Blogghistorik: 2013 Länk
23.05.2013 20:52
Skýrsla um björgun við Stokkseyri
"Sunnudaginn 8. april 1923 var mb. Svanur frá Stokkseyri i fiskiróðri og flaggaði nauðsflaggi; sást það úr landi, var þá nálægt hádegi, og allir aðrir komnir i land er á sjó fóru um morguninn. Eftir nokkurn tíma varð Þórarinn Guðmundsson formaður á "mb.Frið" til búinn Svan til hjálpar, en hann krafðist þess að annar bátur kæmi með sér til hjálpar; fór ég undirritaður (Guðm. Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni) þá með honum á mb. Baldur. Náðum við fljótt í Svan; hafði vél hans stansað og drógum við hann inn að Stokkseyrarsundi, en lengra var eigi mögulegt að koma tveim bátum við til að draga Svan. Vindur var snarpur á suðaustan og allmikið brim. Slepti nú Svanur dráttartaug Baldurs, en Friður bjóst til að draga Svan inn sundið, en ég til að bíða fyrir utan brimgarðinn á meðan. Þá er Friður er kominn með Svan nálægt hálfa leið inn sundið slitnar dráttartaugin milli bátanna. Friður gat ómögulega snúið við vegna þrengsla,rak þvi Svanur hjálparlaus fyrir straum og vindi þvert af leið, vestur í brimgarðinn; gáfu þá skipverjar af Svan neyðarmerki; brá ég þá strax við og fór með fylsta hraða af stað, en þar ég var staddur nokkuð út á þegar Svanur slitnaði aftan úr Frið, hafði Svan rekið all-langt af leið, og var kominn svo langt vestur í brimgarðinn, að ég taldi hina mestu hættu að hálgast hann; þó réði ég af að reyna það, vék af leiðinni, og þrátt fyrir að brotsjóir féllu bæði dýpra og grynnra, tókst mér að komast svo nærri Svan, að auðið varð að kasta til hans dráttartaug, og síðan að draga hann inn á rétta leið til lands. Það mátti sannarlega heldur ekki seinna vera að i Svan næðist, þar um geta borið bæði skipverjar beggja bátanna, og alkunnir formenn og aðrir, sem úr landi voru áhorfendur. En guði sé lof að mér og skipverjum mínum tókst að koma Svan og skipshöfn hans heilum á húfi til lands, jafn illa og áhorfðist". Að þessi skýrsla sé sannleikanum samkvæm er ég fús til að staðfesta hvenær sem þurfa þykir.
Stokkseyri 10. mars 1923.
Guðmundur Karl Guðmundsson.
Ægir 1908
09.05.2013 21:43
Sú var tíðin, 1927
Upp voru runnir hallæristímar fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Stórverslunin var í kalda koli á báðum stöðum og upp leyst. Verslunarhús Stokkseyringa brunnin til ösku. Burðarás útgerðarinnar, sparisjóðurinn hruninn. Ótíð hamlaði róðrum stórum hluta vertíðar, svo ágóðinn var lítill sem enginn. Landbúnaður og garyrkja var þá eina bjargræðið um sinn. Kreppa ein blasti hinsvegar við með alla sína hnignun, og til að bæta grá ofan á svart, henti hörmulegt sjóslys og átta sjómenn féllu í valinn. Efiðleikar urðu með rekstur rafstöðvarinnar, og stefndi í óefni. Sitthvað ávannst í framfaramálum, þrátt fyrir allt: Símasamband komst á milli Eyrarbakka og Selvogs, sjómönnum héðan til öryggis er sóttu vestur á "Forir". Kvenfélagið fékk því áorkað að símasamband fékst að næturlagi við Tryggvaskála, svo unt yrði að kalla lækni upp til sveita, ef mikið lá við. Svo einhverstaðar í höfuðstaðnum skaut upp þeirri hugmynd að tómri sjúkrahúsbyggingunni okkar mætti breyta í betrunarhús og letigarð fyrir vandræðafólk úr Reykjavík. Kom þá dómsmálaráðherra hingað til að kanna aðstæður. Fleiri hugmyndir komust á kreik, t.d. að hefja þangbrennslu í stórum stíl. Kosið var til Alþingis og gengu yfir 300 mans til kjörklefans hér. Íbúar voru þá 701 og hafði fækkað um 53 frá fyrra ári. Á undangengnum fjórum árum höfðu íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri fækkað um 150 á hvorum stað. Eyrbekkingarnir fóru til Reykjavíkur, en Stokkseyringarnir til Vestmannaeyja. Hin svokallaða "borgarastétt" var nú að mestu horfin.
Verslun: Bændur hér í nærsveitum gerðu
núorðið stórinnkaupin í Reykjavík, enda hægara um vik á bílaöldinni.
Austanbændur fengu skip að Hallgeirsey og víðar í austursýslum. Það leiddi til
þess að verslunin á Eyrarbakka varð í kalda koli. Fyrir stærstu verslun
suðurlands, "Heklu" var ekki annað að gera en að reyna að sitja fyrir nærsveitarbændum
og bregða fyrir þá fæti, með því að flytja verslunina að þjóðbrautinni eða
deyja ella. Því tók Guðmundur Kaupfélagsstjóri það ráð að flytja verslunina á
Selfoss, undir merkjum Kf. Höfn, en kaupfélagið (Samvinnufélagið) Hekla var
leyst upp. [Hús öll voru seld eða leigð og vörubirgðir, vefnaðarvörur seldar á
útsölu í Reykjavík.] Þá var Andrés Jónsson verslunarmaður hættur með búð sína
hér og fluttur í höfuðstaðinn. Samt sem áður voru ekki allir verslunarmenn hér
við ströndina af baki dottnir, þó bændaverslunin væri liðin tíð. Otto
Guðjónsson klæðskeri kom sér fyrir í Skjaldbreið, húsi Guðmundar og saumaði föt
á sunnlendinga. Ólabúð, verslun Ólafs Helgasonar átti sína föstu viðskiptamenn
á austurbakkanum, auk þess sem þar var rekin leigubifreiðaþjónusta. Ágæt
byggingavöruverslun var í timburverslun Sigurjóns P Jónssonar. Guðlaugur Pálsson
átti sína föstu viðskiptamenn á vesturbakkanum. Aðrir höndlarar voru líka enn á
róli þó illa horfði með framtíðina. Á
Stokkseyri hélt Ásgeir Eiríksson o.fl. sínu striki, en verslun þar átti í sömu
vök að verjast. Bakarí var nú eitt hér eftir í brauðgerðarhúsinu, er keypt
hafði Lars Lauritz Andersen bakari af Kf. Heklu. Hafði hann fyrrum verið bakari
hjá Lefolii og Einarshafnarverslun. Hvað sem öllu leið þá var bændaversluninni á
Eyrarbakka með öllu lokið, en hún hófst árið 1578 þegar danir settu hér upp
selstöðuverslun.
[Johan Chr. Sunckenberg, keypti Eyrarbakkaverslun og jarðirnar
Einarshöfn og Skúmsstaði 25. júlí 1795 af hinni konunglegu íslenzku- og finnmersku-verzlunarnefnd,
fyrir 319 rd. 85 sk. Verzlunarstjóri Sunckenbergs var þá Niels Lambertsen.
Þegar Sunckenberg dó, gerðist Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka og keypti
jarðirnar af búi Sunckenbergs, 16. marz 1807, fyrir sama verð. Verslunin kemst í eigu Lefolii árið 1868]
Skipaferðir: "Bro" kom hingað til Eyrarbakka og
Stokkseyrar á vegum Eimskipafélagsins með vörur að utan. Þá kom norska
kolaskipið "Aglo" en þegar það var að leggja af stað héðan þann 13. júlí til
Grindavíkur að sækja fiskúrgang, bilaði vél þess og skipið strandaði, og gekk
kjölur þess undan, en veður var stilt og brimlaust. Skipið náðist út aftur 16.
ágúst, eftir að viðgerð á því hafði farið fram. "Aglo" var seglskip með hjálparvél og var um
250 tonn. Gullfoss kom hér við tvö skipti frá útlöndum. Lefolii eldri, gerði
skipaleguna
[Nokkuð örugg skipalega var á Eyrarbakka frá 1868 sem J.R.B. Lefolii lét útbúa með öflugum
járnhlekkjafestingum, þvert um lónin, sem skipin gátu svinglað við og snúist
sem vindhani. Áður voru skipin "svínbundin" við skerjafestur, og gat komið
fyrir að skip slitu sig frá. Bryggju lét hann byggja, með sporbraut heim að vöruhúsinu. Var ekið þar
nokkrum þungum hlössum í senn, og heilum förmum, á brautarvögnum, áratugum
saman, meðan kolin voru borin á bakinu í Reykjavík.]
Slys: Snemma dags 5. apríl fóru allir
bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín.
En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um öll netin, og lögðu því til
lands aftur. Þá voru tvo
flögg dregin á stengur í landi til aðvörunar fyrir sjómenn héðan um að leita
sem skjótast til lands, því sjór var tekinn að brima [Þrjú flögg táknuðu ófær
sund]. Klukkan að ganga tvö e.h. voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur.
Einn þeirra var "Framtiðin". [Sæfari 1] Kom hún um kl. 1:30 upp að brimgarðinum og sætti lægi [beið nokkra
stund við Bússusund]. Þá var kominn hornriðabrim [ afar háar kviköldur og
hvítfyssandi fallsjóir, bæði af hafsjó og stormöldu]. Báturinn lagði inn við hentugt lag og er hann var
kominn nokkuð inn á sundið [við "Brynka"2] skall yfir hann svo hár
og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk
á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn, þeir hétu: Guðfinnur Þórarinsson, formaður,
kvæntur, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, (rennismiðs Jónssonar) Leifseyri,
kvæntur, 6 barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgvin (Smáskamtalæknis
Ásgrímssonar) giftur, átti tvö börn. Sigurður Þórarinsson, (sjómanns Jónssonar)
Vegamótum, ógiftur. Kristinn Axel Sigurðsson,(Sigmundssonar) Túni, ógiftur, hann
var 20 ára. Jónas
Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson,
Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, (Fæddur 1904, Skósmiðs Guðbranssonar)
Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þessir menn voru af Eyrarbakka, alvanir
sjómennsku og einvala lið3.
[1. Guðfinnur hafði þá
nýverið keypt hlut Kristins Vigfússonar í bátnum "Framtíðin" með mági sínum
Sigurjóni Jónssyni fiskimatsmanni og
nefndi hann "Sæfara" eftir eldri báti hans sem gjörónýtist í vonsku veðri á
síðustu vertíð.]
[2. Utarlega á sundinu
er boði, sem "Brynki" nefnist. Afar sterkur vestur-straumur (í vesturátt) er
í sundinu og ræður útfallið og fráfallið úr Ölfusá, miklu, hvað strauminn
snertir, svo og vindurinn, sem var afskaplega harður af austan þennan dag. Þegar
lagt er inn á sundið, þarf að gæta þess, að vera svo vestarlega "í
sundkjaftinum", sem mögulegt er og sneiðskera það síðan alla leið inn úr,
hálf-flötu skipi fyrir sjóunum og er skerið "Brynki" þá einna hættulegast,
enda varð sú raunin á, þegar báturinn fór þar framhjá tekur brot sig upp í
skyndi, án þess þó að falla, en skellur svo hart á hlið bátsins að hann veltur um
og sekkur ofan í brimgarðinn. Er það talið orsökin til þess að svona fór, að
boðinn var hár og svo þunnur og sjólítill, að báturinn hafði ekki nægan sjó til
stuðnings á hléborða.]
[3 Verkamannafélagsið Báran á Eyrarbakka fékk Rikarð Jónsson til að gera skjöld
til minningar um sjómennina, er fórust mað Sæfara. Efnið í skildinum; er eik.
Þar halda tvær hafmeyjar á hörpudiski, en utan um hann slöngva þær þarablöðum. Í
hörpudískinum er silfurplata, og eru þar á grafin nöfn hinna föllnu vikinga.
Skjöldurinn er alveg einstakur í sinni röð. Verkamannafélagið Báran gaf
kirkjunni síðan skjöldinn og er hann þar enn í dag. Meira en 20 íslenskir
sjómenn drukknuðu á þessu sama ári]
Svo orti Maríus Ólafsson um slys þetta:
Harmafregn minn huga grípur.
Hetjur lít með víkingsbrag
inn á sundið báti beita;
brimið virðist gefa lag.
Horfi eg á hafsins ógnir,
háan rísa öldufald.
Sé ég Ægi æðisgenginn
yfirstiga mannlegt vald.
Samfélagið: Á Eyrarbakka að tilhlutun
Alþýðusambands Íslands var stofnað
fulltrúaráð meðal jafnaðarmanna í Árnessýslu. Verklýðsfélögin "Báran" á
Eyrarbakka og "Bjarmi" á Stokkseyri voru þáttíakendur í fulltrúaráðinu, og
áttu sæti í því stjórnir beggja félaganna. Í stjórn voru kosnir: Ingimar
Jónsson, prestur að Mosfelli í Grímsnesi, Bjarni Eggertsson búfræðingur,
Eyrarbakka, Guðmundur Einarsson verkamaður, Stokkseyri, Bergsteinn Sveinsson
verkamaður, Eyrarbakka, og Nikulás Bjarnason verkamaður, Stokkseyri. Ungur
skáti Eiríkur J. Eiríksson, 16. ára tók að þýða skátabók "Ég lofa" af dönsku
eftir "Wilhelm Bjerregard" og var góður rómur gerður að.
Samgöngur: Bifreiðastöð Eyrarbakka sem Ólafur
Helgason átti, var nú gerð út frá
Lækjartorgi í Reykjavík. B.S.R og Steindór veittu stöðinni hörku samkeppni.
Sjávarútvegur: Vel fiskaðist þegar gaf á sjó, en
ótíð mikil hamlaði veiðum oft á tíðum. Þegar upp var staðið gaf vertíðin lítið
sem ekkert í aðra hönd. Haustvertíðin var stopul, en ýsuafli góður þegar gæftir
voru, 3 bátar réru. Nokkuð betur gekk á Stokkseyri, en þaðan réru 10 bátar.
Landbúnaður: Búnaðarfélagið hér lagði inn umsókn
um að fá að kaupa "þúfubana" til að slétta tún.
Heilsufar: Kighósti kom upp á Eyrarbakka og
Stokkseyri, en væg nema börnum nokkrum sem bólusett höfðu verið. Heilsufar
annars með ágætum.
Látnir: Margrét Jónsdóttir, bústýra
Einarshöfn (89?), Sigríður
Jónsdóttir, Litlu-Háeyri
(86), Guðbjörg
Árnadóttir, Torfabæ (84), Sólveig Magnúsdóttir, Kaldbak (78), Ingibjörg Jónsdóttir, Einarshöfn (77), Kristbjörg
Einarsdóttir, Skúmstöðum (77), Guðbjörg Gunnarsdóttir frá Litlu-Háeyri (64) [bjó
í Hafnarfirði], Jónas
Einarsson, sjómaður Garðhúsum (60) [fórst með "Sæfara"], Guðfinnur Þórarinsson, formaður Eyri (45)
[fórst með "Sæfara"], Sigurður
Þórarinsson Vegamótum (40) [fórst með "Sæfara"] Gísli Björnsson, þurrabúðarmaður Litlu-Háeyri (39)
[fórst með "Sæfara"], Páll Guðmundsson, sjómaður Leifseyri (31)[fórst með "Sæfara"],
Ingimar Jónsson, sjómaður Sandvík (23)[fórst með "Sæfara"], Kristinn Sigurðsson, sjómaður Túni (19)[fórst
með "Sæfara"], Gestur Jónsson, Nýjabæ (17), Vilhjálmur Kristinn Þorbjörnsson,
Blómsturvöllum (1).
[Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Sigurðsson fyrrum sparisjóðsstjóri
á Eyrarbakka. Jakob
Bjarnason (f.1874 í Sviðugörðum Gaulverjabæ) undirforingi í lögreglu Seattle U.S.A. Hann var maður mikill í vexti og bar
höfuð og herðar yfir annað fólk. Bar hann viðurnefnið "Big Jake". Jakop Andreas Lefolii kaupmaður, í danmörku. Ásgrímur Adólfsson í Washington Island, Wis., U. S. A.
en hann var frá Stokkseyri, og kona hans frá Eyrarbakka.]
Sveitin og Sýslan: Mjólkurbúi fyrir Sunnlendinga var fundinn
staður í "Flóanum" austan við Selfoss.
Tíðin: Í febrúar komst hitinn í 8°C og mesta frost -11°C. Í
mars var ekkert frost á Bakkanum, og hæst fór hitinn í 10°C. Apríl var
úrkomusamur, 30% yfir meðallagi. Mánuðurinn var frostlaus og mestur hiti 9,5°C.
Í maí steig hitinn í 18,5 stig, en frost mældist mest -4,8°C. Heldur bætti í
hitabylgjuna er kom fram í júní, mældist þá 21.7°C og í júlí 25,8 stig og 20
stig í ágúst. Enn var hlýtt í byrjun september og bar hæst 18,9°C, en svo kom
frostið er á leið. Í oktober var mest frost -6,3 stig.
Heimild: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg, Lögrétta,
Heimskringla,Tíminn. gardur.is
Tímarit: Samvinnan, Veðráttan, Ægir, Verkamaðurinn.
- 1