum ekki alls óvanir og þó því sumarið fór okkur mildum höndum. En nú er komið haustið með vætutíð og vosbúð þeim sem úti hýrast en gleði þeim sem vatnabúskapinn yrkja og virkja og verðmæti þeirra fellur af himnum í dropatali. Þeir sem telja sig eiga rigninguna verða ríkir í dag, en það er nú einhvernvegin þannig orðið um það sem goðin gáfu þessum heimi.

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 2607
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 267090
Samtals gestir: 34352
Tölur uppfærðar: 25.11.2024 01:33:43