26.04.2009 23:20

Hrakningar á miðunum

Stórbrim eru ekki óalgeng eftir storma,en sjaldgæft að stórbrim komi skindilega.Að morgni þriðjudagsins 13 apríl 1926 var stórsteymt en afbragðs sjóveður og sást ekki bára á víðáttumiklum haffletinum þegar skipstjórar af Eyrarbakka og Stokkseyri komust á ról og gáðu til veðurs. Því var ákveðið að róa út á miðin enda afla von og lögðu 11 vélbátar út frá Stokkseyri en 7 frá Eyrarbakka. Meðal þeirra var Öðlingur vélbátur Árna Helgasonar í Akri. Þegar leið á hádegi brast hann á með þvílíkum sunnan stormi og sjógangi að þess voru fá dæmi hér um slóðir. Var nú öllum bátum stefnt til lands en aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka. Hinir 9 sem eftir voru lokuðust úti sökum brims og hröktust undan veðrinu sem stöðugt fór versnandi.

 

Þegar mönnum í landi þótti útséð með að bátarnir næðu höfn, var símað til Reykjavíkur og aðstoðar óskað. Var þegar brugðist við og þau skip sem til náðist látin vita og ekki leið á löngu, þar til 5 til 10 togarar voru komnir á vettvang og björguðu þeir áhöfnum tveggja báta frá Eyrarbakka og höfðu þá í togi. Meðal þessara togara var Skallagrímur RE, en hann hafði bjargað skipshöfninni af Öðlingi en báturinn sjálfur brotnaði og sökk. Um nóttina lágu togararnir fyrir flestum bátunum, en tveggja báta var þó enn saknað. Annar þeirra komst til Vestmannaeyja næsta morgun og hinn til Reykjavíkur. Stokkseyrarbátarnir komust svo síðar um daginn til Vestmannaeyja í fylgd með togurunum og varð enginn mannskaði af þessum hrakningum.

 

Heimild: Alþýðublaðið , 86. tölublað, Veðráttan apr.1926

Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219619
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 18:41:14