Blogghistorik: 2012 Visa kommentarer

22.07.2012 22:50

Brim

Það brimaði talsvert á Bakkanum í dag eftir storminn sem slóst með suðurströndinni í gær. Það var strekkingur á Bakkanum og nokkrar rokur af og til, en ekkert aftakaveður. Talsvert hefur ringt í dag eftir einn lengsta þurkakafla sem komið hefur á þessum slóðum, en vart hefur komið dropi úr lofti í allt sumar og jörð því orðin skraufa þurr. Einhver dýpsta sumarlægð sem komið hefur hér við land er um þessar mundir að færast yfir landið, en hún mælist nú 973.8 hPa hér á Bakkanum.

20.07.2012 00:32

Svíar mynda á Bakkanum

Eyrarbakki er leiksvið sænskrar kvikmyndar  sem framleiðslufyrirtækið Little Big Productions er að vinna að ásamt íslenska kvikmyndafélaginu Hughrif. Sagan hefst í Svíþjóð en flyst svo yfir í eigin heim aðalpersónanna þar sem Bakkinn gegnir hlutverki sögusviðsins. Hið sérstaka og myndræna umhverfi þorpsins hefur heillað hina sænsku kvikmyndagerðamenn sem eru þessa dagana önnum kafnir við tökur, en áætlað er að þær standi yfir í fimm vikur.

20.07.2012 00:13

Gangstéttaframkvæmdir

Framkvæmdir við nýja gangstétt standa nú yfir við Eyrargötu frá Álfstétt að Háeyrarvegi, en verktaki er Bergþór ehf og hefur verkinu miðað vel áfram. Jarvegsskiptum er lokið og nýir ljósastaurar hafa verið settir niður, en þeir koma til með að breyta svipmóti götunnar til batnaðar ásamt steinlagðri gangstétt sem verður nokkuð breiðari en sú sem fyrir var. Gangstéttarmál hafa verið mikið í brennidepli á Bakkanum síðustu ár, enda margar orðnar gamlar og illa farnar.

15.07.2012 22:37

Brynjólfur Guðjónsson

Brynjólfur GuðjónssonBrynjólfur [Sonur Guðjóns Jónssonar bónda og formanns á Litlu-Háeyri (1865-1945), og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna-Núpi (1879-1957)] var fæddur að Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 19. nóvember 1915 og bróðir Sigurðar Guðjónssonar á Litlu-Háeyri er lengi var þjóðkunnur skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Skallagrími. Brynjólfur var kornungur, er hann réðist á togara. Fyrst fór hann á Þórólf, til Kolbeins föðurbróður síns, en er Sigurður bróðir hans varð skipstjóri á Skallagrimi árið 1936, réðist hann þangað og var þar æ síðan. Brynjólfur átti hlut í litlum bát á Eyrarbakka, Hafsteinn ÁR-201 sem róið var á í frístundum og var hann formaður fyrir honum. Brynjólfur, kvæntist 1945 Fanneyju Hannesdóttur og áttu þau eitt barn. Togarinn Skallagrímur, fór í eina af sínum hefðbundnu veiðiferðum sumarið 1946. Í þessari ferð var komið við á Patreksfirði og var settur þar í land maður er fengið hafði blóðeitrun, en skipið hélt svo áfram og byrjaði að toga út af Önundarfirði. Laugardagsmorguninn 6. júlí var Skallagrimur að veiðum undan Barða. Um hálf ellefu leytið festist varpan skyndilega í botni og rifu vírarnir upp síðupollann stjórnborðsmegin. Fjórir háseta, er við vinnu voru á þilfari, urðu fyrir vírunum og stórslösuðust, en Brynjólfur var einn þeirra. Reynt var að hjúkra þeim, svo sem kostur var á um borð. Jafnskjótt og pollinn hafði losnað var höggvið á vírana og stefnt með fullri ferð til Flateyrar og var komið þangað rétt fyrir hádegi. Um það bil, er skipið var að koma i höfn, andaðist Brynjólfur, en hann hafði aldrei komist til meðvitundar frá því hann slasaðist, en annar hinna slösuðu háseta lést einnig skömmu síðar.

Heimild: Ægir 1946, Þjóðólfur 1946  http://www.facebook.com/notes/b .. Útgerð og bátar frá Eyrarbakka

01.07.2012 22:51

Knarrarósviti/ Baugstaðarviti

Loftstaðahóll var talinn heppilegasta vitastæðið á standlengjunni milli Ölfusár og Þjórsár. En  þegar farið  var að  bora í hólinn,  reyndist  þar ekki  fáanleg nógu traust  undirstaða og  var  þá horfið að því  ráði, að  reisa vitann við Knararós á Baugstaðakampi. Var byrjað á byggingunni í  september 1938 og lokið við að koma henni upp í nóv.  sama  ár. Sumarið 1939 var unnið að því að setja ljóstæki í vitann og ganga frá  honum að öðru leyti. -  Þann 31. ágúst það sama ár var vitinn vígður og tók hann samdægurs til starfa.

Vitinn stendur 4 m yfir sjávarmáli, en hæð hans frá jörðu er 26 metrar. Hann er byggður úr  járnbentri  steinsteypu. Veggirnir eru mjög  þunnir, m.v. vita erlendis, eða 20 cm. Að utan er hann  pússaður með  kvarsi. Í gluggunum var allsstaðar svokallað gangstéttargler sem var  grópað í veggina. Smíði vitans var meðal  annars miðað við  það, að viðhald  hans yrði sem ódýrast, en  jafnframt reynt að  hafa  hann  rammgeran og var því enginn viður notaður nema í stigann. Linsan í ljóstæki Knararós vita er 500 mm og  upphaflega var 50 l. gasbrennari til ljósgjafar og fékst með því 6100  kerta Ijósmagn. Ljóssvið vitans var þá 16 mílur. Fyrsti vitavörðurinn var Páll Gunnarsson bóndi á Baugsstöðum og þurfti hann að sinna vitanum annan hvern dag. Teikninguna af vitan um gerði Axel Sveinsson verkfræðingur, en verkstjóri  var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.

Heimild: Ægir 1939
  • 1
Antal sidvisningar idag: 420
Antal unika besökare idag: 61
Antal sidvisningar igår: 2159
Antal unika besökare igår: 262
Totalt antal sidvisningar: 262869
Antal unika besökare totalt: 33950
Uppdaterat antal: 22.11.2024 08:12:28