Blogghistorik: 2012 N/A Blog|Month_10

28.10.2012 21:41

Sú var tíðin, 1911

Vesturbúðir - Einarshafnarverslun 

Á þessu ári 1911 var verslun í hvað mestum blóma á Bakkanum og samkeppnin afar hörð, en þrátt fyrir það þótti verslunin vera arðbærustu og gróðvænlegustu fyrirtækin. Þær stóru verslanir sem kepptu um hituna voru, Einarshafnarverslun, Kaupfélagið Hekla, Ingólfsverslunin á Háeyri og Stokkseyri. Þá var verslun að vaxa við Ölfusárbrú, fyrir tilstuðlan "Brúarfélagsins" svokallaða. Um mitt sumar var byrgðastaðan orðin slæm og matvöru farið að skorta í búðunum. Þá var haframjölið vinsæla upp urið og ekki annað að gera en bíða og vona að haustskipin kæmu með fyrra fallinu. Harðar deilur urðu um hvort væri hyggilegra að leggja járnbraut til Reykjavíkur, eða byggja höfn í Þorlákshöfn. Franskir verkfræðingar komu um sumarið til að kanna hugsanlegt hafnarstæði ásamt fyrverandi ræðismanni Frakka, hr. Jean Paul Brillouin sem var tilbúinn til að koma með franskt fjármagn í hafnargerðina. Unnið var að símalagningu héðan af Bakkanum til Kaldaðarness. Áhöld til þess komu með strandferðaskipinu Perwie. Oddur Oddsson símstjóri í Reginn sá um það verk og var símalínan opnuð 26. ágúst 1911. Símalínan var lögð heim að Sandvík til Guðmundar hreppstjóra, og síðan frá Hraungerði upp að Kíðjabergi. Mannaferðir voru miklar á Bakkanum yfir sumarið, flestir á ferð ofan úr sveitum í verslunarerindum. Til halastjörnu sást á austurhimni frá 20. oktober og fram á vetur 3-4 stundir í senn. Atvinnuleysi gerði vart við sig þegar kom fram á veturinn og samgöngur spiltust. Þá dofnaði yfir þorpslífinu og lítið við að vera. Verslunin sem nú var vel byrg auglýsti jólaútsölur og staðgreiðsluafslætti.  Íbúafjöldi á Eyrarbakka var 750 manns árið 1911 og hafði þá fækkað um 13 frá fyrra ári. Fóru flestir til Reykjavíkur.

Skip inni á EinarshöfnSkipakomur og skipaferðir: "Perwie" kom hér að sundinu snemma vors, var þá ekki fært út sökum brims, hélt hún þá nær tafarlaust til Stokkseyrar og lá þar um nóttina, Í birtingu var orðið sjólaust, og beið hún þá ekki boðanna heldur hypjaði sig á braut hið snarasta, voru Stokkseyringar þá albúnir að fara út í skipið og sækja vörur sínar, en til þess kom ekki, Perwie var farin þegar fært var orðið, sumir sögðu jafnvel að hún væri farin til "helvítis". Vöruskip Einarshafnarverslunar,  Vonin og  Svend , komu bæði í byrjun maí og gátu þau komist hér að vandræðalaust. Kong Helge kom við hér um miðjan maí sem og Stokkseyri og skilaði af sér vörum og pósti. Aukaskip frá sameinaða gufuskipafélaginu hafnaði sig hér með vörur til Brúarinnar (Selfossi), Heklu og Einarshafnar. Timburskip til Ingólfsverslunar hafnaði sig hér einnig og annað timburskip til Ingólfs gekk á Stokkseyri. Faxaflóabáturinn Ingólfur kom hér við miðsumars og Perwie við sumarlok og sótti ull til Ingólfsverslunar. Um haustið snemma kom vöruskip Þorleifs kaupm. á Háeyri, Guðmundssonar dekkhlaðið varningi alskonar. Vonin, skip Einarshafnarverslunar kom svo 22. september eftir langa útivist.

Franskt saltflutningsskip, seglskipið Babette frá Paimpol strandaði á Fljótafjöru, í Meðallandi í marsbyrjun, en mikill floti franskra fiskiskipa var að veiðum við sunnanvert landið þá um veturinn og víða upp í landsteinum, innan um net heimamanna. Þilskipið Friða, bjargaði 6 skipshöfnum í Grindavík.

Íþróttir:

Nýjársdagurinn byrjaði með því að 5 ungir Eyrbekkingar þreyttu kappsund frá Einarshafnarbryggjunni, um 25 faðma. Varð þar skarpastur Ingvar Loftsson, synti hann leið þessa á 57 sek. og fékk að launum blekbyttu úr slípuðum kristalli. Hinir sem tóku þátt í sundinu voru: Ásgrímur Guðjónsson, Gísli Jóhannsson, Valgeir Jónsson og Jón Tómasson. Piltar þessir höfðu engrar sundkenslu notið, en lærðu að synda af egin ramleik. Í sjósund fóru þeir daglega þá um veturinn. J.D. Níelsen verslunarstjóri þjálfaði leikfimiflokk sinn af kappi þennan vetur og hélt leikfimisýningar í Fjölni við góðan róm. Lítið varð hinsvegar úr sumarmótinu á Þjórsártúni sökum óveðurs. Skotfélagið hélt æfingar úti við og dró að sér forvitna áhorfendur. Félag þetta var aðallega stofnað í því skyni að vekja áhuga á íþróttum, sérstaklega skotflmi. Stofnfélagar voru 20.

Fólkið:

Dbr. Brynjólfur Jónsson sagnaritari frá Minnanúpi sem dvalið hefur löngum á Bakkanum, kom til heilsu aftur, eftir slysfarir á fyrra ári. Geir Guðmundsson frá Háeyri kom til landsins, en hann bjó á Sjálandi og giftist þarlendri konu Marie Olsen. Stundaði hann hér jarðyrkju um sumarið ásamt Sjálenskum unglingi, Age Jensen er með honum kom. Geir seldi líka margskonar jarðyrkjuverkfæri til kartöfluræktunar, tæki, tól og vélar alskonar fyrir jarðyrkju. Simon Dalaskáld var hér á ferð að selja bækur sínar. Hann var förumaður frá Skagafirði, þó ekki umrenningur heldur einskonar skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá Hörgsholti opnaði hér á Eyrarbakka ljósmyndastofu. Bjarni Þorkellsson skipasmiður dvaldi hér við skipasmíði, hafði hann byggt vandaðan vélbát fyrir Þorleif Guðmundsson frá Háeyri. Var það fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var á Eyrarbakka. Uppskipunarbát smíðaði hann einnig þetta sumar, og a.m.k. tvö róðraskip þá um veturinn, en Bjarni hafði á sinni tíð smíðað yfir 500 báta og skip. Verksmiðjueigandi einn, C. H. Thordarson, frá Chicago, (Uppfinningamaður ættaður úr Hrútaflrði) hafði hér nokkra daga dvöl ásamt konu og syni, en konan var systir Ingvars Friðrikssonar, beykis á E.b. Hér voru líka á ferð tveir Rússar sem tóku að sér að brýna hnífa fyrir fólk, og var mörgum starsýnt á. Þeir föluðust líka eftir litlum mótorbát til kaups, en enginn vildi þeim selja og héldu þeir þá til Stokkseyrar. Bjarni Eggertsson héðan af Eyrarbakka var við silungsveiði í Skúmsstaðavötnum í Landeyjum og þóttist veiða vel. Sigurður Eiriksson regluboði var hér á ferð í vetrarbyrjun að heimsækja Goodtemplarastúkur og endurvakti stúkuna "Nýársdagurinn". Bjarni Vigfússon frá Lambastöðum var hér á Bakkanum um veturinn við smíðar. Meðal annars smiðaði hann skiði úr ask, sem þóttu vel vönduð. Skíðin voru smíðuð eftir norskri gerð og fylgdu tábönd eftir sama sniði. Það mun hafa þótt nýstárlegt hér syðra, að gera skíðasmíði að atvinnu sinni. Páll Grímsson, verslunarmaður á Eyrarbakka keypti Nes í Selvogi ásamt jörðinni "Gata" í sama hreppi, af Gísla bónda Einarssyni er þar bjó.

Stórafmæli:  Jórunn Þorgilsdóttir í Hólmsbæ hér á Bakkanum varð áttræð, en hún þótti merkiskona og sömu leiðis Gestur Ormsson í Einarshöfn.

Andlát: Helga Gamalíelsdóttir í Þórðarkoti, andaðist 85 ára að aldri. Jóhann Jónsson á Stóru Háeyri, rúmlega 70 ára að aldri. Guðrún Einarsdóttir, gömul kona á Eyrarbakka. Steinunn Pétursdóttir, kennara á Eyrarbakka, 10 ára að aldri, hafði sumardvöl í Fljótshlíð og lést þar af lungnabólgu. Kristín Jónsdóttir í Norðurkoti, háöldruð. Hún hafði lengi búið ein í kofa sínum og þótti einkennileg um margt. Helgi Þorsteinsson, á Gamlahrauni, varð bráðkvaddur 59. ára að aldri. Guðni Jónsson, verslunarm. hér af Eyrarb. Var lengi við Lefoliisverslun hér áður, en hafði flutti til Rvíkur árið 1910. Sigríður Lára, yngsta barn Guðmundar Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, ekki árs gömu.

Úr Manni og Konu í FjölniMenning: Leikfélagið á Eyrarbakka setti upp nokkur verk. Helstu leikarar voru Solveig Daníelsen, Jón Helgason prentari Karl H. Bjarnarson prentari, Pálína Pálsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir. Ungmennafélag Eyrarbakka hélt upp á 3ja ára afmæli sitt með skemtisamkomu, sem haldin var í Fjölni. Sá ljóður var á menningu þorpsins sem og annara þéttbýlisstaða við sjávarsíðuna að götubörnum var gjarnt á að atast í fólki, einkum drykjumönnum með skrílslátum og að viðhöfðum óæskilegum munnsöfnuði í þeirra garð sér til skemtunar. Seint gekk að uppræta þessa menningarvörtu á samfélaginu. Lestrarfélagið hélt áfram að lána út bækur og var mikið í það sótt. U.M.F.E. stóð fyrir alþýþufræðslu, þar hélt Einar E. Sæmundsen skógfræðingur fyrirlestur um skógrækt og heimilisprýði, "Trjáreitur við hvert einasta heimili á landinu", kvað hann ætti að vera heróp ungmennafélaganna, en áhugi fyrir skógrækt hér reyndist dræmur.

Fiskveiðar, landbúnaður og atvinna: Þorskanet voru nú orðin almenn veiðarfæri á opnum skipum sunnanlands, en veiðar á færi eða lóðir á undanhaldi. Steyptir netasteinar sem var uppfinning Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri gerðu veiðarnar meðfærilegri. Afli var tregur framan af vetrarvertíð og sjaldan gaf á sjó, en þegar leið fram í júní fiskaðist ágætlega en svo dró úr er á leið sumarið og vildu Eyrbekkingar kenna um erlendum trollurum sem krökkt var af. Lítið róið að haustinu og afli tegur þó róið væri. Bændur girtu lönd sín í auknum mæli, en slíkt nær óþekkt nokkrum árum fyr. Óðalsbóndi Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri vélvæddi sinn búskap að nokkru er hann tók í notkun hestdráttar rakstrarvél og arfareytingarvél, fyrstur bænda hér við ströndina, fyrir átti hann hestdráttar sláttuvél. Um sláttinn var fátt fólk heima við, enda lágu margir í tjöldum við engjaheyskap. Heyfengur virtist ætla að verða góður þetta árið, en síðsumars brast á með vætutíð, en hey öll náðust þó með haustþurkinum. kartöflu-uppskera var í meðallagi þetta haustið. Bakkabúar nokkrir fóru um sumarið austur í silfurbergsnámuna sem starfrækt var í Helgustaðafjalli við Reyðarfjörð. Unnu þar 10 saman alls og létu vel yflr árangrinum. Einn stein fundu þeir 100 pund, [50 kg] sem mun hafa verið seldur afarverði sökum stærðar og fegurðar, en dýrt þótti þeim að lifa þar eystra því matvara var þeim seld háu verði.

Tíðarfarið: Framanaf var tíðin rosasöm með frosthörkum. Stundum var allt að -16°C í febrúar. Sjógangur oft mikill. Afspyrnurok gerði af landsuðri 3. mars, og gekk sjór mjög á land. Á Stokkseyri rak upp mótorbát Ingólfsversunar á Háeyri, brotnaði hann nokkuð, og í sama veðri fauk bátur frá Óseyrarnesi og brotnaði i spón, sömuleiðis tveir róðrarbátar úr Gaulveijarbæjarhreppi. Um páska var allt að 12 stiga frost. Kuldar og rosar voru í maímánuði, vorið var mjög vætusamt framanaf og kalt, en þurviðri og dálitlir hitar í júní og byrjun júlí, en frá 7. og framyfir miðjan júlí voru miklar rigningar. Eftir miðjan júlí gerði þurviðri og fádæmamikinn kulda og hnekti það mjög mikið gróðri. Dag einn hvíttnaði í vesturfjöllin þó hásumar væri. Svo kom ágúst með hina indælustu sumarbliðu svo að hver dagurinn var öðrum betri -hitar og stillur. Með höfuðdegi lagðist í rigningar og sunnanáttir fram á haust, þá þornaði á ný. Lítilega snjóaði i oktober, en annars ýmist froststillur, þoka og súld. Fyrstu snjóar komu í byrjun nóvember en síðan umhleypingar.

Heimild: Suðurland 1911

18.10.2012 23:51

Sú var tíðin, 1910

Þetta var árið sem Þorleifur á Háeyri keypti Þorlákshöfn fyrir 32.000 kr, og Leikfélag Eyrarbakka sýndi í Fjölni gaman-sjónleikina: "Vinnukonuáhyggjur" og "Nábúarnir" við góðan orðstýr. Gripasýning fór fram að Selfossi þann 28. júní og vakti óskipta athygli áhugasamra. Þetta var líka árið sem Grímsnesvegurinn var lagður og sömu leiðis vegurinn upp á Dyrhólaey. Gróðrarstöð hafði Búnaðarfél. Íslands sett á stofn á Selfossi við Ölfusárbrú á þessu herrans ári. Að henni starfaði Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Þetta ár dó Magnús mormóni Kristjánsson í Óseyrarnesi og Ólafur söðlasmiður Ólafsson í Sandprýði, báðir ágætis menn.

Tíðarfarið: Bændur hér austanfjalls höfðu liðið fyrir harðan vetur sem varð þeim heyfrekur fremur venju og þegar leið að vori gerði hret  sem var vetrinum öllu verri. Næturfrostin hófust strax í ágúst. September var kaldsamur með snjó í fjöllum og einn dag snjóaði niður undir sjávarmál. Kom svo góður kafli með auða jörð fram til jóla. Öskufalls varð vart í Landmannahreppi þann 18. júní og víðar um sunnlenskar svetir.

Skipakomur og skipaferðir:  Sumarið 1910 komu óvenju mörg seglskip til Eyrarbakka, komu þá fimm allstór seglskip, þ.a.m. "Kong Helge" Höfðu mótorbátarnir þá í nógu að snúast með uppskipunarbátanna í togi. Verkafólkið vann nótt sem dag við vörulöndun og útskipun. Þá kom "Gambetta", aukaskip Thorefélagsins frá útlöndum með vörur til Ingólfsfélagsins. Strandferðaskipin sem sigldu á Sunnlenskar hafnir á þessum árum hétu "Hólar" og "Perwie" mestu dallar báðir. Seint um haustið kom járnseglskipið "Vonin", en það skip átti fyrrverandi Lefolii verslun og síðar Einarshafnarverslun. Var hún búin að eiga 49 daga útivist frá Bergen i Noregi vegna mótbyrs og óveðra, og var hún "talin af" bæði hér og i Kaupmannahöfn. Hér hitti hún þó á besta sjóveður og var með snarræði og dugnaði losuð á 5 sólarhringum, af duglegum Eyrbekkingum. Sorglegt var það hinsvegar að þá er skipið var komið hér í höfn, sendi stýrmaður símskeyti til konu sinnar í Kaupmannahöfn, um að hann væri hingað kominn heill á húfi, en fékk að vörmu spori það svar, að um sama Ieyti og hann náði höfn hér, hafði kona hans andast ytra og vakti það almenna hluttekningu þorpsbúa með stýrimanninum.

Íþróttir: Hið fyrsta sambands-íþróttamót ungmennafélaganna á Suðurlandsundirlendinu og kent er við Skarphéðinn, fór fram að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Glímuþátttakendur voru 18, hvatlegir piltar, vænir á velli og vel á sig komnir; allir í einkennisbúningi og undu áhorfendur vel við að virða þá fyrir sér áður en byrjað var, enda var veður hið besta, lofthiti og logn. 1. verðlaun, silfurskjöldinn, hlaut Haraldur Einarsson, frá Vík. 2. verðlaun Ágúst Ándrésson, Hemlu. 3. verðlaun Bjarni Bjamason, Auðsholti. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson, Stokkseyri og Haraldur Einarsson, Vík. Var hún allflestum nýstárleg íþrótt og klöppuðu áhorfendur lof i lófa. Einnig var keppt í fjölmörgum hlaupa og stökkgreinum.

Atvinna: Landbúnaður var stundaður að kappi á Bakkanum 1910 og vart litið við sjó um sláttinn, en nokkuð um að gert var út á síld frá Eyrarbakka og Stokkseyri þá um sumarið.

Götulýsing: Tvö gasljós voru til hér á Bakkanum 1910. Annað var úti við Einarshafnarverslun, en hitt ljósið var inni í Ingólfs búð, og nýttist til að lýsa vefarendum þar hjá, þegar hlerarnir voru ekki fyrir gluggunum. Annars voru steinolíu-luktir brúkaðar víðast úti við á dimmum vetrarkvöldum.

Heimild: Suðurland 1910

15.10.2012 21:44

Flotinn 1928-1969

Bátaeign Eyrbekkinga 1928-1969

Útgerðarár

Bátsnafn og nr.

Smíðaár

Tonnafjöldi

Eigandi

1928

Freyja ÁR 109

1916

9

Jóhann E Bjarnason ofl.

1928-1938

Freyr ÁR 150

1916

12

Jón Helgason

1928-1933

Halkion ÁR 168

1908

9

Vilbergur Jóhannsson

1928

Norröna  ÁR 139

1908

8

Guðmundur Ísleifsson

1928

Olga ÁR 166

1908

9

Páll Guðmundsson ofl.

1928

Sæfari ÁR 135

1914

6

Friðrik Sigurðsson ofl.

1928

Vöggur ÁR 151

1916

8

Ársæll Jóhannsson ofl.

1928-1929

Öðlingur ÁR 183

1926

12

Árni Helgason ofl.

1928

1937-1943

Öldungur ÁR 173

1923

9

Guðmundur Guðmundsson

Sigurður Kristjánsson ofl.

1929-1940

Björgvin ÁR 155 Gerður út frá Stk.eyri

1916

9

Jóhann Sigurjónsson

1929-1930

Svanur ÁR 171

1922

9

Friðrik Sigurðsson

1929-1930

Trausti ÁR 181

1914

10

Jóhann B Loftsson ofl.

1929-1932

Ölver ÁR 187

1929

12

Júlíus Ingvarsson

1939-1951

1952-1959

Ægir ÁR 183

1910

Seldur burt 1960

17

Magnús Magnússon ofl.

Gumann Valdimarsson ofl.

1943-1952

Gunnar ÁR 199

1921

12

Jón K Gunnarsson

1944-1955

Gullfoss ÁR 204

1930

10

Árni Helgason ofl.

1948-1955

Pipp ÁR 1

1925

14

Helgi Vigfússon ofl.

1951-1957

Mímir ÁR 22

1938

17

Óðinn H/F

1952-1958

Faxi ÁR 25

1939

Seldur burt 1959.

26

Sigurður Guðmundsson ofl.

1953-1969.....

Jóhann Þorkelsson ÁR 24

1943

28

Bjarni Jóhannsson & Jóhann Jóhannsson.

1956-1961

Helgi ÁR 10

1939

27

Vigfús Jónsson ofl.

1963-1969

Kristján Guðmundsson ÁR 15

1956

53

Ásþór H/F

1963-1964

Öðlingur ÁR 10

1946

51

Vigfús Jónsson ofl.

1964

Guðbjörg ÁR 25

1957

57

Sigurður Guðmundsson

1965-1969....

Þorlákur Helgi ÁR 11

1957

64

Vigfús Jónsson ofl.

1965

Jón Helgason ÁR 150

 

 

Eyrar H/F

1966-1969

Fjalar ÁR 22

1955

 

HE (Hraðfr.st.Eyrb.)

1968-1969....

Hafrún ÁR 28

 


HE

Heimild: Handrit á ensku Júl 1970 ljósrit : Fishing-ship at Eyrarbakki. Tekið upp úr sjómanna almanaki.

12.10.2012 00:01

Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka

Það voru nokkrir Árnesingar sem keyptu prentsmiðju árið 1910 og stofnuðu í framhaldi þess, Prentfélag Árnesinga og blaðið "Suðurland", sem þeir gáfu út á Eyrarbakka, og kom fyrsta blaðið út 13.júní 1910 og taldi 4 síður. Ritstjórar voru Oddur Oddson í Regin og Karl H. Bjarnason, en gjaldkeri var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Kom blaðið út nokkur ár en síðar var keypt annað blað, "þjóðólfur" hinn gamli og gefinn út um tíma hér á Bakkanum. Hann hætti að koma út 1918 og var prentsmiðjan síðan flutt til Reykjavíkur. Prentsmiðjan á Bakkanum var til húsa í kjallara í Nýjabæ (Vestara húsi). Oft var ekki hægt að prenta ef gerði mikið frost, því hitunarbúnaður var ekki fyrir hendi í fyrstu, þá háði starfseminni stundum pappírsskortur á stríðsárunum fyrri. Heimilisblaðið var einnig prentað og gefið út á Eyrarbakka auk bóka, bæklinga og rita ýmiskonar. Prentarar voru þeir Jón Helgason og Karl H Bjarnason. Í stjórn Prentfélags Árnesinga voru: sr. Gísli Skúlason á Stórahrauni, Guðmundur Þorvarðarson hreppstjóri í Sandvík, og Oddur Oddson gullsmiður í Regin. Í ritnefnd voru Gísli Skúlason áður nefndur, Guðmundur Sigurðsson sýslunefndarmaður, Helgi Jónsson sölustjóri, Jón Jónsson búfræðingur og Oddur Oddson áður nefndur.

Heimild: Suðurland 1910, Þjóðþólfur 1917, Skeggi 1919

05.10.2012 00:03

Frostaveturinn 1918

Sjaldan hafa eins miklir kuldar hrjáð landsmenn eins og veturinn 1918, nema ef vera skildi veturinn 1880 til 1881 sem talinn er að hafi verið mun kaldari. Engu að síður var veturinn 1918 nefndur "Frostaveturinn mikli". Mesta kuldatíðin hófst 6. janúar og stóð tæpar þrjár vikur hér sunnanlands en lengur fyrir norðan. Á sama tíma hafði verið viðvarandi kolaskortur í landinu til upphitunar vegna veraldar stríðsins sem þarfnaðist óhemju magns kolaeldsneytis. Á Stokkseyri og Eyrarbakka voru menn hræddir um að ísalög mundi brjóta bátana og þann veg eyðileggja útræðið í byrjun vetrarvertíðar, því með ströndinni mældist stundum -22°C og hefur þá mörgum þótt kalt í beituskúrunum á Bakkanum. Sumstaðar á landinu var þó mun meira frost, eða allt að -30 stigum. Hagalaust var á suðurlandi um veturinn alveg fram í febrúar, en þá tók að hlána hratt við suðurströndina með austan stórviðrum í stað norðan kaldviðra og um miðjan febrúar voru grös tekin að grænka. Hafþök voru þá fyrir öllu Norðurlandi, vestan fyrir Horn og suður með Austurlandi, en rekís eða íshrafl alveg suður að Papey. Tvö bjarndýr að minstakosti voru skotin á þessum vetri, annað í Sléttuhlið, hitt á Melrakkasléttu. Hvalir sáust dauðir í hafísvök norður af Siglufirði. Mannheldur ís var um tíma á höfninni í Reykjavík og á Seyðisfirði var lagnaðarísinn 10 þumlunga þykkur. Þá skemdist mikið af útsæðiskartöflum landsmanna vegna kuldana og sumstaðar fraus í brunnum. Í Vestmannaeyjum var sjávarhitinn aðeins 1 gráða þegar kaldast var. Drapst þá koli og sandsíli þar í hrönnum í höfnni. Sunnlenskir sjómenn töluðu um að hafstraumar væru harðari en venjulega þennan vetur, en yfirleitt er talið að óvenju mikil hafísmyndun, norðanstormar og háþrýstingur  hafi orsakað þennan mikla kulda á landinu. 

  • 1
Antal sidvisningar idag: 535
Antal unika besökare idag: 61
Antal sidvisningar igår: 2159
Antal unika besökare igår: 262
Totalt antal sidvisningar: 262984
Antal unika besökare totalt: 33950
Uppdaterat antal: 22.11.2024 08:33:41