Blog records: 2015 N/A Blog|Month_3
15.03.2015 12:54
Stormar og brim
08.03.2015 22:53
Sú var tíðin 1946
Lokið var við byggingu "Bátabryggjunnar" á Eyrarbakka, en vinna við hana
hófst 1945 á hleininum við "Festarsteininn".
Hana mátti nota við lágsjávarstöðu, en eldri bryggjurnar var aðeins unt
að nota á flóði. Þrír bátar voru þá gerðir út af Bakkanum. Staurar fyrir
háspennulínu frá Sogsvirkjun og niður á strönd voru reistir um sumarið og
störfuðu 14 manns við að grafa holur fyrir þá. Staurarnir komu frá Kanada.
Borað var eftir köldu vatni á Bakkanum, en borinn sem til þess var notaður var
í eigu Rafmagnseftirlits Ríkisins. Margir sjómenn og verkamenn á Eyrarbakka
störfuðu við hafnargerð í Þorlákshöfn svo tæpt var á að næðist að manna
Bakkabátana. Byggingu Háeyrarholla var lokið á þessu ári, en Skúmstaðaholli var
byggður 1929 og Hraunsholli 1933, en þessi holræsi þvert í gegn um þorpið
losuðu vatn af mýrinni, og hin tvö síðarnefndu einnig skólp.
Pólitík: Hreppsnefndarkosningar fóru fram 27. janúar 1946 og voru 339 á kjörskrá. Vigfús Jónsson forstjóri HE leiddi A-listann. Sósialistar buðu fram undir D- listinn og Sjálfstæðismenn undir B- lista. Kjartan Ólafsson forstjóri frá Sandprýði [Bróðir Maríusar ljóðskálds] leiddi framsóknarmenn með C-listann. Fóru leikar þannig að Alþýðuflokkurinn (A) fékk hreinann meirihluta, eða 172 atkv. og 4 menn. Sjálfstæðisflokkur (B) fékk 82 atkv. og 2 menn kosna. C listi framsóknar fékk 38 atkv. og 1 mann. D listi Sósialista fékk 28 atkv, en engann mann. Meirihluti hreppsnefndar var því þannig skipuð: Vigfús Jónsson, Bjarni Eggertsson, Guðmundur J Guðmundsson og Ólafur E Bjarnason. Í tilefni úrslitanna blésu Kratarnir til stórdansleiks í Fjölni, sem var vel sóttur þrátt fyrir leiðinda veður, en óveður gekk þá yfir sunnanvert landið. Útifund hélt svo Alþ.fl. Reykjavíkur á Eyrarbakka miðsumars. Tvær ungur stúlkur sungu og léku undir á gítar. Ársæll Pálsson leikari söng gamanvisur, Pétur Pétursson útvarpsþulur las upp ættjarðarkvæði og Árnesingurinn Helgi Sæmundsson, flutti ræður.
Hátíðir: 17. júní hátíðahöldin hófust kl. 8 árdegis, en þá voru flögg dregin að húni á Eyrarbakka svo að þorpið var eitt haf af flöggum. Því næst var guðsþjónustu í kirkjunni þar sem Árelíus Níelsson messaði, en síðan var safnast saman við barnaskólann og gengjð fylktu liði [Fremst gengu skátar, þá börn sem öll báru litil flögg, þar næst unglingar og síðast fullorðna fólkið.] undir fánum á svæðið norðan við kirkjuna og hófst þar útisamkoma. Vigfús Jónsson oddviti flutti ávarp, en því næst sýndu 14 stúlkur klæddar fornbúningum, vikivaka undir stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur leikfimikennara. [Sjö þeirra voru klæddar upphutsbúningi, en hinar sjö klæddar sem karlmenn í skrautlegum skikkjum. Búningarnir voru gerðir af kenslukonunni sjálfri. Þótti hópurinn glæsilegur, þar sem hann dansaði á grænni flötinni, okkar gömlu vinsælu þjóðdansa.] Þá flutti Sigurður Kristjáns kaupm. ræðu, og loks var fjöldasöngur. Um kvöldið hófst skemmtun í samkomuhúsinu. Þá sýndi leikfélagið leikþátt, [Þiðrandaþáttur e. Guðmund Daníelsson] og söguleg sýning "Aldirnar" einig eftir Guðmund Daníelsson rithöfund. [Sýningin hófst á því, að Fjallkonan birtist í hásæti, klædd bláum kyrtli, bjart hárið liðast niður um mittið. Um ennið bar hún gylta spöng.] Að lokum fór fram fánahylling. Fyrr um sumarið var haldinn stórdansleikur í Fjölni og um veturinn voru haldnir þar tveir dansleikir í boði UMFE, en þar spiluðu "Ragneiðastaðabræður".
Gamla konan: Þegar
Vigfús Jónsson hafði lokið ræðu sinni á 17. júní 1946 kom kona
gangandi eftir götunni, sem enginn átti von á. Hún var klædd að fyrri tíma sið:
í peysufötum með dúksvuntu, í slipsisstað hafði hún bekkjóttan silkiklút, sem
féll upp að hálsinum. Húfan var djúp og gekk niður á ennið með stuttum skúf,
sem kom niður framarlega á vanganum. Á fótum hafði hún íslenska skó og sokka. Á
herðunum hafði hún sjal af gamalli gerð, brotið á horn. - Svona kona sást ekki
á hverjum degi á götunni og hlaut að vera komin í ákveðnum tilgangi. Hún gekk
hiklaust inn á háitíðasvæðið og upp í ræðustólinn, leit fagnandi í kringum sig,
meðan hún tók sjalið rólega af herðunum. Hún ávarpaði fólkið á þessa
leið: "Hér sé Guð og gott fólk! - Nú er langt síðan jeg hef séð blessað litla þorpið
mitt. En í dag koma allir, sem geta. Hvernig á jeg, gömul kona, að eiga orð
yfir þá hamingju, sem þessi dagur færir mér? - Ykkar heiður, ykkar hamingja er
hamingja mín. - En hvað alt er orðið breytt, og þó ekki, því söm eru fjöllin og
söm er fegurðin. Hafið okkar blessað, sem gaf og tók, græn tún og engi. Ætli
jeg kannist ekki við það alt. En allir bæirnir mínir eru horfnir, og í þeirra
stað komin falleg hús. Og hérna stendur fögur kirkja, hana hef jeg ekki fyr
séð. Heilagt guðshúsið, þar sem þið lofið hann og vegsamið. - Einhver er nú
munurinn frá því, sem var, þegar við gengum klukkutíma leið til kirkju í
uppbrotnum sparipilsum, með kirkjuskóna undir hendinni. Jæja, blessuð börnin
mín, þið þekkið mig víst ekki, það er heldur ekki von, jeg kem úr djúpi
þagnarinnar, nafn mitt hefur ekki verið skráð á spjöld sögunnar. En hér, um
þetta pláss, lágu sporin mín frá vöggunni. - Jeg er konan í litla bænum með
fjögrarúðu-glugganum, hann var fallegur á vorin, þegar þekjan var grasi gróin
og sólin skein á rúðurnar, og börnin mín komu brosandi inn með fyrstu
sóleyjarnar, sem þau fundu útsprungnar á bæjarveggnum. Hann var líka fallegur
inni, þegar jeg hafði sópað hann og prýtt eftir bestu föngum og stráð hvítum sandinum
úr flæðarmálinu hérna í bæjardyrnar og alla leið út á hlað. - En svo kom
veturinn, og þá var glugginn
Saga úr kvennablaðinu Hlín 1947.
Verkalýðsmál: Kristján Guðmundsson var endurkjörinn formaður Bárunnar.
Aðrir í stjórn voru: Jónatan Jónsson varaformaður, Jón Guðjónsson, Þórarinn
Guðmundsson og Andrés Jónsson.
Hjónaefni: Guðrún Bjarnfinnsdóttir og Jón Valgeir Ólafsson frá Búðarstíg.
Guðmundur Á Sigfússon húsasmíðanemi og Lilla Guðvarðsdóttir frá Reykjavík.
Guðlaugur Þórarinsson og Dagbjört Sigurjónsdóttir frá Hafnafirði. Ingibjörg
Jóhannsdóttir og þórarinn Kristinsson, bæði Eyrbekkingar. Ingibjörg Heiðdal
(Sigurðardóttir) og Baldur Sigurðsson. (Guðmundssonar Eyrarbakka) Þeirra
heimili var í Rvík. Guðrún J Sæmundsdóttir frá Einarshúsi og Guðmundur
Finnbogason, matsveinn frá Eskifirði. Vilborg Sæmundsdóttir frá Einarshúsi og
Sigurður Guðmundsson rafvirki á Eyrarbakka.
Afmæli:
90 Guðbjörg Gísladóttir í Steinskoti.
85 Bjarghildur Magnúsdóttir, bjó þá í Rvík. Torfi Sigurðsson skipasmiður Norðurbæ.[Hann bar út Alþýðubl. í mörg ár] Ingibjörg Gunnarsdóttir í Gunnarshúsi (Gistihúsinu)
80 Hildur Jónsdóttir í Garðbæ. [Hún var fædd að Lúnarsholti á Landi, dóttir Jóns Eiríkssonar og Ásdísar Þorvaldsdóttur frá Stóra-Klofa. Hún var tvíburi, en bróðir hennar, Þorgils, dó 33 ára. Föður sinn missti Hildur er hún var 4 mánaða gömul. - Hann drukkhaði frá átta börnum í ómegð. Hún ólst upp hjá Jóni á Bergþórshvoli í Landayjum.]
Gunnar Halldórsson Strönd.
70 Guðmundur Ebenezerson skósmiður. Friðrik Sigurðsson sjómaður Gamla-Hrauni, Sigríður Guðmundsdóttir Háeyrarvöllum, Vigdís Eiríksdóttir Neistakoti.
60 Jón Jónsson bóndi í Steinskoti. Guðmundur Jónsson bóndi Steinskoti, Elín Eyvindsdóttir Eyvakoti, Elín Jóndsdóttir Kirkjuhúsi, Jón Helgason Bergi, Þorbergur Guðmundsson Sandpríði.
50 Ágúst (Gústi Greiskinn) Jónsson Litla-Hrauni, Andrés Jónsson Smiðshúsum, Anna Sveinsdóttir Háeyri, Emerentína Guðlaug Eiríksdóttir Blómsturvöllum, Guðbjörg Jóhannsdóttir Hofi, Guðbjörg Elín Þórðardóttir Sandvík, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir frá Ásabergi. Guðlaugur Pálsson kaupmaður. Guðrún Jóhannsdóttir Frambæ, Ingibjörg Ólafía Ólafsdóttir Stíghúsi, Jóhanna Benediktsdóttir Litlu-Háeyri, Jóhanna Bernharðsdóttir Litlu-Háeyri, Sigurður Kristjánsson Búðarstíg, Markús Loftson verkamaður. [Hann hafði þá lengi átt heima í Rvík.]
Gullbrúðkaup áttu hjónin Valgerður Grímsdóttir frá Óseyrarnesi og Gísli skósmiður Gíslason frá Eyrarbakka. Þau áttu heima í Rvík.
Bornir til grafar:
Guðbjörg Gísladóttir (90) frá Steinskoti. [Guðbjörg var gift Jóni í Steinskoti Jónssyni.] Guðbjörg
Guðmundsdóttir (84) frá Skúmstöðum XI, þá á elliheimilinu Grund í Rvík. [ Hún var systir Ingibjörgu konu Jóns í
Norðurkoti og Ólafs söðlasmiðs. Guðbjörg var gift Andrési Guðmundssyni og voru
börn þeirra: Hannes og Guðmundur á Eb. Vilhjálmur í Rvík, Andrea í Mosfellssv.
og Sigurlína er fór til
Sandkorn 1946:
Guðni Jónsson magister var skipaður skólastjóri við Gagnfræðaskóla Reykjavíkur.
[Guðni var fæddur á Gamla Hrauni á Eyrarbakka árið 1901 og voru
foreldrar hans þau Jón Guðmundsson og Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir frá Miðhúsum
í Sandvíkurhreppi.]
Söngkonan Elsa Sigfúss hélt söngskemmtun í kirkjunni á Eyrarbakka, með aðstoð dr. Páls Ísólfssonar tónskálds. Þá hélt Templarakórinn söngskemtun í Fjölni og var það fyrsta opinbera framkoma kórsins.
Guðmundur Ásbjörnsson var lengi bæjarfulltrúi Reykjavíkur og forseti bæjarstjórnar, en hann flutti af Bakkanum um aldamótin 1900.
Jón Pálsson frá Syðra-Seli var borinn til grafar. Hann var um skeið kennari á Eyrarbakka.
Rit hans "Austantórur II" var gefið út á árinu. Árið 1889 stofnaði hann söngfélag á Eyrarbakka. Þar var hann þá organleikari við kirkjuna. Árið 1890 stofnaði hann Sjómannaskóla Árnessýslu og kenndi þar sjálfur. Jón flutti til Reykjavíkur 1902. Jón var bróðir Ísólfs Pálssonar tónskálds.
Byggingafélag verkamanna stofnað á Eyrarbakka.
Skólaskemtun héldu börn frá Eyrarbakka í hinum nýja barnaskóla á Selfossi, en þar stóð yfir kennaraþing Árnesinga og Rangárvellinga.
Leikfélag Eyrarbakka sýndi gamanleikinn "Kappar og Vopn" eftir Bernard Shaw.
"Saga Eyrarbakka II" eftir Vigfús Guðmundsson kemur út.
Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli, skrifar blaðagreinar um sjósókn og siglingar.
Eyrarbakkahreppur fékk úthlutað jeppa fyrir milligöngu Búnaðarf. Íslands. Jeppann fékk Litla-Hraun til afnota, en forstöðumaður fangelsins var þá Teitur Eyjólfsson.
Eyrarbakkahreppur fékk 500.000 kr. lán vegna fyrirhugaðrar raforkuveitu frá Sogstöðinni. Það sama fékk Stokkseyrarhreppur.
Sjálfstæðiskonur úr Reykjavík sóttu Bakkann heim.
Sigurjón Jónsson skipstjóri á Eyrarbakka sigldi nýjum bát Akurnesinga vb. Fram, heim frá Svíþjóð.
Kvenfélag Eb. gaf andvirði eins herbergis til kvennaheimilisins Hallveigarastaða í Rvík.
Það var mikil vá fyrir dyrum þann 29. oktober, er breskt tundurdufl [seguldufl] rak inn á fjöruna framan við
þorpið. Árni Sigurjónsson, kunnáttumaður frá Vík í Mýrdal gerði duflið óvirkt á
fyrstu fjöru.
Úr grendinni:
Stokkseyri: 7 bátar gerðir þaðan út. Tundurdufl rak á sker við Stokkseyri, en það gerði óvirkt Haraldur Guðjónsson frá Reykjavík. Undirbúnigur að skólabyggingu á Stokkseyri.
Selfoss: Við Laugardæli hafði Rafmagnseftirlitið haft með höndum jarðboranir. Var þar borað eftir heitu vatni fyrir fyrirhugaða hitaveitu Selfossbúa. Var þar boruð ein hola 75 metra djúp og fékkst þar ca. 2,4 smálestir af 76 stiga hieitu vatni á klukkutíma. [1 sekúndulítri af 90 stiga heitu vatni, hafði jafnmikið hitamagn og 25.000 kr. virði af kolum, á árs grundvelli] Kirkjukór var stofnaður að Selfosskirkju, en formaður kórsins var Ingólfur Þorsteinsson í Merkjalandi. Fyrir var á Selfossi karlakórinn "Söngbræður".
Hveragerði: Barnaskóli byggður.
Heimildir: Alþ.bl.1946, Búnaðarrit 1947, Hlín 1947 (Erindi: Herdis Jakobsdóttir.) Morgunbl.
1946 Menntamál, 1946 Nýtt Kvennablað, 1946 Tíminn, 1946 Vísir, 1946
- 1