Category: Fuglalíf

03.11.2024 21:55

Friðland í Flóa

 

Upphaf þess að fuglafriðland var stofnað á 5 ferkílómetra flæðiengjum við Ölfusá ofan við Eyrarbakka má rekja aftur til ársins 1997 þegar Fuglaverndarfélag Íslands gerði samning við Eyrarbakkahrepp um uppbyggingu friðlandsins á þessu svæði og hófst þá félagið handa við að endurheimta votlendi svæðisins með því að fylla upp í fráveituskurði. Nánar má fræðast um friðlandið á vef Fuglaverndar https://fuglavernd.is/busvaedavernd/fridlandid-i-floa/ 

25.02.2017 17:52

Krummi krúnkar úti

Krummi hefur verið duglegur að heilsa upp á Eyrbekkinga í vetur og glatt vegfarendur með krúnki sínu.

19.08.2013 15:09

Óvenju mikið um álft

Óvenju mikið hafa álftir og andfuglar verið við strönd þorpsins í sumar. Jafnvel svo að skipti hundruðum saman, mest ungálftir, líklega ófleygar í sárum um þessar mundir. Álftapar með fimm unga siglir hér framhjá ljósmyndara BB þar sem þær halda sér í lygnu innan við brimið.

13.05.2012 23:00

Krían kominn

Þá er hún kominn, blessuð Bakkakrían, en það sást til kríuhópa um miðjan dag í gær 12.maí. Heldur fær hún óblíðar móttökur hjá veðurguðunum í norðan rokinu sem brast á í dag, en vindhviður allt að 26 m/s hafa mælst hér við ströndina. Það er svo spurning hvort krían finnur síli á næstu dögum og vikum, en ef ekki, þá er hætt við að hún ungi ekki út frekar en hin fyrri ár og kveðji okkur snemma þetta sumarið. Í fyrra kom krían 16. maí og það gerði hún líka 2006 en vorið 2010 og 2009 kom hún á sama tíma og nú eða 12.maí og 2008 þann 10. og 2007 þann 15. 

Kríukoman er ávalt fagnaðarefni á Bakkanum enda telst þá sumar komið hér við ströndina.

05.02.2012 16:49

Himbrimi á Eyrarbakka

Himbrimi í vetrarklæðum

Himbriminn á myndinni er í vetrarbúningi og sást á Eyrarbakka í dag. Hann er náskildur lóminum en stofn himbrima er ekki stór, aðeins fáein hundruð pör og því afar sjaldséður fugl í Evrópu. Því hefur það oft verið æðsta ósk erlendra fuglaskoðara að fá hann augum litið. Heimkini hans eru hér í norðurhöfum og á veturnar dvelur hann við strendur landsins, en á sumrinn á heiðarvötnum og hólmum.  Upprunanlegur stofn himbrima er í N.Ameríku. Rödd himbrimans er afar sérstök, eða langdregin angurvær óp og óhugnanlegur titrandi "hlátur" sem getur vakið upp hroll hjá mannfólkinu þegar rökkrið sígur að á kyrrum kvöldum.

12.05.2010 22:46

Bakkakrían kominn

Í morgun voru kríurnar komnar í varplöndin og mikið um að vera.

04.05.2010 21:00

Hvenær kemur krían?

Það ætti að vera stutt í að Bakka-krían komi í hópum, en fyrstu kríu var vart í dag. Árið 1991 kom hún 2. maí,1997 kom hún 4.maí, 1988 kom hún þann 7. 1966 kom hún þann 8. Venjulega koma forustukríurnar nokkrum dögum á undan megin hópnum.

13.04.2010 21:23

Stokkseyrarmáfurinn kominn


Nú andar suðrið sæla og hettumáfurinn er kominn enn á ný. Fyrsta hettunáfshreiðrið hérlendis  fannst í tjarnarhólma nálægt Stokkseyri um 1910. Tegundin var þá mjög algeng í danmörku og ekki er ósennilegt að náttúrukönnuðurinn og verslunarmaðurinn P.Nielsen í húsinu hafi uppgötvað landnemann, en allavega var fuglinn kallaður "Stokkseyrarmáfur" fyrst um sinn. Árið 1930 var hettumáfurinn búin að nema land norður í Mývatnssveit. Á haustin tekur fuglinn ofan hettuna.


Vísir 1913/ Suðurland 1913

19.11.2009 21:46

Jólarjúpa á Bakkanum

RjúpaÞað brá til tíðinda að rjúpa gerði sig heimakominn á Bakkann og virtist bara una vel við sig í húsagörðum. Líklega viss um að verða örugg fyrir skotveiðimönnum, enda afar fátítt að þessi fugl sé á borðum Eyrbekkinga um jól. Eyrbekkingar eru nefnilega vanastir stórsteikum og hangikjöti með alskyns gúmmilaði og ekki ósennilegt að rjúpan hafi haft einhvern grun um það.

10.10.2009 23:17

Hvassir vindar blésu í dag

Smáfuglar baða sig í belgings vindi
Finkurnar létu lítið á sig fá Norðaustan bálið í dag og fengu sér hressilegt bað í Mímis tjörn. Það var talsvert hvasst í dag og um tíma stormur á. Í mestu hviðum fór vindur í 25.7 m/s sem er litlu minna en í storminum í gær. Það var svo seint í kvöld sem tók loks að lægja og nú er komið stafa logn.

Kl. 9 í morgun mældist úrkoma 32 mm, en þennan dag 1991 mældist þó meira, eða 50,2 mm. Oktobermetið í sólarhringsúrkomu á þó sá 27. árið 2006, en þá komu 66 mm í dolluna. Það er þó lítið miðað við úrkomumagnið á Eskifirði í morgun, en þar mældust einir 185,3 mm.

12.05.2009 09:19

Krían er kominn

Krían kom í morgunKrían er kominn á Bakkann og er með fyrra fallinu að þessu sinni. Hún hefur  þá lagt að baki langt og strangt flug, jafnvel alveg frá Suðurheimsskautinu. Krían lifir aðalega á því sem er að hafa í sjó eða vatni, þá mest á sílum en einnig skordýrum. Undanfarin ár hefur hún búið við kreppu í sílastofninum og því átt örðugt með að koma upp ungum, auk þess sem hún hefur oft verið rænd eggjum sínum, sem hefur gert henni enn erfiðara með viðhald stofnsins sem hefur verið á undanhaldi hin síðustu ár, en vonandi gengur betur hjá Bakkakríunni í sumar.

25.04.2009 17:44

Erla góða Erla

Maríuerla í baði
Nú eru flestir sumarfuglarnir komnir á Bakkann, svo sem maríuerla, músarindill og hrossagaukur. Hún Erla hér á myndinni fékk sér vatn að drekka úr tjörninni sinni og lét ekkert á sig fá þótt á móti blési í norðan bálinu í gær.

10.05.2008 16:59

Krían komin.

Bakkakrían er komin og hefur hún þá lagt að baki langt og strangt flug, jafnvel alveg frá Suðurheimsskautinu. Í fyrra kom krían 15.maí og er því með fyrra fallinu þetta árið. Hún hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár vegna ætisskorts, en vonandi árar betur nú.

28.04.2008 22:36

Hrossagaukurinn kominn

Hrossagaukurinn er kominn með sitt sérkennilega hnegghljóð sem myndast þegar hann steypir sér skáhalt niður á við í loftinu. Til hans sást upp í Breiðumýri en þar er einmitt kjörlendi fyrir Hrossagauk.

Bakkakrían er enn ókomin. Fréttir hafi verið um komu kríunar austur á Hornafirði en kríurnar okkar koma venjulega milli 14 og 16 maí.

Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26