Blogghistorik: 2013 N/A Blog|Month_3
23.03.2013 22:00
Sú var tíðin, 1922
Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru árið 1922 samtals 945. Hafði fjölgað um 15 manneskjur frá fyrra ári, en það var fækkunnar ár. Bryggjugerðarmálin voru í brennideppli, enda löndunarskilyrði fyrir mótorbátana afleitar. Alþingi samþykkti 16.000 kr. styrk til bryggjugerðarinnar. Sjúkrahúsið* var nú í byggingu og vonir stóðu til að starfsemi þess gæti hafist að ári, enda þörfin brýn. Hreppsnefndarkosning fór fram á árinu og má segja að verkamannafélagið "Báran" hafi verið kosin, eða þeir Bjarni Eggertsson formaður félagsins, Einar Jónsson sem var ritari fyrir verkamannafélagið og Tómas Vigfússon. Þá var kosið til Alþingis og á Eyrarbakka greiddu 128 kjörgengir atkvæði**. Á Stokkseyri 98 og í Sandvíkurhreppi 39 og aðeins 30 í Ölfusi, en þar voru 150 manns á kjörskrá. Fram buðu 5 listar.
[*Sjúkrahúsið átti að heita "Eyrarspítali" og var Eyrarbakkahreppi fært það til eignar og reksturs af sýslunefnd haustið 1922. Það kom þó aldrei til þess að sjúkrahúsið tæki til starfa eins og til stóð. Fé var veitt úr sýslusjóði 1923, til að ljúka gerð þess en Eyrarbakkahreppur hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að hefja rekstur í húsinu á egin reikning og pólitísk sátt um ríkis-eða sýslufé til rekstrarins ekki fyrir hendi. Málgagn Samvinnumanna "Tíminn" skrifaði mjög harkalega gegn þessu framtaki Sunnlendinga því væntingar stóðu til að hefja byggingu Landspítalans í Reykjavík um þessar mundir og átti sá spítali að uppfylla þarfir Sunnlendinga fyrir sjúkrarúm er til kæmi. "Eyrarspítali" varð síðar fangelsi.] ( "Tíminn" gerði einnig harða atlögu að Sparisjóði Árnssýslu í skrifum sínum.)
[**D-listi Íhaldsmanna
vann kosningarnar á landsvísu, þá B-listi Samvinnumanna, C-listi kvennaframboð
sem kom að manni (Ingibjörgu H. Bjarnason), A-listi verkamanna og E-listi, hægra
sinnað framboð rak lestina.]
Útgerðin: Aflabrögð sögð góð hér við ströndina í byrjun
vertíðar og uppgripa afli er á leið. Tilraunir voru gerðar hér með snurrvoð (snurrevaad),
en þær veiðar þóttu ekki borga sig. Afli mest steinbitur og koli. Um haustið
aflaðist vel og dag einn komu 21.000 fiskar að landi. Það var kallað "Mokfiskirí".
Skipaferðir: Hingað á Eyrarbakka og Stokkseyri kom Es.
Gullfoss að taka ull, í stað Es. Suðurlands sem hafði verið í slipp um langan
tíma. Ekki er getið um önnur skip hingað þetta sumar.
Verslun: Kf. Hekla og Kf. Ingólfi, héldu enn velli þrátt fyrir erfiðleika ýmiskonar. Nú var orðið erfiðara um aðföng og fluttningar dýrir þegar skip fengust
ekki til að sigla til Eyrarbakka, beinustu leið, eins og fyrum. Samkeppni var
einnig mikil við litlu búðirnar, bæði hér og við Selfoss og síðan einkaleyfisverslun
sem ríkið var að koma á með ýmsar vörur. Kaupmenn sumir, hér og á Selfossi
freistuðust til að halda í góða kúnna með því að veita þeim áfengi, en það var
einkar illa séð af Templaramönnum.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru u.þ.b. þrisvar í viku fyrst um sinn en daglega er á leið sumarið. Um
farþega á þessari leið kepptu tveir aðilar: Bifreiðastöð Steindórs Einarssonar
og Bifreiðastöð Reykjavíkur, en fyrir þá ók Eyrbekkingurinn Steingrímur Gunnarsson.
Félagsmál: Samkomuhúsið Fjölnir var vinsæll og fjölsóttur
fundarstaður fyrir hin ýmsu málefni sýslunnar. Verkamannafélagið "Báran" á
Eyrarbakka samþykkti eftir 5 klst. fundarhöld að ganga inn í Alþýðusamband
Íslands og sömu leiðis gerði verkamannafélagið "Bjarmi" á Stokkseyri eftir 6
tíma fund. Félagar í "Bárunni" voru þá 150 talsins og 110 félagar í "Bjarma". Í
fiskideildinni "Framtíðin" á Eyrarbakka sátu: Guðmundur Ísleifsson óðalsbóndi á
Stóru-Háeyri. Bjarni Eggertsson, búfræðingur Eyrarbakka. Sigurjón Jónsson,
útvegsmaður Eyrarbakka. Oddviti Eyrarbakka var Guðmundur Jónsson. Á Bakkanum
birtust pólitískar kanónur snemma sumars í kosningasmölun, * annarsvegar
Moggamennirnir Jón Magnússon fv. forsetisráðherra og Magnús Guðmundsson, fv. ráðherra
og fimm manna her Alýðuflokksins, þ.á.m. Þorvarður Þorvarðsson og Ottó
Þorláksson.
[* Fyrr á árum skipuðu
Eyrbekkingar sér í tvær fylkingar, annarsvegar "Austurbekkinga" er fylgdu gjarnan
Háeyrarbóndanum að málum og "Vesturbekkinga" er oft fylgdu Lefolii gamla að
málum, en þessir höfðingjar elduðu stundum grátt silfur út af skipalegunni á
meðan þeir réðu hér ríkjum. Nú skipuðust fylkingar á annann veg, enda hagsmunirnir
aðrir. "Íhaldsmenn" er gættu sinna hagsmuna í verslun og þjónustu, (einkum
gagnvart "Samvinnumönnum" er voru að ná völdum yfir bændaversluninni í landinu.)
og "Krata" er höfðu völdin í verkamannafélaginu og sveitarstjórninni. Þessar
tvær fylkingar íhaldsmanna og krata hafa síðan lengi eldað gráa silfrið á
Bakkanum.]
Menning: Eggert Stefánsson söngvari og Sigvaldi Kaldalóns
komu hér á Bakkann og Stokkseyri, héldu tónleika í kirkjunum á báðum stöðum.
Skóli: Herdís Jakobsdóttir frá Húsavík hélt nokkur
handavinnunámskeið við barnaskólann. Merkastar afurða þóttu gólfmottur, sem
gerðar voru af úrgangsköðlum, er mikið féll til af á verstöðvum, og skór úr
hrosshári, er fengu sérstakt lof gagnrýnenda. Þá var m.a. kennari hér, Ingimar
Jóhannesson.
Slysfarir: Í apríl 21. druknaði á Eyrarbakka Þórarinn Jónsson
í Frambæ [f. Stóra-Núpi],kvæntur Guðrúnu Jóhannsdóttur og átti 2 börn. Vélbátur,
sem var á heimleið utan af sjó, tók niðri á skerjagarðinum úti fyrir höfninni
og stóð fastur. Hann dró á eftir sér róðrarbát hlaðinn fiski. Róðrarbáturinn losnaði
aftan úr, hvarf og sökk. Tveir menn lentu í sjónum og náðist annar með
lífsmarki. Eigandi bátsins var Guðm. Guðmundsson kaupfélagsstjóri og formaður
var Gísli Jónsson frá Þorlákshöfn. Atli frá Stokkseyri fórst þar í innsiglingu
á boða sem"Skjótur" nefnist og með honum 7 menn af Stokkseyri: Bjarni
Sturlaugsson formaður frá Starkaðarhúsum, Einar Gíslason bóndi frá Borgarholti,
Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónssonar á Stokkseyri, Þorkell
Þorkelsson frá Móhúsum, Guðmundur Gíslason frá Brattsholtshjáleigu, Markús Hansson
frá Útgörðum og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum. Fjögur skip reru frá Stokkseyri
og tvö af Eyrarbakka þennan dag, er skyndilega gerði brim allmikið, en þeim
tókst að lenda.
Látnir: Vilborg Erlendsdóttir,ekkja á níræðis aldri. Aldís Vigfúsdóttir frá Gygjarsteini
(83). Snorri Þórðarson frá Bráðræði (77). Guðleif Sæmundsdóttir frá Gamla-Hrauni
(75). Vilborg Erlendsdóttir frá Búðarstíg (75). Sveinbjörn Ólafsson, frá Hvoli
(66). [bróðir Sig. Ólafssonar sýslumanns í Kaldaðarnesi]. Pétur Guðmundsson kennari, af
langvarandi veikindum (63). [Hann var barnakennari Eyrbekkinga nálægt aldarfjórðung og bjó í Pétursbæ].
Oddný Guðmundsdóttir í Grund
(56) [ Hún var frá Steinum
undir Eyjafjöllum]. Þórarinn Jónsson í Búðarhúsum (37) [Fæddur á Stóra-Núpi en
bjó í Frambæ. Fórst af slysförum]. Reynir Sveinn Vilhjálmsson frá Skúmstöðum (1). Þríburar,
tveir drengir og stúlka frá Bakaríinu eftir fæðingu.
Hagtölur: Dollarinn kostaði 4 kr. og 71 aura. Fasteignamat á
Eyrarbakka nam samtals 8.173 kr.
Heimildir: Dagblöð 1922: Alþýðublaðið, Morgunblaðið,
Lögrétta,Tíminn,
Tímarit 1922: Skinfaxi,
Ægir, Tímarit Verkfræðifélags Íslands, Templar.
18.03.2013 23:23
Sú var tíðin, 1921
Árið 1921 voru 930 íbúar á Eyrarbakka og hafði þá fækkað um
26 manns frá fyrra ári. Að frátöldum kaupstöðum var Eyrarbakki næst stærsta kauptún
landsins, en aðeins Akranes var litlu fjölmennara. P. Níelsen fyrrum
verslunarstjóri vildi láta friða "Sæörninn"* (Haförn) og veita verðlaun fyrir
hverja skotna tófu. Framfaraskref voru stiginn, því nú var lagður sími milli
Eyrarbakka og Þorlákshafnar og símstöð sett þar. Það kom til að yfir vertíðina hefði
nokkur fjöldi vermanna þar viðveru, en auk þess var lagður nýr símaþráður milli
Eyrarbakka og Ölfusárbrúar (Símstöð var í Tryggvaskála).
[*Þá var talið að einungis þrenn pör væru eftir í landinu auk
nokkurra geldfugla. Talið var að rekja mætti fækkun arnarstofnsins til þess að
eitrað var fyrir honum sem og tófum og ýmsum vargdýrum. ]
Verslun: Verslun Guðmundu Nielsen í Miklagarði var nú
ævinlega kölluð "Guðmundubúð" og þar fékst allt mögulegt á milli himins og
jarðar, nema "Bakkavínið". Væntingar stóðu til viðskipta við sveitir
Rángárvallasýslu að stærstum hluta. Kaupfélaginu Heklu var breytt í
pöntunarfélag* til að komast undan útsvars-álögum. Verslun Andrésar Jónssonar
var enn með stærri verslunum hér og að auki með búð á Stokkseyri og Reykjavík.
Þá var hér ásamt fleirum kaupmönnum, Ögmundur Þorkelsson, Guðlaugur Pálsson,
Ólafur Helgason í Túnbergi,
Jóhann V. ofl. Á Stokkseyri stóð Kf. Ingólfur** sem viðskiptamesta verslunin. Spíritus (Kogari) og brennsluspritt var hér
selt í lyfjabúðinni og þótti drykkjarhæft, en bannlög voru fyrir því að flytja
inn áfengi og lá við stríði hér milli "Templara" og "andbanninga". Nokkrir
andbanningar á Eyrarbakka, kaupmenn o. fl., með prestinn í broddi fylkingar, stormuðu
til boðaðs fundar hér um bannlögin, í þeim tilgangi að álykta um afnáms bannsins,
en þó varð ekki af þeirri kröfu, þar sem fjöldi Templara stóðu í vegi fyrir
framgangi þess.
[*Kf.Hekla var pöntunarfélag upphaflega. ** Einar Benediktsson og Ólafur Árnason
stofnuðu
á sínum tíma "Ingólf" á Stokkseyri.]
Skipaferðir: Mb. Víkingur kom í apríl með vörur úr Reykjavík*
og Mb. Njörður kom með vörur hingað frá Reykjavík í maí og skip
Eimskipafélagsins "Es. Suðurland" í sömu erindum til Eyrarbakka og stokkseyrar ýmist,
nokkrar ferðir yfir sumarið. Mótorkútterinn "Úlfur" einnig frá Vestmannaeyjum
með varning og fólk. Es. Vaagekallen kom hingað í nóvember með ýmsar vörur.
[*Sýslunefndin Skoraði á Alþingi að veita ríflegan styrk til
bátaferða milli Rvikur og Eyrarbakka eða Stokkseyrar.]
Útgerð: Bátaeigendur á Eyrarbakka gátu nú tryggt báta sína
fyrir skemdum vegna ísreks úr Ölfusá, sem öðrum hættum og skemdum. Fiskiþing
samþykkti að verja 25.000 kr. til bryggjugerðar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri,
vélbátaútgerðinni til hagsbóta. Afli Bakkabáta var einna mestur á
haustvertíðinni. Olíuverð var hátt, en fiskverð lágt, þannig að útkoman var með
rírasta móti hjá mótorbátum, en betri á róðraskipum. Frá Þorlákshöfn gengu 7
róðraskip.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru orðnar mjög reglulegar og allnokkrir sem buðu upp á ferðir þessar, svo sem
Filipus Bjarnason í Reykjavík og bifreiðastöð Steindórs. Bifreiðar voru efnaðri
menn að eignast hér í þorpinu, svo sem Andres Jónsson kaupmaður og aðrir oft í
félagi um bifreið.
Skóli: Aðalsteinn barnakennari Sigmundsson fór með fimm
nemendur héðan í laugarnar í Laugardal. Fóru þeir á þrem reiðhjólum, en tilgangurinn
var m.a. að kenna þeim að synda. Skátafélagið "Birkibeinar"* stofnaði
Aðalsteinn hér um líkt leiti. Handavinnumunir, skólabarna héðan (einkum úr
basti,tágum og hrossatvinna) fóru á
Heimilisiðnaðarsýninguna í Reykjavík.
[
*Skátafélagið "Birkibeinar" stofnað í nóv. 1920]
Slysfarir: Magnús Jónsson frá Stokkseyri og Guðmundur Jónsson
frá Hæli, slösuðust nokkuð um borð í togaranum Agli Skallagrímssyni, er brot
reið yfir, en skipið var statt á Selvogsbanka. Tveir bátar rákust samann og sukku
á legunni á Stokkseyri eftir stórflóðs-öldu.
Látnir: Ragnhildur Þorsteinsdóttir (99). Hún var fædd 5.
október 1821. Ragnhildur var mágkona Þorleifs hins ríka á Háeyri. Var hún bústýra á Simbakoti meiri
hluta æfinnar, þar til kraftar hennar þrutu, en þá tóku þau hana hjónin Jakob
og Ragnheiður í Einarshöfn og önnuðust hana til dauða dags. Sólveig Árnadóttir frá Steinsbæ (89) Guðríður
Filippusdóttir frá Einarshöfn (84). Ólöf Jónsdóttir Neistakoti (84). Bergsteinn Pétursson
Garðhúsum (ungabarn). Meybarn
Þórdís Jónasdóttir Nýjabæ (Hvítvoðungur)
Sýslan og Sveitin: Magnús Torfason, tók við
sýslumannsemættinu og settist hann að á Selfossi. Skömmu síðar veiktist hann af
nýrnarbólgu og lagðist inn á Landakot. Steindór Gunnlaugsson tók þá við
embættinu til bráðabrigða. Var hann sá 15. sem gegnir embættisstörfum þessum síðan Sigurður sýslumaður
Ólafsson í Kaldaðarnesi sagði af sér árið 1915. Sýslubúar voru eitthvað á 7.
þúsund.
Ýmislegt: Fyrsta heimild um dúfu hér á Eyrarbakka, er þess
getið í auglýsingu að P.Nielsen hafi bjargað úr klóm ránfugls hér af götunni og
sent til Reykjavíkur. Auglýst var eftir eiganda dúfunar í Vísi 214.tbl.1921. Ástríður
Sigurðardóttur, 11 ára Bakkamær safnaði hér 191 kr. fyrir bágstödd börn í
Austurríki. "Lýsa" var höfð til matar heima fyrir.
Hagtölur 1921: Olía og veiðarfæri hækkuðu um 20% frá fyrra
ári, sem og annð verðlag. Gengi dollars var 5.75 kr. Gjaldeyrisskortur var í
landinu og höft þess vegna.
Heimild Dagblöð 1921: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl. Lögrétta, Ísafold, Tíminn, Heimskringla.
Tímarit 1921: Ægir, Templar, 19.júní. Dýraverndarinn.
16.03.2013 01:03
Sú var tíðin 1920
Árið 1920 voru 956 íbúar á Eyrarbakka, hafði þeim þá fækkað
um 9 manns. Það má heita af ýmsum ástæðum hafi hér ríkt neyðarástand fyrstu
mánuði ársins. Kvillasamt var í upphafi árs þegar illvíg kvefpest gekk hér um
ásamt skarlatsótt. Kíghósti slæmur gekk í austur-Flóanum. Kolaskortur var
viðvarandi, enn einn veturinn og dýrtíð sem fyr. Kolin þraut og rúgmjölið svo
egi var bakað þann veturinn. Bændur voru heylitlir og jarðlaust fram á vor. "Þjóðólfur"
blað sunnlendinga hætti að koma út snemma árs. Ekki stóð hugur Bakkamanna til
að leggja árar í bát, því nú var hafist handa við að undirbúa gerð bátabryggju
og byggingu sjúkrahúsins* sem lengi hafði staðið til og fé safnað af sýslubúum.
Rafstöð var keypt og undirbúið fyrir raflýsingu þorpsins**. Framfarir með ýmsu
móti virtust á næstu grösum.
[*Teikninguna af sjúkrahúsinu hefði Guðjón Samúelsson
húsameistari gert. Húsinu þannig lýst: Húsið er 8,00 X 18,60 m. að stærð.
Kjallari, 1. og 2. bygð. Allir útveggir steyptir einfaldir, en innan á 1. og 2.
bygð verða settar korkplötur á útveggi. Öll gólf verða úr timbri, og röruð og
cementsdregin að neðan. Í kjallara er eldhús, búr, þvottahús og geymsla. Á 1.
bygð sjúkrastofur, skurðstofa, herbergi fyrir lækni og hjúkrunarkonu. Á 2. bygð
sjúkrastofur og herbergi fyrir vinnumann og vinnukonu. í sjúkrahúsinu er ætlað
rúm fyrir 25 sjúklinga. Þar er nú fangelsið Litla-Hraun]
[** Rafstöðin var prufukeyrð í fyrsta sinn þann 27.ágúst
1920]
Verslunin 1920: Ný verslun opnaði í Miklagarði,
nýbyggðu húsi Guðmundu Níelsen þetta sumar. Fékk hún vöruskip hingað fyrir verslun sína og fyrsta konan sem tekst slikt verkefni á hendur. Andrés Jónson kaupmaður hér á
Bakkanum, opnaði vefnaðarvöruverslun á Laugarvegi 44 í Reykjavík, en einig rak
hann verslun á Stokkseyri. Kf. Hekla (st.1904) var hér umfangsmesta verslunin*
og á Stokkseyri Kf. Ingólfur sem fyr**, en hagur þessara fyrirtækja var nú
orðinn vart meira en bærilegur. Smákaupmenn voru mýmargir hér við ströndina enn
sem fyr.
[*Kaupfélagið Hekla á Eyrarbakka hlaut 7000 kr. aukaútsvar
haustið 1919. Reindist það afarþung byrði fyrir félagið, sem í raun og veru hafði
engar tekjur til að mæta slíkum álögum, nema það sem leiddi af fremur litlum
skiftum við utanfélagsmenn. Var félagið þá nýbúið að kaupa verslunarhús og
aðrar eignir Einarshafnarverslunar.]
[** Áhrifamenn innan Samvinnufélaganna í héraðinu (Kf.
Grímsnesinga) komu sér saman um að allar erlendar vörur handa Árnesingum og
vesturhluta Rangárvallasýslu ættu að koma í land á Eyrarbakka eða Stokkseyri,
en ekki í Rvík. Eitt kaupfélag, eða bandalag félaga, yrði fyrir alt þetta svæði.
Félagið eignist 200-250 smálesta
skip, sem flytti vörur yfir sumartímann milli Eyrarbakka (eða Stokkseyrar) og
útlanda. Yfir veturinn fengi félagið vörur um Vestmannaeyjar, á vélbátum, því
höfnin yrði þá ófær stærri skipum.]
Skipaferðir: Þann 22. janúar sást til barkskips
frá Eyrarbakka, og mönnum ljóst að það var í nauðum statt, enda hið versta
veður. Áhöfninni bjargaði enskur togari*, en skipið rak inn í brimgarðinn austan
við þorpið og brotnaði í spón. Skpið hét "EOS" og var á leið til frá Hafnarfirði til Halmstad í Svíþjóðar til viðgerðar
ofl. Ms "Svanur" kom hingað til Eyrarbakka í apríl með vörur og fór aftur í lok
mánaðar. Hrepti þá allmikið veður og sjó fyrir Reykjanesi og brotnatði af annað
mastrið. Skonnortan "Iris" með timbur til Eyrarbakka kom hér ekki, en lagði farminn
upp í Reykjavík. M.b.
"Ingólfur", eign Lofts Loflssonar, útgerðarmanns í Reykjavík kom þaðan með
vörur hingað í vetrarbyrjun. Mb. "Úlfur", stærsti mótorbátur landsins, kom hér með hluta af skurðgröfu**, þeirri fyrstu hér um slóðir, til nota við Flóaáveituna. Þann 24. ágúst kom "Sieka IV" með vörur til Kf. Heklu.***
[*Togarinn var "Mary A. Johnson" frá Scarborough.
Skipstjóri á Eos hét Davíð Gíslason]
[** Skurðgröfupartarnir voru fluttir héðan á tveim vögnum, er spentir voru fyrir "Tractora" þeim fyrstu er hingað komu og voru notaðir við Flóaáveituna]
[*** Ms."Sieka IV" var Hollenskt leiguskip, er átti að leggja af stað 6.maí með sement, mjöl og kartöflur til Kf. Heklu en vél þess bilaði þá og kom skipið því ekki fyrr en 24. ágúst og var þá hluti vörunnar skemdur, er nam 15.842 kr. en leigan á skipinu var kr. 14.000.]
Útgerð: Margir bátar skemmdust á Stokkseyri
í óveðri sem gekk yfir á útmánuðum. Í byrjun vertíðar var góður afli þá sjaldan
gaf á sjó. Sumir mótorbátarnir sóttu allt vestur að Sandgerði svo sem mb/Freyr.
Mokafli var hér um páska, alveg upp við landsteina og brá við að fjaraði undan
fiskitorfunum. Frá Þorlákshöfn var róið á 15 skipum og hafði þeim fækkað mjög,
en mannekla háði útgerðinni sem engöngu var stunduð á róðraskipum þaðan.
Landbúnaður: Hrossaræktarfélagið "Valur"* reisti girðingu
fyrir stóðhross í landi Eyrarbakkahrepps, og var innanmál hennar 36-40
hektarar.
[*Hrossaræktarfélagið "Valur". tók yfir 3 hreppa í
neðanverðum Flóa, Eyrarbakkahr., Sandvíkurhr. og Stokkseyrarhr. Það var stofnað
24. febr. 1918. Félagar þess voru í árslok 1919, 102 alls.]
Slysfarir: Tveir menn drukknuðu í lendingu á
Eyrarbakka þann 6. apríl. Voru þeir að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir
höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og
tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og
soguðust tveir menn út og drukknuðu, en einn bjargaði sér á sundi. *
[*Jóhann Bjarnason var sá er bjargaðist, hélt sér og öðrum
félaga sínum um stund uppi á sundi, en þar kom að lokum, að hann varð að sleppa
honum. Bjargaðist Jóhann með naumindum.]
Menning: Drykkjuskapur þótti mjög almennur
hér um helgar meðal ungs fólks sem svo er lýst: "Svo segja kunnugir menn, að drykkjuskapur
hafi aldrei í manna minni verið jafn mikill hér og nú í vetur, (1920) og fer
óðum í vöxt. Kveður svo ramt að, að barnungir menn ganga i hópum, hröðum skrefum,
á eyðileggingarvegi. Kemur varla fyrir nokkur helgi* - mætti næstum segja:
nokkurt kvöld - svo að ekki séu ölvaðir menn á ferli og geri ónæði meira og
minna...." Stúka var stofnuð hér í
framhaldi með 43 félögum, en það gerði Halldór Teplar Kolbeinsson er hér var á
ferð. Hét stúkan "Eyrarrósin" og í stjórn voru: Sigurður Guðmundsson, féhirðir.
Elín Sigurðardóttir, frú. Ritari var Ingvar Jónsson, verslunarmaður. Jóhannes
Kristjánsson. Gjaldkeri var Vilhjálmur Andrésson, skósmiður. Þórdís
Símonardóttir, lósmóðir. Guðmunda G. Bergmann, frú. Guðmundur Jónsson, oddviti.
Jón Einarsson, hreppstjóri. Sigurður Kristjánsson, verslunarm. Konráð Gíslason,
verslunarmaður og Elínborg Kristjánsdóttir, ungfrú. Dró mjög úr drykkjuólátum í
þorpinu eftir það. Í Fjölni voru oft haldnir fundir um hin ýmsu mál.
[*Aðfaranótt sunnudags
14. mars voru drykkjulæti með meira móti hér í þorpinu, og áttu þó Eyrbekkingar
miklu að venjast af þeirri vöru.]
Sýslan og sveitin: Sýslumaður var Guðmundur Eggers en
síðan tók við sýslunni Steindór Gunnlaugsson. Hreppstjóri á Eyrarbakka var Jón Einarsson,
í Mundakoti. Nokkuð var um að jarðir og kot væru falar í sýslunni. Svo var um
Hafliðakot hér, tún var fyrir tvær kýr, fjöru og mýrarbeit fyrir nokkrar kindur
og hross og dálítið fjörugagn. Fóaáveitufélagið hélt fund hér í Gistihúsinu 14.
febr. Gróðabrallarar í höfuðborginni sáu ofsjónum yfir fjárhæðinni sem fara
átti í landumbætur hér í Flóanum, en það var talið tveggja togara virði. Læknir
var hér Gunnlaugur Einarsson, en fór utan þennan vetur til starfa á erlendum
sjúkrahúsum. Greiðasöluna í Tryggvaskála við Ölfusárbrú keypti Þórður bóndi Þórðarson
frá Björk í Grímsnesi. Leynileg áfengisverslun var talin vera rekin á Selfossi
og sjálfsagt komið út í gróða. Stórtap var hinsvegar hjá hinu nýja útibúi
Landsbankanns á sama stað, þó ekki hafi verið vegna þess að þar var í eldi
særður hrafn, heilan vetur.
Samgöngur: Steingrímur Gunnarsson og Sigurður
Óli Ólafsson gerði út leigubifreiðar*
héðan af Bakkanum, en bifreiðar úr Reykjavík komu einnig hingað reglulega, svo
sem frá Steidóri Einarssyni sem síðar var vel þekktur hér. Vestur-íslendingurinn Frank Fredriekson
hugðist fljúga frá Reykjavík til Eyrarbakka** á flugvél sinni. Flaug hann svo
austur 24. júlí og lenti henni á Kaldaðarnesi. Með í för var Mr. W. Turton
vélamaður. Var þetta í fyrsta sinn sem flugvél lendir hér í Flóanum. Þann 26.
júlí flaug Frank aftur hingað austur, kom fyrst að Kaldaðarnesi, en sýndi svo
listflug hér yfir Þorpinu daginn eftir og lenti síðan á túninu við Stóra-Hraun.
Vélin hélt héðan til Eyja, en þar reindist ekki lendandi er til kom
og varð vélin að nauðlenda á Fljótshólum bensínlaus, með dauðann hreyfil. Var
þá meira bensín sótt hingað til Eyrarbakka. Kom vélin svo hér daginn eftir og
lenti heilu og höldnu við Stóra-Hraun eftir svaðilför þessa. Mótorbátar gengu
af og til milli Eyrarbakka og Vestmannaeyja með fólk og farangur. Hingað kom einnig maður á mótorhjóli, reyndist það vera Guðmundur Ágústsson frá Birtingaholti.
[*bifr. Steingríms
var ÁR-7 og Bifreið Sigurðar var ÁR-15.]
[**Um þetta leyti hafði "Flugfélagið" er ætlaði að halda uppi
flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja fundið sér ákjósanlegan lendingarvöll
á túninu við Stóra-Hraun og óskuðu íbúar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir
því að fá einnig flug héðan, félaginu að skaðlausu. (Sjá Mynd af vélinni)]
Skóli: Barnaskólanum á Eyrarbakka var lokað
8. mars vegna sóttvarna, sakir inflúensu. Var skólahúsið læst og ekkert um það
gengið. Einhverjir þá notað tækifærið, brotist inn og bramlað eitthvað
innanstokks og skilið þar eftir dauðan hrafn. Umdeildur ungur atorkumaður, Aðalsteinn
Sigmundsson var þá skólastjóri. Stofnaði hann ungmennafélag er tók aðsér
íþrótta og sundkennslu* hér. Fótboltafélag var einnig innan þess, vel sótt. Að auki tóku ungmennafélagar aðsér að sinna dýraverndunarmálum hér.
Kennarar voru þau Jakobina Jakobsdóttir, Ingimar Jóhannesson.
[*Sundkennarinn var Konráð Kristjánsson frá Litlu-Tjörnum í
S.-Þing. Sundlaug var þó ekki hér, en tjarnir margar og sjórinn.]
Látnir: Þóra Sigfúsdóttir (79). Hún var fædd
í Garðbæ á Eyrarbakka 12. nóvember 1841, en bjó að Vaðnesi í Grímsnesi. Magnús Ingvarsson, formaður frá Akri
(79). Margrét
Filippusdóttir frá Mundakoti (77). Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður frá
Skúmstöðum (76). Katrín
Einarsdóttir frá Einkofa (74). Bjarni Halldórsson, Þurrabúðarmaður frá Túni
(63). Guðjóna Þórdís
Jónasdóttir frá Túni (57). Jóhann Pétur Hannesson sjómaður frá Blómsturvöllum,
druknaði í lendigu hér (47). Vigfús Helgason þurrabúðarmaður frá Gamla-Hrauni (46). Oddur Snorrason sjómaður frá Sölkutóft,(Þurrabúðarmaður
í Bráðræði) druknaði í lendingu hér (45). Jóhanna Margrét Jóhannsdóttir frá Sölkutóft (kornabarn)
Guðmundur Ragnar Friðriksson
frá kaupmannshúsi (kornabarn). Ingibjörg Pálsdóttir frá Skúmstöðum (kornabarn).
Tíðarfarið: Veður voru fremur válynd fyrstu
mánuði ársins. 'Í byrjun mars var jarðlaust og allar skepnur á gjöf, en bændur
heylitlir. Voru keyptar frá Ísafirði 1600 tunnur af síld til skepnufóðurs fyrir
sýslubúa er koma átti hingað með skipi. Í maí var ófærð mikil á Hellisheiði.
Sumarið og haustið með ágætum.
Hagtölur: Dollar gekk á 7 kr. og 25 aura, lækkaði síðar í 5
kr. og 75 aura. Síldartunna kr.40. Hálft rúgbrauð kostaði 90 aur. Fargjald frá
Reykjavík til Eyrarbakka með bifreið var um 20 kr.
Heimild: Dagblöð frá 1920: Skeggi, Morgunblaðið, Alþýðublaðið,
Ísafold, Ægir, Tíminn, Vísir, Rit frá 1920: Tímarit Verkfræðifélags Íslands.
Templar. Skólablaðið. Tímarit Íslenskra Samvinnufélaga. Búnaðarrit 1920-1921.
Dýraverndarinn 1921.
10.03.2013 21:42
Sú var tíðin, 1919
Árið 1919 voru íbúar á Eyrarbakka 965 talsins og höfðu fjölgað
um 48 frá árinu áður. Bjartsýni ríkti um framtíðina þrátt fyrir erfiðleika
ýmiskonar. Vikuritið "Þjóðólfur" hætti að koma út um tíma, en var endurvakin og
prentaður á Haga í Sandvíkurhreppi, í prentvél sem var hið mesta skran. Prentsmiðjan
var síðan flutt í nýja Landsbankahúsið* á Selfossi. Heilsufar var allgott síðan
spanskaveikin gekk. Skólar voru að hálfu starfandi, því kennarar sóttu í aðra
vinnu sem gaf betur af sér. Atvinnuhorfur voru þó daufar í vertíðarbyrjun.
Helsta áhugamál Árnesinga voru hafnarmál, áveitan, spítalinn, skólamálin og
járnbrautin. Kosið var til þings og reyndu verslunarmenn hér að hafa áhrif á
gang mála. Þingmenn Suðurlands urðu þeir Eiríkur bankastóri Einarsson frá Hæli
með 1032 atkv. og Þorl. Guðmundss. í Þorlákshöfn - 614 -aðrir í framboði voru Sigurður
ráðun. fékk 335 -og Þorst. Þórarinsson Drumboddastöðum 317atkv. Pöntunarfélög
voru stofnuð í mörgum hreppum sýslunar.
[*Timburhús 14x24 álnir. Þar er í dag m.a. blómabúð og lengi
var myndbandaleiga í þessu húsi.]
Verslun 1919: Hinn rauðhvíti dannebrog var dreginn
niður hinsta sinni á "Bakkabúðinni" gömlu þegar verslunin "Einarshöfn" á Eyrarbakka, var seld á vormánuðum. Kaupandinn var kaupfél. "Hekla" hér á
Bakkanum og flutti hún starfsemi sína í Vesturbúðirnar. Verðið mun hafa verið
um 200 þús. kr. Verslun þessi var um langan aldur aðal-kaupstaðurinn fyrir alt
suðurlandsundirlendið vestan Kúðafljóts, og ein allra stærsta verslun landsins.
Kf. Hekla sem nú var stærsta verslun Suðurlands þurfti að útvega sér
kauptíðarvörur sínar úr Reykjavík, þar sem vélarbilun kom upp í vöruskipi
þeirra í K. höfn. Verslun Andresar Jónssonar var önnur stærsta verslunin hér á
Bakkanum, en nú einnig á Stokkseyri og þá var Guðlaugur Pálsson vaxandi
kaupmaður hér auk fjölmargra annara smákaupmanna, svo sem J.D. Nielsen fv. verslunarstjóra
Einarshafnarverslunar, sem opnaði sölubúð í "Skjaldbreið" þetta haust og
Guðmund bóksala í Götuhúsum. Á Stokkseyri var öflugasta verslunin Kf. Ingólfur
og Egill Thorarensen í Sigtúnum var aðsópsmikill kaupmaður á Selfossi um þessar
mundir. Um mitt sumar var útflutningur allrar íslenskrar vöru gefinn frjáls á
ný af landsstjórninni, að frátöldum hrossamarkaði, er stjórnin hefði enn í
sínum höndum*. Bændur flestir afhentu ull sína kaupfélögunum og sláturfélaginu.
Markaðurinn var daufur og seinn á sér. Í einu af Heklu-húsunum var nú innréttuð
lyfjabúð (apotek), danskur maður K.C. Petersen, setti á fót, en hann seldi að
auki ýmsar aðrar vörur. Samkeppnin í verslun hér var nú harðari en nokkru sinni
fyr og stóru risarnir við ströndina byrjaðir að molna.
[*Bandamenn höfðu allt
verslunarvald íslendinga í hendi sér í stríðslok, og forkaupsrétt á allri
íslenskri vöru, svo mörg útlend skip lágu aðgerðalaus í höfnum hér við land í
lok stríðsins og vissu ekki hvert þau áttu að fara.]
Skipaferðir: Siglingar máttu aftur hefjast frá
Eyrum, þegar friður komst á, en "Vonin" seglskip Einarshafnarverslunar fylgdi
ekki með í kaupunum. Kf. Hekla hafði leigt gufuskip sem koma átti í maí
fullfermt, en þá gerðist það ólán að skipið varð fyrir vélarbilun í
Kaupmannahöfn og komst egi á kauptíðinni. Saltskip kom frá spáni til
Stokkseyrar snemma í apríl, en önnur skip komu ekki yfir kauptíð. Þegar kaupfar
kf. Heklu kom loks til Eyrarbakka, í lok ágústmánaðar, varð enn eitt ólánið uppvíst,
því vörurnar voru meira og minna skemmdar og að einhverju leyti ónýtar, eftir
langvint sjóvolk og vandræðaskap, er skipið hafði ratað í. Þann 8. september
var uppboð á Eyrarbakka og þar selt mikið af rúgmjöli og sykri. Komst mikið af
þessari vöru í ótrúlega hátt verð, stappaði nærri söluverði á óskemmdri vöru.
Um miðjan september kom loks hingað timburskip, en þar til hafði varla fengist
hér spíta í laupsrim um langan tíma.
Útgerð: Afli var ágætur hér við ströndina þá
er vertíðin hófst seint í febrúar en treg veiði í fyrstu hjá Þorlákshafnarbátum,
en síðan mokafli á köflum á öllum verstöðvum, þá er fiskur gekk nær landi en
venja var til. Sjór var hlýrri hér við ströndina en oft áður fyrri hluta
vetrar. Olíuskortur var orðinn mikill sunnanlands að áliðnu sumri og háði það
vélbátunum svo að ekki komust á sjó, en róðraskipin öfluðu vel á
haustvertíðinni.
Menning: Kvikmyndahús var sett á laggirnar
hér í Fjölni og nokkuð um pólitísk fundarhöld. Eitt hús var byggt hér,
Mikligarður sem hýsa átti verslun á komandi ári.
Sýslan: Settur sýslumaður Magnús Gíslason
tvítugur að aldri*. Flóaáveitufélagið samþykti að taka 1,5 milj. króna láa til
áveitunnar. Sparisjóður tók til starfa á Stokkseyri (okt 1918) og Landsbanki á
Selfossi.
[*Megn ágreiningur varð
á Eyrarbakka nokkru síðar út af meðferð sýslumannsembættisins í Árnessýslu.
Síðan Sigurður ÓLafsson sagði því af sjér sumarið 1915, höfðu verið hér ýmsir
sýslumenn settir. Upphaflega var Guðmundi Eggerz veitt sýslan vorið 1917, en
hann hafði oftast verið fjarverandi síðan, ýmist í R.vk (í fossanefndinni) eða
erlendis. þetta hafði héraðsbúum likað afar illa. Úr hófi keyrði haustið 1918 þegar Bogi Brynjólfsson fór frá
embætti. þá var enginn skipaður í staðinn, en einn hreppstjórinn látinn
afgreiða brýnustu erindi. Síðast kom Magnús Gíslason lögfr og rjeðist til vors,
en þá ætlaði Guðm. Eggerz að koma sjálfur. Svo varð þóekki heldur fjekk hann leyfi
stjórnarráðsins til að skipa Pál Jónsson lögfr. fulltrúa sinn. þessu gátu
hjeraðsbúar ekki unað, vildu ekki taka við Páli, en kröfðust, að sýslumaður
kæmi sjálfur eða að annar yrði skipaður á eigin ábyrgð. Stjórnarráðið skipaði
síðan þorst. þorsteinsson til að gegna embættinu á eigin ábyrgð fram á sumar.]
Andlát: Gestur Ormsson Einarshöfn, þurrabúðarmaður (87) Katrín
Hannesdóttir, húsfreyja Sandgerði (65). Guðrún Matthíasdóttir, Einarshöfn (52),
Jón Stefánsson, Brennu (45). Tómas Þórðarsson, þurrabúðarmaður Sandvík (44). Helgi Ólafsson, prests frá Stóra-Hrauni,
druknaði í Hólsós í Ölfusi, var sjómaður (23). Júlía Guðrún Ísaksdóttir,
Ísaksbæ (23). Ísleifur Haraldsson, Merkisteini (ungabarn).
Tíðin: Tíðafarið var misgott í byrjun árs.
Ofsaveður gerði um miðjan mars og allmikið snjóaði. Sumarfuglar, spóar, lóur og stelkar,
voru komnir fyrir pálmasunnudag, og flugu syngjandi um túnin og móana, en þá
brast á snjór og kuldahret. Í júlí snjóaði í sunnlensk fjöll, um stund hlýtt
mjög, en óþurkar yfirleitt þar til seint í ágúst. Veturinn ágætur og fénaður
gekk úti fram í desember, en eitt óveður gerði þann mánuð.
Samgöngur: Bílferðir voru tvisvar í viku milli
Eyrarbakka og Reykjavíkur, en um það sáu þeir Gunnar Ólafsson og Erling
Aspelund, en síðan hóf fólksflutninga Steingrímur Gunnarsson hér á Eyrarbakka.
Hagtölur: Erlend Kol og sykur lækkaði mikið í
verði eftir stríð*. Dagsbrúnarkaup var 90 aurar á rúmhelgum dögum, dagvinnu kaup
hjá Drífanda í Vestm. var 1,15 á klst. Steinolía var 300% dýrari en árið 1914. Á
Eyrarbakka hafði smjörverð lækkað og kostaði kr. 2,85 pundið, þurrabúðarmönnum
til góða. Laxpundið kostaði
90 aura til útsölumanna. Sparisjóður Árnessýslu átti 1.777.136 kr. sem var
mikið fé. Verð á saltfiski til útfluttnings var afar hátt, en sveitavörur fóru
lækkandi.
[*Landsstjórnin tók í sínar hendur einokun á alla verslun með
erlend kol og kornvörur hér á landi. Kolaverslun öll var í höndum breta og
olíuna áttu gróðabrallarar]
Ýmislegt: Vinnuvélar sáu dagsins ljós hér í
Flóanum, þegar skurðgrafa kom til Skeiða-
og Flóa áveitanna, heljarmikið bákn,
Dráttvélar (traktorar) tvær, með 20 hesta afli. Grjótkvörn á hjólum til
vegagerðar, valtari, til þess að þjappa mulningnum ofan í vegi, og trukkur, til
þess gerður að flytja möl. Kf. Hekla hafði símanúmer 8. Vörubifreiðar voru að
taka við af hestvögnum. Fyrsta flugvélin keypt til landsins.
Heimild: Skeggi 1919, Þjóðólfur1919, mbl.1919,eyrarbakki.is,
gardur.is, brim123.is.
06.03.2013 20:10
Sú var tíðin, 1918
917 íbúar áttu lögheimili á Eyrarbakka árið 1918 og hafði þeim fækkað um 25. Kom þar til mannskæð Inflúenza og brottfluttir, flestir til Reykjavíkur. Meðal brottfluttra var Ásgeir Blöndal f.v. héraðslæknir og hans frú Kirstín, en þau fóru til Húsavíkur. Fyrstu laufin voru tekin að falla og blikur á lofti um framtíð kauptúnsins. Áætlanir um Flóaáveituna voru í bígerð og fundir haldnir um stofnun áveitufélags, og þar kosnir í stjórn: Sigurður Ólafsson fyrv. sýslum., Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum og Bjarni Grímsson verslunarm. á Stokkseyri. Hagur manna hér um slóðir þótti yfirleitt góður, þrátt fyrir dýrtíð mikla og ýmiskonar erfiðleika, því skepnuhöld voru ágæt og tíðin yfirleitt góð og heilbrigði með ágætum framanaf. Katla gaus þetta ár og "spánska-veikin" gekk yfir og felldi 8 fulltíða sálir hér á Bakkanum (einhverstaðar getið um 31. látna). Settur sýslumaður Bogi Brynjólfsson, settist að á Stokkseyri, en húsnæðisekla var mikil hér á Bakkanum. Sambandslögin samþykkt og Ísland varð fullvalda ríki. Samninguinn við bandamenn hamlar verslun hér Heimstyrjöldinni lauk. Þorp að myndast á Selfossi, verðandi höfuðstað sýslunnar.
Verslun og Þjónusta: Ýmsir erfiðleikar hrjáðu nú verslunina hér, svo sem styrjöldin, viðskiptasamningur
við bandamenn*, stærri skip, ný höfn í Reykjavík, Ameríkuverslun Eimskipafélagsins
og landssjóðsverslunar gerði það að verkum að mun hagkvæmara og ódýrara var að
flytja mikið magn af vörum til Reykjavíkur, heldur en með litlu skonnortunum frá
dönskum höfnum hingað á Eyrarnar og víðar, þar að auki varð nú að tolla vörusendingar
af suðurlandi frá Reykjavík eða Vestmannaeyjum*. Nýtt skip "Skaftfellingur" gat
tekið vörur austanmanna frá Vík, beint til Vestmannaeyja og Reykjavík. Selstöðuverslanir
hér á landi voru nú óðum að hverfa vegna samningana við breta og svo fór um
Einarshafnarverslun**.
Ákveðið er að
reisa útibú fyrir Landsbankann á Selfossi, því á þessum krossgötum
kaupstaðarfara, var að myndast vísir að þorpi um þessar mundir. Á Eyrarbakka
var fyrir Sparisjóður Árnessýslu. Eitt brauðgerðarhús var hér í rekstri og eitt
á Stokkseyri. Kornvörur voru skamtaðar og brauð þar með. Kola og pappírsskortur
var landlægur enn eitt árið, m.a. vegna þess að pappírsskipið strandaði á
Meðallandsfjöru og kolaskip hér nálægt Eyrarbakka.
[*Samningurinn
við bretland ("bandamenn") um kaup á olíu og kolum, en það var í raun
nauðasamningur, sem ella hefði kostað, eða jafngillt aðflutningsbanni á landið
af hálfu bandamanna. þar fór landsstjórnin ("Útfluttningsnefnd") með
verslunarvald f.h. bandamanna og keypti með einokunarskilmálum og eignarnámi alla
ull, kjöt, fisk ofl. sem framleitt var í landinu og seldi "bandamönnum" sem
höfðu þá forkaupsrétt af öllum útflutningsvörum landsins á yfirstandandi ári og
því næsta sk. þessum samningi. (r.g. 31. maí 1918. 3. og 11. júní 1918) og til
frekari uppfyllingar á samningi við breta, mátti ekki flytja inn neinar vörur
nema með samþykki "Innfluttningsnefndar" og öll viðskipti þurftu að fara um
tilgreindar hafnir. Hafði stjórnaráð Íslands f.h. breta þannig yfirráð yfir
öllu skipsrúmi og vöruverslun landsins. Það voru breyttir tímar,
atvinnuvegirnir þurftu stöðugt meira utanaðkomandi eldsneyti til að halda úti
fiskveiðum og flutningum. Fyrir selstöðuverslunina voru þessi lög dauðadómur.(Bretar
afsöluðu sér síðar forkaupsrétti á íslensku kjöti)].
[**J. A.
Lifolii, stórkaupmaður, hafði um sumarið 1918 gefið 10,000 kr. til Eyrarbakka í minningu þess að verslun hans
var 50 ára gömul 3. apríl þ.á.
Helmingnum átti að verja til sjóðmyndunar er styrki verzlunar nemendur í Kaupmannahöfn
og höfðu Árnesingar og Rangæingar þar forgangsrétt; hinn helmingurinn átti að
ganga til sjúkrahúss í Arnessýslu. Enn
fremur sendi hann Eyrarbakka kirkju
vandaða turnstundaklukku].
Skipaferðir: Ferða flóabátsins "Ingólfs" hingað lagðist af um lengri tíma sökum
vélarbilunar. Bátur verslunarinnar "Hjálparinn" hafði því í nógu að snúast. Litlar
sögur fara af komu millilandaskipa hingað þó einhver hafi verið þetta ár, en útfluttningsvörur verslunarinnar hér þurfti nú
að tollafgreiða annaðhvort frá Vestmannaeyjum, eða Reykjavík með ærnum tilkosnaði.
Þó kom hingað seglskipið "Ludvig" en
á leið frá Eyrarbakka til Danmerkur var því sökt af kafbáti. Flutti kafbáturinn
skipverja upp undir Noreg og komust þeir þar á land eftir 32 stunda róður.
Skipið hafði ekki haft farm***, en sandur notaður til seglfestu (ballest).
Stórt Rússneskt þrímastra seglskip fórst í febrúar, við Þorlákshöfn í óveðri og
var tveim mönnum bjargað, [skipherrann og einn háseti er björguðust
á sundi í land] en fjórir fórust. Skipið var hlaðið kolum.
[*** Það var seint um kvöld að skipverjar skyndilega heyrðu skot og sáu
tundurskeyti, sem kom rétt fyrir aftan skipið. Rétt á eftir sáu þeir kafbát
koma siglandi, og skipaði hann að stöðva "Ludvig". Gaf kafbátsforinginn siðan
skipverjum 20 minútur til þess að komast i björgunarbátinn. Var skipinu siðan
sökt. Kafbáturinn dróg björgunarbátinn spölkorn, en hann sigldi svo hratt, að
vatnið streymdi inn í bátinn, svo skipverjar voru teknir yfir á kafbátinn.
Þegar komið var 30 mílur undan Noregsströndum var þeim slept í bátinn, og komust
skipverjar loks eftir 32 stunda róður að landi í Noregi, við Högholmene. "Ludvig"
var 110 smálestir brútto, hið vandaðasta skip að smíði og útbúnaði öllum meðferðis.] (mbl.1918)
Fiskveiðar og sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði treglega sökum gæftaleysis en raknaði úr þegar á
leið. Vermenn sumir héðan fóru til Vestmannaeyja á vertíð. Eitthvað af
brimrotuðum þorski rak á fjörur við Stokkseyri. Í apríl var kominn ördeyða á
heimamiðum, en rættist úr fyrir vertíðarlok. Mótorbátar öfluðu hinsvegar vel
úti á "banka". Vorvertíð hófst hér seint í júní og aflaðist vel. Saltskortur gerði
þá vart við sig og hamlaði vinnslu. Haustafli góður þá róið var og gekk svo
fram á vetur. Laxveiðar voru óvenju góðar í Ölfusá, einkum við Selfoss.
Menning:
Söngfélagið "17" júní kom hér austur fyrir fjall og hélt samsöng í kirkjunni.
Um haustið og veturinn lögðust samkomur og messur af vegna spænskuveikinnar.
Látnir 1918: Guðrún Teitsdóttir frá Skúmstöðum (88). Styrgerður Filipusdóttir
frá Einarshöfn (86). Elín Símonardóttir frá Gamla-Hrauni (80). Símon Símonarson
sama stað andaðist á Landakotsspítala (?). Steinn Guðmundsson skipasmiður frá
Steinsbæ (78) en hann var landskunnur. Guðrún Hansdóttir frá Norðurbæ (76) Valgerður
Þórðardóttir frá Garðhúsum (67) í spænsku veikinni. Guðjón Ólafsson sparisjóðsgjaldkeri
frá Hólmsbæ (66). Ragnhildur Jónsdóttir frá Sandvík (66) í spænsku veikinni. Bjarni
Jónsson frá Eyvakoti (57). Margrét Eyjólfsdóttir frá Eimu (51) í spænsku
veikinni. Halldóra Þorsteinsdóttir frá Björgvin (46) í spænsku veikinni.
Siggeir Þorkelsson þurrabúðarmaður frá Merkisteini (37). Margrét
Jóhannsdóttir frá Gamla-Hrauni (30) í spænsku veikinni. Magnús Guðmundsson frá
Búðarhúsum (21) í spænsku veikinni. Sigurður Brynjólfsson, frá Nýhöfn,
Eyrarbakka, fórst með "Frí" VE-101 frá Vestmannaeyjum. (sr. Gísli Jónsson á
Mosfelli, druknaði í þverá, hjá Hemlu í Landeyjum. Hann var ættaður af
Eyrarbakka.)
Tíðin: Miklir kuldar
voru í byrjun janúar, en þýðviðri með Þorra og hagavænt í febrúar, en stórviðrasamt.
Jörð var tekin að grænka um miðjan febrúar og mars var mildur og hagstæð tíð. Vorið
var óvenju gott, en grasbrestur um sumarið, næturfrost oft í júní og tíð stirð,
svo lítið spratt í kálgörðum. Kalt var í byrjun júlí. Óþurkar um sláttinn, en
þurkar í byrjun september sem var óspart notað af fiskimönnum og búmönnum, þó
sunnudagar væru. Kuldar snemma haustsins og kartöflugrös fallin fyrir réttir.
Heyfengur með minsta móti. Þann 12 oktober gaus í Kötlugjá.
Hagtölur: Í
Reykjavík voru 57 bifreiðar, bjuggu þar milli 15 og 16 þús. manns 1918. [Fastar
bifreiðarferðir voru til og frá Reykjavík hingað á Eyrarbakka, tvisvar í viku
og sinntu þessu tvær bifreiðar]. Dollarinn var skráður á 3. kr og 60 aura. Kornvörur
höfðu hækkað um 59% á árinu og 279% frá upphafi heimstyrjaldarinnar 1914.
Steinolíuframleiðsla í heiminum árið 1916 er talin hafa verið um
461 miljón tunnur, 159 litra hver. Töðugæft úthey var
boðið í 30 kr. hvern hestburð (100 kíló) árið 1918. Hámarksverð á kartöflum úr
búð var 35 aurar.pr.kg, en síðan 44 au. kg haustuppskeru. Lambasvið kostuðu 75
aura.
Ýmislegt: Pétur
Sigurðsson stundaði trúboð hér á Eyrarbakka. Tvö hús voru byggð 1918, Steinsbær
I. og II. Land fengu Stokkseyringar
undir kirkjugarð.
Heimild:
Þjóðólfur 1918, Skeggi 1918, Fréttir 1918, Morgunbl. 1918. Gardur.is. Voröld
1918. Fram 1918. Norðurland 1918. Dagsbrún 1918.
- 1