Blogghistorik: 2007 N/A Blog|Month_12

30.12.2007 11:52

Óveður á Suðurlandi

Vegagerðin segir að óveður sé á nánast öllu Suðurlandi og hálka, krapi eða hálkublettir eru á allflestum leiðum. Kl.11 var vindhraðinn á Eyrarbakka kominn í 26 m/s og 33-34 m/s í hviðum. Á Stórhöfða hafa hviður farið yfir 40 m/s. Talsverð rigning er með ströndinni en minna upp til sveita. Þá voru 23 m/s  á Hellisheiði og 26 m/s á Sandskeiði en aðeins 15 m/s í Þrengslum. 20 m/s voru undir Ingólfsfjalli.

Veðurspáin hljóðar svo til kl. 18 á morgun: Suðaustan 20-23, en 23-28 m/s með ströndinni. Mikil rigning í dag og hiti 5 til 7 stig. Lægir heldur síðdegis. Sunnan og suðvestan 15-20 í kvöld, en dregur smám saman úr vindi í nótt og á morgun með éljagangi. Kólnandi í bili.

29.12.2007 23:10

þannig var 2007

 Í janúar var tíðin mild og skíðaiðkan varð næstum úrelt sport á landi ísa og margir hugðust gefa sjóminjasafninu skíði sín og stunda bara golf héðan í frá, en svo rættist úr, því þann 10.janúar tók að snjóa og snjóa og snjóa og kaldir vindar blésu um lönd og láð og á endanum fór allt á bólakaf í snjó og gekk svo fram á Bóndadag. Svo kom Þorraþýða og þá héldu 80 börn úr barnaskólanum á Bakkanum heim til sín í mótmælaskyni vegna meints sleifarlags bæjaryfirvalda við framkvæmdir á skólalóð elsta barnaskóla Íslands. Þá var  vor í lofti á Bakkanum."Ekkert vor í Árborg" sagði þá bæjarstýran á Selfossi. 
 Í febrúar urðu snemmkomnar leysingar til þess að fjaran fylltist af ísruðningi úr Ölfusá. Þetta gerist árlega, en oftast þó í mars mánuði. Í þýðunni hófu Bakkamenn að byggja ný hús, bæta og breyta eins og aðrir landsmenn. Þá fór mb. Álaborgin til Vestmannaeyja og kom ekki aftur því síðasta fiskverkunarhúsið lokaði og seldi bátinn og kvótann með. "Lífið er ekki lengur saltfiskur" sagði Jói. Það voru fleiri sem lögðu upp laupana þennan mánuðinn. Á meðan febrúarsólin bakaði húsveggina á Bakkanum hætti Jón Bjarni með sjoppuna sína og Íslandspóstur fór líka sama dag. "Kreppa" sagði einhver. (Þorpsbúar senda nú bréf með vinum og vandamönnum!)
 Í mars komu fyrstu farfuglarnir. það voru nokkrar hungraðar rituskjátur sem settust að í fjörunni. Veðrið var milt í fyrstu svo að nokkrir vorlaukar rugluðust eins og landsmenn og tóku að springa út of snemma, því dag einn kom skyndilega fimbulvetur svona upp úr þurru. Svo skiptust á stormar og stillur. Unnarsdætur létu dansinn duna við mararbakkann sem aldrei fyrr og þeyttu stórgrýti og smásteinum undan faldi sínum upp í fjörukambinn. Um það leiti opnuðu bræðurnir frá Merkisteini nýja verslun á Eyrarbakka og skömmu síðar kom Tjaldurinn og Lóan sem slapp við að kveða burt snjóinn að þessu sinni.
 Páskahretið kom ekki eins og menn áttu von á og var aprílmánuður í mildari kantinum. Bakkamönnum dreymdi um endurbyggingu Vesturbúðarinnar eins og höfuðborgarbúum sem dreymir um músikkhöll, þessa þýðu aprílnætur. "Hér er verk að vinna" sagði Mangi. Sumar og vetur frusu svo saman og Harpa gekk í garð með sinureyk.
 Strax í maí fór að hitna í kolunum og hvert hitametið á fætur öðru var slegið víða um land. Í hafinu skorti Sandsíli en krían kom samt og túnfíflar gægðust upp úr grasflötinni. Hátíðin Vorskipið kemur var haldin með glæsibrag."Hvar er vorskipið?" spurði aðkomumaður einn langt að kominn, en svo kom hret. Það snjóaði í fjöll og niður á láglendi eins og feigðarboði. Um Hvítasunnu andaði enn köldu, en um síðir birti upp öll él og svo tók að hlýna heldur betur og undir lok mánaðarins var ríflega 17 stiga hiti á Bakkanum.
 Í byrjun júní fór að rigna með sunnanáttum og brimið hjó klappirnar. Svo kom sólin og þurkaði upp engjar, tjarnir og tún. Bakkamenn héldu sína árlegu Jónsmessuhátíð í blíðskaparveðri í fjöruni og undu glaðir við sitt, enda oft séð það svartara. Bjarni hélt ræðu og blés mönnum eld í brjóst. Þá urðu menn  varir við hlýnun loftslagsins þegar hitastigið tók að rjúka upp í 20°C hvað eftir annað síðustu dagana í júní.
 Sólin vermdi Bakkann í júli, en stöku þrumuskúrir brustu á eins og í heitum og fjarlægum löndum. Þurkurinn hélst við allann mánuðinn með hita allt að 22°C. Verulega hægði á grasvexti og svörð tók að brenna. Bændur svitnuðu! 
 Ágústmánuður byrjaði með sama sniði, þurr og hlýr, svo elstu menn kunnu ekki frá að segja öðru eins, en svo kom næturfrost kartöflubændum að óvörum. Undir lokin kom svo rigningin og rokið í öllu sínu veldi og krían hélt suður án ungviðis eina ferðina enn.
 Í byrjun september fóru stormar að gera vart við sig með rigningartíð og leiðindarveðri sem hélst út mánuðinn. Úrkomumetin voru víða slegin á meðan Bakkamenn tóku upp karöflurnar sínar þetta haustið. "Þetta er bara smælki" sagði Gvendur á Sandi. "Kreppa" sagði einhver.
 Áfram ringdi í oktober og stormar feyktu laufum af trjánum á meðan Selfoss hristist í jarðskjálftum. Selfyssingunum tókst að stöðva jarðskjálftana um stund með því að syngja Selfosslagið í sífellu undir stjórn sýslumannsins í lúðrasveitarbúningnum. Svo kom fyrsti vetrardagur með svala í lofti og daginn eftir féll fyrsti snjórinn á Bakkann.
 Nóvember byrjaði með stormi og Flóinn skalf í jarðskjálftahrinu og Selfosslagið tók að glymja á ný í útvarpinu. Rigningartíðin hélt áfram og mánuðurinn leið út eins og hann byrjaði.
 Desember var einnig óvenju stormasamur með ofsaveðri á köflum og tóku Ægisdætur að skvettast á land og róta upp í fjörunni svo sumum stóð vart á sama. "Nei" sagði siglingamálastjóri þegar hann var beðinn um lengri sjóvarnargarð. "Kreppa" sagði einhver. Svo komu jólin með bílfarma af gjafapappír og þá fór að snjóa og veður urðu köld fram til áramóta. Árinu lýkur svo með hvelli. þ.e. asahláku, grenjandi rigningu og kolvitlausu veðri að sögn.

26.12.2007 21:58

Spáð bleytu á Gamlárskvöld.

Á mánudag (gamlársdagur) og þriðjudag (Nýársdag lítur út fyrir suðlæga átt með vætu segir veðurstofan og þá munu líklega snjókallar bæjarins bráðna niður ásamt snjónum sem kominn er, en snjódýptin samkv. síðustu mælingu V.Í. voru einir 20 cm á Bakkanum sem er nokkru meira en á höfuðborgarsvæðinu en þar er snjódýptin um 12 cm.

Úrkoma mánaðarins er kominn í 179 mm á Eyrarbakka sem er það mesta síðan metárið 2003 en þá mældust 271,3 mm í desember og því langt í land að það verði slegið.

25.12.2007 13:36

Jólasnjór

Talsvert hefur snjóað á Bakkanum í morgun og er snjólagið nú orðið 10 cm þegar þetta er skrifað. Nú hefur stytt upp í bili og orðið ansi jólalegt yfir að líta. Lítð eitt hafði snjóað við ströndina á aðfangadagsmorgun en þann snjó tók fljótt upp. Í uppsveitum hefur snjóað talsvert frá því í gær og fregnir herma að þar sé allt á kafi í snjó. Á veðurathugunarstöðinni í Hjarðarlandi var snjódýptin komin í 17 cm. kl 09 í morgun og sennilega talsvert bæst við síðan.

22.12.2007 23:30

Dagurinn rúmir 4 tímar.


Í dag var skemmstur sólargangur ársins. Frá sólarupprás á Bakkanum til sólarlags liðu aðeins 4 klukkustundir og 16 mínútur. Sólarupprás var kl.11:15 og sólarlag kl.15:31. Á morgun Þorláksmessu lengist dagurinn um eina mínútu og verður það að teljast fagnaðarefni.

19.12.2007 14:52

Vaxandi líkur á hvítum jólum.

Líkur á hvítum jólum aukast.Flestar veðurspástöðvar gera nú ráð fyrir snjókomu sunnanlands á Aðfangadagskvöld og fram á annan í jólum.
Veðurspá 
The Weather Underground, Inc. hljóðar þannig fyrir Eyrarbakka.



Mánudagskvöld Aðfangadag:
Möguleiki á snjókomu. Léttskýjað. Lágm. 30° F. / -1° C. Vindur VNV 35 mph. / 57 km/h./15 m/s Chance of precipitation 50%.

Þriðjudagur Jóladagur:
Möguleiki á snjókomu. Alskýjað. Hám. 32° F. / 0° C. Vindur VNV 38 mph. / 61 km/h./16 m/s Chance of precipitation 40%.

Þriðjudagskvöld Jóladagskvöld:
Möguleiki á snjókomu. Alskýjað. Lágm. 28° F. / -2° C. Vindur VNV 38 mph. / 61 km/h/16 m/s. Chance of precipitation 40%

18.12.2007 15:41

Verða jólin rauð?

Við fáum líklega ekki hvít jól!Brimið á Bakkanum hefur rýnt stuttlega í veðurspárnar fyrir aðfangadag og samkvæmt þeim er útlit fyrir rólega vestanátt og fremur björtu veðri á Bakkanum. Hitastigið verður hinsvegar lágt og jafnvel nokkuð frost. Einhver úrkoma verður á Þorláksmessu. e.tv. lítilsháttar él eða skúrir.

16.12.2007 14:21

Sjávarhamur.


Í óveðrinu á dögunum náði úthafsaldan að ganga inn fyrir enda sjóvarnargarðsins vestan við Einarshöfn og þeytt stórgrýti á land þrátt fyrir að smástreymt væri. Spurning hve langt sjórinn hefði gengið ef það hefði verið stórstreymi þessa stormdaga.

14.12.2007 22:42

Aðventustormur 2 kveður.

Í dag kl. 15:00 náði vindraðinn mestum styrk þegar hann fór í 25 m/s meðalvind og 27 m/s í hviðum á Bakkanum sem er ekki langt frá því sem var í fyrri aðventustorminum í gær.





Á línuritinu má sjá hvernig loftvogin á Bakkanum féll ört og nánast lóðrétt á miðnætti 13 des sl þegar fyrri lægðin barst að landinu og lægðarinnar í dag sem ekki var eins snörp og einnig fjær landi eins og lesa má úr línuritinu því lægðarmiðjan var með 941mb loftþrýsting.

Þessu veðri fylgir stórsjór og því mikið brim úti fyrir og stóröldur dansa á grynningunum. Vestan við Óseyrarbrú hefur verið mikið sandfok í kjölfar veðursins og hefur töluvert sest á veginn við brúarsporðinn.

13.12.2007 01:51

Kolbrjálað veður þessa stundina

Kolbrjálað veður er á Suðurlandi, vinhviður mælast 30-50m/s víða Sunnanlands og meðalvindur frá 25 til 38 m/s og ljós blikka öðru hvoru.
Eyrarbakki Fim 13.12
kl. 03:00
Vindur Sunnan 20 m/s Hviða 23 m/s / 33 m/s 6°C Rakastig 86 %

Stórhöfði Fim 13.12
kl. 03:00
Léttskýjað VindurSunnan 34  m/s Hviða 39 m/s / 49 m/s 5°C Rakastig 79 %

12.12.2007 21:25

Bombulægð á leiðinni?

Sérkennilegar skýjamyndun lægðarinnar.Veðurfræðingar eru nú að gera úr því skóna að lægðin sú sem er í þann mund að taka völdin hér og sú sem á eftir kemur séu af þeirri gerðini að nú sé betra að passa sig, því að lægðin sé hratt dýpkandi og geti farið niður í 940 mb. Lægðarmiðjan er þessa stundina skammt vestur af Reykjanesi og um það bil að læsa í okkur klónum svo betra er að vera nú viðbúnari en síðast og fergja nú laust byggingarefni og annað sem getur fokið út í buskan.

11.12.2007 10:58

Á eftir stormi lifir alda

Öll óveður lægir um síðir og nú er veður orðið stillt en hafið ólgar með beljandi brimi á Bakkanum. Vest var veðrið hér frá kl.23 í gærkvöld og til kl.01 um nóttina en þá var vindhraðinn að meðaltali 21m/s og hviður allt að 32. m/s sem er þó hálfu minna en undir Hafnarfjalli þar sem hviður skutust í 60 m/s eða 216 km/klst sem er álíka og i 2 stigs fellibyl en víða á Faxaflóasvæðinu náðu vindhviður 40 m/s.

Þessu veðri fylgdi talsverð úrkoma eða 13 mm á Bakkanum og 14 mm í Reykjavík. Við Surtsey var 6 m ölduhæð í morgun en þar var stórsjór í nótt.



10.12.2007 23:30

Versta veður skollið á!

ÓveðurÞað hefur gengið á með stormi í kvöld og náði meðalvindhraðinn 20 m/s um tíu leitið og hviður fóru í 27m/s á Bakkanum og eftir það hefur. Öllu verra er veðrið þessa stundina á Faxaflóasvæðinu,en á Skrauthólum hafa vindhviður verið að fara upp í 44 m/s en það eru 12 gömul vindstig eða 158.4 km/klst, svo gott sem í fellibyl. Fréttir herma að þök fjúki í heilu lagi í Hafnafirði og Kópavogi svo ástandið þar er afar slæmt. En Stórhöfði í Vestmannaeyjum á líklega metið að venju, en þar eru nú 45 m/s í hviðum og þar í grend er ferjan Herjólfur að berjast við að ná landi.

07.12.2007 22:21

Bjarni skíðasmiður.

Bjarni Vigfússon smiður frá Lambastöðum í Flóa starfaði á Eyrarbakka veturinn 1911-1912 við skíðasmíðar úr ask og þóttu skíðin vel vönduð og vakti þessi framleiðsla nokkra eftirtekt heimamanna, en hún fór fram í svonefndu "Prestshúsi". Skíðin voru smíðuð að norskri fyrirmynd og með tábönd af sama sniði. Ekki fara þó sögur af því hvort Bjarni hafi gert góðan díl í þessu snjóléttasta héraði landsins.

07.12.2007 10:27

Svalir desemberdagar.

2 cm snjór.Það hefur verið svalt á Bakkanum síðustu dægur og allt að 8 stiga frost og norðaustan áttin ríkjandi flesta daga vikunar. Dálítil snjóföl er yfir sem gerir myrkrið bjartara ásamt jólaljósum sem Bakkamenn eru óðum að hengja á hús sín og limgerði. Í gærmorgun snjóaði nokkuð og mældist snjódýptin 2 cm. en hefur hjaðnað mikið síðan.

Himininn hefur verið bjartur og stjörnur næturinnar glitra í miljóna tali. Sumar bera nöfn eins og t.d. Vega í stjörnumerkinu Hörpunni og er hún fimmta bjartasta stjarna himinsins í 26 ljósára fjarlægð frá jörðu. Á http://www.stjornuskodun.is/ má finna stjörnukort yfir þau merki sem sjást frá Íslandi.

Einhver poppupp gluggi hefur verið að bögga síðuna undanfarið og virðist sleppa í gegnum poppuppvarnarkerfi. Það sem veldur þessu er eitthvað "netstatbasic". Ef einhver kann ráð við þessm ófögnuði væri það vel þegið.

Antal sidvisningar idag: 535
Antal unika besökare idag: 61
Antal sidvisningar igår: 2159
Antal unika besökare igår: 262
Totalt antal sidvisningar: 262984
Antal unika besökare totalt: 33950
Uppdaterat antal: 22.11.2024 08:33:41