Blog records: 2013 N/A Blog|Month_10
21.10.2013 22:56
Sú var tíðin, 1929
Þorpið var um þessar mundir að taka breytingum frá því að vera aðal verslunarstaður Suðurlands um aldir og til þess að verða lítið útgerðar og fiskimannaþorp næstu 70 árin að viðbættum landbúnaði og lítilsháttar iðnaði. Ný bátabryggja var tekin í notkun og vetrarvertíð hófst svo 25. febr. er fyrsti báturinn réri. Vel fiskaðist í þessum róðri, en svo dró úr, þannig að vertíðin hjá Bakkabátum varð arfaslök þessa vertíð. Haustaflinn við ströndina var góður þá er á sjó gaf en 3 bátar héðan gerðu þá út frá Sandgerði. Nýyrkja mikil var einnig hafinn ofan við þorpið og mælt og grafið fyrir skurðum til þess að þurka upp landið og byggja upp tún. Þá hafði tekist vel að hefta sandfok og græða upp sandanna sem eyddu túnum fyrrum, en nýr sjóvarnargarður var byggður fyrir sangræðslusvæðinu á fyrra ári. 83 skepnuhaldarar voru þá á Bakkanum og áttu þeir samtals 51 nautgrip, 880 suðfjár og 200 hesta. Áttu þorpsbúar þá 28 ha ræktaðs lands auk engjalandsins, en nýyrkjan gerði ráð fyrir að rækta mætti 900 hektara til viðbótar. Kartöflurækt var mikil og var E. Einarsson einn þeirra stórræktenda. Þorpsbúum hafði fækkað mjög og nú störfuðu aðeins tveir kennarar við barnaskólann í stað fjögra áður.
Á Litla-Hrauni var verið að setja upp fangelsi í því húsi er fyrr átti að verða sjúkrahús Sunnlendinga og var fangelsið vígt þann 26. febrúar. Fyrstu starfsmenn þess voru Sigurður Heiðdal forstjóri, en hann var áður skólastjóri b.s. á Stokkseyri, Zóphanías Jónsson, matráður og Jónas Jónsteinsson fangavörður og kennari á Stokkseyri, síðar skólastjóri þar. Netagerð og jarðrækt áttu fangar að ástunda, enda hét þetta "Vinnuhæli" þó oftar væri kallað "Letigarður". Fyrstu fangarnir voru tveir danir og einn íslendingur. Bygging þessi var löngum pólitíkst þrætuepli, öndvert hvort heldur sem af yrði fangelsi eða sjúkrahús. "Heiðdalshús" var byggt þá um sumarið undir forstjórann og störfuðu við það fangarnir sem þá voru orðnir 13 talsins. Skemma var einnig bygð þetta ár. Vörubíl átti fangelsið til aðdrátta. Fangelsið var til sýnis á sunnudögum og heimsóttu það 500 manns.
UMFE: Ungmennafélagið starfrækti um þessar mundir samkomuhúsið Fjölni (leigði af hreppnum) og hélt þar m.a. fimleikasýningar og heimilisiðnaðarsýningu. Þá vann félagið að vexti bókasafnsins sem Eyrbekkingar búa að enn þann dag í dag. Barnadeild var innan félagsins og mikið starf þar unnið. Þá tók félagið til ræktunar 500 fm. kálgarð sem skipt var upp fyrir félagsmenn. Þá stóð félagið fyrir tréskurðarnámskeiði. Kennarar voru þeir Ríkharðar Jónsson og lærisveinn hans Marteinn Guðmundsson. Danskennslu stóð félagið fyrir og þar kenndu Vikivaki-dansa systurnar frá Oddgeirshólum Katrín og Sigríður Árnadætur. UMFE vildi láta flytja Alþingi aftur á Þingvöll og skoraði á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þess að lútandi.
Báran: Í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka voru um120 félagsmenn, en félagið var eitt elsta verkalýðsfélag landsins og hélt upp á afmæli sitt með "Báruballi" samkvæmt hefðinni, en félagið var nú orðið 24. ára. Einar Jónsson bifreiðarstjóri var formaður þess.
Verslun og viðskipti: Byggingavöru-nýlendu og matvöruverslun var hér er ráku bræðurnir Kristjáns. Þá var vefnaðarvöru og olíuverslun er rak Ólafur Helgason. Alhliðaverslun rak hér Guðlaugur Pálsson, (Bygginga-nýlendu-matvöru-ritfanga-vefnaðarvöru, skó, sælgætis og leikfangaverslun). Bergsteinn Sveinsson var og með einhverja byggingavoruhöndlun á sínum snærum. Þá var Jón B Stefánsson á Hofi umboðsmaður hér fyrir Kaupfélag Grímsnesinga. Pedersen lyfsali seldi verslun sína hér Lárusi Böðvarsyni úr Reykjavík. Klæðskeri var hér Ottó Guðjónsson og hafði hann eina saumakonu í vinnu. Gistihúsið var í rekstri. Þar gisti m.a svisslendingur um nokkra vikna skeið og var hann einstaklega vel fjáður, en síðar kom á daginn að hann var eftirlýstur í heimalandinu.
Pólitík: Undirskriftalistar gengu hér til stuðnings setu sýslumannsinns á Eyrarbakka. Hreppsnefndin fundaði um unglingareykingar og óskaði eftir að kaupmenn á Eyrarbakka og Stokkseyri hættu að selja vindlinga, sem voru nú orðnir mjög vinsælir meðal ungs fólks. Þingmálafundur haldin hér skoraði á landstjórnina að sjá um að útlánavextir bankanna yrðu lækkaðir. Einnig skoraði fundurinn á Alþingi að láta ekki af hendi vatnsréttindi ríkisins í Sogi.
Skipakomur: Timburskip kom hér í maí og losaði farm. (Sennilega seglskipið "Vera") Þá kom varðskipið Óðinn hér við.
Jarðskjálftar fundust hér sem víðar um Suðurland snemma árs 1929, var talið að ættu upptök í Henglinum. Öflugur jarðskjálfti reið hér yfir 23. júlí er átti upptök í Ölfusinu.
Menning: Matreiðslubók gaf út Guðmunda Níelsen. Leiksýningar hefðbundnar voru haldnar í samkomuhúsinu Fjölni.
Látnir: Halldóra Jónsdóttir (85) frá Gýgjarsteini. Jón Andrésson (79) þurrabúðarmaður Litlu Háeyri. Ingibjörg Pálsdóttir (75) frá Stíghúsi. Helgi Jónsson (73) formaður frá Nýjabæ. Guðfinna Jónsdóttir (70) frá Framnesi. Tómas Vigfússon (67) formaður frá Garðbæ/Götuhúsum. Hann var lengi í hreppsnefnd, kosinn af verkamönnum. Kona hans var Margrét Vigfúsdóttir. Ólafur Bjarnason (68) trésmiður frá Stíghúsi. Valgerður Jónsdóttir (50) frá Bjarghúsum. Sigurður Daníelsson (49) gullsmiður frá Deild. Kona hans var Ágústa Ebenesardóttir. Sigurlín Filippusdóttir (35) frá Einarshöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Halldór Vívartsson (75) að Svold N. Dakota U.S.A. Hann fluttist frá Eyrarbakka vestur til U.S.A. 1883 og settist að í N.Dakota. Kona hans var Valgerður Magnúsdóttir (d.1926) einig frá Eyrarbakka og áttu þau 10 börn. Andrés Jónsson, (43) kaupmaður af Eyrarbakka, Þorkelssonar frá Óseyrarnesi lést í Reykjavík af veikindum. Kona hans var Katrín Magnúsdóttir. Ásgrímur Jónsson (50) sjómaður Þorkelsonar frá Óseyrarnesi af veikindum. Hann bjó í Reykjavík. Helga Gísladóttir frá Smiðshúsum úr veikindum. Hún bjó í Reykjavík.
Slys: Maður kafnaði í svefni af svækju frá kolaofni. Hann hét Sigvaldi Sigurðsson ættaður úr Breiðafirði og var hér í heimsókn.
Veðurfar: Mikið óveður og byl gerði í byrjun maí.
Hlóð þá niður miklum snjó.
Af nágrönnum: Húsbruni varð á Stokkseyri og brann til kaldra kola. Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa. Hús fyrir starfsemina var byggt við bakka Ölfusár þar sem um þessar mundir er verslunarþorp í örum vexti og nefnt hefur verið Selfoss.
Heimildir: Skinfaxi, Andvari, Búnaðarrit, Árbók HSK. Alþýðubl. Morgunbl. Vísir, Lögberg, Ísafold.
20.10.2013 23:26
Sú var tíðin 1928
Alþýða þorpsins uppgötvaði skyndilega að
borgarastéttin var nærri með öllu horfin á braut og nú yrðu þurrabúðarmenn,
bændur og vermenn að byggja þorpið upp á sínar eigin spítur, sem ekki voru
margar. Sýslumaðurinn, læknirinn og presturinn voru einna helst þeir
æðristéttarmenn sem enn tórðu á Bakkanum. En á meðan deildu þingmenn á Alþingi
um það, hve hentugt eða óhentugt væri að taka Eyrarspítala undir letigarð og
hegningarhús fyrir vesalinga og húðlata götukarla höfuðstaðarins. Það var við
ramman reip að draga hjá verkafólki sem bjó við lág laun og minni vinnu en fyr.
Vegavinna og brúargerð fjarri heimahögum var þá helst í boði. Sendinefnd frá
Verkalýðsfélögunum héðan héldu til Reykjavíkur til að herja út kjarabætur við
vegavinnu í sýslunni. Einn róðrabátur var enn gerður út á Eyrarbakka auk mótorbáta.
Afli var þó hálfu minni en Stokkseyrarbáta. Þorpsbúar kepptust um að rækta
hinar heimsfrægu Eyrarbakkakartöflur fyrir Reykvíkinga í harðri samkeppni við
innfluttar danskar, Akraneskartöflur og Eyvindarkartöflur (skoskar-Kers Pink).
Verslun: Litlu búðirnar lifðu ágætu lífi nú þegar
sunnlensku verslunarrisarnir voru fallnir.
Á Stokkseyri
var verslunin "Brávellir" er jón Jóhannson átti, en keppinautur hans þar var
Ásgeir Eiríksson. Á Bakkanum var timburverslun Sigurjóns, Ólabúð og Laugabúð.
Menning: Mikil gróska var í starfsemi
ungmennafélagsins sem hélt upp á 8 ára afmæli um þessar mundir (stofnað 5. mai
1920, en löngu fyr hafði verið til um nokkur ár álíka félag er P. Nielsen
stýrði) og sömu sögu var að segja af félagslífi alþýðfólks á Eyrarbakka og
Stokkseyri. Verkamannafélögin "Báran" (form. Einar Jónsson) og
"Bjarmi" (form. Zóphónías Jónsson) héldu uppi góðri samvinnu sín á milli í
félagslífi þorpana. Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri þýddi barna bókina
"Njáls saga þumalings" (Nils Holgersons underbara resa) eftir Selmu Lagerlöf.
Kvenfélagið hélt upp á 40 ára afmæli sitt, en það var stofnað 31. mars 1888. Þá voru stofnaðar deildir Slysavarnarfélagsins bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri þetta ár (1928).
Hilsufar: Heilsa var almennt með ágætum á Suðurlandi
og helst Kvefsótt sem hrjáði.
Látnir:
Ingibjörg Sigurðardóttir (84) frá Haustúsum. Ólafur Snorrason (84) þurrabúðarmaður frá
Einarshöfn. Guðrún Sveinsdóttir (78) frá Brennu. Einar Jónsson (68) þurrabúðarmaður Traðarhúsum.
Jón Guðbrandsson (61) skósmiður í Sandvík.
Guðmundur Álfur Halldórsson (31) sjómaður,
úr Reykjavík. Sigurbergur Þorleifsson (13) frá Einkofa. Sigurður Vilbergsson Haga
(0) Sveinbarn Vilbergsson (0) frá Skúmstöðum.
Eyrbekkingar fjarri: sr.Eggert Sigfússon (88) trésmiðs
(Fúsa snikkara) og Jarðrúðar Magnúsdóttur á Skúmstöðum. Guðrún Jónsson (82)
Whasington Island. Faðir hennar var danskur og hét Ruut en móðir Íslensk.
Sýslan og sveitin: Kaupfélag Grímsnesinga fekk vörur
með skipi út á Eyrarbakka. Umboðsmaður þess á Eyrarbakka var Jón B Stefánsson á
Hofi. Mjólkurbú voru Flóamenn að stofna. Í Flóahreppunum voru á 11. hundrað kýr
mjólkandi, en dagleg mjólkurneysla á Eyrarbakka og Stokkseyri var ¾ litir á
mann að meðaltali.
Tíðarfarið: Meðalhitinn í janúar var -1,3°C og -0,5 í
febrúar, snjór var mikill og færð ill. Þennan vetur voru óvenju fáir hrafnar á
Bakkanum. Meðalhiti í maí var 8,6°C.
Sandkorn: Þann 30 september 1928 stofnuðu konur úr Sunnlendingafjórðungi, Samtök Sunnlenskra Kvenna. (S.S.K.) Forgöngukona fyrir þessum samtökum var Halldóra Bjarnadóttir þá búsett í Reykjavík. Undirbúningsfundur var haldinn á Selfossi 5 maí þetta ár og samtökin síðan stofnuð formlega þá um haustið. Í fyrstu stjórn samtakana voru: Formaður, Herdís Jakopsdóttir Eyrarbakka.- Ritari, Guðrún Sigurðardóttir Stokkseyri. - Gjaldkeri: Jarþrúður Einarsdóttir Eyrarbakka.
Heimildir: Hlín, Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg,
Lögrétta, Heimskringla,Tíminn, Fálkinn,
Búnaðarrit
19.10.2013 21:13
Gönguljóð U.M.F.E
Frjálsan, léttan,
fagran dans
fram á sléttan
völl,
sterklega við
stígum;
stynja grundir,
fjöll.
Viðlag:
Bylur bára við
sand,
blika ránar
tjöld.
Allan taka
Eyrarbakka,
æskunnar völd.
Stigu áður álfar
dans,
undir kváðu ljóð.
Nú eru vikivakar
að vinna okkar þjóð.
Bylur bára við
sand o, s. frv....
Glatt, er oft í
góðri sveit,
glymur loft af
söng. : ,
Tökum allir
undir,
Íslands
kvæðaföng.
Bylur bára við sand
o. s. frv...
Fagurt æsku
félagslíf,.
frjálst og
græskulaust,
hæfir svanna og sveini,
sem eru glöð og
hraust.
Bylur bára við
sand o., s. frv...
Stígum fram og
strengjum heit
stokkinn ramma á:
Að við skulum alla
:
okkar krafta ljá
.
(viðlag:) "
vorri vaxandi þjóð,
verja okkar land,
Eyrarbakka yrkja
og græða
ógróinn sand.
Ókunnur höf. Ort í Fjölni 1929.
09.10.2013 22:22
Sumarveðrið 2013
03.10.2013 21:09
Þjóðsaga, Finninn og flaskan
Skip kom á Eyrarbakka eins og einatt hafði við borið í eina
tíð. Einn af skipmönnum var finnskur að ætt. Hann hafði meðal annars til sölu
flösku eina tóma. Kostaði hún litlum mun meira en vanalegt er að flöskur kosti.
Loksins bauðst einn til að kaupa flöskuna og skyldi hann koma með hana að
morgni því nú var hún á skipi. Um morguninn kemur Finnurinn með flöskuna, en þá
er Íslendingnum snúinn hugur svo hann gengur á móti kaupunum. Verður þá deila
mikil með þeim og loksins hrifsingar og hrekur Íslendingurinn Finninn. Hann
grípur þá flöskuna, kastar henni af hendi sem harðast ofan í klappirnar. Hrekkur
hún upp á móti og kemur fjærri niður því í henni var sveigjugler. Þetta sá
Íslendingur, grípur flöskuna og fer með í burtu án þess hinn hefði nokkuð
fyrir. Um sumarið siglir skip þetta aftur til Noregs, en kemur aftur á næsta
sumri. Kemur Finnurinn enn með flösku og biður landsmenn að selja sér á hana
konumjólk og kúa, en skipstjórnarmaður gaut því að landsmönnum að gera það
ekki, hafa það heldur tíkarmjólk og kattar og var það gjört. Siglir hann nú með
flöskuna og er hjartanlega ánægður. Nú er best að elta hann fram með flöskuna
og það allt til Finnmerkur. Þar átti hann móður gamla. Setur hún nú flöskuna
með því sem í var milli tveggja potta og seyðir allan veturinn fram að góulokum
og geltir þá og mjámar í pottinum. Við það brá henni svo að hún hljóp út og
drap sig þegar hún heyrði hvernig hún var prettuð. Um sumarið fór hann með
flöskuna til Íslands og kom þá dæmalaust farald á hunda og ketti. Þannig er
hundafárið komið upp sem hér hefir stöku sinnum gengið.
(Hundafárið,
úr þjóðsögum Jóns Árnasonar)
- 1