Category: Vesturbúðirnar

31.10.2015 20:42

Sú var tíðin, 1950


Elsta verslunarhús á Eyrarbakka, mestu hús sunnlendinga um aldir og ein elstu mannvirki á Íslandi "Vesturbúðin" var rifin til grunna, en Kaupfélag Árnesinga hafði eignast þessar sögulegu byggingar, og átti efniviðurinn að flytjast til Þorlákshafnar. [elsti hlutinn byggður árið 1755. Sú bygging tók við af enn eldri verslunarhúsum "Rauðubúðum" sem brotnuðu niður í stórflóði.] Hreppsnefndin var alfarið á móti þessari niðurrifsstarfsemi og leitaði álits fornminjavarðar [Kristjáns Eldjárns] án árangurs. Töldu flestir hér vera mikið skemdarverk framið í trássi við fornminjalög. Allmargir risu til varnar húsunum og hvöttu ríkisstjórn landsins til að banna niðurrifið, en allt kom fyrir ekki og kaupfélagsmenn fóru sínu fram í skemdarverkinu.

Atvinnusókn þorpsbúa heima fyrir var að mestu bundið við fiskveiðar og landbúnað. Rúm helmingur heimila hafði eina eða fleyri kýr og allmargir sauðfé og hænsn. Níu bændur höfðu súgþurkunarbúnað og fjórir til viðbótar voru að koma sér upp þannig heyþurkunarbúnaði um þessar mundir. [Á Borg var eingig komið nýmóðins tæki til að blása heyi inn í hlöðu. Blásarinn var smíðaður hjá KÁ eftir erlendri fyrirmynd.] Nokkrir heimamanna héldu einig hross þó vélvæðingin væri að fullu tekin við hlutverki hestsins. Hvert heimili hafði kálgarð eða aðrar landnytjar. 40-50 ha lands voru nýttar undir kartöflu og gulrótna framleiðslu. Þar af voru 10 ha teknir undir ræktun í Sandgræðslunni og stóð nýlega stofnað [1949] Búnaðarfélag Eyrarbakka að því. Félagið hafði nú fjárfest í stórvirkum vélum og tækjum til ræktunarstarfa. [ Kartöflu uppskera var með eindæmum góð þetta ár, eða allt að sextánföld. Skortur á geymsluhúsnæði háði garðyrkjubændum, en unt var að geyma um 1000 poka sem var hvergi nærri nóg og var því ráðist í byggingu stærri kartöflugeymslu er gæti tekið 3000 poka til viðbótar.]

Fjórir vélbátar 12-18 tn. voru gerðir út 1950. Hraðfrystistöðin skaffaði allmörg störf þegar aflaðist og trésmiðjan og bifreiðaverkstæðið nokkur til viðbótar. Skúmstaðarós var dýpkaður nokkuð og sprengt var upp allmikið grjót (þröskuldar). Barnaskólahúsið var stækkað nokkuð þetta sumar. Íbúar á Eyrarbakka voru þá rétt um 540.

 

Pólitík: Fyrr á árum voru Eyrbekkingar taldir stoltir aristókratar [yfirstéttarhyggja] og róttækir í pólitík, en Stokkseyringar þóttu aftur á móti demokratiskir, eða alþýðlegir. Pólitíska litrófið hafði tekið kollsteypu og allhvassir alþýðuvindar blésu um hvern krók og kima á Bakkanum þetta vor þegar sveitarstjórnarkosningar fóru fram. Alþýðuflokkur undir forustu Vigfúsar Jónssonar oddvita og Sjálfstæðisflokkur með kaupmann Ólaf Helgason í broddi fylkingar elduðu þar grátt silfur. Framsóknarmenn buðu fram undir forustu kaupfélagsstjórns Helga Vigfússonar frá Gamla-Hrauni og Sósíalistaflokkurinn bauð einig fram á Eyrarbakka, en oddviti flokksins var Andrés Jónsson í Smiðshúsum. Listinn var annars skipaður verkamönnum eingöngu, sem áttu þó litlu fylgi að fagna meðal kollega sinna í hinum alþýðlega mótvindi. Kosningin fór þannig að Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meirihluta, 5 fulltrúa með 174 atkv. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 1 fulltr. með 66 atkv og höfðu þar með tapað manni í þessum stormi til Alþýðuflokks. Framsóknarflokkurinn fékk 1 fulltr. með 44 atkv. og Sósialistar fengu 0 fulltr. með 16 atkv. Á kjörskrá voru 352 [árið 1946 voru 399 á kjörskrá.] Á Stokkseyri fékk framboð verkamanna í Bjarma 3 menn. Sjálfstæðismenn. 3 menn og framsóknarmenn 1 mann. Á Selfossi fengu Íhaldsmenn 3 menn, Selfosshreyfingin 2 menn og Framsókn 1 mann.

 

Verkalýðsmál: Verkamannafélagið Báran átti 45 ára afmæli. Formaður félagsins Kristján Guðmundsson og Andrés Jónsson í Smiðshúsum röktu sögu félagsins og starf i ræðum sem þeir fluttu á afmælisskemtun félagsins í Fjölni. Ennfremur töluðu Vigfús Jónsson oddviti og Helgi Hannesson forseti A.S.Í. Í tilefni af afmælinu var Andrés Jónsson kjörinn heiðurs félagi Bárunnar, fyrir ágætt starf í þágu félagsins og skelegga afstöðu í hagsmunabaráttu verkalýðsins á Eyrarbakka fyrr og síðar.

 

Hjónaefni: Sigurjón Þorvaldsson frá Gamla-Hrauni og Ólafía S Bergmann frá Fuglavík á Miðnesi. Valgerður Pálsdóttir, Háeyri og Halldór Jónsson frá Sjónarhóli Stokkseyri. [Bjuggu þá í Bræðraborg] Baldur Guðmundsson og Hulda Jóhannsdóttir Rvík. [Bjuggu í Reykjavík] Aðalheiður Kristjánsdóttir og Valgeir L Lárusson frá Káranesi í Kjós. Pétur Guðvarðarson og Edda Egilsdóttir frá Hafnafirði. Valgerður Sveinsdóttir og Hannes Þorbergsson. [Þau bjuggu að Dagsbrún] Ólöf Þorbergsdóttir í Sandprýði og Karl B Valdemarsson úr Reykjavík.

 

Afmæli:

80 ára Ólafur Sigurðsson frá Naustakoti. Formaður á áraskipi Jóns Sigurðssonar um nokkur ár og vegavinnukarl, m.a. við Flóa og Bakkaveginn. Hann flutti síðan til Reykjavíkur og starfaði að byggingu Reykjavíkurhafnar frá upphafi framkvæmda.

70 Guðmundur Ásbjörnsson [Bæjarfulltrúi í Reykjavík.þangað fluttur]

60 Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, biskup Íslands. Kristinn Hróbjartsson frá Akri, vagnstjóri í Reykjavík.

50 Sesselja Jónasdóttir frá Borg, bjo þá í Borgarnesi.

 

Fallin frá:

Rannveig Sigurðardóttir (91) frá Vegamótum. [ Maður hennar var Þórarinn Jónsson sjómaður. Áttu þau tvö börn, Kolfinnu og Sigurð, sjómaður, og einnig teiknari góður. Hann fórst með "Sæfara"  1929.] Torfi Sigurðsson, (88) frá Norðurbæ, [bjó þá í Keflavík.]. Brynjólfur Árnason (87) skósmiður frá Garðhúsum [hús nr.2], bjó þá í Merkisteini. Jón Jónsson (84) bóndi Steinskoti. [vesturbærinn]. Katrín Jónsdóttir (83) frá Gamla-Hrauni [var síðar á Háeyri]. Ágústínus Daníelsson (82) vagnstjóri og bóndi í Steinskoti [austurbærinn]. Elín Pálsdóttir, (77) Akbraut. [Eftirlifandi maður hennar var Þorbjörn Hjartarson en fyrri mann sinn Björgólf Ólafsson, missti hún.] Elín Einarsdóttir, (75) Nýjabæ. [dvaldi síðast í Keflavík]. Sigríður Guðmundsdóttir (73) frá Kálfhaga Sandv.hr. [bjó að Háeyrarvöllum, en dvaldi síðast á Stóru-Háeyri]. Einar Jónsson, Einarshöfn (Prestshúsi). [Einar var lestarstjóri á tímum klyfjahestanna, og flutti vörur milli Eyrarbakka og Reykjavíkur sumar sem vetur.] Guðrún Jónsdóttir. [Dóttir Jóns Sigurðssonar hafnsögumanns í Melshúsum og s.k. Guðnýar Gísladóttur.] Sigríður Loftsdóttir frá Sandprýði. [Dóttir Lofts Jónssonar og Jórunnar Markúsdóttur í Sölkutóft.] Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli. [Sigurður Þorsteinsson var fæddur á Flóagafli í Árnesþingi 10. sept. 1867. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi þar, Guðmundsson í Þorleifskoti, Hallssonar í Hjálmholti, Jónssonar. Sigurður var einn fróðasti um sjósókn og verbúðarlíf á tímum áraskipanna.] Ingibjörg Stefanía Magnúsdóttir frá Garðbæ (93). [ Magnúsar í Garðbæ Þórðarsonar i Eyði-Sandvík, Oddssonar.]

 

Tveir synir Eyrarbakka, Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins féll frá 63 ára að aldri. Foreldrar hans voru Samúel smiður Jónsson og Margrét Jónsdóttir. Þau bjuggu á Eyrarbakka um árabil. Valgeir Jónsson húsasmíðameistari í Reykjavík, 60 ára sonur Jóns Sigurðssonar og Guðrúnar í Túni Magnúsdóttur frá Sölkutóft. [Jón í Túni eða/Melshúsum var sonur Sigurðar í Neistakoti Teitssonar hafnsögumanns á Skúmsstöðum, Helgasonar í Oddagörðum, Ólafssonar í Gröf í Grímsnesi, Grímssonar í Norðurkoti, Jónssonar í Öndverðanesi, Helgasonar. Kona Teits hafnsögumanns var Guðrún Sigurðardóttir fá Hrauni í Ölfusi, Þorgrímssonar í Holti, Bergssonar hreppstóra í Brattholti, Sturlaugssonar: Magnús í Sölkutóft, móðurfaðir Valgeirs, var sonur Jóns bónda Jónssonar á Heimalandi í Flóa og Valgerðar Vigfúsdóttur í Fjalli á Skeiðum, Ófeigssonar, systur Ófeigs hreppstjóra ríka í Fjalli. Magnús í Sölkutóft var lengi kallaður Heimalands Mangi. Kona Valgeirs var Dagmar Jónsdóttir frá Gamla-Hrauni.]

 

Sandkorn: Eyrarbakkakirkja varð 60 ára og bárust henni margar stórar gjafir af því tilefni, svo sem kirkjuklukka og peningagjafir. Prestur á Eyrarbakka var þá til margra ára Árelíus Níelsson, en hann bauð sig fram í prestkosningu til Fríkirkjunar í Reykjavík um þessar mundir.

Slysavarnardeildin Björg Eyrarbakka afhendir Slysavarnafélaginu kr. 1.500.00 að gjöf í Helicopterejóð Slysavarnafélags íslands. Félagið vakti einnig athygli á ónákvæmum veðurfréttatímum í útvarpi og hvatti til aukinar nákvæmni í tímasetningu veðurfrétta að degi sem nóttu.

Líkistur smíðaði Sigurður Stefánsson, hafði hann síðast aðstöðu í Trésmiðju Eyrarbakka.

Flugmálastjórn lætur setja upp talstöð og radíovita á Eyrarbakka til að auka flugöryggi.

 

Erlendum plöntutegundum fer fjölgandi hér við ströndina, akurkál,vefsúra, hélunjóli og hvítur steinsmári hafa tekið sér bólfestu.

 

Á siðastliðnu hausti var byrjað á að dýpka innsiglingaleiðina inn á bátaleguna á svæði, sem Skúmstaðaós nefnist, en það er þröng renna, fremur erfið yfirferðar um fjöru. Var talsvert sprengt og tekið upp af grjóti og m. a. teknir burtu þrír þröskuldar, sem verstir höfðu reynst.

 

Eittaf verkefnun franska Grænlandsleiðangursins, undir stjórn Paul Emile Victors, sem hér kom við á leið sinni til Grænlands, eru þyngdarmælingar [Þyngdarafl jarðar mælt] og voru gerðar 30 slíkar hér suðvestanlands, m.a. hér við Eyrarbakka.

 

"Landflugur" Fyrsta dag marsmánuðar 1950 gerði foráttubrim, og tóku menn þá eftir fiskreka á fjörum. Daginn eftir var þetta athugað nánar og kom þá í ljós að lygn lónin inn af brimgarðinum voru full af fiski og óð fiskurinn ýmist á land eða var goggaður í fjöruborðinu. Náðust þannig hátt á annað hundrað rígaþorskar. Á Bakkanum er þetta kallað "landflugur" og gerist annað kastið þegar saman fer stórbrim og fiskiganga í eltingaleik við síli sem flýr inn á grynningarnar, en fiskurinn lokast þá af innan brimgarðsins. Það kom líka á daginn að fiskurinn var úttroðinn af síli 10-12 cm á lengd. [ Að einhverju leyti kom þetta fyrir nú í vetrarlok (2015) og kunnur Eyrbekkingur sem eftir þessu tók, sótti sér gogg og varð sér út um hellings fisk í soðið.]

 

Leikfélagið "Sex í bíl" setti upp leikþátt í Fjölni. Þá sýndi þar U.M.F. Baldur leikritið "Almannaróm" eftir Stein Sigurðsson.

 

Bókasafn UMFE telur 2000 bindi. Taflflokkur UMFE teflir vikulega og félagar iðka vikivaka. [Vikivaki er forn hringdans sem stundaður hefur verið á skemmtunum um öll Norðurlönd frá miðöldum til þessa dags. https://youtu.be/38618niQzZc ]

 

Minningarguðþjónusta var haldinn í kirkjunni, en þar var Aldarafmælis forvígiskonunar Eugeniu Nielsen minnst. [Eugenia Nielsen var fædd 2. nóv. 1850, kona P. Nielsen's verzlunarstjóra Lefooli-verslunarinnar á Eyrarbakka. Eugenia beitti sér mög fyrir bættu menningar- og félagsstarfi á Eyrarbakka. Hún var ein af stofnendum Kvenfélags Eyrarbakka og formaður þess um 25 ára skeið.]

 

Úr grendinni: Í Félagslundi, félagsheimili ungmennafélagsins Samhyggð Gaulverjabæjarhreppi, tekin upp merk bókagjöf, sem sveitinni hefir borist frá ekkju Vestur-íslendings, Guðna Þorsteinssonar, póstmeistara á Gimli í Nýja-íslandi. Var gjöfin alls á þriðja hundrað bindi, og margt merka bóka, ljóð, sögur og fræðibækur. Gefandinn var Guðni Þorsteinsson póstmeistari er fæddist að Haugi í Gaulverjarbæjarhreppi 1854, en fór vestur um haf 1885 og dvaldi síðan vestra alla ævi.

 

Vélbáturinn Ingólfur Arnarson úr Reykjavík strandaði í nánd við Ragnheiðarstaði fyrir austan Stokkseyri. Björgunarsveitin á Stokkseyri bjargaði allri áhöfn 10 mönnum. [Strandaði hjá "Fljótshólum"]

 

Á Selfossi var íbúatalan kominn yfir 900. Stokkseyringar töldust vera um 400 og Hvergerðingar tæplega 500. Fiskþurkunarhús var reist á Stokkseyri og var þar unt að þurka um 2000 fiska. Þar eru gerðir út fjórir bátar: Hersteinn, Hólmsteinn, Hásteinn og Sísí. Á Selfossi náði Kaupfélagið að krækja í lyfsöluleyfið og settu þeir upp apotek á staðnum. Staðarheitið "Selfoss" hefur ekki enn náð fullri fótfestu í hugum fólks, því enn kalla margir staðinn "Ölfusá" eða Tryggvaskála" og algengt er að Eyrbekkingar nefni staðinn "Foss". Borað var eftir heitu vatni hjá Þorleifskoti við Selfoss, en eldri borholur við Laugardæli höfðu komið að litlum notum vegna kólnunar. Það var Kaupfélag Árnesinga sem stóð að þessum borunum. Lítil veiði var í Ölfusá þetta sumar. Frá Þorlákshöfn réru fjórir bátar og þrjár trillur. Þar hófst síldarsöltun á þessum vetri.

 

Heimild: Alþýðubl, Heimskringla, Mánudagsbl. Morgunbl. Skinfaxi. Tímarit Verkfræðingaf. Ísl. Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn. 

1949 1948 1947 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910


26.05.2015 23:01

Flaggað frá

Nýlega var endurreist sundvarða með brimflöggum við sjógarðshliðið á Vesturbúðarhól. Að þessu verkefni stóðu Sigeir Ingólfsson Staðarhaldari, sölvabóndi og lóðs ásamt alþýðuvinum. Þegar Vesturbúðin var rifin 1950 var brimflaggið er hafði haft sitt aðsetur á stafni húsins sett þarna niður. Árið 1960 brotnaði varðan í vitlausu veðri og fór aldrei upp aftur, fyr en nú 55 árum síðar. Síðasti flaggvörður var Kristinn Gunnarsson.

08.11.2011 21:46

Eyrarbakkaþjófnaðurinn 1886

VesturbúðirnarTil sögunnar eru nefndir Þorfinnur Jónsson (f. 10. júní 1867), Magnús þorláksson (f.18. september 1866), Jón Magnússon í Svarfhóli (f. 24. marz 1852), Eyjúlfur Símonarson á Reykjavöllum (f.6. febrúar 1857) og Loptur Hansson (f.2. júní 1824). Voru þeir Þorfinnur og Magnús vinnumenn að Laugardælum í Flóa hjá Guðmundi lækni Guðmundssyni,  veturinn 1886. Þorfinnur, Magnús og Jón stunduðu á árunum áður sauðaþjófnað og ýmiskonar gripdeildir, en Eyjúlfur og Loptur nutu yfirleitt góðs af með þeim félögum.  Að kvöldi dags hinn 2. febrúar ákváðu þeir félagar  Þorfinnur og Magnús að fara fótgangandi í ránsferð niður á Eyrarbakka og höfðu þeir með sér skaröxi eina til verksins. Smá föl og svellalög voru yfir allri mýrinni og tunglbjart  sem gerði þeim gönguna léttari. Undir miðnætti voru þeir komnir í þorpið og brutust þeir fljótlega  inn um glugga í Lefolii-verslun, (Guðmundur Thorgrímsen var þá verslunarstjóri)  kveiktu þar ljós og stálu ýmsum búðarvarningi, svo sem dúkum, tóbaki, sykri, talsverðu af brauði, hnífum sem þeir prófuðu bitið á með því að skera gólfteppi í lengjur, speglum, þjölum, treflum, lérefti, sjölum, stígvélum, skyrtum, klútum, sápu, smjöri, vínflösku o. fl. matarkyns, sem þeir létu ofan í 2 poka, er þeir einnig tóku í búðinni. Þeir fóru því næst út úr húsinu sömu leið og þeir komu inn í það, og höfðu pokana með sér; tók þá Þorfinnur skíðasleða, er hann fann í bæjarþorpinu á Eyrarbakka  og óku þeir þýfinu um nóttina á sleða Þessum heim að Laugardælum og fólu Það í heyi í heygarðinum en komu sleðanum niður um vök í Ölfusá. Síðar tóku þeir þýfið Þaðan og geymdu það um stund í Coghillsrétt (John Coghill sauðakaupmanns )og víðar, allt  þar til eftirhreitur þýfisins fannst og málið komst upp. Höfðu þá allir fyrnefndir félagar hagnýtt sér hluta þýfisins á einhvern hátt.  En þetta var ekki fyrsta ránsferðin  niður á Bakka; Á þorra 1885 stálu þeir félagar, Þorfinnur, Jón og Eyjúlfur, jakka á Eyrarbakka, tilheyrandi Jóni í Norðurkoti, og lenti hann hjá þorfinni á endanum. Þá stálu þeir ýmsu lauslegu frá Guðmundi bókbindara Guðmundssonar sem og húsbónda sínum að Laugardælum.

Sýslumaður og lögreglustjóri var þá Þórður Guðmundsson í Gerðiskoti. Daginn eftir fyrrgreinda ránsferð voru sleðaförin eftir þjófanna rakin allar götur upp í Laugardælahverfi, en þá var orðið svo dimt að ekki var rakið lengra þennan daginn, en um nóttina snjóaði og huldi fönnin allar slóðir næsta morgun. Leitarmenn höfðu fundið í sleðaförunum sykurmolar, kaffibaunir og tvíbökur. Þeir töldu því ranglega í fyrstu að slóðin hefði verið gerð til að villa um fyrir leitarmönnum.

Í þessu máli voru átta manns lögsóttir, tvær konur sýknaðar og 6 dæmdir.

Þorfinnur og Magnús voru dæmdir í landsyfirréttardómi  1887 til 3 ára betrunarhúsavinnu. Jón og Eyjúlfur voru dæmdir til 4 ára betrunarhúsavinnu, en Loptur fékk 20 daga fangelsi við vatn og brauð. Þá var Hólmfríður Loptsdóttir (f. 18. nóvember 1837), vinnukona Lopts 5 daga fangelsi við vatn og brauð fyrir að matreiða hin stolnu matvæli úr Eyrarbakkabúð.

Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum

Þjóðólfur 1886 og 1887.

06.03.2011 01:17

Stína í Koti og Þórey gamla

VesturbúðirnarÞær stöllur Kristín í Norðurkoti og Þórey gamla í Eyvakoti Guðmundsdóttir, höfðu þau forréttindi að meiga fyrstar opna glervörukörfurnar í Vesturbúð, þá er skip hafði komið. Máttu þær velja það sem þær gátu komist yfir og keypt. Kerlingar þessar riðu um Sunnlenskar sveitir og gáfu völdum frúm og bændakonum þessi djásn, ásamt orlofskökum, silkihandalínum, svuntu og peisufataefnum í skiptum fyrir ýmsa bændavörur. Þær nutu þessara forréttinda til margra ára, enda leit verslunin á þetta framtak sem bestu auglýsinguna sína.

Heimild: Austantórur.

22.05.2010 15:22

Í minningu Vesturbúðanna


Mánudagurinn 22 maí 1950 var mikill sorgardagur á Eyrarbakka, því þá fyrir nákvæmlega 60 árum var hafist handa við að rífa  merkustu minjar íslandssögunnar.

Eitt sinn voru Vesturbúðirnar á Eyrarbakka mestu verslunarhús á Suður- og Vesturlandi og jafn vel þótt allt landið væri tekið til samanburðar. Til þeirra leituðu bændur og búalið með afurðir sínar alla leið austan úr Skaftafellssýslum og vestan af Breiðafjarðareyjum.



Það var  því sannarlega mikil saga tengd við þennan stað eins og hér hefur oftlega verið minst á og því hörmulegt að þessi fornu hús skildu rifin vorið 1950. Þarna var ráðist á merkar fornminjar þvert ofan í vilja þorpsbúa, í trássi við lög um verndun fornminja og í algerri andstöðu við skoðanir landsmanna yfirleitt á því, hvernig við eigum að búa að fornminjum okkar og hefur það æ síðan átt að vera víti til varnaðar, en þrátt fyrir það urðu rústir gamalla sjóbúða, og þurrabúða eiðingaröflum að bráð eftir miðja  síðustu öld. Niðurrif vesturbúðanna var algjört, svo meira að segja tröppur og hestasteinar voru fjarlægðir og að lokum beitt jarðítu á það sem eftir stóð.


Það var  Egill Thorarensen kaupmaður í Sigtúnum og kaupfélagsstjóri KÁ sem framdi þetta mikla voðaverk á þessum sögulegu minjum íslendinga, með þöglu samþykki ráðamanna þess tíma í landinu. Eyrbekkingar börðust fyrir verndun húsanna, sem þóttu mikil staðarpríði, þó svo húsin væru rúinn öllu innanstokks, eftir að búðirnar komust í hendur Kaupfélags Árnesinga, en allt kom fyrir ekki. Þar fór forgörðum margra alda verslunarsaga á íslenskri grund og þjóðar gersemar.


Oft hafa vaknað hugmyndir um endurbyggingu Vesturbúðanna að hluta eða öllu leiti til minningar um þennan sögulega arf íslenskrar þjóðar, en þá jafnan birtast einhver ljón í veginum, sem ekki er unt fyrir áhugafólk að yfirstíga. Svo er víst að þjóðarátak þyrfti til svo að endurbyggja mætti þessi hús.

11.03.2010 23:33

Kaupfélagið Hekla

Skip á sundinuVerslunarfélagið Hekla var í upphafi hlutafélag stofnað af Gesti Einarssyni (1880-1918) á Hæli, en samvinnufélag var stofnað 26.janúar 1907 og keypti það verslunina sem þá fékk nafnið Kaupfélagið Hekla. Með Gesti voru 15 bændur af Suðurlandi. Framkvæmdarstjóri félagsins var Guðmundur Guðmundsson glímukappi. Ársvelta félagsins var rúm 184 þúsund krónur og skilaði umtalsverðum hagnaði fyrstu árin. Árið 1913 greiddi félagið 11% arð til skuldlausra félagsmanna. Samkeppni á Eyrarbakka var enn nokkuð mikil, en áður hafði Lefolii verslun verið ein og ráðið lögum og lofum í verslunarviðskiptum, en 1.sept.1909 hafði þeirri verslun verið breytt í hlutafélagið Einarshöfn hf til þess aðalega að fríska upp á ímyndina. Árið 1919 keypti kaupfélagið Hekla allar eignir Einarshafnarverslunar hf, þar með talið jarðirnar Einarshöfn og Skúmstaði á 80 þúsund krónur. Þá fluttu samvinnumenn stöðvar sínar í vesturbúðirnar, en aðstaða Kf. Heklu austan Gónhóls var seld.

 Skonortunum var lagt eftir fyrri heimstyrjöld og stærri gufuskip hófu vöruflutninga á milli landa. Höfnin var orðin of lítil.    Það var margt sem var farið að hamla gegn stóru versluninni á Bakkanum og var það ekki síst fyrri heimstyrjöldin, en á styrjaldarárunum voru skipaferðir á Bakkann orðnar strjálar vegna víðsjár stríðsins og vörur af skornum skamti. Eftir stríð voru skipin orðin stærri og flest of stór fyrir hafnarlægið á Eyrarbakka. Þá voru samgöngur orðnar betri til Reykjavíkur og höfn þar í byggingu. Vaxandi samkeppni við smá kaupmennina og samvinnuverslunina varð til þess að draga máttinn úr verslunarrisanum. Danir höfðu séð sæng sína útbreidda, þróun verslunar til framtíðar  yrði ekki umflúin. Heklumenn sem sátu nú einir að bændamarkaðnum austanfjalls hugðu því gott til glóðarinnar.

  Dönsku verslunarhúsin komust í eigu Kaupfélagsmanna  Kaupfélagsmenn áttuðu sig of seint á aðstæðum og sátu nú fastir eins og mús í gildru. Árið 1920 varð mikið verðfall á vörum og fasteignum og sat því félagið uppi með óvinnandi skuldir. Það varð ekki til að bæta stöðuna að bændur fóru í æ meira mæli að sækja til Reykjavíkur sem var í örum vexti með tilkomu hafnar og aukinnar verslunar. Á meðan kaupfélagsmenn börðust í bökkum setti Egill Thorarensen í Sigtúnum upp verslun við Ölfusá (Selfoss) sem var í vegi bænda er komu austan úr héraðinu og gerði það útslagið. Bændaverslunin á Eyrarbakka hrundi síðla árs 1925 þegar Kf Hekla hætti starfsemi. Aftur kom það Reykvíkingum til góða, því þangað urðu sunnlenskir bændur að fara með afurðir sínar fyrst um sinn.

 

Heimild: Árnesingur II Lýður Pálsson  Morgunb. 91 tbl 1914  Þjóðólfur 1-2. tbl 1919

18.01.2009 22:36

Hafnardeilan

EinarshöfnLefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.

Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.

Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.

Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.

Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)

Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.

Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.

Heimild: Lögberg (júli 1891)

16.11.2008 22:55

Lestarferðir út á Eyrar.

Lestarferð. Mynd Lesb.Morgunbl.1990
Fyrr á öldum sóttu bændur Sunnanlands verslun á  Eyrarbakka, jafnvel alla leið austan af Meðallandi og var það löng og ströng ferð sem gat tekið 10 til 14 daga. Sú var venjan að þegar lestin var kominn að Baugstöðum þá riðu tveir á undan lestinni til að hitta menn að máli og útvega stað fyrir tjöld og flutning. Þegar lestin kom svo á staðinn, var tekið ofan í flýti og hestarnir merktir og komið í hendur gæslumanna. Ef ös var við verslunina gátu lestarmenn þurft að bíða í þrjá til fjóra daga. Þá var tjaldað á sandi og þótti það nú síður aðlaðandi viðverustaður enda tjöld í þá daga án botns. Þá var til siðs hjá lestarmönnum að borða hangikjöt að heiman og skola því niður með brennivíni. Lestarmenn afhentu ull sína í versluninni þar sem hún var vegin og metin að gæðum. Að því búnu fóru menn í búð til að fá kaffimiða, en það var ávísun á heitt kaffi sem verslunin lét viðskiptamönnum ókeypis í té daglega á meðan þeir stóðu við. Þeir sem voru með viðskiptareikning fengu það sem kallað var "innleggsstaup". Þessi staup voru mis stór enda innleggið mis mikið hjá hverjum viðskiptamanni.

 

Allt gekk fyrir sig í stakri röð og reglu, oft svo undrun sætti. Morgunverðartími var þá almennt milli kl.9 og 10 f.h. en ekki var venja að loka búðum á matmálstímum í aðalkauptíðinni. Menn voru kallaðir upp til vöruúttektar í sömu röð og lagt var inn og varð þá hver að vera viðbúinn þegar röðin kom að honum eða eiga það annars á hættu að mikill dráttur yrði á að viðkomandi kæmist að. Að kveldi stunduðu menn gjarnan lausakaup en það var það kallað þegar hönd seldi hendi og höfðu bændur oft til þess sérstakann mann til að tefja ekki önnur viðskipti.

 

Snemma að morgni heimferðadags sóttu hrossagæslumenn hestana út á hagann og var þá þegar drifið í að koma klifjunum fyrir svo hrossin þyrftu ekki að híma lengi á berum sandinum. Frá Eyrarbakka var svo haldið til lögbundna áfangastaða sem voru þessir þegar lestir gengu austur: Baugstaðaklöpp, Nesbakki, Sandhólaferja í Holtum, Rauðalækjarbakkar í sömu sveit, hjá Varmalæk á Rángárvöllum, í Þverárbríngu í Hvolhreppi, hjá Voðmúlastaðaseljum í Landeyjum, Holtsoddi undir Eyjafjöllum, Steigardalur í Mýrdal og Fall í sömu sveit og Baugkrókur í Meðallandi. Á þessari leið þurftu lestarmenn að glíma við mörg vötn og fljót sem voru alsendis óbrúaðar langt frameftir 19. öldinni.

Heimild: Úr frásögn Jóns Sverrissonar í Lesbók Mbl 35.árg.1960 29.tbl.

10.04.2007 13:35

Rætist draumurinn?

Endurbygging Vesturbúðarinnar - draumur eða veruleiki? Á fréttavefnum Suðurland.net er sagt frá hugmyndum fjögra áhugamanna um endurbyggingu Vesturbúðanna sem ætla að standa fyrir kynningu á þessu efni.Kynningin fer fram í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka síðasta vetrardag og hefst hún kl. 20:00.

Eins og kunnugt er lét kaupfélag Árnesinga rífa hús dönsku verslunarinnar á Eyrarbakka  árið 1950 og af og til hafa komið fram hugmyndir um endurbyggingu þeirra frá þeim tíma. Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar styrkti verkefnið af myndarskap á sl. ári.

það væri óneitanlega þorpinu sem og allri ferðaþjónustu í Flóanum mikil lyftistöng ef þessi góða hugmynd verður að veruleika. Þarna gæti risið á ný táknmynd um verslunarsögu Íslendinga sem glataðist illilega þegar efniviður þessa mikla verslunarhúss brann í Þorlákshöfn, en þangað hafði efnið verið flutt á sínum tíma og byggð úr því saltfiskverkunarhús.
Fréttin í heild.

  • 1
Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26