Blog records: 2016 N/A Blog|Month_6

17.06.2016 17:39

Vesturbakkinn- Skúmstaðir

Vesturbakkinn hafði öldum saman verið miðstöð siglinga, verslunar og menningar á Suðurlandi í bland við landbúnað og fiskveiðar. Þar stóðu Vesturbúðirnar frá 1755 til 1950. Húsið frá 1765 og Kirkjan frá 1890 eru nú hin mesta menningararfleið sem prýða Vesturbakkann ásamt fjölda gamalla húsa.

 

Uppruni örnefnisins "Skúmstaðir" er óþekkt, en gæti dregið nafn sitt af því náttúrufyrirbæri þegar "skúm" dregst þar í fjöruna á heitum dögum með hafgolunni. Á Skúmstöðum hafði löngum verið smá þorp torfbæja, allt frá ómunatíð en ekkert er vitað um ábúendur fyr en jörðin kemst í eigu Skálholtsbiskupa á 16. öld, en Oddur Grímsson og Gyðríður Gestsdóttir sátu jörðina árið 1540 og Magnús Sveinbjörnsson bjó þar samtímis. (Oddur var faðir Odds í Nesi lögréttumanns í Árnesþingi.)  Skúmstaðarbændur höfðu allmikil völd í gegnum vinfengi við Skálholtsbiskupa, svo sem  Árni Pálsson og Ásta Sigurðardóttir til 1678 og Bjarni Árnason og Valgerður Eyjólfsdóttir til 1704. Á þessum árum var allmikil uppbygging að Skúmstöðum, einkum í tíð Gottskálks Oddsonar um 1681 er hafði þar byggingaleyfi og Sigurðar lóðs Jónssonar um sama leiti. Þá var danska verslunin flutt af Einarshöfn og á Skúmstaði, eftir stórflóðið 1653 ásamt Einarshafnarbæjum. Uppbyggingin hélt áfram í tíð Tómasar smiðs Þorsteinssonar og Þórdísar Bjarnadóttur til 1754, en hús hans þóttu í meira lagi og árið 1755 reis fyrsti hluti hinna nefndu "Vesturbúða" og smátt og smátt viku torfbæirnir fyrir nýjum timburhúsum. Núverandi mynd Skúmstaða er að mestu tilkomin um og eftir aldamótin 1900, en elstu húsin sem staðist hafa tímanns tönn eru Húsið byggt 1765, Kirkjuhús 1879, Assistenthúsið 1883 og Bakaríið 1884 en u.þ.b. 10 - 12 hús standa byggð fyrir 1900. Árið 1816 bjuggu um 100 manns á Vesturbakkanum en um 170 á Austurbakkanum. Af merkisfólki úr Skúmstaðahverfi væri helst að nefna Einar Hansen kaupmann í Húsinu sem árið 1789 var talinn ríkastur Eyrbekkinga. Lambert kaupmaður Lambertsson kaupmanns um 1833. (Hann hafði 10 manns í heimili) Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri og kona hans Sylvía og dóttir hennar Eugenía Nielsen og dætur hennar Guðmunda og Karen. J.A. Lefolii sem var skrifaður fyrir Skúmstaða og Einarshafnarjörðum fram til 1911, dvaldi oft sumarlangt en hann bjó í danmörku.  Um 1930 voru Skúmstaðir komnir undir Landsbankann og færðist síðan undir Eyrarbakkahrepp. Á síðari tímum voru helst nafntogaðir á Vesturbakkanum að öðrum ólöstuðum, þeir grannar, Vigfús Jónsson oddviti í Garðbæ, Guðlaugur kaupmaður í Sjónarhól og Hjörtur hreppstjóri í Káragerði.

 

Ábúendatal Skúmstaðir frá 1540 - 1930:

Oddur Grímsson og Gyðríður Gestsdóttir um 1540. (Magnús Sveinbjörnsson samtímis)

Þórður Ormsson 1616-1617.

Jón Guðnýjarson (Guðný dóttir hans) 1621.

Sveinbjörn Geirmundsson og Ingunn Gísladóttir til1635. (Ingunn var áður í tygjum við Kvæða-Eyjólf. Sveinbjörn leyfði flutning Einarshafnarbæja á Skúmstaði.)

Ormur Jónsson og Guðrún Sveinbjarnardóttir til 1665. (á hálfri jörðinni)

Árni Pálsson og Ásta Sigurðardóttir til 1678. Árni naut vinfengis við Skálholtsbiskupa þá Brynjólf og þórð og hafði umboð þeirra fyrir öllum reka á Eyrarbakka og víðar.

Bjarni Árnason og Valgerður Eyjólfsdóttir til 1704. Bjarni var einnig í vinfengi við þá biskupa Brynjólf og þórð og hlaut mikil völd.

Gottskálk Oddson var þar einnig um 1681 og hafði þar byggingaleyfi.

Jón Ormsson og Guðrúnar og Ástríður Snorradóttir á svipuðum tíma.

Ástríður Snorradóttir ekkja til 1688. (Þá ráðstafar biskup hennar parti.)

Sigurður lóðs Jónsson fékk byggingabréf á Skúmstöðum þetta ár.

Guðmundur Lafranzson og Guðrún Eyjólfsdóttir um 1703. (hjá Garðinum-hjáleiga) Þá eru í Skúmstaðaþorpinu 30 kýr. (Háeyrarhverfi 41 kýr á sama tíma)

Valgerður Eyjólfsdóttir ekkja til 1714. (afsalar þá ábúð til Bjarna Jónssonar)

Bjarni Jónsson og Þórdís Snorradóttir til 1747.

Tómas smiður Þorsteinsson og Þórdís Bjarnadóttir um 1754, en þá verður hún ekkja. (Tómas gerði út áttæring og hús hans þóttu í meira lagi.)

Magnús hreppstjóri Bjarnason Jónssonar til 1781. Hann hafði 11 hjáleigumenn, 13 húsmenn, en undir hans stjórn samtals 153 menn.(59 á Skúmstöðum, 8 í Einarshöfn og 85 á Háeyri)

(Á árunum 1748-1773 höfði nokkrir afnot af jarðarpörtum:

Sigríður Álfsdóttir, Filippus Þorsteinsson, Sigurður Þorsteinsson, Jens Lassen kaupmaður Húsinu, Brynjólfur Klemensson, Símon Eyjólfssonar sterka, Haagen verslunarmaður.)

Húsið: D.KR. Petersen kaupmaður 1788-1795 eða lengur. (Hann hafði tvo róðrabáta og 20 manns í heimili, og talsvert bú.)

Haagen Möller beykir og Hallgerður Jónsdóttir til 1804. (Þau missi nær aleiguna í flóðinu mikla 1799) Gunnar Jónsson er á Skúmstöðum samtímis.

Kristján Berger verslunarþjónn og Jarþrúður Magnúsdóttir samtímis.(og síðar í Garðinum)

Jón lóðs Bjarnason frá 1793. (Byggði laglegan bæ á Skúmstöðum)

Bjarni hreppstjóri Jónssonar lóðs til 1804 ásamt Kristjáni Berger og Haagen Möller.

Húsið : Einar Hannsen kaupmaður til 1817. (talinn ríkastur Eyrbakkinga 1798)

Maddama Pedersen 1815.

Húsið: Níls Lambertsen kaupmaður og Birgitta Guðmundsdóttir til 1822 (hafði talsvert bú. 1 mann á Skúmstöðum, 5 kýr, 159 fjár, og 13 hross. Að auki 4 róðraskip átta og tíuæringa og 2 báta fjögra og sex æringa) Kálgarður var, eins og við flesta bæi og hús. (Ekki þótti Nils vel liðinn.)

Fr. Kr. Hólm verslunarþjónn til 1819.

Birgitta Guðmundsdóttir ekkja á Skúmstöðum til 1827.

Filippus Þorkellsson og Guðný Teitsdóttir til 1855.

Ólafur Nikulásson og Ingibjörg (laundóttir Sveins Sigurðarsonar verslunarstjóra) til 1847

Þorleifur Kolbeinsson 1826, síðar Háeyri.

Erlendur Jónsson húsmaður og Guðrún Guðmundsdóttir 1829.

Teitur lóðs Helgason og Sigríður Sigurðardóttir 1826-1834, einnig í Einarshöfn.

Sigurður sakamaður Jónsson 1838. (Bú hans stórt og mikið gert upptækt.)

Húsið: Lambert kaupmaður Lambertsson kaupmanns um 1833. (10 manns í heimili og talsvert bú í Garðinum, sem var hluti af Skúmstaðatorfunni)

Sigurður Sívertsen verslunarstjóri á svipuðum tíma. (var einnig með stórt bú í Garðinum)

Þá voru einnig með jarðaafnot, Oddur Halldórsson og Einar Loftsson,

Vigfús Helgason og Sigríður eldri Brynjólfsdóttir til 1867.

Oddur Snorrason frá Gaulverjabæ og bústýra Soffía Friðfinnsdóttir 1846.

Jón Jónsson frá Vindheimum Ölf. og Guðrún Jónsdóttir 1844-1871. (kv. síðar Guðríði ekkju Bjarnadóttur frá Háeyri) Lítið bú.

Jón Jónsson frá Stk. og Ragnheiður Vernharðsdóttir til 1871. Lítið bú.

Brynjólfur Bjarnason og Sigríður Eiríksdóttir prestsekkja um 1857.

Teitur Teitssonar í Einarshöfn Helgasonar og Hólmfríður Vernharðsdóttir um 1866 og síðar í Einarshöfn. Fóru til Ameríku 1873.

Sigríður Brynjólfsdóttir ekkja Vigfúsar um 1873.

Gísli Einarsson frá Hólum og Guðný Jónsdóttir um 1869.

Jón Ormssonar í Einarshöfn til 1879. (forfaðir Norðurkots-fólksinns)

Jón snikkari Þórhallsson frá Vogsósum og þórunn Gísladóttir um 1870, þó ekki talinn hafa ábúð.

Magnús lóðs Ormssonar í Einarshöfn og Gróa Jónsdóttir um 1871.

Jón Stefánsson og Sigríður Vigfúsdóttir til 1875.

Húsið: Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri. Hélt Skúmstaði alla til 1897.

Húsið: Pétur Níelsen, verslunarstjóri hélt Skúmstaði til 1910.

J.A. Lefolii stórkaupmaður telst skrifaður fyrir Skúmstaða og Einarshafnarjörðum 1911. en er ekki búandi hér.

Húsið: Jens D Nielsen verslunarstjóri til 1919.

Guðmundur Guðmundsson kaupfélagsstjóri og Ragnheiður Björgvnsdóttir 1926 í Garði.

Þorleifur þingmaður Guðmundsson frá Háeyri og Hansína Sigurðardóttir í Garði til 1930. Þá voru Skúmstaðir komnir undir landsbankann.

Jón Íshúsvörður Stefánsson og Hansína Jóhannsdóttir nutu einhvers afraksturs af landinu í tíð Kaupfélags Árnesinga. Jörðin féll síðan undir Eyrarbakkahrepp.

 

Fólk kom víða að einkum úr sunnlenskum sveitum á 18 og 19 öld og settust að á Vesturbakkanum. t.d. Nikulás Þorsteinsson á Skúmstöðum 2 er kom frá Hrífunesi í Skaftártungu með börn sín Jón og Sesselju. Filippus Þorkellsson úr Hraungerðishrepp og hans kona Guðrún Teitsdóttir frá Skálmabæ í Leiðarvallahreppi. Börn þeirra voru Hjálmar, Gróa og Sesselja.

Árið 1816 áttu 21 einstaklingur heima í Kaupmanns og Assistenthúsi (Húsið). Þá bjuggu þar Cristian Fredric Holm factor frá Rudköbing á Fjóni og kona hans Frederikke Lovisa Holm frá Eskifirði. Börn þeirra Jacobina Cristiane Holm, Frederikke Holm, Hans Wolrath Holm, Jacob Holm, Frederik Cristian Holm, Wolrath Cristian Holm. Ekkjan Elisabeth Marie G Petersen og sonur hennar Wilhelm Andres Petersen. Vinnukonurnar Ingveldur Þorkellsdóttir frá Kökki og Margrét Þorsteinsdóttir frá Vaðlakoti, og vinnumenn Ari Jónsson frá Stokkseyri og Einar Jónsson Hallvarðssonar frá Vífilstöðum. Verslunarmennirnir Sigurður Sívertsen frá Gróttu og Eiríkur Sverrisson af Síðu. Í Assistent húsinu bjuggu á sama tíma Hans Símon Hansen assistent frá Reykjavík og kona hans Marie Hansen frá Eyrarbakka. Fósturbarn þeirra Einar Pedersen Hansen og jómfrú Inger Margrete Hansen og vinnukonan Þorbjörg Hannesdóttir frá Eyrarbakka.

 

Skamt frá þessu auðmannahúsi stendur annað er Norðurkot heitir, þá torfbær  og voru fátækt og sjálfsbjörg þar í ráðuneyti. Þar bjuggu Jón Geirmundsson frá Götu og Halla Jónsdóttir frá Syðri Gengishólum með niðursetninginn Guðrúnu Jónsdóttur og börn þeirra Sigríði og Sigurð ásamt vikapiltinum Snorra Geirmundssyni, bróðir Jóns.

 

Jón þessi var nokkuð séður, en hann keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:

 

Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.

  • 1
Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26