Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


F U L L T T U N G L

eftir

13 daga

ALMANAKIÐ

F E B R Ú A R  M Á N I N N

          
 Fyrsta kvartil  1 Febrúar  2020  
 Fullt tungl  9 Febrúar  2020 Þorra tungl 
 Síðara kvartil  15 Febrúar  2020  
 Nýtt tungl  22 Febrúar  2020  Góa
  


Flokkur: Grúsk

02.06.2009 23:44

Vísitölufjölskyldan 1920-1930

EyrarbakkiÁrin 1920-30 átti hin venjulega fjölskylda á Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhreppi 2-3 kýr, nokkrar kindur og áburðarhesta. Frá febrúar og fram í miðjan maí reri heimilisfaðirinn á árabát til fiskjar frá þorpunum eða verstöðvunum Loftstöðum og Þorlákshöfn austan og verstan við þorpin. Á sumrin var amlað við egin heyskap, unnið við uppskipun eða farið í kaupavinnu upp um sveitir. Sum árin kom föst vinna, eins og þegar áveituframkvæmdirnar miklu stóðu yfir í Flóanum. Þegar vetur gekk að og frost komu var lítið um vinnu, en þá var smábúskapurinn sú líftrygging sem dugði. Þar fyrir utan sátu ýmsir embættismenn svæðisins á Eyrarbakka. Presturinn (sr. Gísli Skúlason) sat í Hraunshverfi, en á Eyrarbakka var héraðslæknirinn ( Gísli Pétursson), lyfsalinn og sýslumaðurinn (Magnús Gíslason). Aðrir ríkisstarfsmenn á Bakkanum voru sýsluskrifari, vegaverkstjóri, póstafgreiðslumaður, símaverkstjóri (Magnús Oddson) og verkstjóri hjá Sandgræðslu ríkisins. Á Bakkanum bjuggu einnig meginþorri iðnaðarmanna, en það voru 6 trésmiðir, bakari (Lars Andersen), steinsmiður, beykir, skósmiður, úrsmiður, gullsmiður, rokkadreiari og ullarragari. Þá eru hér 4 kaupmenn og einn sem skráir sig útgerðarmann og formann.

 

Svo geta menn spáð í það hvernig hin venjulega vísitölufjölskilda lítur út á Bakkanum í dag.

 

Heimild: Páll Lýðsson- ritið "Úr bretavinnu til betra lífs"-Athugun á lifsháttarbreytingu í vesturhluta Flóa 1930-1945

01.06.2009 23:55

Hvar var Skúmstaðakirkjugarður?

Staðið á Gónhól, Garðbær fremst t.v.Maður að nafni "Einar Herjólfsson var stunginn í hel með knífi á Uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmstöðum árið 1412" segir í Nýannál. Var sá maður talinn vera norskur kaupmaður af sagnaritara, en fræðimenn sumir telja að hann hafi verið íslenskur og stundað kaupskap á Eyrarbakka þá er hann var veginn. Sá sami Einar Herjólfsson var líkast til frægari fyrir að hafa borið svartadauða* til landsins með skipi sínu haustið 1402 er hann sigldi því frá Englandi til Hvalfjarðar, heldur en fyrir þá sögn að hafa fallið fyrir morðingja hendi á Eyrarbakka. En 200 árum seinna getur sr. Jón Egilsson biskupsritari í Hrepphólum um guðshús á Skúmstöðum í tíð Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups (1521-1541) " Þar var kapella nokkuð stór, hvar inni var bæði sungið og messað og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum þar í sandinum. Svo sem af veggnum eða gaflhlaðinni"

 

Hvar mun þessi kirkjugarður og guðshús hafa verið? Sigurður Andersen heitinn taldi að hér væri átt við Gónhól og að þar muni Skúmur sá er byggði Skúmstaði hafa verið grafinn á sínum tíma. Hann bendir á að bannhelgi hafi hvílt á hólnum frá ómuna tíð. En einnig að Garðbæjarnafnið kunni að vera tilkomið vegna eldri sambærilegra nafna, en elstu heimildir nefna byggðina þar "í Garðinum" og "hjá Garðinum" Þá var bæjarnafnið Gvendarkot á Garði til í upphafi 19.aldar. Taldi Sigurður það vísa til kirkjugarðs á þessum slóðum auk örnefnisins Garðskletta sunnan við Gónhól. Sigurður taldi hinsvegar að Gónhólsnafnið hafi komið til sögunnar í lok 18. aldar, en þá eins og síðar bjuggu hafnsögumenn verslunarinnar í Garðbæ og því sjálfsagt tíðgengið á hólinn að líta yfir (góna á) hafið og gæta að skipakomum.

 

Það má færa rök fyrir því að ekki sé um annan hól að ræða því Skúmstaðarland er eða var rennislétt grund fyrir utan Gónhól og hæðina þar sem Skúmstaðabæirnir stóðu. Árið 1906 eða þar um bil grófu þeir Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og P.Níelsen verslunarstjóri í hólnum og komu niður á eldstæði, en hættu greftrinum við svo búið. Gónhóll verður því hulinn á bak við tjald tímans enn um sinn.

 

Nokkrum spurningu er þó ósvarað. Hvað var Einar Herjólfsson að gera í Skúmstaðarkirkjugarði og hversvegna var hann derpinn þar og hver var valdur að dauða hans? Ef til vill liggur svarið í augum uppi, eða öllu heldur við getum giskað á að þennan Uppstigningardag árið 1412 var verið að messa í Skúmstaðarkapellu og Einar hafi verið með skip sitt á Eyrarbakka  á sama tíma og því gengið til messunar ásamt öðrum mektarmönnum. Einhver sem átti harma að hefna e.t.v. vegna pestarinnar miklu hafi þekkt þar manninn sem bar pestina til landsins. Þegar Einar gekk út að messu lokinni hafi hann mætt banamanni sínum.

 

 

*Talið er að um 40.000 manns hafi látist úr pestinni hér á landi sem var skæð bráðsmitandi lungnaflensa og margt um lík svartadauða sem geisaði í evrópu hálfri öld áður.

Heimild: ritsafn Sig. Andersen

29.03.2009 21:42

Frá Eyrarbakka út í vog

Götumynd Eyrarbakki 1964
Hef bætt við nokkrum gömlum myndum í albúmið, en það eru úrklippur úr gömlum blöðum, einkum Alþýðublaðinu, en þessi mynd birtist þar 1964 og höfundur hennar er Georg Oddson ljósm. á sama blaði. Hún sýnir aðalgötuna í vestur og er tekin við Nýjabæ. Takið eftir bensíndælunum við Ólabúð og konunnni sem gengur eftir miðri götunni. Það voru nefnilega engar gangstéttir í þá daga.
Albúm

18.01.2009 23:36

Hafnardeilan

EinarshöfnLefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.

Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.

Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.

Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.

Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)

Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.

Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.

Heimild: Lögberg (júli 1891)

11.01.2009 22:27

Bræðrafélagið Eyrarrós

Bindindisfélagið Eyrarrós var stofnað árið 1885 af Bjarna Pálssyni organista frá Götu, en formaður þess var Sigurður Eiríksson-regluboði. Félag þetta náði allmiklum viðgangi þar til vorið 1886 að hugmyndir urðu um að gera það að Good-Temlarastúku en félagsmenn voru þá orðnir um hundrað talsins. Þessar hugmyndir hlutu ekki góðan róm meðal flestra félagsmanna, enda fór það svo að þorri þeirra gekk úr bindindi. Það urðu því aðeins fáeinir sem gengu í nýstofnaða Good-Temlara-Reglu. Haustið 1886 voru aðeins 17 meðlimir eftir í Bræðrafélaginu, en félagið náði þó að rétta úr kútnum og árið 1887 höfðu félagsmönnum fjölgað og taldi félagið þá 80 meðlimi.

 

Þá um haustið byggði félagið samkomuhús sem var 12 álnir að lengd og 8 álnir að breidd og 4 álnir til lofts. Þrír gluggar voru á húsinu og var það allt járnklætt og kostaði það fullfrágengið 800 kr. Hús þetta gekk svo lengi undir nafninu Bræðrafélagshús og var fyrsta félagsheimili Eyrbekkinga.

Heimild:Íslenski good-templar 01.10.1987

06.01.2009 23:55

Gvendargrös

Chondrus Crispus Seaweed - source www.algaebase.orgGvendargras (Chondrus crispus) er sæjurt sem talsvert var höfð til matar fyrr á öldum og kom þessi jurt næst á eftir söl að vinsældum. Jurtin líkist fjallagrösum sem kölluð voru "Klóung". Sala á Gvendargrasi var einungis stunduð á Eyrarbakka en hún vex líka við Vestmannaeyjar og var talsvert nýtt af eyjarskeggjum. Þessi grös voru fyrst þurkuð og síðan látin í tunnur og selt þannig. Kostaði hver fjórðungur úr tunnu 5 fiska. Gvendargras gefur hinsvegar ekki hneitu (sykurhúð) eins og sölin. Gvendargrösin voru svo soðin í þykkan límkendan graut sem er síðan lagður í vatn og útbleyttur. Grauturinn var síðan soðin í mjólk með dálitlu mjöli eða bygggrjónum og borðaður með rjóma og þótti góður.

 

Heimild: Íslendingur 1862

16.12.2008 22:49

Vinir í raun

Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu stundum að hleypa út í Þorlákshöfn fyrr á öldum, en þar var þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brima. Þann 16.mars árið 1861 leit út fyrir bærilegt sjóveður. Réru þá þau þrjú skip sem gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð og flest skip frá Stokkseyri. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti snögglega í svo þvílíkt ofsabrim að skipunum var ómögulegt að ná lendingu, fyrir utan tvö frá Stokkseyri. Fimtán skip sem sátu á miðunum máttu nú hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó, en náðu þó öll happasælli lendingu og aðeins ein ár brotnaði.

 

Vertíðarmenn í Þorlákshöfn brugðust skjótt við að vanda og óðu í sjóinn svo langt sem stætt var til að taka á móti skipunum og hjálpa þeim í lendingu. Skipin voru síðan flutt landveg þá strax um kvöldið og daginn eftir. Skipin voru dregin á ísum, sem þá lágu yfir allt. Margir Þorlákshafnarbúar fylgdu skipunum áleiðis og léttu undir á langri leið til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

 

Heimild: Þjóðólfur 29-30 tbl.13.árg.

10.12.2008 22:06

Waldemar

Dæmigerð aldamóta skonnortaKaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.

Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855   

02.12.2008 21:53

Þurrabúðarmenn

Efnahagur þurrabúðarmanna á Eyrarbakka á 18.öld grundvallaðist af fiskveiðum ásamt tilfallandi verkamannavinnu. Fiskveiðarnar voru stundaðar á opnum árabátum og voru tímabundin uppbót á sauðfjárbúskapinn. Bátar og lendingar voru í eigu útvegsbænda og kaupmanna, en vinnuaflið voru vinnumenn leiguliðar. og þurrabúðarmenn. Á þessum tíma var búseta flestra á Bakkanum bundin við vetrarvertíðina, en á sumrin fóru flestir burt í atvinnuleit. Atvinna var af skornum skamti og urðu menn að snapast hingað og þangað eftir kaupavinnu.

 

Verslunin veitti nokkrum hópi vinnu við afermingu vöruskipana og nokkur hópur kvenna og barna hafði vinnu við saltfiskverkun. Karlmenn leituðu stundum alla leið til Reykjavíkur eftir plássi á þilskipum (Kútterum). Á milli vertíða ríkti þó iðulega nokkurt atvinnuleysi meðal þurrabúðarmanna, einkum á haustin og var því eginlega tekið sem sjálfsögðum hlut. Þó fengu alltaf einhverjir að starfa við undirbúning þorskvertíðar með því að dytta að manvirkjum, endurnýja veiðarfæri og áhöld.

 

Skreið var oft gjalmiðill þurrabúðarmanna. Það leiddi til þess að þurrabúðarmenn þurftu oft að versla upp á krít og hélst sá siður meðal almennings á Bakkanum langt eftir 20.öldinni. Í byrjun aldarinnar fór efnahagur þurrabúðarmanna að batna, einkum eftir að fyrstu vélabátarnir komu til sögunar eftir 1904 og aukin landbúnaður. Timburhús komu þá í stað moldarkofanna. Um þetta leiti kom sjómanna og verkamannafélagið Báran til sögunar sem hagsmunasamtök sem styrkti stöðu þeirra gagnvart kaupmönnum og útgerðarmönnum. Félagið kom síðar inn sem sterkur pólitískur þáttakandi í þróun þorpsins.

 

Það sem vó einna þyngst í bættum hag þurrabúðarmanna var þegar Eyrarbakkahreppur keypti land stuttu eftir aldamótin 1900 og bútaði í skika og lagði þeim til leigu. Þurrabúðarmönnum gafst þá tækifæri að koma sér upp smá bústofni og nýttust nú margir moldarkofarnir sem fjárhús eða hlöður. Samtímis tóku þeir að rækta kartöflur með stuðningi verkamannafélagsinns Bárunnar sem reindist þurrabúðarmönnum sterkur bakhjarl.

 

Árið 1900 voru fjölskyldur verkamanna á Eyrarbakka um 75% af heildarfjölda íbúanna, en afgangurinn að mestu fjölskyldur landeigenda og vel stæðra útvegsmanna og kaupmanna, en þau tilheyrðu efri stétt samfélagsins. Danskir verslunarmenn við Lefolii verslun höfðu einnig djúp áhrif á þróun þorpsins, einkum hvað varðar menningu,listir og heilsugæslu og studdu oft dyggilega við hvert framfaraspor á þeim grundvelli. Þessi blanda skóp  samhelt samfélag þar sem allir litu á sig sem eina heild  þ.e.Eyrbekkinga. (Oft nefndir Bakkamenn af nærsveitungum.) Þó átti þorpið til að skiptast á köflum, annarsvegar í Austurbakka þ.e. land Háeyrar og svo hinsvegar í Vesturbakka í landi Skúmstaða, sem var í eigu verslunarinnar. Oft var rígur milli þessara landeigenda vegna deilna sem komu upp varðandi forgang að höfninni. Þá skiptust íbúarnir ósjálfrátt í tvær fylkingar, þ.e. Asturbekkinga og Vesturbekkinga. Þessi rígur hélst langt fram eftir 20 öldinni, meira þó í gamni en alvöru.

Heimild: m.a. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1985.

29.11.2008 23:13

Tíminn bíður ekki

Frá EyrarbakkaÁ árunum 1890-1920 var Eyrarbakki í miklum blóma. Árabátunum fjölgaði mikið og Lefoliverslunin var öflug miðstöð fyrir allt Suðurland. Þegar höfn var byggð í Reykjavík kippti það fótunum undan versluninni. Leofoliverslunin lagði upp laupana en margar aðrar færðust upp að Ölfusárbrú. Eftir sátu útgerðarmenn og verkafólk sem áttu ekkert annað en vinnuafl sitt. Samstaða verkafólksins var mikil og sterk. Á Eyrarbakka var líka óvenjulega sterkt og öflugt verkalýðsfélag sem mótaði þorpið næstu áratugi.

 

Um aldamótin 1900 óx Eyrarbakki gífurlega hratt og síðan þegar hrunið kemur verður það mikið og eymd yfir öllu. Svo þegar stóra kreppan kemur 1929 þá vesnar ástandið ekki í sjálfu sér svo mikið. Það var allt í volæði hvort sem var. Þetta varð til þess að harka færðist í orðræðuna og verkamannafélagið Báran óx hröðum skrefum. Félagið tók nýja stefnu í þá átt að aðstoða sína meðlimi með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Báran stofnaði m.a. vörupöntunarfélag og hlutafélag um byggingu brauðgerðarhús (Skjaldbreið) ásamt stórtækri kartöfluræktun.

 

Báran varð mjög sterkt stjórmálalegt afl á árunum um og eftir fyrra stríð. Þá fékk Báran menn í hreppsnefnd. Á árunum milli 1920 og 1940 varð Báran geysi öflug og má halda því fram að félagið hafi í raun stjórnað Eyrarbakka. Það sem félagið sagði, það gerði hreppsnefndin. Með tilkomu hernáms breta 1940 gjörbreyttist allt. Á bilinu 40 til 140 menn fengu að jafnaði vinnu mest allt árið við bækistöðvar breta í Kaldaðarnesi meðan á hernáminu stóð. Í örfá skipti sló í brýnu milli Bárunnar og herráðsins, en þann ágreining tókst jafnan að leysa. Báran var hvergi bangin, hvort sem átti í hlut bretaveldi eða ríkistjórn Íslands. Þannig var félagið oft leiðandi fyrir önnur félög á Suðurlandi.

 

Árið 1943 sendi Báran á Eyrarbakka frá sér svohljóðandi ályktun:

Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkistjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir,þar sem í því felst stórfeld skerðing á kaupi launþega í landinu og skorar á Alþingi að fella það.

 

 

Í stríðslok byggðu Eyrbekkingar upp fiskvinnslu sem var þó oft stopul á köflum, einkum yfir vetrartímann. Við þetta bættist iðnaður ýmiskonar eins og t.d. Plastiðjan og síðar álpönnuverksmiðjan. Báran var virkur þáttakandi í atvinnusköpun og atvinnuþróun á Eyrarbakka nær allan sinn starfsferil. Um síðustu aldamót fór svo að halla undan fæti á nýjan leik. Kraftur sá sem bjó í verkalýðnum hafði líka dvínað með árunum og að lokum sameinaðist Báran á Eyrarbakka verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi. Í dag hefur útgerð, verslun og þjónusta lagst algerlega af.

 

Nú má segja að Eyrarbakki sé aftur á byrjunarreit í þeirri volæðiskreppu sem ríður yfir land og þjóð, en gleymum því ekki að tækifærin til framtíðar liggja víða í ferðaþjónustutengdri atvinnustarfsemi og hefur vísir af því þegar skotið rótum. Eyrbekkingar ættu nú að taka höndum saman einu sinni enn með lærðum og leiknum og stofna með sér framfarafélag eða atvinnuþróunarfélag sem gæti orðið leiðandi afl á Eyrarbakka og fyrirmynd eins og Báran forðum daga.

05.11.2008 22:56

Róið til fiskjar um aldamótin 1900

Sunnlenskt áraskip seglbúiðÞá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist.  Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.

 

Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.

 

Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.

 

Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.

Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.

Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/

Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:

Frá Eyrarbakka út í Vog

er svo mældur vegur

átján þúsund áratog

áttatíu og fjegur.

Rétta útgáfan er svona:

           
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.

Vegalengdin  á sjó, frá Eyrarbakka  út í Selvog, mun vera 25-30  km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði  höfðu menn, að öllum jafnaði,  langdregin áratog, 7 áratog á  mínútu, og það eru 420 áratog  á klukkustund, en 1890 áratog á  4.5 kl. stund.

02.11.2008 22:19

Mórinn

BrauðgerðarhúsiðFraman af 20. öldinni voru allflest íbúðarhús hituð upp með kolum. Hitaveitudraumar voru enn víðs fjarri á landsbyggðinni og enn langt í að olíuhitun yrði almenn.

  Veturinn 1939 verður almenningi á Eyrarbakka ljóst að kol myndu hækka mikið í verði, enda kreppa í efnahagslífinu og að auki virtist heimstyrjöld vera að brjótast út. Varð það þá að ráði að verkamannafélagið Báran og Eyrarbakkahreppur hófust handa við móupptekt til eldsneytis fyrir hreppinn.

 

Það varð úr að stofna félag sem hét Mónám Eyrarbakka hf og lagði hver félagsmaður til 100 kr til fyrirtækisinns sem m.a. nota átti til kaupa á móvinnuvél sem áætlað var að mundi kosta 1000 kr. Fyrst varð þó að fá gott móland, en nægilegan mó var nefnilega ekki að finna á Eyrarbakka. Var því fenginn sérfróður maður til að finna besta mólandið í nágreni Eyrarbakka og reyndist það best í landi Árbæjar í Ölfusi í svonefndri Árbæjarmýri undir Ingólfsfjalli.

 

Félagið tók nú á leigu þrjá hektara af Ólafi Einarsyni bónda í Árbæ og hóf að framræsa landið til þurkunar enda blaut dýjamýri auk þess þurfti að leggja í tímafreka og kostnaðarsama vegagerð út á mótekjulandið. Mikil rigningartíð setti þó strik í reikninginn og menn horfðu uggandi i framtíðina. Fjöldi verkamanna voru ráðnir í mógröftinn og urðu þeir fyrst um sinn að hafast við án skjóls í hinum mislindu veðrum undir Ingólfsfjalli og söknuðu þeir þess að hafa ekki hinar fornu vatnsheldu heljarslóðar duggarabandspeysur sem voru nú löngu hættar að fást. En brátt fengu verkamennirnir skúr sem fyrirtækið keypti af vegagerðinni og var nú unnið að mótekjunni af fullum krafti.

 

Þetta fyrirtæki var þó ekki stofnað til langrar framtíðar, heldur til að mæta brýnni þörf og það væri kanski eitthvað til að hugsa um í kreppunni okkar þó við látum það nú vera að stinga upp mó.

Heimild: Byggt á grein eftir Þ.J. í Þjóðviljanum 29.júní 1940

27.03.2008 18:05

Gamla bakaríið


Gamla bakaríið 1960. Bíllinn fyrir framan er af Austin gerð og var í eigu Sigurðar Andersen.
Húsið var upphaflega í eigu Lefolii verslunar og reist á þessum stað 1884.

Gamla bakaríið 1966. Billin fyrir framan er Moscwitc og var hann einnig í eigu Sigurðar.
Takið eftir að skorsteinnin á þakinu er horfinn.

Gamla bakaríið í dag. Skorsteinninn hefur verið endurbyggður.

Lengi vel var Gamla bakaríið stoppistöð fyrir rúturnar og oft brugðu bílstjórarnir sér inn og þáðu kaffisopa.

Hér stendur Sigurður bakari í bakarísdyrunum. Árið 1927 keypti Lars Lauritz Larsen Andersen húsið af þáverandi eigendum kaupfélagsins Heklu og hóf að baka upp á eginn reikning, en hann hafði áður verið bakari hjá Lefolii versluninni. Eftir fráfall hans tók sonur hans Lárus Andersen við rekstrinum og starfaði bakaríið í þessu húsi fram undir lok 5. áratugs síðustu aldar eða þar til Lárus setti upp bakarí í kjallaranum í Skjaldbreið.

Meira á Eyrarbakki.is

25.03.2008 21:38

Í bakgarðinum hjá Gunnsa í Gistihúsinu


Myndin er tekin árið 1962. Við húsvegginn má sjá hverfisstein sem notaður var til að brýna ljáinn.
Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 2483759
Samtals gestir: 275520
Tölur uppfærðar: 25.2.2020 22:03:57


Sjólag og horfur

 

 
 
 Ölduspá 24. 2. 2020Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit