Blog records: 2012 N/A Blog|Month_2

25.02.2012 17:56

Kennileiti í Eyrarbakkafjörum

 Stækka

Original/Upprunanlegt kort af Eyrarbakka. Á þetta gamla kort af Eyrarbakka, hef ég bætt nokkrum örnefnum á helstu kennileiti í Eyrarbakkafjöru og umhverfis þorpið. Vilji menn hinsvegar fræðast frekar um hin fjölmörgu örnefni sem varðveist hafa á Eyrarbakka og nágreni þorpsins, er rétt að vekja athyggli á vandaðri umfjöllun Nafnfræðafélagsins í samantekt Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar sem finna má hér.  Lýsingar fjölmargra örnefna í Eyrarbakkahreppi má nálgast á Eyrarbakki.is

21.02.2012 23:15

Egill og klaufjárnið

Teiknimyndin sem byrtist í "Speglinum" 1950 sýnir Egil Thorarinsen kaupfélagsstjóra í Sigtúnum munda kúbeinið að einu af mestu fornminjum Íslandssögunnar, þ,e, "Vesturbúðunum". Heimamenn háðu harða baráttu  fyrir verndun húsanna og leituðu m.a. til Kristjáns Eldjárns þáverandi þjóðminjavaðrar og hétu á hann til liðveislu. En allt kom fyrir ekki, svo bardagalokin milli Eldjárns og klaufjárns urðu á þann veg, að kaupfélagsvaldið hafði sitt fram. Íslendingar stóðu fátækari eftir en nokkru sinni, síðan handritin voru rituð, hvað varðar sögu og menningu þjóðarinnar þegar Vesturbúðirnar hurfu af þessum forna verslunarstað fyrir fullt og allt.

18.02.2012 23:37

Undir árum

"Þuríður Einarsdóttir hét á Strandakirkju. Hún var mörg ár formaður í brimhöfnum (á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn) á stórskipum og bát, þar til hún var fult sextug; fiskaði bæði og fórst vel".
-----------------
Bjarni bóndi Jónsson í Garðbæ á Eyrarbakka gaf Strandakirkju 1813 hökul "saminn af list" "með silfurskildi" og á letrað: "haf i minni á krossi Krist".

-----------------
Þeir frændur Sigurður Ísleifsson trésmiður á Eyrarbakka og Þorleifur  á Garði Guðmundsson Ísleifssonar á Háeyri áttu saman mótorbátinn "Höfrungur" sem gerður var út frá Þorlákshöfn 1914 og var þá nýr, en veigalítll súðbyrtur með trekvartommu furuborðum. Í óveðri sem gekk yfir aðfararnótt 27. ágúst 1914 sökk vélbáturinn, en 30 ára gamall feyskinn uppskipunarbátur frá Vesturbúð sem hafði verið festur við mótorbátinn hélst á floti. Daginn eftir skaut "Höfrungi" upp úr kafinu en þá var vélin gengin úr bátnum. (Þorleifur Guðmundsson var þingmaður Árnesinga um skeið fyrir Framsóknarflokkinn.)
--------------------------

Engjavegurinn varð bílfær 1928 fyrir tilstilli Bjarna Eggertsssonar.

--------------------------
Flugvélaplágan 1944 "Við höfum átt því að venjast um alllangt skeið, að ungir flugvélaglannar leiki sér hérna yfir þorpinu í silfurfuglum sínum og eru þeir svo nærgöngulir að þeir strjúkast við húsaþökin eða yfir höfðum okkar, þar sem við erum að vinna í görðum og á túnum., Hér er bersýnilega um algeran leik að ræða hjá hinum ungu flugmönnum en enga nauðsyn og skiljum við ekki í öðru en að herstjórnin myndi banna þetta ef hún vissi um þetta gráa gaman flugmannanna." < "Við hérna þökkum þér fyrir bréfið um daginn um flugvélapláguna. En því miður hefur þetta ekki borið árangur. Flugvélarnar hendast hérna fram og aftur yfir reykháfunum og stríða okkur og egna ,til reiði eftir öllum kúnstarinnar reglum. Það virðíst sannarlega svo að það þurfi önnur og bitmeiri vopn en penna til að kenna þessum herrum."

---------------
Eyrbekkingurinn, Tómas Vigfússon, formaður fyrir verslunarstjóra P. Nielsen, dró þorsk á vertíðinni 1907, sem vóg 72 pund óslægður (144 kg.). Hausinn var 12 '/2 pnd., hrognin 9 pd., lifrin 5,'/2 pd. og fiskurinnflattur og dálklaus 37 pd
----------------
Lomber, "9 matadora" í laufi, keypti fyrv. verslunarstjóri P. Nielsen eitt kvöld (7.des.1923). Var það í sjötta sinn síðan í ársbyrjun 1912, að slíkt fyrirbrigði kom fyrir við hans spilaborð, og í annað sinn, sem hann fékk þá sjálfur. Á undangengnum 12 árum mun hann hafa spilað nálægt 160000 spil.
----------------



 

09.02.2012 23:11

Brim á Bakkanum


"Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,og brotsjói ólgandi verja þau hlið" Brimveðráttan er afar tíð á Bakkanum á þessum árstíma og hefur svo verið að undanförnu með sinni alþekktu drunsinfóníu.

05.02.2012 16:49

Himbrimi á Eyrarbakka

Himbrimi í vetrarklæðum

Himbriminn á myndinni er í vetrarbúningi og sást á Eyrarbakka í dag. Hann er náskildur lóminum en stofn himbrima er ekki stór, aðeins fáein hundruð pör og því afar sjaldséður fugl í Evrópu. Því hefur það oft verið æðsta ósk erlendra fuglaskoðara að fá hann augum litið. Heimkini hans eru hér í norðurhöfum og á veturnar dvelur hann við strendur landsins, en á sumrinn á heiðarvötnum og hólmum.  Upprunanlegur stofn himbrima er í N.Ameríku. Rödd himbrimans er afar sérstök, eða langdregin angurvær óp og óhugnanlegur titrandi "hlátur" sem getur vakið upp hroll hjá mannfólkinu þegar rökkrið sígur að á kyrrum kvöldum.

01.02.2012 01:29

Rysjóttur janúar

Hann byrjaði með 13 stiga frosti en dró svo hratt úr og hlýnaði með umhleypingum. Mikla hálku gerði er hlánaði en klakinn var víðast hvar lengi að fara. Snjór vetrarins hvarf þó með öllu við ströndina um sinn. Síðan tók við rysjótt tíð. Þann 10. brast á mikið éljaveður og var mesta hviða um 28 m/s. Umhleypingarnar héldu áfram næstu daga. Þann 18. gerði snjóstorm með hviðum um 26 m/s. Einnig snjóaði töluvert þann 20. og þann 22. gerði snjóstorm á nýjan leik með allmiklum skafrenningi. Töluverð snjókoma var einnig þann 24. og næstu daga með skafrenningi, en síðan kom asahláka í kjölfarið út mánuðinn svo alautt var orðið síðasta dag mánaðarins.

01.02.2012 01:05

"Dýrtíðin er sú kelling sem draga þarf tennurnar úr"

Spegillinn 1947. Teiknari óþekkturÞað er gömul saga og ný, að vandi þessarar þjóðar sé öðru fremur dýrtíð og verðbólga. Spurningin er kanski sú, hvort þetta sé hið "eðlilega" ástand sem tekur við eftir "hrunið" mikla? Dýrtíðin er valdur að margvíslegu böli í íslensku samfélagi, svo sem mikilli verðbólgu sem étur upp laun almmennings og gleypir kjarabætur launafólks  jafn harðan og þær berast í vasann. Ekki bætir úr skák háir skattar og gjöld ríkis og sveitarfélaga sem hirða sitt ríflega gjald svo snarlega að launamaðurinn fær það fé aldrei augum litið. Vöruverð í verslunum er orðið óboðlegt og er sama hvort heldur er um að ræða innlenda framleiðslu eða innflutta. Dýrtíðin dregur þannig mjög fljótt máttinn úr almenningi og veldur það dómínó-áhrifum fyrir  innlenda verslun, þjónustu og iðnað. Það er því einfallt reiknisdæmi að það borgar sig illa fyrir launafólk að lifa og starfa og jafnvel að fara í gröfina á Íslandi um þessar mundir. Smám saman mun dýrtíðin skapa aukið atvinnuleysi, hvort sem heldur ódulið, eða "dulið", (einkum vegna fólksflótta frá landinu sem nú þegar er orðinn það mikill að stjórnvöld  með einhverja sinnu, ættu að vera orðin mjög áhyggjufull hvað það varðar). Það versta er að sé ekkert að gert, mun dýrtíðin vaxa jafnt og þétt eins og illkynja æxli á þjóðarlíkamanum. Það er einnig gömul saga og ný.

Úr vandanum er aðeins til eitt ráð og er það svo gamalkunnugt að nútíma hagfræðingar hafa ekki "fattað" það enn. Þ.e. að lækka skatta, tolla, gjöld, og vexti. Afnema ýmsar vísitölutengingar og verðtryggingu. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að ganga í broddi fylkingar og verslun, iðnaður og þjónusta að ganga fast á eftir. E.tv. mun nútíma hagfræðingurinn segja "Þetta þýðir tap, tap,tap!" og má vissulega til sanns vegar færa, en aðeins til skamms tíma. Rétt eins og stingur af nál vítamínssprautunar í þjóðarlíkamann. Íslenskur almenningur er "mjólkurkúin" en það er til afar lítils að kreista úr henni þessa örfáa dropa fyrst ekki á að gefa henni neitt fóður, þá á endanum mun hún verslast upp blessunin. Sé "kúin" hinsvegar á góðum fóðrum, er eins víst að hún mjólki vel.

  • 1
Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26