Category: Bátar

05.04.2023 23:44

"Grútarnir" á Bakkanum

 

Árið 1930 Keypti Kaupfélag Árnesinga Verslunarhúsin á Eyrarbakka, steyptu löndunarbryggju þar sem áður voru brautarteinar frá verslunarportinu niður að sjó og létu smíða tvo uppskipunarbáta sem voru dregnir af vélbáti út á sundið þar sem gufuskip lögðu við festar. Þessir prammar gátu borið talsverðan farm. Það var ekki síst salt sem var flutt til lands og saltfiskur í skip til útflutnings á þessum prömmum. Þegar Kaupfélagið kom sér fyrir í Þorlákshöfn og lét rífa búðarhúsin stóðu þessir prammar eftir hlið við hlið sem dapur vitnisburður um hnignandi verslun á Bakkanum og fengu að grotna þar óáreittir áratugum saman. Fyrir krakka í hverfinu nýttust þeir þó sem leikvöllur í ímynduðum heimi víkinga og sæfara.

12.07.2021 22:44

Á sjó 1960


Þrír bátar gerðu út frá Eyrarbakka árið 1960. Það voru "Kristján Guðmundsson ÁR 15"  sem var aflahæstur þessa vertíð. Jóhann Þorkelsson ÁR 24 og Öðlingur Ár 10.
Nýtt salthús var tekið í notkun þetta ár.

Kristján var smíðaður í Svíþjóð 1956 53 tonna fiskibátur í eigu útgerðafélagsins Ásþór hf Eyrarbakka.  Báturinn hét áður Faxi GK 90 en kom upphaflega til Vestmannaeyja og hét þá Unnur VE 80.
Báturinn slitnaði upp 1964  og hafnaði í fjörunni lítið skemmdur. Bátnum var smokrað upp á vagna. Björgun hf. tók að sér verkið. Báturinn var dæmdur ónýtur sökum þurrafúa 1973 og brenndur.

Jóhann var í eigu Fiskivers hf. þeirra bræðra Jóhanns og Bjarna Jóhannssonar. Þeir áttu nokkra báta sem báru þetta nafn á sínum útgerðarferli. Síðasti bátur þeirra með þessu nafni strandaði á Eyrarbakka 1981 en hann var 56 tonna eikarbátur smíðaður 1975 og var dæmdur ónýtur á staðnum. (Mynd hér að ofan) Jafnframt áttu þeir Álaborg Ár 25  hið fyrra keypt 1970 og hið síðara lagalegur Íslanssmíðaður 138 tn. stálbátur sem þeir gerðu út frá 1996 - 2007 er hún var seld til Vestmannaeyja.

Öðlingur síðari var keyptur 1962 og var sænsk smíðaður 51 tonna eikarbátur frá 1946. Báturinn var í eigu Vigfúsar Jónssonar og Sverris Bjarnfinnssonar.  Árið 1964 kviknaði í honum í slippnum og var dæmdur ónýtur. 

30.04.2021 23:23

Sjóminjasafnið og Farsæll

Það mun hafa verið árið 1962 þegar Sigurður Guðjónsson á Litlu-Háeyri byrjaði að sinna safnamálum á Eyrarbakka við litla hrifningu hreppsnefndarmanna. Hóf hann því þetta þrekvirki upp á eigin spýtur. Hann byrjaði á að grafa skipshræ nokkurt upp úr sandinum við Háeyrarvör, það eina sem eftir var sinna tegundar og hét Farsæll og Páll Grímsson þá nýfluttur vestur í Nesi í Selvogi átti og gerði út frá Þorlákshöfn. Þetta er mikið skip, svokallur teinæringur sem Steinn Guðmundsson í Steinsbæ skipasmiður á Eyrarbakka hafði smíðað árið 1915.

Hið næsta verkefni Sigurðar var að byggja skýli yfir skipið það sama ár og á eigin kostnað, því hvorki hreppurinn né aðrir vildu gefa þessu gaum eða styrkja á nokkurn hátt. Skýlið mun hafa staðið á þeim slóðum sem þvottaplan 'sjoppunnar' stendur í dag og fékkst reist fyrir velvilja lóðarhafa. Þessi skúr stóð þar til Sjóminjasafnið var reist. Sigurður reif síðan skúrinn og stóð skipið þar úti í eitt ár, þar til unt var að koma því fyrir í nýja húsinu.

Nýja húsið reisti Sigurður á tímabilinu 1969 til 1979 einnig upp á eginn reikning, því enginn hreppsmaður eða opinber aðili vildi leggja nafn sitt við varðveistlu á gömlu og úreltu skipsflaki.
Húsið er háreist svo skipið geti notið sín undir fullum seglum.

Það var ýmislegt annað tengt sjósókn og lífinu í þorpinu sem Sigurður dró í skjól og varðveitti.

Farsæll er tólfróið skip, en hér um slóðir þurftu sjómenn að reiða sig meira á árarnar fremur en seglin, því hér er stöðugt vesturfall sem erfitt var viðureignar og máttu menn stundum þakka fyrir að geta haldið í horfinu.

Árið 1923 seldi Páll skipið Kristni Jónssyni, síðar byggingameistara á Selfossi. Hann gerði það út nokkur ár, en þá tók við Halldór Magnússon frá Hrauni í Ölfusi í tvö ár. Þá tók við skipinu Jón Jakobsson frá Einarshöfn. Þá kemur skipið austur á Eyrarbakka og notað sem "farþegaskip". En það var kallað svo á Bakkanum þegar hóað var í mannskap til að taka einn og einn róður þegar vel gaf á sjó og aflavon var.

Mótor var settur í skipið til að gera það nýtískulegra þegar ekki fengust lengur menn undir árar, en það dugði skamt og var skipinu lagt upp í Háeyrarvör skamt vestan við Sunnuhvol og grófst þar í sandinn og skældist undan farginu.
Skipið var nokkuð illa farið og mjög fúið í umgjörð og efstu borðum. Áður hafði Fiskifélagið látið gera nokkuð við skipið því þeir voru með áform um að varðveita það, en þau áform runnu út í sandinn bókstaflega.

Jóhannes Sigurjónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni gerði síðan við skipið að fullu og lauk því tæpu ári fyrir andlát sitt.

Skip af þessu tægi voru mæld með hnefamáli, t.d var einn hnefi frá þóftu undir hástokkinn. Farsæll var smíðaður úr furu og voru 14 menn í áhöfn.

Í dag er sjóminjasafnið mikil þorpsprýði og hið eistaka djásn kúrir þar til sýnis forvitnum ferðalöngum.

Páll Grímsson var frá Óseyrarnes, en þegar hann var formaður á Stokkseyri var ort um hann þessi vísa:
Bjarni slynga happa-hönd, 
hefir á þingum vanda, 
djarfur þvingar ára-önd 
út á hringinn-landa. 

Frækinn drengur fram um ver, 
fiskað lengi getur. 
Stýrir "Feng" og eitthvað er 
ef öðrum gengur betur.

25.02.2017 17:29

Af trillum

Þessi trilla stóð lengi austan við Hópið, Áðurfyrr var allnokuð um að gerðir væru út trillubátar frá Eyrarbakka og skal hér nefna norkkrar: "Framsókn" og "Jónas ráðherra" sem Kaupfélagið gerði út 1935. Skúli Fógeti og Sleipnir sem slitnuðu upp í höfninni 1975, Þerna sem fórst fyrir utan Stokkseyri nokkrum árum síðar og Bakkavík sem fórst í innsiglingunni á Eyrarbakka. Sjá Bakkabátar

25.02.2017 17:22

Frá Einarshöfn

Sólborg ÁR sleit upp í óveðri árið 1975 ásamt nokkrum öðrum smábátum. http://brim.123.is/blog/cat/4879/5/  

30.04.2016 20:18

Friðrik Sigurðsson ÁR 7

Friðrik Sigurðsson ÁR 7 í Þorlákshöfn ( síðar Ólafur GK 33). Friðrik Sigurðsson (1876-1953) útvegsbóndi sem þessi bátur og aðrir þeir sem á eftir komu er kenndur við, var frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka. Friðrik gerði út fiskibát frá Stokkseyri.  Þessi dansksmíðaði 36 tn bátur á myndinni kom til þorlákshafnar  1955, en þar höfðu afkomendur Friðriks ásamt Sandvíkurmönnum stofnað útgerðarfyrirtækið Hafnarnes í Þorlákshöfn. Guðmundur Friðriksson í Þorlákshöfn var skipstjóri á þessum bát. Kona hans var Magnea  Þórarinsdóttir, frá Stígprýði Eyrarbakka. Friðrik Sigurðsson átti bátinn Svanur ÁR 171 sem var 8 tn og smíðaður á Eyrarbakka. Áður átti hann Sæfara ÁR 6  sem var 6tn og smíðaði Bjarni Þorkelsson báða bátanna. Kona Friðriks var Sesselja Sólveig Ásmundsdóttir, en hún lést af slysförum.

Grein eftir Friðrik Sigurðsson http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3278696

03.01.2016 19:19

Skipasmíðar á Eyrarbakka, Öldungur ÁR


ÖLDUNGUR ÁR: Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1923 úr eik. 10 tonn með Hansa vél. Guðmundur Guðmundsson á Eyrarbakka átti bátinn upphaflega. Var þá formaður  Jón Bjarnason í Björgvin /Litlu Háeyri. 1931 eða fyr var Öldungur seldur til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur á Bakkann , sennilega 1938 þegar Sigurður Kristjánsson, Kristinn Jónasson, Sveinn Árnason og Árni Helgason í Akri keyptu hann. Árni var þá skipstjóri á bátnum. 1943 var Öldungur seldur til Suðureyrar við Súgandafjörð. Báturinn var afskráður 1953. Aðrir í samtímaflota Eyrbekkinga voru þá Freyr ÁR 150, og Freyja ÁR 149. Hægt er að sjá ljósmynd af bátnum við bryggju í Þorlákshöfn, hér :http://www.sarpur.is/Adfang.aspx? og nánar um sögu hans. Allmargir mótorbátar voru smíðaðir á Eyrarbakka á fyrri hluta 20. aldar allt fram til 1940.

22.09.2015 21:21

Flóabáturinn Ingólfur

Ingólfur gamli flutti vörur milli Reykjavíkur Akranes og Borgarnes og einnig til Eyrarbakka. Ingólfur byrjaði flutninga 1908 og var það fyrsta flutninga og farþegaskipið sem var alfarið í íslendinga eigu. Árið 1916 voru þrír Eyrbekkingar á Ingólfi; Sigurjón Jónsson frá Skúmsstöðum var skipstjóri, og sægarpur hinn mesti, Einar organisti frá Eyfakoti og Jón Axel Pétursson, sonur Péturs Guðmundssonar kennara, þá 16 ára og voru þeir hásetar.

Ingólfur tók einnig þátt í leitum og björgun skipbrotsmanna á Faxaflóasvæðinu.

15.10.2012 21:44

Flotinn 1928-1969

Bátaeign Eyrbekkinga 1928-1969

Útgerðarár

Bátsnafn og nr.

Smíðaár

Tonnafjöldi

Eigandi

1928

Freyja ÁR 109

1916

9

Jóhann E Bjarnason ofl.

1928-1938

Freyr ÁR 150

1916

12

Jón Helgason

1928-1933

Halkion ÁR 168

1908

9

Vilbergur Jóhannsson

1928

Norröna  ÁR 139

1908

8

Guðmundur Ísleifsson

1928

Olga ÁR 166

1908

9

Páll Guðmundsson ofl.

1928

Sæfari ÁR 135

1914

6

Friðrik Sigurðsson ofl.

1928

Vöggur ÁR 151

1916

8

Ársæll Jóhannsson ofl.

1928-1929

Öðlingur ÁR 183

1926

12

Árni Helgason ofl.

1928

1937-1943

Öldungur ÁR 173

1923

9

Guðmundur Guðmundsson

Sigurður Kristjánsson ofl.

1929-1940

Björgvin ÁR 155 Gerður út frá Stk.eyri

1916

9

Jóhann Sigurjónsson

1929-1930

Svanur ÁR 171

1922

9

Friðrik Sigurðsson

1929-1930

Trausti ÁR 181

1914

10

Jóhann B Loftsson ofl.

1929-1932

Ölver ÁR 187

1929

12

Júlíus Ingvarsson

1939-1951

1952-1959

Ægir ÁR 183

1910

Seldur burt 1960

17

Magnús Magnússon ofl.

Gumann Valdimarsson ofl.

1943-1952

Gunnar ÁR 199

1921

12

Jón K Gunnarsson

1944-1955

Gullfoss ÁR 204

1930

10

Árni Helgason ofl.

1948-1955

Pipp ÁR 1

1925

14

Helgi Vigfússon ofl.

1951-1957

Mímir ÁR 22

1938

17

Óðinn H/F

1952-1958

Faxi ÁR 25

1939

Seldur burt 1959.

26

Sigurður Guðmundsson ofl.

1953-1969.....

Jóhann Þorkelsson ÁR 24

1943

28

Bjarni Jóhannsson & Jóhann Jóhannsson.

1956-1961

Helgi ÁR 10

1939

27

Vigfús Jónsson ofl.

1963-1969

Kristján Guðmundsson ÁR 15

1956

53

Ásþór H/F

1963-1964

Öðlingur ÁR 10

1946

51

Vigfús Jónsson ofl.

1964

Guðbjörg ÁR 25

1957

57

Sigurður Guðmundsson

1965-1969....

Þorlákur Helgi ÁR 11

1957

64

Vigfús Jónsson ofl.

1965

Jón Helgason ÁR 150

 

 

Eyrar H/F

1966-1969

Fjalar ÁR 22

1955

 

HE (Hraðfr.st.Eyrb.)

1968-1969....

Hafrún ÁR 28

 


HE

Heimild: Handrit á ensku Júl 1970 ljósrit : Fishing-ship at Eyrarbakki. Tekið upp úr sjómanna almanaki.

22.08.2012 23:21

Dáðadrengir

SkallagrímurAð morgni 13.apríl 1926 reru 17 bátar af Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar á daginn leið gerði  landsynningsrok og brim svo mikið, að aðeins nokkrir bátar gátu  lent heima, (aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka) en hinir urðu að láta  fyrirberast úti á rúmsjó. Þegar heimamönnum þótti sýnt, að bátarnir gátu ekki náð landi var símað til stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það, að varðskipið Fylla og önnur skip, sem til næðist væru beðin að koma bátunum til hjálpar. Var þá strax sent skeyti til allra skipa á þessu svæði og þau beðin að líta eftir bátunum. Strax um kvöldið voru fimm íslenskir togarar komnir á vettvang til hjálpar, þeir Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra, Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir einn bátinn "Trausta" og dróg hann til Reykjavíkur, en Skallagrímur bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", bát frá Eyrarbakka (ÁR 148 vélbátur Árna Helgasonar í Akri). Liðaðist hann sundur og sökk, (skipsflakið rak á land við Grindavík) en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum, Hannes ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til Vestmannaeyja.

Sveinn Árnason fyrrum nágranni minn í Nýjabæ minntist eitt sinn á þennan atburð, en hann mun þá hafa verið 13 ára er faðir hans var með Öðling. Eftir barning allan daginn berandi ótta og kvíða í brjósti á lítilli bátskel í aftaka veðri handan við brimgarðinn, varð það þeim mikill léttir þegar þeir sáu togarann Skallagrím sér við hlið. En þó höfðu þeir aldrei orðið eins hissa og þakklátir þegar þeir þekktu manninn sem rétti fram höndina og kippti þeim um borð, en það reindist vera nágranni þeirra feðga, Sigurður Guðjónsson frá Litlu-Háeyri sem þá var háseti á Skallagrími, en átti síðar eftir að stýra því skipi farsællega öll heimstyrjaldarárin. Við annað tækifæri átti þessi frækni togaraskipstjóri eftir að fylgja þeim feðgum fyrir Reykjanesið, en þeir höfðu þá keypt bát frá Akranesi og lentu í miklum barningi á hemleið.

Heimild: Aldan 1926  

Mynd-Skallagrímur RE:http://www.mikes-place.connectfree.co.uk/icegal/skallagrimur.html

Eldri frásögn Brimið á Bakkanum: Hrakningar á miðunum

26.05.2012 00:32

Vélbáturinn " Íslendingur" frá Stokkseyri

Um hádegisbil 2. maí 1931 var Línuveiðarinn "Pétursey " stödd um eina sjómílu frá Krísuvíkurbjargi. Heyra bátsmenn hvar blásið er í þokulúður uppi á bjarginu og bregður Guðjón Jónsson skipstjóri sjónauka sínum á loft. Verður hann þá var við vélbát í klettaskoru framan í bjarginu og sex menn á bjargsillu þar fyrir ofan veifandi þjóðfánanum. Var um að ræða vélbátinn Íslending frá Stokkseyri, en vökumaðurinn hafði sofnað á verðinum og bátinn rekið upp í klettana og brotnað. Guðjón sendi léttbát til þeirra undir bjargið og sigu mennirnir af Íslendingi niður í hann í tveimur hollum, þeir voru síðan selfluttir um borð í vélbátinn "Muninn" er þá kom að björgunaraðgerðum. Mennirnir, sem í skipreikanum lentu,  voru  Ingimundur  Jónsson  formaður, eigandi bátsins, Bjarni Sigurðsson, Kristján  og Sigurður  bræður, Hreinssynir, og Einar Vilhjálmsson, en þeir höfðu þá allir hangið á sillunni í 12 stundir.

Íslendingur II var 12 tn. 15 ha. Alpha motor. Smíðaður í Vestmannaeyjum 1915, (hét "Lára")

01.05.2012 22:20

Bátsmerki Stokkseyringa

Þann 10. febrúar 1926 var eftirfarandi merking veiðafæra samþykt fyrir Stokkseyrarbáta:

"Sylla", Ijósgrænt. "Björgvin", 2 Ijósgræn. "Baldur", blátt.  "Svanur", brúnt. "Fortúna", hvítt. "Aldan", dökkgrænt. "Friður", 2 dökkgræn. "Íslendingur"; svart. "Stakkur", 2 svört. "Heppnin", grænt, rautt. "Inga", hvítt, grænt. Var bátsmerkið nær ás (á linu) og fjær nethálsi.  

Sýslumerkið  var rautt.

Ægir 1927.

24.04.2012 23:13

Veiðafæramerki í Eyrarbakkaverstöð 1926

ÖðlingurSýsluliturinn var rauður. Á neti: ca. hálfhringur á miðri kúlu, en á lóð: á miðjum taumi. En merki hvers báts voru samsvarandi hálfhringur  í mismunandi litum og voru þau staðsett á lóð, milli önguls og sýslumerkis, en á netum voru þau höfð á botni kúlunnar. Litirnir voru þessir:

Mb. "Sæfari", Guðfinns Þórarinssonar hafði grænt merki.

- Halkion, Vilbergs Jóhannssonar var með ljósblátt merki.

- Freyja, Jóhanns E. Bjarnasonar hafði hvítt meki.

- Framtíðin, Kristinns Vigfússonar hafði gult merki.

- Öldungur, Jóns Bjarnasonar var með svart merki.

- Öðlingur, Árna Helgasonar var með brúnt merki.

- Olga, Jóns Gíslasonar hafði grátt merki.

- Trausti, Jóhanns B. Loftssonar var með hvítt og blátt.

- Freyr, Jóns Helgasonar hafði grænt og gult merki.

Heimild: Ægir 1926- Guðmundur Ísleifsson.

12.04.2012 22:52

Mótorbáturinn Atli frá Stokkseyri

StokkseyrarhöfnHinn 17. apríl 1922 kl. 4-5 að morgni fór mótorbáturinn "Atli" frá Stokkseyri vestur í Hafnarforir að vitja um net. Sjó brimaði mjög skyndilega á meðan. Rétt fyrir hádegisbilið kom báturinn að Stokkseyrarsundi og lá þar til lags um tíma, eins og venjulegt var, þegar mikið brimaði, lagði síðan á sundið er þeim þótti lag, en yst á sundinu, á boða þeim er Skotur (eða Skjótur) nefnist fyllti bátinn og fórst hann með allri áhöfn.

Formaðurinn var hinn ungi og efnilegi sjósóknari Bjarni Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, ekkjumaður um þritugt og átti hann eitt barn. Hásetar voru: Einar Gíslason, bóndi frá Borgarholti, alkunnur formaður á Stokkseyri; hann mun hafa verið á sextugs aldri og átt uppkomin börn. Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónassonar á Stokkseyri, var þá á 17 ári. Þorkell Þorkelsson frá Móhúsum, sonur Þorkels sál. Magnússonar, sem lengi var talinn meðal mestu fiskimanna og sjósóknara á Stokkseyri, en druknaði þar nokkrum árum fyrr. Guðmundur Gíslason frá Brattholtshjáleigu, Markús Jónsson frá Útgörðum (ættaður úr Rangárvallasýslu) og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum, ættaður af Rangárvöllum (Ekru -Oddahverfi). Frá Stokkseyri reru alls 4skip og af Eyrarbakka tvö þennan dag. En þeim tókst öllum að lenda, en við illan leik.

Atli var 10 tonn með  12ha Hein vél. Smíðaður á Stokkseyri 1916 af Gunnari M Jónssyni. Kristján Guðmundsson í Búðarhamri var formaður á honum um tíma.

Heimild: Lögrétta - 24. apríl 1922  Ægir - 1922. http://brim.skipasmidar

07.04.2012 00:25

"EOS" strandið

http://loregame.wikia.com/wiki/Naval_UnitsÍ janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.

Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.

Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).

Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.

Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26