Blogghistorik: 2011 N/A Blog|Month_3
29.03.2011 23:36
Ei skal flana að fuglsins ráði
Markús gamli Á Hellum var eitt sinn að leita að vaði yfir Hraunsá, en brú var þá ekki komin þar yfir. Markús er á gangi meðfram árbakkanum þegar fugl kemur fljúgandi og segir: "Viddivi, viddivi". Markúsi heyrist fuglinn vera að spyrja hvort hann vilji yfir og segir því "já, já" við fuglinn. "Vaddútí, Vaddútí" sagði þá fuglinn og hlýddi Markús þessum boðum refjalaust og óð út í ána. Markús sökk þegar upp að höku og varð bálreiður ófétis fuglinum fyrir að ginna sig í hyldjúpa ána og hellti yfir hann skömmum og svívirðingum. Segir þá fulinn "Vaddu voduj, vaddu votuj"? Ó já, víst var ég votur eins og þú sérð skömmin þín, sagði Markús og síst er þér að þakka að ég sé enn á lífi. "Viddudi, viddudi" sagði fuglinn. Já einmitt sagði Markús og tók til við að vinda föt sín, en á meðan flaug fulinn burt og sagði "ó, hæ, ó, hæ, ó, hæ".
Stríðnisfuglinn er "jarðrakan" en sagan er til í tveim útgáfum, Önnur eftir frásögn P. Nielsen en þessi í meginatriðum eftir Jóni Pálssyni í Austantórum.
26.03.2011 00:24
"Svona var að senda flöskuna tóma"
Kolbeinn hét maður Jónson ættaður af Lómatjörn í S-Þingeyjasýslu (f.15.09.1756). Það hafði verið mikill snjóavetur á Suðurlandi og skömmu eftir nýár 1788 var Jón Þórðarson (ríki í Móhúsum) þá ungur að árum, að byggja snjóskála fram af fjósinu hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Hann verður þess þá var að ókunnur maður stendur og starir þögull á sig. Jóni bregður í brún og spyr hver maðurinn sé, en hinn ansar engu. Spyr Jón þá aftur " Hvaðan ber þig að og hvert er erindið"? Svarar þá maðurinn "Kolur er ég nefndur og kem að norðan, en fái ég gistingu í nótt má vera að meir fáir þú að vita af mér og ferðum mínum, en skaltu nú láta þetta, þér nóg vera". Eftir litla þögn sagði Jón " Þú er drjúgur yfir þér, en svo líst mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður" Fékk Kolur þá gistinguna og var þeim vel til vina.
Kolbeinn var faðir Jóns Kolbeinssonar eldri (f.1789), Hafliða (f. 1756-Kambránsmanns), Steingríms (f. 1824- drukknaði ásamt Hafliða 1846) og Þorleifs ríka á Háeyri (f. 1798), Sigríðar (f. 1793-Sigga Kola var einsetukona) Helgu (f. 1749-dó ung) Guðbjargar vinnukonu (f.1799), Jóns yngra (f. 1800-Kambránsmanns) Málfríðar (f. 1806-Vesturfara) og Ólafar vinnukonu (f.1807), en kona hans fyrri hét Þuríður Jónsdóttir frá Eyrarbakka, en önnur kona hans var Ólöf Hafliðadóttir úr Holtum, og sú þriðja hét Aldís. Eftir að Jón ríki fór að búa á Móhúsum byggði Kolbeinn bæ þar skamt frá á "Stelpuheiði" er nefdist Upp-Ranakot.
Sagt er að draugur eða álfur hafi haft Kolbein með sér um þriggja daga skeið, en hann lét þó aldrei uppi hvað með þeim fór, en víst var að skuggalegur náungi með skotthúfu hafi leitað Kolbein uppi um langan veg uns þeim bar saman að Upp-Ranakoti. Oft var þröngt í búi hjá Kola og kvað hann svo um sjálfan sig þegar hann kom heim af vertíð með fimm fiska:
Heldur Kolur heim úr veri,
hlut með rýran,
Engan mola á af sméri,
og illa býr hann.
Kolbeinn átti sérstaka og fágæta flösku er af sjó hafði rekið. Hún var áttstrend og þótti forkunnar fögur. Flösku þessa var Kolur vanur að senda Þorleifi á Háeyri og fékk hana til baka fulla af brennivíni, en dag einn kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi og setti Kol þá hljóðan. Flöskuna sendi hann ekki oftar. Þegar Kolur var látinn, vildi Þorleifur skenkja líkmönnum brennivín úr flöskunni fögru og lagði hana ofur varlega á borðið, en í þeim svifum klofnar flaskan að endilöngu svo vínið flóði fram og ekki dropi varð eftir. Brá Þorleifi og varð hann fölur og fár við, en sagði svo hálfhátt "Svona var að senda flöskuna tóma"! Var þetta síðan haft að orðatiltæki þegar menn sáu um seinan hvað rétt bar að gera.
Heimild: Austantórur, Saga Þuríðar formanns.
23.03.2011 00:20
Sjaldan vísar ormur á veiðistað
Þann 28. maí 1881 var tungl ný útsprungið og hádegisfjara. Sjómenn fóru í maðkasand að venju, en áttu þó ekki von á miklu því leiran var svo til uppurin. En þó brá svo við að þessu sinni að maðkurinn óð uppi og aflaðist meira en þörf var á til róðursins, en það voru tvö skip og einn bátur sem réru þennan dag. Það var trú manna og reynsla að ef "maðkur óð uppi" þá gaf sjaldan með hann svo að gagni yrði og sú varð reyndin í þetta sinn.
Sjór var lágdauður og lygn en loft í drunga. Lóðirnar voru beittar í skyndi og haldið út á miðin. Er tími kom til að draga inn lóðirnar var sjór farinn að ókyrrast allmikið og flest brimkenni gerðu vart við sig. Drjúg undiralda, sog og straumiður strektu lóðirnar. Purpuralitar marglyttur flæktust um árablöðin og sjór allur rauðflekkóttur eins og blóðvöllur víkinga. Straumfallið jókst svo ört að skipin bar af leið meðan dregið var inn, en varla kvikindi var á nokkrum öngli. Skipin leituðu lands svo fljótt sem verða mátti, því brátt myndu öll sund lokast. Tvö skip komust inn áfallalaust en þriðji báturinn (fjögramanna far) barst á með fimm mönnum og skolaði tveim bakborðsræðurum í brimgarðinn með árum og ræðum án nokkurar vonar um björgun. Torfi hét maður og var Jónsson, réri hann við annan mann á stjórnborðið og tók nú til sinna ráða. Skaust sem elding á bakborð með ár sína og réri við hné sér á bert borðið og komust þeir þannig heilir inn úr brimgarðinum.
Heimild: Austantórur.
(Í öðrum heimildum er þessi bátur sagður frá Stokkseyri og má vel vera að saga þessi sé þaðan upprunalega)
19.03.2011 23:48
"Jafnt og helvíti í hellunefið"
Jens bóndi Haagensson í Ranakoti á Stokkseyri var kappsamur háseti og réri hjá Jóni stromp á vertíðum. Skömmu fyrir miðnætti hinn 24. febrúar 1812 vakti hann upp formann sinn og vildi ólmur fara til sjós. Jón strompur lét til leiðast og með kappi smöluðu þeir mannafla á skipið. Þegar Jón ríki í Móhúsum varð þess var að nafni hans ætlaði í róður, tók hann til við að kalla menn undir árar síns skips og voru þar á meðal sækonurnar Þuríður Einarsdóttir á Stéttum (síðar formaður) og Ingibjörg Jónsdóttir á Stokkseyri. Þegar skipin voru komin austur á Baugstaðamið versnaði veðrið og sjór varð ófær um sundin úti fyrir báðum þorpunum. Þá var tekið til bragðs að kappróa til Þorlákshafnar, en þar var venjulega þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brims. Skip Jóns stromps fór fyrir og er komið var til Þorlákshafnar sló skipi hans upp á klettinn "Sýslu" og fylltist af sjó. Jón Gamalielsson (Faðir Gunnars í Nesi) var á skipi Jóns í Móhúsum og sat í stafni og lóðsaði fyrir Jóni. Þá er hann sá hvernig fór fyrir hinum kallaði hann til hans. "Jafnt og helvíti í hellunefið" og sló kreptum hnefa í byrðinginn. Var þetta síðan haft að orðatiltæki um það, ef eitthvað þyrfti að forðast.
(Af skipi Jóns stromps tókst með hjálp manna úr þorlákshöfn að bjarga 7 mönnum en 6 fórust.)
Heimild: Saga Stokkseyrar.
17.03.2011 01:10
Ægir níu menn í nauðir jók
Þegar skip Sigurðar Grímssonar á Borg fórst á Músasundi (Stokkseyri) 25. mars 1891 komust sex menn á kjöl. Þennan dag var brim mikið, útnorðan hávaða rok og frost. (Ekki var róið á Bakkanum þennan dag.) Oft var tvíróið á miðinn og var Sigurður í seinni róðri ásamt fjórum öðrum Stokkseyrarbátum þrátt fyrir tvísýnar veðurhorfur. Skipi Sigurðar hafði hvolft á sundinu og sáu formenn hinna skipana hvar sex menn af þeim 9 sem um borð voru komust á kjölinn. Tveir formenn höfðu farið á undan Sigurði og kölluðust þeir á um hvað gera skyldi en treystust eigi til að reyna björgun og héldu til lands. Það sama gerðu hinir sem á eftir komu, og smám saman hurfu mennirnir af kilinum einn af öðrum.
Formennirnir gáfu þá skýringu að hásetar þeirra hefðu verið orðnir of þrekaðir og kaldir eftir barninginn inn sundið móti veðrinu, en auk þess þótti þeim of mikill háski að hætta mönnum og skipum svo nærri skerjum þeim sem skip Sigurðar hraktist á. Formennirnir fengu hinsvegar miklar átölur fyrir hugleysið. Eftir þennan atburð létu Stokkseyringar aldrei saka sig um hugleysi, og hviku aldrei frá að reyna björgun við erfiðar aðstæður. Jón Sturlaugsson formaður (síðar lóðs) var atkvæðamesti bjargvættur Stokkseyringa.
15.apríl 1898 bjargaði Jón Sturlaugsson áhöfn frönsku fiskiskútunnar "Ísabellu" (Isallai) ásamt öðrum formönnum. Þann 4.12. 1899 bjargaði hann 3 mönnum af báti Þorkells Magnússonar í Eystri-Móhúsum. 14.03.1906 bjargaði Jón 12 manna áhöfn breska togarans "Destimona" sem strandaði austan við Stokkseyri. 02.04.1908 bjargaði hann einum manni af skipi Ingvars Karelssonar í Hvíld, er skip hans fórst við Stokkseyri. 19.03.1913 bjargaði Jón 12 manna áhöfn Guðmundar Hannessonar í Tungu, en hann réri frá Loftstöðum. 16.apríl 1913 bjargaði hann 13 mönnum af róðraskipi frá Þorlákshöfn um borð í vélbát sinn og sigldi með þá til Eyrarbakka. 14.02.1919 bjargaði hann 8 manna áhöfn af vélarvana báti djúpt undan Stokkseyri og tók þá til Þorlákshafnar. Samtals bjargaði Jón Sturlaugsson 73 sjómönnum og þar af 37 íslenskum. Hann vann síðar að stofnun björgunarsveitarinnar "Dröfn" á Stokkseyri sem stofnsett var 22. desember 1928. (Sveitin var sameinuð björgunarfélagi Árborgar fyrir fáum árum).
Heimild: Saga Stokkseyrar
15.03.2011 01:19
Barningur og björgun við "Þyril"
Laugardaginn 12 apríl 1890 réru 7 skip af Eyrarbakka. Brim var mikið er leið á daginn og versnandi sjór. Skip Sigurðar Gíslasonar og Magnúsar í Sölkutóft Magnússonar (Hús-Mánga) lögðu fyrst á sundið og komust þau heilu og höldnu. Jón Jónsson frá Fit (trésmiður í Garðbæ og formaður) lagði þá á sund það sem Rifsós heitir, en áður enn hann komst innfyrir tóku sig upp sjóir hver eftir annan fast aftan við skut og féllu inn í það svo skipið fyllti, en hann var þá við sker það sem "Þyrill" kallast. Nokkrir skipverjar skoluðust útbyrðis en þeim tókst að synda að því og hanga á byrðingnum. Jón sat undir stýri og hélt skipinu í stefnu þar til hjálp barst.
Skip Magnúsar (Magnús var formaður fyrir róðraskipi Lefolii verslunar) hafði stuttu áður verið komið inn úr sundinu, en þegar skipverjar sáu hvað hafði borið við hjá Jóni, sneri Magnús skipi sínu til móts við hann og tókst með snarræði og mikilli dirfsku í beljandi brimgarðinum að bjarga 8 mönnum af skipi Jóns, en ekkert sást þá til tveggja manna af þeim sem fallið höfðu úrbyrðis (Guðmundur Árnason Rauðnefsstöðum og Jónas Einarsson skottumaður (Lausamaður)). Annað skip (sennilega skip Sigurðar Gíslasonar) lagði frá landi til að leita þeirra sem saknað var, en mennirnir fundust ekki. Einn skipverja sem bjargað var um borð í skip Magnúsar reyndist illa haldinn (Eiríkur gullsmiður Arinbjarnarsson) og lét þá Magnús róa allt hvað af tók til lands, en þá var maðurinn andaður. Lifgunartilraunir voru gerðar eftir ráðum P.Nielsens verslunarstjóra og Guðmundar Ísleifssonar kaupmanns, en án árangurs. Síðar um daginn sótti Magnús skip Jóns og dró til lands. Einnig fannst farviður skipsins (ílát undir beitu, lóð ofl.) að mestu. Hin skipin fjögur sem réru þennan dag, hleyptu til þorlákshafnar og lentu þar kl.7 um kvöldið.
Bjargvætturinn Hús-Magnús,
Heimild: Saga Stokkseyrar
13.03.2011 00:50
Hafnsögumenn
Það þótti heiðursstarf að vera "lóðs" á Eyrarbakka í þá tíð sem kölluð hefur verið "skútuöld". Það voru jafnan tveir til þrír menn sem gengdu þessu starfi á hverjum tíma. Árið 1754 voru laun hafnsögumanna, sómasamleg föt og 80 skildingar á viku á meðan skip voru á legunni. Hlutverk þeirra var að "lóðsa" skipin inn og út um sundið og báru þeir ábyrgð á að festur væru tryggar á legunni, stjórnuðu öllum tilfærslum í höfninni og voru nokkurskonar yfirvald á meðan skipin lágu fyrir.
Eftirtaldir Eyrbekkingar gengdu þessu starfi:
1754 Tómas Þorsteinsson og Heller.
1764 Bjarni Magnússon og Jón Bjarnason.
1776 Jón Bjarnason (lóðs í 17 ár) og Bjarni Jónsson á Skúmstöðum.
1785 Jón Jónsson í Eyvakoti og Jón Magnússon í Mundakoti.
1794 Kristján Bergson í Garðinum og Jón Bjarnason á Litlu-Háeyri.
1826 Helgi Vernharðsson og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1831 Vernharður Helgason og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1867 Ólafur Teitsson í Einarshöfn og Vernharður Helgason.
1887 Magnús Ormsson í Einarshöfn og Ólafur Teitsson og Sigurður Teitsson.
1899 Jón Sigurðsson í Túni og Ólafur Teitsson og Magnús Ormsson.
1900 Árni Helgason Akri og Jón Sigurðsson í Túni.
Á Stokkseyri voru hafnsögumenn undir lok skútualdar "Jónarnir fjórir".
Jón Sturlaugsson, Jón Jónsson, Jón Grímsson og Jón Adólfsson.
Heimild: Austantórur, Saga Stokkseyrar.
10.03.2011 00:47
Skipasmiðir
Fyrsta hafskipið sem smíðað var á Eyrarbakka svo vitað sé, var kaupskip smíðað árið 1338 og gekk það til Noregs það sama sumar. Ekki er vitað um önnur farmskip smíðuð á Eyrarbakka, þar til Brynjólfur biskup Sveinsson lét smíða stórt skip árið1652 á Bakkanum. Var það farmskip, 20 álnir um kjöl. Ormur Indriðason, (d.1661) sem kenndur var við Skúmstaði á Eyrarbakka var sagður skipasmiður og má leiða líkum að því að hann hafi komið að smíði þess ásamt Brynjólfi skipasmið á Rekstokki, Sveinbjarnarsonar, bónda á Skúmstöðum, en Brynjólfur var samtíða Ormi.
Klemenz Jónsson (1687-1746) frá Einarshöfn var formaður í Þorlákshöfn og umsjónarmaður með fiski biskups á Eyrarbakka. Hann var einnig sagður skipasmiður og hefur eflaust smíðað skip það er hann var formaður fyrir.
Tómas Þorsteinsson (1699-1754) frá Skúmstöðum var sagður skipasmiður.
Brandur Magnússon (1727-1821) í Roðgúl á Stokkseyri var hagleikssmiður á járn og tré og afar uppfyndingasamur. Hann var einnig rammur að afli svo af var látið. Hann smíðaði mörg skip, en sjálfur var hann formaður í 60 ár á "Bæringi" er hann smíðaði með sínu sérstaka lagi og þótti það betra sjóskip en önnur á þeim tíma. (Stærð þess var 9.5 X 4,5 alin). Hann tók upp á því að járnslá árahlumma og stafn og var skip hans kallað "Járnnefur" upp frá því. Smíðahamar hans var tvískallaður og vóg 3 pund, en þennan hamar eignaðist Helgi Jónsson (1810-1867) á Ásgautsstöðum. Jón Snorrason (1764-1846) skipasmiður í Nesi, nam skipslagið af Brandi og hafði öll skip sín með "Brandslagi". Samtíða honum var Þorkell Jónsson (1766-1820) á Háeyri, en hann smíðaði mörg skip og sauminn sló hann sjálfur í smiðju sinni, enda jafn hagur á járn og tré.
Jón Gíslason frá Kalastöðum var skipasmiður en auk þess listasmiður á járn og kopar. Árið 1859 smíðaði hann skipið "Fortúna" úr viðjum kaupskipsins "Absalon" sem strandaði á Eyrarbakka 15. maí 1859 og átti Grímur bróðir hans þann bát. Um 1860 smíðaði hann áttróinn sexæring fyrir Guðmund Þorkellsson á Gamla-Hrauni. Hét sá bátur "Bifur" og var mjórri og í minna lagi en gerðist með sexæringa á þeim tíma. Báturinn þótti hinsvegar einstök gangstroka og léttur undir árum.
Steinn Guðmundsson í Einarshöfn var skipasmiður góður. Skip hans voru með nýju lagi er kallaðist "Steinslag" og tóku öðrum skipum fram í brimsiglingu og voru vönduð og góð sjóskip. Fyrir það var hann heiðraður af konungi Christian IX. Þá hafði hann smíðað 138 skip með þessu nýja lagi, en í allt smíðaði Steinn 300 skip. Hann var það afkastamikill að hann gat smíðað eitt skip á 12 dögum. Á Sjóminjasafninu er eina eintakið sem eftir er af skipum Steins, en það er "Farsæll" sem Steinn smíðaði fyrir Pál hreppstjóra Grímssonar í Nesi, en þessu skipi var bjargað á elleftu stundu frá eyðileggingu af Sigurði Guðjónssyni á Litlu-Háeyri. "Farsæll" er seglbúið skip, en Steinn var fyrstur skipasmiða sunnanlands til að búa áraskip seglum. Skip hans þóttu happafleytur, en aðeins er vitað um eitt skip frá honum sem farist hefur.
Samtíða Steini Guðmundssyni var Jóhannes Árnason (1840-1923) á Stéttum. Skip hans voru einnig með hinu nýja "Steinslagi" en þau þóttu öruggari og viðtaksbetri á brimsundunum og svipurinn fallegur með skásett stefni. Meðal skipa hans var "Svanur" er áttu Gamla-Hraunsfeðgar. Síðasta skipið smíðaði hann árið 1916 og voru smiðslaun þá 70 kr fyrir skipið.
Hallgrímur Jóhannesson (1851-1912) skipasmiður frá Borg í Hraunshvefi (Síðar Kalastöðum og brimvörður á Stokkseyri) tók einnig upp nýja skipslagið hans Steins, en Hallgrímur var einnig hagur járnsmiður og voru skautar hans annálaðir og eftirsóttir af skautaunnendum, en þeir voru ófáir í þá tíð.
Sigurjón Jóhannesson (1865-1946) á Gamla-Hrauni var meðal síðustu skipasmiða á skútuöld ásamt Einari syni sínum (1889-1948) frá Sunnuhvoli á Stokkseyri. Einar var hinsvegar með fyrstu vélbátasmiðum Sunnlendinga, en hann smíðaði vélbátinn "Björgvin" ásamt Jóhannesi bróður sínum og Þorkeli þorkellssyni á Gamla-Hrauni. Bát þennan gerðu þeir út frá Stokkseyri.
Heimildir: Saga Stokkseyrar,Saga Eyrarbakka, Austantórur.
07.03.2011 23:18
Einar í Útgörðum
Einar Loftsson í Útgörðum var fátækur maður. Einhverju sinni fór hann út á Bakka og teimdi sína einu bikkju og var hún með einhverjum baggaskjöttum á. Mætir þá honum maður nokkur og segir við hann. " Hún er ekki löng lestin þín Einar minn". "Onei" sagði Einar, "ég hermmdi ekki nema í þessa einu bikkju úr stóðinu mínu í morgun".
Heimild: Austantórur.
06.03.2011 01:17
Stína í Koti og Þórey gamla
Þær stöllur Kristín í Norðurkoti og Þórey gamla í Eyvakoti Guðmundsdóttir, höfðu þau forréttindi að meiga fyrstar opna glervörukörfurnar í Vesturbúð, þá er skip hafði komið. Máttu þær velja það sem þær gátu komist yfir og keypt. Kerlingar þessar riðu um Sunnlenskar sveitir og gáfu völdum frúm og bændakonum þessi djásn, ásamt orlofskökum, silkihandalínum, svuntu og peisufataefnum í skiptum fyrir ýmsa bændavörur. Þær nutu þessara forréttinda til margra ára, enda leit verslunin á þetta framtak sem bestu auglýsinguna sína.
Heimild: Austantórur.
05.03.2011 00:01
Orsök reimleikana á Stokkseyri kunn.
Oft hafði það komið fyrir að reimleika yrði vart í sjóbúðum á Stokkseyri fyrr á tímum, og einkum á vertíðinni 1892 svo eihverju sinni bar það við að sjómenn flúðu verið. Á Stokkseyri var það að venju að sjómenn beittu lóð sín inni í sjóbúðunum, mötuðust þar og sváfu. Á Eyrarbakka var aldrei beitt í sjóbúð, heldu annaðhvort utandyra eða í beituskúrum. Fyrir hverja vertíð voru beituskúrar og sjóbúðir ræstaðar og hreinn sandur borinn á gólf, en því var ekki fyrir að fara í mörgum sjóbúðum Stokkseyringa og undir sandinum í rotnandi úrgangi myndaðist óloft sem olli sjómönnum vanlíðan og ofskynjunum. Þá var Jóhann Þorkellsson í Mundakoti hreppstjóri og kom væntanlega í hans hlut að ransaka málið, enda var sú niðurstaðan. Hreppsnefnd gaf síðan út tilskipun um að eigendur allra sjóbúða á Stokkseyri bæri skylda til að ræsta út fyrir hverja vertíð og bera nýjan sand á gólf. Varð þá ekki vart reimleika síðan, en draugasagan í sjóbúðinni varð þó lífseig í vitund sjómanna æ síðan.
03.03.2011 01:10
Góutungl kviknar í dag
Nýtt góutungl mun kvikna í dag, en þessi síðasti vetrarmánuður er nú um það bil hálfnaður (Góa 20. febr.) Góuþrællinn er 20. mars og einmánuður hefst 21. á Heitdaginn.
Hér er gömul vísa eftir ókunnan höfund um fyrstu mánuði ársins:
Þorri og Góa, grálynd hjú,
gátu son og dóttur eina.
Einmánuð sem bætti ei bú
og blíða Hörpu að sjá og reyna.
Um góu og einmánuð er sagt " Góður skildi fyrsti dagur góu, annar og þriðji, þá mun einmánuður góður vera". Þessir dagar voru frostlausir með allt að 9 stiga hita en nokkuð blautur sá þriðji.
01.03.2011 00:59
Tiðarfarið
Suðvestanáttin er leiðilegasta vindáttin á Bakkanum, enda stendur hún beint af hafi og hefur hún ráðið að undanförnu með hagli eða slydduéljum og hvössum rokum. En mánuðurinn byrjaði hinsvegar með fannfergi sem stóð þó stutt. Jafnfallin snjór náði allt að 40 cm og mátti Finn á ýtunni hafa sig allan við. Þá bætti í frostið sem komst í - 15°C þann 7. febrúar sem er allmiklu meira frost en fyrir ári og dælur urðu að svellum. Eftir það tók að hlýna og var mestur hiti 8° C þann 20. sem er litlu lægra en 2010. Þrisvar fengum við storma, sem þó ollu engum skakkaföllum. Mesta sólarhrings úrkoma í mánuðinum var 22 mm sem er svipað og í sama mánuði í fyrra. Brim hefur verið nokkuð allan mánuðinn og einna mest síðustu daga. Hefði útræði verið enn við lýði, þá myndu menn tala um gæftarleysið þessa dagana.
- 1