Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


ALMANAKIÐ

S E P T E M B E R M Á N I N N


          
 

 
 Fullt tungl  2
SEPT
2020  Kornmáni
 Síðara kvartil 10 SEPT 2020
 Nýtt tungl
 Fyrsta kvartil
17
23
SEPT
SEPT
2020
2020  


Flokkur: Veðurklúbbur

27.11.2010 14:07

Hornriði

Strekkingsvindur með dembuskúrum, hér við sjávarströndina, voru í eina tíð nefnd "hornriði". Þá  var talað um hornriðaöldu, hornriðabrim og hornriðasjó þessu samfara. Í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan strekkings veðri á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni.

Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriðasjór eða harðindabrim. í þannig háttaðri veðráttu er oft lygnt nærri landinu (lognsæbrigði) og aðeins andvari af norðri, og eykst þá brimið ávalt því meir sem meira blæs á móti úr gagnstæðri átt eða í aflandsvindi. Getur sá andhyglisháttur, milli hornriðans og há-áttarinnar, staðið svo dögum skiptir, uns hornriðinn verður að láta i minni pokann, og útslétta er á komin, svo að hvergi örlar við stein, engin agga sést við landið og öræfasund öll eru fær, jafnvel mús á mykjuskán, en sjaldan stendur sú ládeyða lengi, þvi undirdráttarveðrið (sem oftast er aðeins svikahlér) með hornriðann í fararbroddi, er þá oft fyrr en varir í aðsígi.

Bjarni Björnsson bókbindari (1808-1890) í Götu á Stokkseyri var fjölfróður maður og minnugur. Sagði hann að frá ómunatið hefði sú saga i munnmælum verið viðhöfð hér um nafnið á hornriðanum, að áður fyrr þá er menn úr Austursveitum sóttu nauðsynjar sínar út á Bakka, hafi þeir riðið á meljum eða marhálmsdýnum og við hornistöð, en það tiðkaðist þó ekki á Bakkanum.  Fyrir þvi hafi Bakkamenn tekið upp á þvi, að kalla þá "hornriða", og síðan, í óvirðingarskyni við þá, látið þessa hvimleiðu veðráttu heita í höfuðið á þeim. Þeir skírðu hana því hornriða og er hún talin einhver versta og langvinnasta veðráttan í Flóanum og við sjávarsíðuna á Suðurlandsundirlendinu. Þó má vel vera að um eftirá skýringu sé að ræða og nafnið sé einfaldlega dregið af riðandi öldum sem brotna í hornboga.

Heimild: Jón Pálsson í Vöku 1.tbl. 1927

23.11.2010 23:00

Hrímfagurt eftir frostþokunaí gærkvöld og nótt gerði töluverða hrímþoku, svo að um tíma sást vart á milli húsa. Í morgun voru tré og runnar og hvaðeina klætt hrími sem færði svolítin jólablæ yfir þorpið, þar til sólin náði að bræða þetta listaverk náttúrunnar að mestu.

17.11.2010 01:29

Veðurspár á skútuöld

Oft getur brimað með litlum fyrirvaraÁður en hin vísindalega veðurfræði kom til sögunnar urðu sjómenn og aðrir þeir sem áttu undirhögg að sækja hvað veðrið snertir með atvinnu sína, að treysta mest á sjálfa sig þegar dæma þurfti um veður. Útkoman varð sú að einstöku menn urðu það sem kallað var "sérstaklega veðurglöggir". Þeir höfðu betur vit á veðrinu en allur almenningur og spár þeirra rættust í mörgum tilfellum, enda þótt  þessir veðurglöggu menn hefðu ekki numið veðurfræði í skólum, en efalaust hefur  þeirra veðurvit byggst á margra ára nákvæmri eftirtekt á ýmsum veðurfarslegum einkennum á himninum svo sem skýjafars, lögun þeirra og litar, sem hefur svo sjálfsagt takmarkast af sjóndeildarhring þeirra eigin byggðarlags. Gott dæmi um veðurglögga menn er eftirfarandi saga:

Maður nokkur stundaði sjóróðra á Eyrarbakka og margir töldu hann veðurglöggan í meira lagi, en aðrir töldu veðurathuganir hans bera vott um sjóhræðslu. Eitt sinn í blíðskaparverðri og ládeyðu, þegar skip hans var að leggja frá landi, í fiskiróður, segir hann við þóftulagsmann sinn: "Hann er ljótur núna, mér líst ekki á hann og ráð væri okkur að snúa við aftur og fara hvergi, en láð yrði okkur það", bætti hann við. Þetta fór svo ekki fleirri á milli, þar eð hann þóttist vita að ekkert yrði tekið tillit til orða hans, vegna þess hve veðrið var gott og hefur ef til vill átt von á, að sér yrði brigslað um sjóhræðslu. Lóðin var síðan lögð í sjóinn eins og ætlunin var. En þegar nýfarið var að draga hana, fór að brima og veður að spillast. Jókst brimið svo ört að skera varð á lóðina hálfdregna og skilja hana eftir í sjónum, til þess að geta náð landi áður en öll brimsund yrðu alveg ófær.

Draumum var mikið haldið á lofti í veiðistöðvunum við ströndina og var oftast reynt að giska á þýðingu þeirra, með væntanlegt sjóveður og aflabrögð fyrir augum. Gekk það að vísu skrykkjótt hjá fjöldanum, en hver veit nema hinir veðurglöggu menn hafi verið öðrum mönnum slyngari í því að draga réttar ályktanir.

Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 5.árg.1943 -Grímur Þorkellsson

05.11.2010 00:50

Fárviðrið 1938

Gömul brimmyndAðfararnótt 5. mars 1938 gerði mikið aftakaveður um allt land, en stóð þó aðeins yfir í tvo tíma. Veðurhæðin náði víðast 12 vindstigum sem eru um 33 m/s og urðu skemdir víða um suðvestanvert landið. Á Eyrarbakka ætlaði allt af göflunum að ganga og mundu menn ekki annað eins veður enda urðu þá miklar skemdir á húsum. Þakið fauk af barnaskólanum og kastaðist um langan veg. Veiðafærahjallur Jóns Helgasonar fauk um og reykháfar hrundu niður af húsum. Menn töldu það heppni að fjara var þegar mesta veðrið gekk yfir annars hefði ver farið.

23.10.2010 00:53

Gormánuður byrjar

Tunglið, myndin var tekin í kvöld
Í dag er fullt tungl og fyrsti vetrardagur. Þá byrjar Gormánuður samkvæmt norræna tímatalinu en nafnið tengist sláturtíð. Þá leggst gróður í vetrardvalann og tími frosta og snjóa gengur í garð á norðurhveli. Á morgun Sunnudag má búast við að fyrstu él vetrarins falli á Bakkann, en um leið og við tökum veturinn í fang, þá þökkum við goðunum fyrir afbragðs gott sumar.

12.10.2010 23:50

Blómstrandi Oktober

Garðasól
Þessi Garðasól kærir sig kollótta um almanakið.

þetta blóm reynir að ná upp til síðustu sólargeisla dagsins.

Snjóberjaplantan gefur hinum ekkert eftir og býst ekki við snjóum í bráð.

03.10.2010 00:50

Veðrið í September

Mánuðurinn var óvenju hlýr einkum framanaf og mældist mest 16,3°C þann 3. september og 16,8° þann 4. á hitamæli Brims. Þegar á leið mánuðinn lagðist í rigningar eins og hann á stundum vanda til þegar haustlægðirnar bera að og tók þá einnig að brima á Bakkanum, en mánaðarúrkoman var um 144 mm sem telst nú ekki til stórtíðinda. Þá var vindasamt á köflum, þann 14. gerði storm og suðaustan hvassviðri gekk á undir lokin. Loftvog stóð lágt um miðjan mánuð og í lok mánaðarins. Öskumistur var yfir í byrjun mánaðarins og sást þá lítt til fjalla. Þetta sumar sem nú er liðið telst það hlýjasta síðan mælingar hófust og er vart hægt að óska sér það betra að frátöldu öskumistrinu

23.09.2010 22:34

Haust


þegar síðdegis skúrirnar liðu hjá og sólin tók að skína að nýju, myndaði hún þennan fallega regnboga eins og geislabaug yfir sjóminjasafninu. Þrátt fyrir glaða sól og þá einkum í gær hefur hitinn aðeins náð 11 gráðum, enda er nú komið haust samkvæmt almanakinu því í dag er haustjafndægur. Hér er hægt að fræðast nánar um árstíðirnar.

Utan við brimgarðinn geystist björgunar hraðbáturinn í átt til lands. Nú er stórstreymt á fullu haust tunglinu og dálítið tekið að brima að nýju eftir nokkurt hlé, einkum vestan til. Búast má við að brimið vari fram yfir helgi.

15.09.2010 23:52

Horft til himinns

Á stjörnubjörtum himni eins og nú þarf maður ekki lengi að góna upp í himininn til þess að verða var við gervihnetti sem þeysa um himinhvolfið eins og fljúgandi furðuhlutir eða geimskip frá öðrum hnöttum. Gervihnettir á braut um jörðina skipta hundruðum og hafa mismunandi hlutverki að gegna. Sum fylgja jarðarhraða og eru því ávalt á sama stað, en önnur þeysast eftir sporbaug sínum rangsælis eða réttsælis í hring um jörðina. Sum eru hönnuð til veðurathuguna og eru þá kölluð veðurtungl. Eitt slíkt er t.d. veðurtunglið EUMETSAT.

Fyrsta gervitunglið sem komst á sporbaug var hinn Sovéski "Spúttnik" sem Rússar skutu á loft 4.oktober 1957. Fyrir tíma veðurtunglanna var notast við veðurskip til að vara við vondu veðri. Á norður Atlantshafi voru starfrækt þrjú veðurskip og eitt þekktast þeirra var norska veðurskipið Mike (Metró í íslenskum veðurfregnum) sem gert var út milli Íslands og Noregs frá árinu 1948 og allt til dagsins í dag. Veðurskipin voru ekki síður mikilvæg til leitar og björgunarstarfa á hafi úti en til veðurathuguna og flugleiðsagnar auk ýmissa rannsóknarstarfa á hafinu. Gervitunglin hafa nú tekið við þessu hlutverki að stæstum hluta og veita jafnvel mikilvæga aðstoð við björgunarstörf á hafinu.

Stjörnuhröp er ekki óalgengt að sjá á heiðskýrum næturhimni og falla margir loftsteinar í hafið eða í óbyggðum og valda því engum skaða, en flestir brenna þó upp til agna áður en þeir ná yfirborði jarðar. Loftsteinar voru þó mikil verðmæti fyrir eskimóa í upphafi landnáms þeirra á Grænlandi. Grænlandsjökull er stór og hefur tekið við mörgum slíkum steinum í gegnum árþúsundin og borið þá með skriðjöklum sínum til strandar, en eskimóarnir klufu þessa steina og notuðu þá í hnífsblöð allar götur þar til vestrænir menn hófu að versla við þá skinn og seldu þeim stálhnífa í staðinn.

01.09.2010 22:06

Veðrið í ágúst

Netjuský-altocumulus undulatus
Hlýjustu dagarnir í ágúst voru þann 4.og 8. en þessa daga komst hitinn mest i 19,9°C, Þann 10 komst hitinn í 20°C. þann 18 í 19,8°C og þann 19. í 20,5°C.


Mesti vindur var af NNV 10,9 m/s eða 6 gömul vindstig þann 22. ágúst en annars var mánuðurinn hlýr og hægviðrasamur. Úrkoma í mánuðinum mældist 97.5 mm
Hiti í ágústLoftþrýstingur vindur Uppsöfnuð úrkomaBrimstöðin

22.08.2010 16:10

Alda hafsins

Hvítfext og rjúkandi brimaldan á BakkanumSjómenn og þeir sem búa við sjóinn þekkja vel ölduna. Vegalengd frá þeim stað sem alda verður til og þar til hún skellur á ströndinni, getur skipt þúsundum kílómetra þar sem strönd liggur að úthafi, eins og suðurströnd Íslands. Öldur sem verða til fyrir tilstyrk vindsins sem þrýstir á yfirborð sjávar, nefnast vindöldur. Flóðöldur eða "Tsunami" verða af völdum jarðskjálfta eða eldsumbrota neðansjávar. Slíkar öldur geta náð ótrúlegum hraða (700-800 km/klst) og ferðast þúsundir kílómetra. Hæð þeirra er aðeins nokkur fet, en þegar kemur að landi rísa þær allt upp í 9 metra hæð. Aðrar öldur verða til vegna skriðufalla eða jökulhlaupa í sjó fram sem mynda gríðar þrýsting á yfirborð vatns eða sjávar.

Vindaldan hækkar að vissu marki í samræmi við veðurhæðina sem myndaði hana, en hún brotnar og faldar hvítu þegar hún hefur náð  1/7 af lengd sinni. Þegar aldan kemst inn á grynningar, rís hún þar til að hún brotnar með brimi og brambolti eins og vel þekkt er t.d. á Eyrarbakka.  Þegar veður lægir eftir storm, getur öldugangur vaxið og myndað undiröldu og eru sjómenn ævinlega í nöp við hana. Öldudufl eru viða með ströndum landsins og mæla tíðni milli öldufalda í sekúntum og hæð í metrum. Meðalhæð öldu í fárviðri er um 20-22 metrar. Það er stundum sagt að sjönda hver alda sé hærri en næstu sex á undan hvað svo sem til er í því, þá geta öldur verið misháar þó þær komi að landi hver á eftir annari. Hraði vindöldunnar getur verið mismunandi  og ræður vindhraði þar mestu en undiraldan þokast áfram á um það bil15 mílna hraða. Sjaldgæft er að vindöldur nái 30 metra hæð úti á rúmsjó, en 6. febrúar árið 1933 var mæld 33 m há alda á bandaríska herskipinu "Ramapo" sem statt var á kyrrahafi í illviðri þar sem vindhraðinn mældist 68 hnútar.

Líklega er ekki auðhlaupið að þvi að mæla afl brimöldunnar í brimgarðinum á Eyrarbakka, en ekki er ólíklegt að aflið geti verið 6000 kg á fersentimetir eins og við svipaðar aðstæður erlendis. Tignarlegust er brimaldan þegar hún æðir hvítfext og rjúkandi á móti hvössum vindinum. Yfir vetrartíman getur brimið varað dögum saman í öllum sínum myndugleik, en á sumrin er brim fátíðara, enda veður stilltara á hafinu umhverfis landið.


Siglingastofnun sér um rekstur öldudufla við Íslandsstrendur og gerð ölduspáa sem hægt er að nálgast á vefnum http://vs.sigling.is/ . Hér má einnig nálgast ölduspá  frá surf-forecast.com
Heimild m.a.:Bók Peters Freuchens of the seven seas.

22.08.2010 12:59

Norðvestan Kaldi

Það hefur verið haustlegt í lofti síðasta sólarhringinn með NV kalda, eða 5 gömul vindstig og öðru hvoru hefur rokið upp í stinningskalda. Eins stafs hitatölur sjást nú um allt land um miðjan daginn og sumarið virðist vera að renna sitt skeið. Það var kaldranalegt fyrir norðan í dag eins og sjá má hér.
Árið 1805 útbjó Francis Beaufort  vindgreinitöflu um veðurhæð á sjó. Hann var þá kortagerðamaður breska flotans. Vindstiga taflan var fljótlega tekinn í notkun um allann heim:

Beufort skali

Vindlýsing

Hraði m/s

Vindstig

Logn

 0,2

0

Andvari

 0,3  -  1,5

1

Kul

 1,6  -  3,3

2

Gola

 3,4  -  5,4

3

Stinningsgola

 5,5  -  7,9

4

Kaldi

 8,0  - 10,7

5

Stinningskaldi

10,8 - 13,8

6

Allhvasst

13,9 - 17,1

7

Hvassviðri

17,2 - 20,7

8

Stormur

20,8 - 24,4

9

Rok

24,5 - 28,4

10

Ofsaveður

28,5 - 32,6

11

Fárviðri

32,7 - 36,9

12

14.05.2010 23:42

Öskufall

Þegar menn risu úr rekkju í morgunsárið brá mörgum í brún hér á Bakkanum, því mikið öskuský lá yfir og ringdi úr því drullug askan. Þetta voru þó smámunir miðað við það sem íbúar og bændur undir Eyjafjöllum þurfa að búa við. Þessar myndir voru teknar í gær undir Eyjafjöllum við Steina og bæinn Þorvaldseyri sem vart grillir í vegna öskufalls.

24.04.2010 21:10

Móðan

Móðan mikla
Þessi mynd er tekin nú í kvöld og sýnir glögglega móðuna sem lagðist hér yfir í dag frá eldgosinu í Eyjafjallajökli, eða E15 eins og það fjall heitir nú víða erlendis.

24.04.2010 14:59

Öskumóða yfir Stokkseyri

Öskumóða liggur yfir StokkseyriNokkru meira öskufalls hefur gætt á Eyrarbakka frá í gær og er það vel greinilegt á hvítum diski. Öskumóða er nú þessa stundina út með ströndinni til vesturs og liggur yfir Stokkseyri út til hafs. Vindátt hefur verið hæg og sveiflast úr Austanátt í Suðaustan síðustu 3 klukkustundir. Bjart er yfir á Bakkanum,en móðan hamlar útsýni til hafsins. Hætt er við að móðan berist í meira mæli yfir þorpið.
Á morgun spáir veðurstofan allhvassri austanátt og rigning við suðurströndina, en annars hæg norðaustlæg átt og þurrviðri. Snýst í suðvestanátt í 3 km hæð. Gosaska berst til vesturs frá Eyjafjallajökli, en rigning yfir gossvæði dregur úr fjúki á yfirborðsösku. Öskumistur líklega yfir Suður- og Vesturlandi, þ.m.t. í Reykjavík, en gosaska gæti einnig borist til norðurs. 

 Iceland.pps

Flettingar í dag: 2334
Gestir í dag: 268
Flettingar í gær: 1144
Gestir í gær: 347
Samtals flettingar: 2657935
Samtals gestir: 303850
Tölur uppfærðar: 1.10.2020 23:20:57


Sjólag og horfur

 

                                                                       BRIMSPÁIN - SMELLIÐ HÉR
 
 
 Sjáðu Brimið - Eyrarbakki Iceland


F U L L T T U N G L

Það er í dag!

Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit