Blog records: 2015 N/A Blog|Month_1

24.01.2015 23:35

Sú var tíðin, 1944


Hraðfrystistöð Eyrarbakka h/f tekur til starfa.

Í byrjun árs var íbúatala í Eyrarbakkahreppi 597 og í Stokkseyrarhreppi jafn margir, eða 597 manns. Í Sandvíkurhreppi bjuggu 364 og um 500 í Ölfusi. Bygging hraðfrystistöðvarinnar er hafinn, en gólfflötur hennar er um 700 fm. Hlutafé um 250.000 var safnað af Eyrbekkingum á Eyrarbakka og í Reykjavík. Að undirbúningi þessa fyrirtækis stóðu; Vigfús Jónsson, Magnús Magnússon, Árni Helgason, Jón Tómasson, Sigurður Kristjánsson, Sigurður Óli Ólafsson og Bjarni Jóhannsson. Áætlað var að 30 til 40 manns, einkum konur fengju atvinnu við hið nýja frystihús. Hampiðjan rak netagerð á Eyrarbakka og höfðu nokkrar konur starf við hana.[Sofnandi Hampiðjunnar í Reykjavík var Eyrbekkingurinn Guðmundur Guðmundsson vélstjóri, en hann starfaði þá hjá vélsmiðjunni Héðni.] Frá Eyrarbakka réri þó aðeins einn dragnótabátur á vetrarvertíð og frá Þorlákshöfn eitt tveggja manna far. Frá Stokkseyri voru hinsvegar gerðir út 6 línubátar. Afli á vetíðinni var með fádæmum góður. Útgerðarfélagið Óðinn h/f var að undirbúa kaup á bátum til að gera út frá Eyrarbakka. 

Hraðfrystistöðin var tekin í notkun þann 4. maí og sá vélsmiðjan Héðinn í Rvík um smíði allra véla í hraðfrystistöðina. Átti stöðin að geta unnið 20 smálestir af fiski á dag. Í stjórn félagsins voru kosnir: Magnús Magnússon, útgm. Vigfús Jónsson, trésmíðameistari, Gísli Jónsson, bóndi. í varastjórn: Sigurður Kristjánsson, kaupm. og Jón Helgason, formaður. Endurskoðendur: Sigurður Guðmundsson og Sigurður Óli Olafsson, Selfossi. [Bygging þessa mikla húss gekk framúrskarandi vel. Byrjað var að grafa fyrir því 21. desember 1943, á aðfangadag jóla var byrjað að steypa, og 15. mars 1944 var húsið komið upp að fullu. Um svipað leiti voru Stokkseyringar að koma sér upp frystihúsi.]

 

Verkalýðsmál: Báran sendi frá sér svofellda áskorun "Fundur haldinn í verkamannafélaginu Báran á Eyrarbakka þ. 3. marz 1944, skorar hér með á hið háa Alþingi að samþykkja framkomnar tillögur í öryggismálum sjómanna, sem Alþýðusamband íslands hefur lagt fyrir yfirstandandi Alþingi".

Báran hélt skemtikvöld í Fjölni þann 1. maí og var vel sótt. Aðra skemtun hélt félagið 9. desember í tilefni 41 árs afmælis síns. Formaður Bárunnar var Kristján Guðmundsson.

Félagið átti í deilum við ríkið um vegavinnukjör ásamt heildarsamtökunum. Verkfall, stóð yfir

í 15 daga, og aldrei í sögu heildarsamtaka íslenzkrar alþýðu höfðu verkalýðssamtökin sýnt um allt land samtímis þvílíkan styrk og festu þó svo að verkfallið skilaði þeim flestum litlu.

[Tímakaup í vegavinnu hjá Bárunni var eftir verkfall kr. 2,45 árið 1944, eða sama og Dagsbrún í Rvík, en víða annarstaðar 2,10 kr. Þá kostaði ein lifandi hæna 35 kr. Þá var kveðið á um 8 tíma vinnudag í stað 10. eftirvinnu og helgarálag og veikinda/slysadaga. Verkalýðsfélagið Þór á selfossi var afar ósátt við að fá ekki það sama og Eyrbekkingar og boðuðu til verkfalls á Selfossi, en Vlf. Þór var samningslaust félag fram að þessu en fengu nú sambærilegan samning við Kaupfélagið ofl. áður en til verkfalls kom. Formaður Þórs var Björgvin Þorsteinsson.]

 

Pólitikin: Sósialistaflokkurinn sótti Bakkann heim og höfðu framsögu þeir Brynjólfur Bjarnason menntamálaráðherra og Lúðvík Jósepsson alþingismaður. Á Stokkseyri höfðu framsögu þeir Áki Jakobsson atvinnumálaráðh. og Einar Olgeirsson  alþingismaður og Gunnar Benediktsson rithöfundur.

 

Hátíðarhöld: Einsýnasta, fjölsóttasta og örlagaríkasta atkvæðagreiðsla á íslandi til þessa fór fram á árinu þegar kosið var um lýðveldi landsins. Í tilefni þess var haldin vegleg þjóðhátið á Eyrarbakka þann 18. júni, daginn eftir stofnun lýðveldisins á Þingvöllum. Hátíðin hófst með skrúðgöngu barna í sérstökum hátíðabúningi - hvítum og bláum- og fullorðinna frá barnaskólanum austast í þorpinu. [Fremst gengu fánaberar, stúlka í íslenskum búningi og piltur í búningi með fánalitunum. Næst gengu yngstu börnin. Alt niður í þriggja ára. Öll héldu á fánum og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálægt 50 börn búin. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir.] Var gengið gegnum þorpið til kirkju. Þar fór fram hátíðaguðsþjónusta. - Ræðu flutti sóknarpresturinn Árelíus Níelsson og kirkjukórinn söng þjóðsönginn í lokinn.[Kirkjan var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum.] Eftir guðsþjónustuna hófst skrúðganga barna og fullorðinna úr kirkju og á opið svæði í miðju þorpinu. Í skrúðgöngunni munu hafa tekið þátt yfir 500 manns, eða nær allir þorpsbúar, sem það gátu og heima voru. Á opna svæðinu fór svo fram hátíðahald, sem hafði verið vandlega undirbúið. Ávarp flutti Ólafur Helgason, oddviti hreppsnefndar. Ræður fluttu: Kjartan Ólafsson, form. Ungmennafélagsins og Sigurður Kristjáns kaupm. En kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organleikara. Vegna veðurs gátu hinar sögulegu sýningar ekki orðið þar, og var því farið til samkomuhússins "Fjölni" og framhald dagskrárinnar látið fara þar fram. En þar sem húsið rúmaði ekki nema um helming fólksins, var sá þátturinn, sem þar fór fram, endurtekinn fyrir þá, sem komust ekki inn í fyrra sinnið. [Flutti "fjallkonan" þar ávarp í ljóðum, sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögulegar persónur í búningum síns tíma. Fyrstur Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vídalín o. s. frv. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr sínum eigin ritum. Þótti að þessu hin besta skemtun. Þætti þessum lauk með upplestri sóknarprests úr hinni nýju bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta, en þá söng kirkjukórinn "Ó, , guð vors lands". Þótti þessi sögulegi þáttur setja mjög sérkennilegan og viðeigandi blæ á samkomuna. Margt fleira var til skemtunar, svo sem upplestur úr fjallræðunni hjá prestinum og flutningur Lúðvígs Norðdal læknis á hátíðaljóði, er hann hafði samið í tilefni dagsins, skrautsýning, er nefndist Jónsmessu nóttin. Var það ung stúlka í búningi, áþekkum brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum. Studdist hún við blómskreyttan sprota, en á meðah hún sveif um sviðið í ljósskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt.] Þorpið var allt fánum skreytt, og reistur bogi, klæddur lyngi og öðrum gróðri, i miðju þorpinu yfir götuna. [með yfirskriftinni "ísland lýðveldi" 17. júní 1944] Búðargluggar einnar verslunarinnar (Bræðurnir Kristjáns) voru skreyttir með myndum og annari skreytingu, er sýndu: Þjóðveldið 930, einveldistimabilið eftir 1262, Jón Sigurðsson forseta og gildistöku Lýðveldisins 17. júní 1944 á Þingvöllum. Þorpið allt og þorpsbúar voru að sjálfsögðu í besta hátíðaskapi á þessum fyrsta degi lýðveldisins.

 

Hjónaefni: Valgerður Pálsdóttir frá Sunnuhvoli trúlofaðist Hinrik Karlssyni í Reykjavík. Kristmundur Sigfússon á Eyrarbakka trúlofaðist Ólöfu Ólafsdóttur frá Syðravelli í Gaulverjabæjarhreppi. Ingibjörg Lúðvíksdóttir Norðdal læknis trúlofast Snorra Björnssyni Rvík. Andrés Hannesson frá Litlu-Háeyri trúlofaðist Guðleifu Vigfúsdóttur frá Vestmannaeyjum. Þórdís Guðjónsdóttir á Litlu-Háeyri trúlofast Ögmundi Kristofersyni frá Stóradal V-Eyjafjallasveit. Ása Eiríksdóttir af Eyrarbakka trúlofast Rolf Johansen frá Lillesand í Noregi.  Ólöf Ólafsdóttir og Kristmundur Sigfússon giftu sig. Páll Sigurðsson, Guðmundssonar á Eyrarbakka gekk að eiga Ingigerði N. Þorsteinsdóttir og var þeirra bú í Rvík. Ingibjörg Marelsdóttir, Einarshöfn giftist Friðþjófi Björnssyni Rvík.

 

Afmæli:

89 Guðrún Álfsdóttir Rvík, Jónssonar frá Nýjabæ.

85 Þorbjörg Jónsdóttir frá Strönd Eyrarbakka, bjó í Rvík.

75 Krístín Ísleifsdóttir á Stóra-Hrauni,

70 Kristín Jónsdóttir á Skúmstöðum, dóttir Jóns og Kristbjargar frá Skúmstöðum. Gróa Gestsdóttir, Garðhúsum, Eyrarbakka varð einig sjötug þetta ár.

60 Guðbjörg Árnadóttir Rvík. Flutti ung af Bakkanum. Felix Guðmundsson, flutti héðan ungur til Reykjavíkur. Hannes Magnússon vélstjóri á Venusi RE. [Magnúsar hafnsögumanns og kistusmiðs Ormssonar frá Skúmstöðum og Gróu Jónsdóttur í Gróubæ.]

50  Elín Kolbeinsdóttir, Þorleifssonar á Stóru-Háeyri. Elín bjó á Hæringsstöðum. Ásgeir Sigurðsson frá Gerðiskoti, Sandv.hr. síðar Eyrarbakka. Þorsteinssonar frá Flóagafli. Hann var skipstjóri á Esjunni.

40 Guðlaugur Eggertsson.

 

Bornir til grafar:

Þórey Hinriksdóttir (91) Einkofa. Elín Ólafsdóttir (88) Bjarghúsum. Valgerður Þorleifsdóttir (84) Einkofa. Ágústa Jónsdóttir (80) frá Garðbæ. Jón Sigurðsson (79) hafnsögumaður frá Melshúsum. Hann var fæddur að Naustakoti á Eyrarbakka, sonur Sigurðar Teitssonar hafnsögumanns og Ólafar Jónsdóttur af Óseyrarnesi. Fyrri kona Jóns var Guðrún Magnúsdóttir, bjargvætts frá Sölkutóft og bjuggu þau í Túni. Síðari kona hans var Guðný Gísladóttir. Guðmundur Magnússon (66) að Kaldbak. Hann var meðhjálpari í Eyrarbakkakirkju um skeið. Vestfirðingur að ætt. Steingrímur Jóhannsson Rvík. Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, bjó síðast í Rvík.  Sesselja Sólveig Ásmundsdóttir (57) á Gamlahrauni. Hún lést af slysförum. Maður hennar var Friðrik Sigurðsson.

 

Sandkorn:

U.M.F.E. Stendur fyrir leiksýningum í Fjölni á verkinu "Ævintýri á Gönguför". Þá fékk félagið 1000 kr. styrk til að byggja íþróttavöll.

H.S.K. hyggst byggja íþróttavöll á Þjórsártúni.

Holsteinar til húsbygginga voru nú framleiddir á Eyrarbakka og að Litla-Hrauni.

Jón Ólafsson sjómaður frá Eyrarbakka var einn fjölmargra gesta á Hótel Íslandi, er það brann til kaldra kola.

Eyrbekkingurinn sr. Sigurgeir Sigurðsson var biskup Íslands um þessar mundir. Hann messaði í "The People's Chirrch of Chicago fyrir um 1500 manns" er voru í kirkjunni, en auk þess skiptu útvarpshlustendur þrem til fjórum milljónum, þar sem ræðunni var útvarpað um fjölda útvarpsstöðva. Þá heimsótti hann Los Angeles, en þar bjuggu allmargir íslendingar, sem og Eyrbekkingurinn og æskufélagi Sigurgeirs, Skúli G Bjarnason. Heimsótti Sigurgeir einig kirkjur og söfnuði í íslendingabyggðum í Winnipeg í þessari ameríkuferð.

Unglingaskólinn á Eyrarbakka efndi til skemtunar fyrir eldriborgara. Skólastjóri var sr. Árelíus Níelsson. Hann stýrði einnig barnastúku á Stokkseyri og vann ýmis störf fyrir stúkuna "Eyrarrós" á Eyrarbakka. Meðal ritverka hans var saga barnaskólans á Eyrarbakka. sr. Árelíus var fæddur á Flatey í Breiðarfirði.

Árnesingafélagið í Reykjavík gaf út ritsafnið "Árnesingasaga" en ritstjóri þess var

Guðni Jónsson magister frá Gamlahrauni á Eyrarbakka og ritari Árnsingafélagsins. Prentað var í Víkingsprenti, en eigandi þeirrar prentsmiðju, var annar Eyrbekkingur, Ragnar Jónsson frá Mundakoti. Þriðji Eyrbekkingurinn, Lárus Blöndal Guðmundsson, bóksali sá um dreifingu verksins. Formaður Árnesingafélagsins var Guðjón Jónsson og Þórður Jónsson, frá Stokkseyri var gjaldkeri þess.

Eyrbekkingurinn Guðjón Bjarnason múrari í Rvík. stofnaði "Sólskínsdeildina". Sólskinsdeildin var stofnuð 1938 og einkum í þeim tilgangi að syngja á sjúkrahúsum og voru upphaflega í henni 18 börn. Hafa þau nú sungið samtals 136 sinnum í sjúkrahúsum. En auk þess hefur kórinn sungið alloft opinberlega í Reykjavík og úti á landi sem og í Útvarpið.

 Vestmannakóinn úr Vestmannaeyjum heimsótti Eyrbekkinga og Stokkseyringa.

Á Alþingi var samþykkt að minka læknishérað Eyrarbakka, (Eyrarbakki & Stokkseyri) og búa til nýtt læknishérað á Selfossi. Fram til þessa hafði Eyrarbakkalæknir um 3000 skjólstæðinga  í sínu umdæmi. Héraðslæknir á Eyrarbakka var nú Bragi Ólafson frá Keflavík, en Lúðvik Nordal fluttist að Selfossi.

"Goði" hestur Teits Eyjólfssonar á Eyrarbakka, var í öðru sæti í 300 metra spretti á 24.1 sek á veðreiðum hestamannafélagsins Fáks.

 Eldur kom upp í olíuportinu, en brunaliðið á Eyrarbakka náði fljótt tökum á eldinum með sjódælingu.

Banaslys varð á Eyrarbakka sem bar þannig við þegar Sesselja Ásmundsdóttir á Gamlahrauni var að kveikja upp í eldavél með olíu, að eldsprenging varð og brendist Sesselja svo illa að hún hlaut bana af, en allt heimafólk var þá við heyskap.

Sigurður Heiðdal fv. forstjóri á Litlahrauni hefir gerst rithöfundur.

Þegar Goðafoss var skotinn í kaf af þýskum kafbát þegar skipið var á leið heim frá Ameríku var það einum hásetanum til happs, Lofti Jóhannssyni kyndara frá Eyrarbakka, að vera skilinn eftir í New York, vegna botlangabólgu.[ Árásin á Goðafoss var stærsti og einn átakanlegasti atburðurinn, er Íslendingar urðu fyrir af völdum styrjaldarinnar.]

Vigfús Guðmundsson frá Keldum vinnur að ritun bókarinnar "Saga Eyrarbakka" fyrra bindi, 1000 blaðsíður og 100 myndir munu prýða ritið.

 

Úr grendinni:

 

Stokkseyri 1944 íbúar þorpsins 477:

STOKKSEYRINGAR heima og heiman gengust fyrir Jónsmessumóti að Stokkseyri þann 25. júni. Mótsstaðurinn, var við Knararósvita austan Stokkseyrar, en auk þess sem þar fór fram, fór nokkur hluti mótsins fram í samkomuhúsinu "Gimli". [Ræður fluttu: Sturlaugur Jónsson,stórkaupm., Hróbjartur Bjarnason, stórkaupm., Ásgeir Eiríksson, oddviti Stokkseyringa, Kjartan Ólafsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, Helgi Sæmundsson, blaðam., Þórður Jónsson, skrifstofumaður, Ingimundur Jónsson, kaupm., Guðmundur Jónsson, skósmiður og Grímur Bjarnason, pípulagningameistari. Auk þessa flutti Sigurður Ingimundarson frumort kvæði og Páll Ísólfsson, stjórnaði fjöldasöng. Tveir ungir og áhugasamir Stokkseyringar í Reykjavík, þeir Agnar Hreinsson, form. Skipstjóra- og stýrimannafjél. "Grótta" og Hróbjartur Bjarnason, stórkaupm., höfðu forgöngu um kvikmyndun mótsins. Kvikmyndina tók Jón Sen.]

Bjarni Ingjaldsson sem var ættaður frá Stokkseyri, varð fyrir rafmagnsslysi í Ljósafossstöð og beið bana. Hann var sagður 19 ára að aldri. [16 ára, f.1927]

Vélbáturinn Gísli Johnsen frá Vestmannaeyjum strandaði á fjörum við Knarrarósvita.

Stokkseyringar koma sér upp aðstöðu til íþróttaiðkunar í félagsheimilinu, með sturtum og gufubaði.

Taflfélög Stokkseyrar og Selfoss öttu kappskák. Unnu Stokkseyringar verðlaunin, "Hrókinn" eftir Ríkharð Jónsson.

Héraðsþing H.S.K. var haldið að Stokkseyri.

Á Stokkseyri hafði um haustið verið æfður 20 manna karlakór. Var Theódór Árnason fiðluleikari ráðinn til að hleypa honum af stokkunum.

Bornir voru til grafar á Stokkseyri 20 manns á árinu 1944, ellefu karlar og níu konur.

 

Selfoss 1944, íbúar þorpsins 244:

SELFYSSINGAR vöknuðu upp við vondan draum Kl. 2 um nótt þann 6. september 1944, en þá hvolfdist Ölfusárbrú þegar annar aðalstrengur hennar slitnaði og féllu við það tveir vörubílar í ána, hlaðnir varningi og tómum mjólkurbrúsum. Báðir bílstjórarnir björguðust, en annar vöruflutningarbílinn hafði hinn í togi sökum bilunar. (Guðlaugur Magnússon, frá Selfossi sem var á X 14 í togi og Jón Guðmundsson frá Keldnaholti við Stokkseyri, sem var á X 47 og bjargaðist hann með undraverðum hætti  á varadekkinu)  Við þetta brast vatnsveitulögn Selfossbúa sem hékk neðan í brúnni. Brúin var hálfrar aldar gömul, einbreið hengibrú. [Um haustið 1890 kom allt brúarefnið, eða í öllu falli allt það stærsta og þyngsta til Eyrarbakka, og var það flutt á sleðum að brúarstæðinu. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri flutti brúarefnið frá Reykjavík til Eyrarbakka á vöruskipi sínu, en Tryggvi Gunnarson hafði yfirumsjón með brúarframkvæmdinni. Eiginleg brúarsmíði hófst svo 15. júni 1891 og var brúin vígð 8. september það ár. Eftir hrun brúarinnar 6. september1944 var þegar hafist handa um viðgerð og var brúin aftur opnuð fyrir umferð 30. september 1941. þá var hátíð að Selfossi og flaggað  á hverri stöng, því nú var "Mjólkurvegurinn" greiður.]

  Á Selfossi hafði nú verið reist myndarlegt samkomuhús, sem var allt í senn, kvikmyndahús, leikhús og veitingahús, og auk þess ætlað fyrir aðrar alrnennar skemtanir og fundi. Yfirsmiður var Guðmundur Eiríksson á Eyrarbakka.

Stjórn Selfossbíós hf. var svo skipuð: Egill Thorarensen, Sigtúnum (formaður), Theodór Jónsson, Sveinn Valfells, Sigurður Óli Ólafsson og Grímur Thorarensen. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins var Daníel Bergmann. Á sama tíma er hafin bygging fyrsta barnaskólans á Selfossi (Sandvíkurskóli) ásamt íþróttasal. Þá voru uppi hugmyndir um byggingu spítala í Selfossþorpi, byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá og borun eftir heitu vatni við Laugardæli var þegar hafinn. Við Kaupfélag Árnesinga störfuðu um 100 manns um þessar mundir, en þar stjórnaði héraðshöfðingi Selfyssinga, Egill Thorarensen.

[ Það val alltítt að merkismenn gengu fram fyrir skjöldu í áfengisbindidismálum, en Agli þótti það ekki nógu stórmannlegt að berjast fyrir í sinni heimabyggð, svo hann bætti um betur og hvatti Selfyssinga til að hætta tóbaksnotkun líka. (Stúka var á Selfossi nýstofnuð, og hét Brúin, í höfuðið á stúku, sem þar var nokkrum árum áður. Æðsti templar hennar var Björn Sigurbjörnsson, bankagjaldkeri, en umboðsmaður var Ingólfur Þorsteinsson) .Egill Thorarensen var um þessar mundir umsvifamesti athafnamaðurinn á Suðurlandi. Hann sá nú snilldarleik á taflborði viðskiptanna sem eflt gæti veldi hans  umtalsvert til lengri tíma. Tilkynnti hann ríkisstjórninni er þá sat að K.Á væri albúið að afhenda ríkinu jörðina Laugardæli í Hraungerðishreppi, ásamt hjáleigum, öllum húsum, áhöfn og verkfærum, með því skilyrði að þar yrði látinn rísa upp bændaskóli Suðurlands og að Kaupfélagið yrði skattfrjálst í næstu 15 ár.]

Kaupfélag Árnesinga hafði í hyggju að reisa búvélaverkstæði að Selfossi, það fyrsta á landinu í samrekstri við hið stóra bifreiðaverkstæði sem félagið rak.

  Þorsteinn Guðmundsson var sá fyrsti sem grafinn var í Selfosskirkjugarði og á eftir honum Þorvarður Guðmundsson frá Litlu-Sandvík.

  Selfoss varð sérstakt læknishérað frá og með árinu 1944 og tók Lúðvík Nordal læknir á Eyrarbakka við því.

Forseti Íslands, Sveinn Björnsson heimsótti Selfoss, var hann ferjaður yfir ána, enda var Ölfusárbrú hrunin.[Vatnavextir hömluðu á tíðum ferjuflutningum yfir ána og reyndist þá ómögulegt að koma mjólkinni til Reykjavíkur.]

 

Hveragerði 1944 íbúar þorpsins 118:

HVERGERÐINGAR virkja nýjan hver sem upp kom við Reykjakot. 30 m langt 3" rör var rekið niður í sjálfn hverinn með fallhamri, og síðan var borað innan úr pípunni, og að þvi búnu kom gos, jafnvel enn kraftmeira en nokkuru sinni fyrr, bæði gufa og vatn, sem lagði a.m.k,- upp í 60 m. hæð.  Með þessari holu og fleirum var ætlunin að hita upp gróðurhús og kanna möguleika á rafmagnsframleiðslu með gufuafli. [Í sambandi við tilraunir þær, sem gerðar voru til þess að stöðva gosið, braust skyndilega fram nýr goshver í gróðurhúsi einu, er stóð þar í nánd. Eyðilagðist húsið með öllu á skammri stundu og ónýttist nærri alt, er þar var inni.] (Einhver hin fyrsta gufuborun, ef ekki sú fyrsta hér á landi, var framkvæmd í Fagrahvammi í Hveragerði árið 1940, en fleiri gufuaflsholur voru boraðar 1942. Því stýrði Hvergerðingurinn Sveinn Steindórsson, fyrir rannsóknarráð rikisins. Hafði Sveinn þarna lokið við að bora holur með nýrri aðferð, er hann mun hafa átt frumkvæðið að. Örlög Sveins voru þau að brenna inni þegar Hótel Ísland í Reykjavík brann til kaldra kola veturinn 1944.)

Fyrsti skólabíll landsmanna ekur daglega um sveitir Ölfusins og safnar saman börnum til barnaskólanns í Hveragerði. Ullarþvottastöð og kvennaskóli voru einig í Hveragerði.

 

Tíðin: Talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka í vestan og norðvestan stórviðri miðsumars.

 

 

Heimild: Alþýðubl. Dagsbrún, Eining, Frjáls Verslun, Heimskringla, Lögberg, Morgunbl. Samvinnan, Tíminn, Tímarit Verkfræðifélagsins. Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vikan, Vísir.

20.01.2015 01:29

Bergsteinn kraftaskáld

Bergsteinn blindi Þorvaldsson var kallaður kraftaskáld, og heldur en ekki þótti honum góður sopinn. Eitt sinn var það, að hann kom í búðina á Eyrarbakka og bað kaupmanninn að gefa sér í staupinu. Kaupmaður tók því fjarri, því að hann væri alveg brennivínslaus. Kvað hann andskotann mega eiga þann dropann, sem hann ætti eftir af brennivíni. Ekki lagði Bergsteinn mikinn trúnað á það og kvað vísu þessa við búðarborðið:

Eg krefst þess af þér,

sem kaupmaðurinn gaf þér,

þinn kölski og fjandi

í ámuna farðu óstjórnandi

og af henni sviptu hverju bandi.

Brá þá svo við, að braka tók heldur óþyrmilega í brennivínstunnu kaupmanns, svo að við var búið að bresta mundu af henni öll bönd. Þorði kaupmaður þá ekki annað en gefa Bergsteini neðan í því og varð feginn að sleppa, áður en verra yrði úr.

Sagt er, að þau yrðu æfilok flökkuskáldsins Bergsteins blinda, að hann kvæði sig sjálfur drukkinn í hel eftir boði annarra, og hafi hann þá verið æfa gamall. En með vissu vita menn það um endalykt Bergsteins, að hann dó á Eyrarbakka út úr drykkjuskap 17. júlí 1635, og þótti þá svo ískyggilegt um dauða hans, að hann fékk ekki kirkjuleg, heldur var hann grafinn utan kirkjugarðs á Stokkseyri. Getur Gísli biskup Oddsson þess í bréfabók sinni, að ekkja Bergsteins hafi "klagað sárlega" fyrir sér, að maður sinn lægi utan garðs, og hafi "séra Oddur Stephánsson helst gengist fyrir því, að hann skyldi ekki innan kirkjugarðs grafinn vera".

(Eftir Jóni Þorkelssyni)

  • 1
Today's page views: 782
Today's unique visitors: 64
Yesterday's page views: 2159
Yesterday's unique visitors: 262
Total page views: 263231
Total unique visitors: 33953
Updated numbers: 22.11.2024 09:16:26