Blog records: 2010 N/A Blog|Month_8
30.08.2010 10:40
Bakkabrims að vænta
Nú er spáð bakkabrimi á fimmtudag og er gert ráð fyrir allt að 3 m háum öldum og að aflið verði mest um hádegi á fimmtudaginn, en þá munu öldurnar stefna beint að landi. Það er stormurinn"Danielle" sem mun valda þessum öldugangi, en hann er nú 1. stigs fellibylur norðan 51°W. Þá er gert ráð fyrir stífri suðaustanátt, en að öðru leiti kemur stormurinn lítt við sögu hjá okkur, nema hvað þessu fylgja töluverð hlýindi, eða 17-18°C.
29.08.2010 23:48
Uppskeran með besta móti
Kartöflu uppskeran er með besta móti í ár, enda hefur tíðarfarið verið með ágætum í sumar til hverskonar ræktunar og ekki er ósennilegt að aska frá Eyjafjallajökkli hafi auk þess bætt jarðveginn hér sunnanlands. Þó ekki sé lengur stunduð jafn stórtæk kartöflurækt og áður fyrr, þá eru enn ræktaðar kartöflur víða í görðum hér á Bakkanum og þykir mikil búbót af því. Saga kartöflunar á Eyrarbakka er líklega orðin 166 ára gömul, en það var Hafliði Guðmundsson, einn Kambránsmanna sem sat af sér dóm á Brimarhólmi og kom hann að utan með kartöflur í farteskinu árið 1844 og hóf að rækta þær í garði sínum á Eyrarbakka eftir heimkomuna. Nefdist sá garður "Hafliðagarður" Sagt er að refsifangar á Brimarhólmi hafi ekki fengið annað að éta en kartöflur, en þær þykja nú sjálfsagðar í hvert mál. Það var svo í kreppu millistríðsáranna sem stórtæk karöfluræktun hófst á Eyrarbakka og ekki síst fyrir tilstuðlan Bjarna Eggertssonar búfræðings.
Best er að geyma kartöflur á þurrum og dimmum stað, því þær þola illa dagsbirtu eða sterkt rafljós. Kartöflur þurfa góða öndun, þannig að forðast ætti að geima kartöflur í plasti eða lokuðum ílátum. kartöflur þola ekki að frjósa, en ekki er heldur gott að hafa þær í miklum hita, því þá er þeim hætt við að ofþorna. Hiti á bilinu 5-10° er ágætur geimsluhiti.
27.08.2010 15:27
Brim í næstu viku
Búast má við allnokru brimi í næstu viku. Það byrjar að brima á þriðjudag og verður svo vaxandi fram í vikuna, einkum miðvikudag og fimmtudag. Þá er gert ráð fyrir djúpri lægð suður af Hvarfi sem kemur til með að valda fyrsta haustbriminu. Gera má ráð fyrir 2.5m öldum við brimgarðinn síðdegis á miðvikudag.
Í morgun var ládauður sjór og "sjóreykur". Sjóreykur myndast þegar köld Ölfusáin blandast hlýjum sjónum út og austur með Ölfusárósum. Svalt var í morgunsárið og frost mældist á Þingvöllum.
26.08.2010 10:37
Lá við næturfrosti
Næturhitinn hefur farið ört lækkandi síðustu daga og í nótt lá við næturfrosti þegar hitastigið fór niður í 0.8°C og er það líkast til kaldasta nóttinn hér í sumar. Á Þingvöllum fór hitinn niður í frostmark í nótt og sennilegt að kartöflugrös hafi fallið víða Þingvallasveit. Hádegishitinn hefur einnig verið í lægri kantinum síðustu daga 12-13°C. Næstu daga er spáð hlýrra lofti með skúrum þannig að ekki eru miklar líkur á næturfrosti á láglendi það sem af er mánuðinum.
23.08.2010 15:44
Verður "Danille" fyrsta haustlægðin?
Vel er mögulegt að hitabeltisstormurinn "Danielle" sem er nú nýskapaður á sunnanverðu N-Atlantshafi verði að fyrstu haustlægðinni eftir einhverja daga, þegar og ef stormurinn heldur norður á bóginn.
Hér verður hægt að fylgjast með ferðum stormsins um tíma.
22.08.2010 16:10
Alda hafsins
Sjómenn og þeir sem búa við sjóinn þekkja vel ölduna. Vegalengd frá þeim stað sem alda verður til og þar til hún skellur á ströndinni, getur skipt þúsundum kílómetra þar sem strönd liggur að úthafi, eins og suðurströnd Íslands. Öldur sem verða til fyrir tilstyrk vindsins sem þrýstir á yfirborð sjávar, nefnast vindöldur. Flóðöldur eða "Tsunami" verða af völdum jarðskjálfta eða eldsumbrota neðansjávar. Slíkar öldur geta náð ótrúlegum hraða (700-800 km/klst) og ferðast þúsundir kílómetra. Hæð þeirra er aðeins nokkur fet, en þegar kemur að landi rísa þær allt upp í 9 metra hæð. Aðrar öldur verða til vegna skriðufalla eða jökulhlaupa í sjó fram sem mynda gríðar þrýsting á yfirborð vatns eða sjávar.
Vindaldan hækkar að vissu marki í samræmi við veðurhæðina sem myndaði hana, en hún brotnar og faldar hvítu þegar hún hefur náð 1/7 af lengd sinni. Þegar aldan kemst inn á grynningar, rís hún þar til að hún brotnar með brimi og brambolti eins og vel þekkt er t.d. á Eyrarbakka. Þegar veður lægir eftir storm, getur öldugangur vaxið og myndað undiröldu og eru sjómenn ævinlega í nöp við hana. Öldudufl eru viða með ströndum landsins og mæla tíðni milli öldufalda í sekúntum og hæð í metrum. Meðalhæð öldu í fárviðri er um 20-22 metrar. Það er stundum sagt að sjönda hver alda sé hærri en næstu sex á undan hvað svo sem til er í því, þá geta öldur verið misháar þó þær komi að landi hver á eftir annari. Hraði vindöldunnar getur verið mismunandi og ræður vindhraði þar mestu en undiraldan þokast áfram á um það bil15 mílna hraða. Sjaldgæft er að vindöldur nái 30 metra hæð úti á rúmsjó, en 6. febrúar árið 1933 var mæld 33 m há alda á bandaríska herskipinu "Ramapo" sem statt var á kyrrahafi í illviðri þar sem vindhraðinn mældist 68 hnútar.
Líklega er ekki auðhlaupið að þvi að mæla afl brimöldunnar í brimgarðinum á Eyrarbakka, en ekki er ólíklegt að aflið geti verið 6000 kg á fersentimetir eins og við svipaðar aðstæður erlendis. Tignarlegust er brimaldan þegar hún æðir hvítfext og rjúkandi á móti hvössum vindinum. Yfir vetrartíman getur brimið varað dögum saman í öllum sínum myndugleik, en á sumrin er brim fátíðara, enda veður stilltara á hafinu umhverfis landið.
Siglingastofnun sér um rekstur öldudufla við Íslandsstrendur og gerð ölduspáa sem hægt er að nálgast á vefnum http://vs.sigling.is/ . Hér má einnig nálgast ölduspá frá surf-forecast.com
Heimild m.a.:Bók Peters Freuchens of the seven seas.
22.08.2010 12:59
Norðvestan Kaldi
Það hefur verið haustlegt í lofti síðasta sólarhringinn með NV kalda, eða 5 gömul vindstig og öðru hvoru hefur rokið upp í stinningskalda. Eins stafs hitatölur sjást nú um allt land um miðjan daginn og sumarið virðist vera að renna sitt skeið. Það var kaldranalegt fyrir norðan í dag eins og sjá má hér. Beufort skali Vindlýsing Hraði m/s Vindstig Logn 0,2 0 Andvari 0,3 - 1,5 1 Kul 1,6 - 3,3 2 Gola 3,4 - 5,4 3 Stinningsgola 5,5 - 7,9 4 Kaldi 8,0 - 10,7 5 Stinningskaldi 10,8 - 13,8 6 Allhvasst 13,9 - 17,1 7 Hvassviðri 17,2 - 20,7 8 Stormur 20,8 - 24,4 9 Rok 24,5 - 28,4 10 Ofsaveður 28,5 - 32,6 11 Fárviðri 32,7 - 36,9 12
Árið 1805 útbjó Francis Beaufort vindgreinitöflu um veðurhæð á sjó. Hann var þá kortagerðamaður breska flotans. Vindstiga taflan var fljótlega tekinn í notkun um allann heim:
19.08.2010 23:47
Hitamet falla
Dagsmet í hitastigi hefur fallið þrjá daga í röð á Eyrarbakka. Á þriðjudag féll metið frá 2000 þegar hitinn komst í 18,6°C VÍ (18,8 brimstöð). Í gær miðvikudag féll metið frá 2005 þegar hitastigið komst í 18,8°C VÍ (18,9 brimstöð) og í dag féll metið frá 1988 þegar hitastigið komst í 20,7°C VÍ (20,5 brimstöð). Það er því sannkölluð hitabylgja á Bakkanum þessa daganna.
19.08.2010 11:01
Kirkjuviðgerð þokast
Kirkjusmiðirnir á Bakkanum eru þessa dagana að leggja lokahönd á viðgerðir á kirkjuturninum, sem er mikil listasmíð. Á innfeldu myndinni má sjá glitta í Stundaklukku sem var sett upp í turni kirkjunnar árið 1918 og slær á heilum og hálfum tíma. Jakob A. Lefolii, kaupmaður gaf hana. Árið 1977 til 1979 var kirkjan endurbætt að stórum hluta.
Meira um Eyrarbakkakirkju.
http://brim.123.is/blog/record/419244/
http://brim.123.is/blog/record/306544/
http://brim.123.is/blog/record/298889/
18.08.2010 09:37
Slátra í nafni Allah
Einn helsti dilkakjötsverkandi landsinns hyggst taka upp svokallaða HALAL slátrun á öllu sláturfé í haust samkvæmt heimildum . HALAL slátrun er sú aðferð sem múslimar samþykkja til að mega neyta kjötsins, og felst því í þessu nokkur gróðavon fyrir kjötframleiðsluna, enda múslimar ákaflega sólgnir í kindakjöt. Halal-slátrun allra dýra (sem og fiska) fellst í því að skera á slagæð á hálsi dýrsins lifandi og tæma það öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar á múslimskum heimilum. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á nokkurn hátt. Slátrunin er álitin trúarleg athöfn og áður en sauðurinn er skorinn eru þessi orð viðhöfð í heyranda hljóði: "Í nafni Allah, hins náðuga, hins miskunnsama". Gallin er hinsvegar sá ef rétt er, að bæði kristnir sem heiðnir verða að sætta sig við HALAL- kjöt, blessað Allah á borðum sínum um jólin, kjósi þeir á annað borð lambasteik.
17.08.2010 23:04
Veðurblíða
Þetta veður hefði mátt koma um helgina,en í dag náði hitinn upp 18.8 °C (18,6°C VÍ 1395) og telst það dagsmet. Fyrra met fyrir þennan dag var 17.4 árið 2000. Myndin hér að ofan er tekin við Sjóminjasafnið í veðurblíðunni.
15.08.2010 23:00
Fjölmargir sóttu Bakkan heim
Fjöldi fólks var á Aldamótahátíðinni á Eyrarbakka, einkum á laugardeginum, en þá var veður skaplegt. Margir viðburðir voru á dagskrá sem hófst með skrúðgöngu frá barnaskólanum. Á Gónhól var slegið upp hlöðuballi fyrir fullu húsi þar sem Klaufarnir héldu uppi fjörinu. Dagskránni var fram haldið í dag, en mikil rigning setti mark sitt á hátíðarhöldin. Um hádegi var úrkomumagnið 4,5 mm á klukkustund í austan strekkingi. Hátíðinni lauk svo í kvöld með flugeldasýningu sem björgunarsveitin stóð fyrir við Gónhól.
11.08.2010 08:52
Útkall á nýja björgunarbátnum
Björgunarsveitirnar í Þorlákshöfn og Eyrarbakka voru kallaðar út á fjórða tímanum síðastliðinn laugardag þegar leki kom að Stormi-Breka suður af Herdísarvík, en myndir af björgunaraðgerðum má sjá á Sunnlenska.is. Björgunarsveitarmenn af Bakkanum héldu af stað á nýja "Hjálparanum" Atlantic 75 björgunarbát sem er einn af þeim sex björgunarbátum sem nýverið voru keyptir til landsins og er þetta fyrsta útkallið á hann. "Hjálparinn" frá Björgu fylgdi Stormi-Breka til hafnar ásamt lóðsbátnum Ölveri frá Þorlákshöfn. Um verslunarmannahelgina starfaði sveitin við gæslu um borð í Herjólfi og umferðarstjórn í nýju Landeyjarhöfn.
09.08.2010 08:59
Aftur til fortíðar
Um næstkomandi helgi 14-15. ágúst verður blásið til stórhátíðar á Eyrarbakka. Hestarnir, kindurnar, geiturnar og hænurnar, mennirnir, konurnar og börnin bjóða ykkur velkomin á hina árlegu þorpshátíð. Íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900. Fornbílamenn og konur eru heiðursgestir hátíðarinnar og margir bjóða á rúntinn í glæsivögnum fortíðar. Bakkablesa dregur aldamótavagninn góða og Thomsensbíllinn rennir sér um göturnar. Við opnum húsin okkar og bjóðum gestum að kíkja inn í kaffi og pönnsu. Harmonikkur duna og það má sjá söluborð og markaðstorg um allar götur, tún og engi auk hins vinsæla skottmarkaðar sem haldinn var í fyrsta sinn á Eyrarbakka í fyrra. Listsýningar, hlöðuball með Klaufunum, tónleikar, skrúðganga, kappsláttur , fornbílar, bændamarkaður, kaffihús, veitingahús, gisting og síðast en ekki síst fá allir að smakka kjötsúpuna okkar góðu sem er hvergi eins góð og á Bakkanum.
Á Eyrarbakka má finna hið heimsfræga veitingahús Rauða-húsið, menninga og listaverstöðina Gónhól, en þar er líka gott kaffihús. Vesturbúðina, landsfrægu sem selur næstum allt milli himins og jarðar og litla kaffiskúrinn Bakkabrim við höfnina, litla kósí gallerýið hennar Regínu, Söfnin þjóðkunnu, Húsið og Sjóminjasafnið, þar sem er að finna afar gamalt og merkilegt dót. Tjaldstæðið góða þar sem auðvelt er að sofna við sjávarnið. Búðargluggana gömlu með minningum um horfna tíð. Gamlir karlar munu svo örugglega bjóða í nefið við brúsapallinn. Þá mun bakaraættin halda ættarmót á Bakkanum og rifja upp gömlu góðu daganna.
- 1
- 2