Blogghistorik: 2007 N/A Blog|Month_10
31.10.2007 12:36
Allur snjór farinn.
Allur snjór er nú horfinn úr Flóanum eftir úrhellis rigningu í gærkvöldi. Flestum (88%) þótti liðið sumar hið allra besta í manna minnum samkv. skoðanakönnun. Íslendingar voru líka á útopnu að eyða sumrinu og peningum í ferðalög, nýja bíla, glæsihús, hjólhýsi og bókstaflega keyptu allt sem mögulegt var að kaupa, meira að segja lopapeysur á alla fjölskylduna, hundinn og köttinn. Ég sá að útlendingarnir hristu bara hausinn!
Veðurlýsingin á Bakkanum var þannig í hádeginu: Eyrarbakki NNV 6 m/s Skýjað Skyggni 18 km Dálítill sjór . 2,6°C 1000,1 hPa og stígandi loftvog.
30.10.2007 11:03
Vetrarríki
Flóinn klæðist hvítri dulu því nú ríkir vetur konungur og aðeins stráin standa upp úr mjöllini. Það er komin kafalds snjókoma og spáin hljóðar upp á umhleypingar næstu daga með rigningu,frosti og éljum.
Frostið fór mest upp í -4°C í gær á Bakkanum en heldur svalara var á Þingvöllum þar sem frostið náði -11°C í gærkvöldi og nótt.
Veðurlýsingin í hádeginu hljóðar svo: Eyrarbakki ANA 7 m/s Snjókoma Skyggni 0.6 km Dálítill sjór . 0,0°C 997,9 hPa og fallandi loftvog.
28.10.2007 13:05
Fyrsti snjórinn.
Fyrsti snjórinn féll á Bakkanum í nótt og í morgun. Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka 8.nóvember, þannig að veturinn er fyrr á ferðinni þetta árið.
Frostið er 0-4°C í Flóanum í dag, hlýjast við ströndina.
27.10.2007 22:39
Fyrsti vetrardagur
Það er fyrsti vetrardagur og orðið svalt í Flóanum og því vissara að vera við öllum veðrum búinn með góða lambhúsettu og vetlinga eins og hann Eiki sem lætur ekkert á sig fá þó hvessi með skúrum og slydduéljum öðru hvoru.
Það hefur gránað í Sunnlensku fjöllin og vísast er að veturinn er að banka uppá hjá Flóamönnum.
Heldur er að draga úr briminu á Bakkanum sem hefur verið með mesta móti síðustu daga. Margir hafa lagt leið sína í fjöruna og upplifað hina ógnþrungu krafta ægis sem hér áður fyrr var sjómönnum mikill farartálmi milli strandar og gjöfulla fiskimiða.
25.10.2007 10:50
Selfoss leikur á reiðiskjálfi.
Jarðskjálftar skekja nú Selfoss svo hús leika þar á reiðiskjálfi með undarlegum hvin. Bækur féllu úr hillum á Sunnlenska bókakaffinu í hádeginu samkv.heimildum. Skjálftahrinan hófst kl. 3 í nótt undir Ingólfsfjalli. Í hádeginu höfðu um 15 skjálftar mælst, sá stærsti kl. 12:06 um 3 stig segir á vef Veðurstofunar.
Sjá töflu!
Eflaust er uggur í mörgum, því enn er beðið eftir seinnihluta suðurlandsskjálft á þessum slóðum.
25.10.2007 09:11
Nesvað
það vex í Hópinu dag frá degi, enda hefur verið mjög úrkomusamt siðustu tvo mánuði. Í Hópið rann eitt sinn lækur sem hét Nesvað og frá því rann Háeyrará til sjávar en báðir lækirnir eru löngu horfnir og nú er aðeins regnvatnið sem safnast í þessa tjörn á haustin en yfir sumarið þornar hún upp. Á vetrum þegar frýs myndast þarna fyrirtaks skautasvell.
Stórbrim er á Bakkanum þessa dagana og sinfónía ægis ómar um allar eyrarbyggðir og slær Bethoven alveg út í kingimögnuðum leik sínum.
Nú er enn spáð stormi á þessum slóðum og má því búast við að faldar ægis feykist um.
23.10.2007 22:29
Kossar hafsins
Það gekk á með dimmum og hvössum skúrum í dag, eða með öðrum orðum "Leiðindartíð" Sjávarhæð er talsverð eftir beljandi sunnan storma að undanförnu. Þó enn séu nokkrir dagar í stórstreymi þá kyssir brimið gráan sjógarðinn þungum kossum enda stórbrim í dag.
22.10.2007 22:33
Rok
Það gekk á með stormi og úrhellis rigningu síðdegis og náðu sumar hviður 28 m/s um kl. 16 en þessi vindstyrkur var kallaður ROK í gamla daga. Úrkomumagnið sem helltist niður í dag mældist 21 mm á veðurathugunarstöðinni á Bakkanum og náði það ekki að fella dagsmetið frá 1983 sem var 23,3 mm.
Mesti vindur sem Veðurstofan mældi á láglendi kl.21 var 29 m/s á Skjaldþingsstöðum í Vopnafjarðarhreppi.
Annars finnst manni að búið sé að rigna mikið alveg frá því í lok ágúst eftir eitt þurrasta sumar í manna minnum og hlaut hann að hefna fyrir það.
Til gamans má geta þess að blautasti Oktobermánuður á Bakkanum var árið 1959 en þá mældist mánaðarúrkoman 321 mm. Blautasta árið á Bakkanum var hinsvegar árið 1953 en þá var ársúrkoman 1943,5 mm.
16.10.2007 14:30
Sjógarðurinn stenst vel tímans tönn.
Á árunum 1990-1997 var gerður voldugur sjóvarnargarður framan við hina fornu sjógarða á Eyrarbakka og eru nú 10 ár liðin frá því að þessum áfanga var lokið. Árið 1999 var sjóvörnin svo framlengd austur fyrir barnaskólann og sjóvörn gerð fyrir Gamla-Hrauni. Ekki verður annað séð en að garður þessi hafi staðið sig með mestu prýði þó ekki hafi enn reint verulega á hann af völdum stórsjóa. Garðurinn veitir þorpinu einnig gott skjól fyrir svalri hafgolunni á sumrin og söltu særoki vetrarins. Fyrstu sjóvarnargarðarnir voru hlaðnir um 1788 og eftir svokallað Stóraflóð árið 1799 en skipulögð sjógarðshleðsla meðfram allri byggðinni hófst í kringum1830
Meira:
14.10.2007 20:17
Stígvéladagar
Það hefur verið fremur blautt og vindasamt í Flóanum að undanförnu og töluvert brim úti fyrir. Úrkoma mældist 11 mm Eyrarbakka í dag sem er þó engin ósköp miðað við sl.föstudag (12/10), en þá heltust einir 26 mm ofan úr skýjunum í mæliglasið hjá veðurathugunarmanni okkar á Bakkanum og vantaði aðeins 4mm til að jafna dagsmetið frá 2004
það gæti látið nærri að það sem af er mánuðinum sé úrkoman yfir meðallagi,en það er þó ágiskun því meðaltalstölur fyrir Eyrarbakka eru ekki sérstaklega aðgengilegar.
11.10.2007 23:24
Margt býr í þokunni
Í morgun lá dularfull þokan dökk og dimm yfir Flóanum svo vart sá á milli húsa.Veðurspár höfðu gert ráð fyrir góðum degi með sól og blíðu hér sunnan heiða sem þó ekkert varð af því þokan þvöl læddist inn af hafi og þvældist upp í sveitir þögul og þung á brún eins og illur fyrirboði um hverfuleika heimsinns.
Um síðir létti þokunni,en þá dró að bliku (einnig í pólitíkinni) með regni eins og það sé ekki komið nóg af þessum sudda! og nú er beðið enn eins stormsinns sem veðurstofan hefur verið að vara við í dag. Þetta fer nú að verða ansi leiðinlegt.
01.10.2007 22:10
Hvasst og blautt-úrkomumet!
Það var víða hvassviðri í morgun og úrhellis rigning, einkum á vestanverðu landinu og Faxaflóa svæðinu. Hvassast var á Bakkanum kl. 5 í morgun þegar vindhviður náðu 21 m/s og sópuðu laufunum af trjánum sem eru nú flest að verða berstrýpuð.
Sólahringsúrkoma dagsins var 42 mm sem er dagsmet fyrir úrkomu. Eldra dagsmetið var 33mm 1988
Þann 27 síðasta mánaðar var einig úrkomumet þegar mældist 31 mm á stöð 923 en eldra met var frá 1993 þann 27 sept 30,9 mm
- 1