Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


F U L L T T U N G L

eftir

13 daga

ALMANAKIÐ

F E B R Ú A R  M Á N I N N

          
 Fyrsta kvartil  1 Febrúar  2020  
 Fullt tungl  9 Febrúar  2020 Þorra tungl 
 Síðara kvartil  15 Febrúar  2020  
 Nýtt tungl  22 Febrúar  2020  Góa
  


Flokkur: Grúsk

25.05.2011 22:19

Bifreiðastjórar og bílavegir

Það þóttu stótíðindi þegar árekstur varð við Litla-Hraun á 6. áratugnum.Fyrstu vegir frá  Eyrarbakka voru gerðir fyrir hestvagna svo hægarar yrði um heyflutninga ofan að engjum. "Álfstétt" heitir vegspotti á Eyrarbakka og  sagður einn elsti vegur í Árnessýslu. "Bárðarbrú" sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg  gerði Bárður Nikulásson um 1880 og á svipuðum tíma var "Nesbrú" byggð, en það var hlaðin göngubrú á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri.  Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst 1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta flutningatækið. Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Fyrstu bifreiðastjórar á Eyrarbakka sem héldu uppi samgöngum til Reykjavíkur voru 1918: Einar Jónsson í Túni,  Magnús Oddson í Regin og Steingrímur Gunnarsson á strönd. Áttu þeir saman einn bíl frá landssjóði og óku til skiptis með póst og farþega.  Árið 1923 var Bifreiðastöð Eyrarbakka stofnuð, en að henni stóðu Ólafur Helgason kaupmaður, Sigurður Óli Ólafsson, Einar Einarsson á Grund (Stokkseyri), Steingrímur Gunnarsson, Jón Magnússon kaupmaður (Stk) og Kristinn Grímsson á Strönd. Bifreiðastöð Eyrarbakka var lögð niður 1925 þegar bifreiðastöð Steindórs fékk sérleyfi milli Eyrarbakka og Reykjavíkur.  Á árunum 1930-1940 voru Eyrbekkingarnir Baldur og Guðmundur Sigurðssynir bífreiðastjórar hjá Steindóri  (Steindór Einarsson).

12.05.2011 23:16

Pósthirðingin

Pat to Gimli: Póstferðin frá Eyrarbakka til Gimli í Canada.Pósthirðing var á Eyrarbakka um 1880, en hún heyrði undir póststofuna í Hraungerði í Flóa. Póstafgreiðsla var síðan sett á Eyrartbakka 1912. Hún var staðsett í Kirkjuhúsi 1925, en þá var póstmeistari  Sigurður Guðmundsson bóksali. Sparisjóður Árnessýslu var til húsa á sama stað. Þann 1. maí 1942 var póstur og sími sameinaður á Eyrarbakka og stuttu síðar á Stokkseyri.  Símstöð var  frá 1909 og var Oddur Oddson gullsmiður fyrsti símstöðvastjórinn.  Á tímum landpóstsins komu þeir að sjálfsögðu við á Bakkanum og blésu í lúður sinn þegar þeir nálguðust Vesturbúð. Flestir voru þeir viðfrægir og sumir sérstakir. Einn Eyrbekkingur var landpóstur en hann hét Klemenz og var sonur Þorsteins bónda á Stóra-Hrauni Péturssonar, en móðir hans var Ingunn Klemenzdóttir skipasmiðs í Einarshöfn.  Klemmi-póstur varð úti 1791 í Jórugili í Grafningi.  Fljótlega eftir að Póstur og Sími var seldur frá ríkinu um síðustu aldamót var símstöðin í Mörk lögð niður, en póstafgreiðsla var til skams tíma í versluninni Ásinum sem nú heitir Vesturbúð. Þótt hinn hefðbundni póstur berist enn fljótt og vel inn um bréfalúgurnar, þá ferðast hinn sannkallaði hraðpóstur með ljóshraða um nælonlínur. Hver skildi nú hafa trúað því á tímum landpóstanna?

07.05.2011 12:05

Öldin teit

Húsið
Undir lok 18. aldar, þá er fyrrum stýrimaður, Niels Lambertsen var orðinn kaupmaður á Eyrarbakka voru hjá honum tveir búðarsveinar, þeir Sveinn Sívertsen og Sigurður stútent Sívertsen (Magnússon).  Christine var kona Lambertsens, er jafnan var kölluð "Stína" af heimamönnum. Sonur þeirra var Lambertsen yngri, er síðar var með verslunina. Skip hans "Charlotte Sopie" kom hvert sumar og venjulega fór Lambertsen  með skipinu aftur til Kaupmannahafnar að hausti. Skildi hann konu sína þá eftir á Bakkanum til að gæta eigna sinna.

Eitt sumarið kom Lambertsen ekki með skipinu og var sagður liggja fyrir dauða sínum í Kaupmannahöfn. Stína hafði átt vingott með Sveini þá er Lambertsen var utan og sagðist nú  vilja lofast honum ef svo færi að hún yrði ekkja. Brátt varð Stína ólétt og var ráð þeirra að leyna þessu og fá barninu sýndarforeldra. Sigurður stútent var með í ráðabruggi þessu og leituðu þau til Einars snikkara Hannessonar á Skúmstöðum, sem hafnaði þeirra málaleitan. Þvínæst var leitað til Snorra bónda Gizurarsonar á Hólum í Flóa og konu hans Katrínar Eiríksdóttur og tókust með þeim samningar.

Þegar  barnið var fætt fóru þau Stína og Sigurður ríðandi að Hólum og skildu barnið þar eftir hjá þeim hjónum. Elín i Gaulverjabæ var þá ljósmóðir í sveitinni og var hún kölluð til. Hafði hún barnið heim með sér samkvæmt venju hennar, en áður en barnið komst aftur að Hólum hafði málið komist upp. Dag nokkurn hafði Eiríkur snikkari komið í búðina til Sigurðar Sívertsen og orðið missáttur  um viðskipti sín við hann. Búðin var þá full af fólki er Eiríkur lét málið uppiskátt í bráðræði sínu.

Þegar svo var komið varð að ráði að Sigurður stútent  gengist við barninu, en það var drengur nefndur Páll. Drengurinn fékk strax viðurnefnið "Kúts-Páll". Það hafði æxslast þannig að ráð Sigurðar til að koma barninu óséðu að Hólum var að setja það í vatnskút og reið hann með það á söðli íklæddur kvennmansklæðum en Stína reið á eftir. Er þau fóru framhjá Brattholti mættu þau bónda þar Hákoni Þorgrímssyni og heyrðist honum barnsgrátur koma úr kútnum, en til að verða ekki að aðhlátursefni um allar sveitir, sagði hann ekkert um ferðamenn þessa og barnsgrátinn úr vatnskútnum fyrr en málin höfðu komist í hámæli.

Varð þessi saga mörgum að yrkisefni og er til a.m.k.  ein vísa svohljóðandi:

Öldin teit það frétti fróð,

fyrr það vissi enginn,

að bóndakona og faktors fljóð,

fætt hafa sama drenginn.

 

Kúts-Páll settist að í Gullbringusýslu og átti marga afkomendur.

Heimild: Saga Þuríðar formanns.

05.05.2011 18:29

Aftökustaðir til forna

Stokkseyri um aldamótin 1900Gimli, fyrrum samkomuhús og síðan bókasafn  á Stokkseyri var á sínum tíma (1921) byggt á sögufrægum stað. Þar var lægð nokkur er nefndist "Þingdalur". Þar voru haldin þing Stokkseyrarhrepps hins forna undir berum himni fram á 18. Öld. Síðar var byggt þar þinghús og þar var dæmt í málum manna og skorið úr deiluefnum, en þá tilheyrðu bæði þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri sama hreppnum.  Aftökustaðir voru fyrir framan svonefnda "Gálgakletta" og er annar fram að Eystri-Rauðárhól í Stokkseyrarfjöru. Einhverju sinni hafði stráklingur verið að leika hengingu af óvitaskap sínum og snaran herpst að hálsi hans og var hann dauður er að var komið.

Annar samnefndur klettur er í Hraunsfjöru, skamt vestan Gamla-Hrauns.  Sagt er að þar hafi tveir afbrotamenn verið hengdir fyrr á öldum og síðan  grafnir uppi á sjávarbakkanum. Ekki fara aðrar sögur af aftökum í hreppnum. Eini þekkti dauðadómurinn sem kveðinn hefur verið upp í þinghúsi hreppsins var yfir "Barna-Arndísi" 1771 en Lögþingsrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningavinnu í Kaupmannahöfn.  Við "Gálgaklett" er einnig lítil vatnsuppspretta sem til forna var nýtt til vatnsöflunar.

Þingstaðurinn var lagður niður árið 1812 og flutt að sameinuðu þingi Flóamanna í Hróarsholti. Stokkseyrarþing var svo sett  á Eyrarbakka árið 1850, og hélst til 1898 er hreppnum var skipt,  en ekki er mér kunnugt um stað.

Heimild: Saga Stokkseyrar.

03.04.2011 00:29

Skankaveldi

Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:


Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.


Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.

05.03.2011 00:01

Orsök reimleikana á Stokkseyri kunn.

SjóbúðOft hafði það komið fyrir að reimleika yrði vart í sjóbúðum á Stokkseyri fyrr á tímum, og einkum á vertíðinni 1892 svo eihverju sinni bar það við að sjómenn flúðu verið. Á Stokkseyri var það að venju að sjómenn beittu lóð sín inni í sjóbúðunum, mötuðust þar og sváfu. Á Eyrarbakka var aldrei beitt í sjóbúð, heldu annaðhvort utandyra eða í beituskúrum. Fyrir hverja vertíð voru beituskúrar og sjóbúðir ræstaðar og hreinn sandur borinn á gólf, en því var ekki fyrir að fara í mörgum sjóbúðum Stokkseyringa og undir sandinum í rotnandi úrgangi myndaðist óloft sem olli sjómönnum vanlíðan og ofskynjunum. Þá var Jóhann Þorkellsson í Mundakoti hreppstjóri og kom væntanlega í hans hlut að ransaka málið, enda var sú niðurstaðan. Hreppsnefnd gaf síðan út tilskipun um að eigendur allra sjóbúða á Stokkseyri bæri skylda til að  ræsta út fyrir hverja vertíð og bera nýjan sand á gólf. Varð þá ekki vart reimleika síðan, en draugasagan í sjóbúðinni varð þó lífseig í vitund sjómanna æ síðan.

20.02.2011 01:23

Att kappi við tímann

Einhverju sinni sem oftar lá Segskipið "Elbo Frederica" á höfninni á Eyrarbakka og beið þess að skipað væri út í það saltfisk sem lá þar tilbúinn til útskipunar, en brim og sjávargangur hafði hamlað því um daga að fiskurinn kæmist um borð í Elbo. Morgunn einn þegar menn komu til vinnu sinnar í bráðabítið, var Lefolii gamli þar fyrir og ræddi við verkstjórann, sem lét að því búnu það boð út ganga að svo væri um samið við verslunina, að farmurinn seldist mun hærra verði ef skipið væri fullfermt í síðasta lagi þennan dag og ef það kæmist út af höfninni egi síðar en næsta dag. Ef  þetta gengi ekki eftir myndu vátryggingargjöldin hækka til mikilla muna.

Lefolii gamli bað því alla að gera sitt svo að þetta mætti verða og hét hverjum manni 2 króna kauphækkun daginn þann, auk 10 króna verðhækkun á hvert skipspund fiskjar er þá væri komið í hús, hvort sem rúmaðist í skipi eða ekki. Það sem Lefolii gamli sagði gátu menn gengið að sem vísu, því sjaldan brá það við að hann efndi ekki gefin loforð. Komst þá hver fiskuggi um borð fyrir kl. 10 um kvöldið og skjöl öll og pappírar undirritaðir skömmu fyrir miðnætti. Elbo komst svo út fullhlaðið á morgunflóðinu þrátt fyrir nokkuð ókyrran sjó og kaupmaðurinn stóð við sitt.

Heimild. Austantórur 2

09.01.2011 21:40

Heyrnleysingjaskólinn

Stóra hraun var jafnað við jörðu 1937Á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka var heyrnleysingjaskóli 1893-1908. Það bar þannig til að á alþingi 1891 bar Magnús landshöfðingi Stephensen fram tillögu um, að landssjóður legði fram 1000 kr. til þess að styrkja mann til að læra málleysingjakennslu. Var það samþykkt í einu hljóði, og fór séra Ólafur Helgason í Gaulverjabæ samsumars til Danmerkur í því skyni. Séra Ólafur var ungur maður, fæddur 25. ágúst 1867, sonur Helga lektors Hálfdanarsonar og Þórhildar Tómasdóttur prófasts á Breiðabólsstað, Sæmundssonar. Skóli séra Ólafs hófst 1. október 1892. Hann var fyrst í Gaulverjabæ, en síðan að Stóra-Hrauni, þar sem hann byggði sér reisulegt hús 1893. Í skólanum voru 9-12 börn, enda var þar ekki rúm fyrir fleiri. Námstíminn var 6 ár. Séra Ólafur starfrækti skólann í 12. ár. Þá andaðist hann á leið til Kaupmannahafnar 19. febrúar 1904. Ekkja séra Ólafs, Kristín Ísleifsdóttir prests í Gísli Skúlason prófasturKrístín ÍsleifsdóttirArnarbæli, Gíslasonar, hélt skólanum áfram næsta ár. En haustið 1905 tók séra Gísli Skúlason við stjórn skólans. Hann var fæddur 10. júní 1877, sonur Skúla prófasts á Breiðabólstað, Gíslasonar, og Guðrúnar Þorsteinsdóttur prests í Reykholti, Helgasonar. Málleysingjakennslu hafði hann numið í Kaupmannahöfn veturinn áður. Hann hafði skólann 3 ár, þangað til haustið 1908, en þá var skólinn fluttur til Reykjavíkur og gerður ríkisskóli.

sr. Gísli gekk að eiga Kristínu ekkju fyrirrennara síns 15. apríl 1909, og var allan sinn aldur prestur að Stóra-Hrauni. Hann andaðist 19. ágúst 1942. Ekki var málleysingjunum kennd önnur handiðn á Stóra-Hrauni en prjón, enda slæm aðstaða til annara hluta. Var þá um það rætt að flytja skólann til Eyrarbakka, þar sem betri væri aðstaðan að þessu leyti. Af því varð þó ekki, heldur var hann fluttur til Reykjavíkur haustið 1908, eins og fyrr var sagt.Svo kvað Magnús Teitsson um sr. Ólaf:

Miðlar Guði af málunum,

með því þjóðin launi.

Sorgarinn fyrir sálunum

situr á Stóra-Hrauni.

(Stórbýlið og prestsetrið Stóra- Hraun var rifið og jafnað við jörðu árð 1937)

Heimild Menntamál 1945. Lesbók Morgunbl. 16.tbl.1985

13.12.2010 23:58

Er myndin frá Eyrarbakka?

Er myndin frá Eyrarbakka?
Í ritinu Samvinnan 1.10.1955 er þessi mynd sögð vera frá Eyrarbakka, en ekki er tiltekið hvar þessi hús hefðu átt að standa né á hvaða tíma myndin er tekin. Á myndinni sjást nokkrir karlar, fremstur með barðastóran hatt. Maður virðist standa við dyrnar og tvö börn í dyragættinni. Maður með kaskeiti við húshornið og annar í stiga á þaki. Fleira fólk virðist vera á myndinni en mjög ógreinilegt. þá standa rekaviðardrumbar upp við bæjarhleðslurnar sem virðast freka vera grjóthleðslur en torfhleðslur. Um er að ræða tvíbýli og ekki ósvipað byggingalagi Óseyrarnes bæjanna.
Sögð tekin við Húsið
Í sama riti er þessi mynd sögð tekin við Húsið á Eyrarbakka þar sem heldri menn sitja að sumbli, en kona og börn standa í dyrum. Myndin er þó örugglega ekki tekin við Húsið því augljóslega er um minna bæjarhús að ræða sem virðist standa tiltölulega stakt með flatlendið í bakgrunni.

30.11.2010 23:43

Litla skræpótta landnámshænan

Landnámsmenn frá Noregi höfðu með sér flest þau húsdýr sem enn eru ræktuð hér á landi og eru þau yfirleitt í nokkru frábrugðin sömu tegundum sem nú eru við lýði erlendis, svo sem íslenski hesturinn, íslenska kúin, íslenska kindin og íslenska hænan o.s.frv. Í frásögnum landnámsmanna er fátt getið um íslensku landnámshænuna en þó má finna spor hennar í fornum ritum. Hjá Þorgils örrabeinastjúpa í Traðarholti á Stokkseyri voru hænur árið ca 960 sbr," þá er haninn barði hænuna, tók hann af því tilefni til að gefa konu sinni Helgu, er var honum lítt unnandi, bendingu".

Hænsa-Þórir fékk auknefni sitt af því, að eitt af varningi þeim, sem hann fór með norður um land að sunnan, voru hænsni sbr. Hænsna-Þóris saga og má e.t.v. þakka honum fyrir að stofninn hafi dreifst um landið og haldið velli fram á þennan dag, en vart mátti þó tæpar standa er nýir áhugamenn tóku að rækta upp stofninn undir lok síðustu aldar, svo sem að Tjörn í Vatnsnesi og Sólvangi á Eyrarbakka ofl, en þá voru aðeins nokkurhundruð landnámshænur eftir í landinu og næstum farið illa þar sem stofninn var ekki nægilega dreifður til að tryggja hann fyrir áföllum. Hænur hafa verið á flestum bæjum á Bakkanum allt frá upphafi, en um miðbik 20. aldar voru það nær einvörðungu svokallaðar "ítalskar hænur" en þær þóttu frjósamari. Undir lok aldarinnar var "ítalska hænan"  nánast horfin af Bakkanum en örfáir héldu landnámshænur. Á síðustu árum hafa þó fleiri og fleiri tekið til við að fóstra íslensku landnámshænuna víða um landið og tryggja þannig viðhald stofnsins.

20.11.2010 23:42

Fjársjóður Hafliða.

Háeyri (Reginn)Hafliði Kolbeinsson, var einn af "Kambránsmönnum" og varð að taka út sinn dóm fyrir það á Brimarhólmi í danmörku 1827. Hafliði Kolbeinsson átti eftir dóminum, að sitja æfilangt í fangelsi, en fékk þaðan lausn 1844 og kom hann aftur hingað 1848. Hafliða var margt vel gefið, hann var gáfumaður og góður læknir, og fyrir þá sök gekk hann eigi að útivinnu í Kaupmannahöfn, eins og altítt var um menn í hans stöðu á þeim tímum, en í þess stað var hann öllum stundum í sjúkrahúsi þeirra. Í frítimum sínum hafði hann á 16 árum eignast og dregið saman eitthvað um 800 rdl. Eftir heimkomuna settist hann að hjá bróður sínum Þorleifi á Háeyri og ræktaði kartöflur sem hann kom með að utan, líklega fyrstur manna á Eyrarbakka.

Svo bar til einn morgun veturinn eftir, að formaður einn hér á Eyrarbakka, Magnús í Foki, gengur í bæinn á Háeyri, spyr Þorleif Kolbeinsson, hvort hann geti ekki léð sér mann til róðurs þennan dag, því að einn af hásetum hans sé veikur. Þorleifur kveðst engan mann hafa. Í þessu vaknar Hafliði og segir: "Eg held það sé mátulegt að ég komi, mig langar til að vita hvort eg er búinn að týna áralaginu." Við það fer Magnús, en Hafliði fer að klæða sig. Meðan hann er að því, segir hann við Þorleif bróður sinn: "Það var kynlegur draumur, sem mig dreymdi i nótt. Mig dreymdi, að ég var að hlaupa upp brimgarðinn hérna útifyrir og þótti mér sjórinn vera svo heitur, að hann ætlaði að brenna mig um bringspalirnar." Veður var gott þenna dag, hægur á útsunnan, en milli dagmála og hádegis var komið svo mikið brim við Eyrarbakka, að brimdrunurnar heyrðist upp að Hjálmholti. I því brimi fórst Hafliði Kolbeinsson og þeir allir á skipinu með Magnúsi í Foki.

Sigríður var Hafliðadóttir, Kolbeinssonar. Hún var vinnukona hjá síra Guðmundi Vigfússyni, er síðar varð prófastur, er hann fluttist að austan vestur að Borg á Mýrum. Hún giftist ári síðar Jóni bónda Sigurðssyni frá Hjörsey; hún var síðari kona hans. Þau eignuðust son er Guðjón hét, síðar bóndi á Ánabrekku á Mýrum. Sigríður erfði það sem eftir Hafliða lá, m.a. það fé er honum áskotnaðist erlendis og var þar geimt, en ekkert fé fanst í fórum hans hér heima og furðaði það margan. Munir hans voru síðan seldir á uppboði. Nokkuru síðar dreymir Sigríði dóttur hans, að faðir hennar kemur til hennar og segir við hana: "Peningarnir eru í gaflinum". Hann sagði ekki í hvaða gafli, og því hafði hún ekki gagn af draumnum. En draumurinn styrkti grun hennar, að faðir hennar hefði látið peninga eftir sig og falið vandlega, svo sem hann átti lund til. Honum hafði einhverju sinni orðið það að orði, að utanlands, þar væru vandgeymdir peningar. Dóttir hans vakti einu sinni máls á því, að hann segði sér í túnaði, hvar hann geymdi peninga sína. "Nei, ekki gjöri eg það", svaraði hann-. "Þú átt vin og þú segir honum, og svo á hann vin og hann segir honum." Meira fékk hún ekki. En í hvaða gafli voru peningarnir geymdir?

Vigfús Halldórson bóndi í Simbakoti á Eyrarbakka keypti í maímánuði 1888, kistu nokkra á uppboði eftir Hjört bónda Þorkelsson á Bolafæti i Ytrihrepp. Tveimur árum síðar, eða þann 15 mars 1890 ákveður Vigfús að rífa kistuna í eldinn, Hann byrjaði á þeim enda kistunnar, sem handraðinn var í og þá varð hann þess var, að nokkrir peningar hrundu úr leynihólfi, sem var innan á kistugaflinum undir handraðanum. Þegar hann fór að aðgæta þetta betur, fann hann þar peningapoka með 79 spesíum 42 ríkisdölum einum fírskilding og einum túskilding. Leynihólf þetta var fyrir öllum gafli kistunnar, frá handraða niður að botni og út til beggja hliða. Peningunum var raðað í pokann þannig, að þrír og þrír voru hver við hliðina á öðrum. Pokinn var úr lérefti og var saumaður í gegn milli hverra raða, svo ekki gat hringlað neitt í þeim. Hann fyllti einnig mátulega út i allt hólfið. 27 spesíurnar voru frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VII.; 48 frá ríkisstjórnarárum Friðriks VI. og tvær frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VIII. - Elsta spesían hefir verið slegin árið 1787, sú yngsta 1840. Yngsti ríkisdalurinn 1842, og fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Allir peningarnir vógu 6 pund. Ekki fylgir sögunni hvort eitthvað af fé þessu hafi verið ránsfengurinn frá Kampsráninu, eða heiðarlega fengið.


Heimild: Vísir, jólabl.1944,- Þorlaug Árnadóttir, ættuð af Mýrum.

19.11.2010 00:21

Draugur vakinn

Stokkseyrardraugurinn var í flokki sjóbúðardraugaÍ Ranakoti á Stokkseyri var grjótbyrgi sem talið var að álög hvíldu á og ekki mátti hrófla við, en var þó gert og byggt saltbyrgi úr grjóthaugnum. Eftir það hófust miklir reimleikar í sjóbúðinni í Ranakoti og færðust þeir úr einni sjóbúð til annarar svo plássið var undirlagt af draugagangi. Kvað svo rammt að þessu að vermenn hrökkluðust úr mörgum búðum. Reimleikarnir stóðu alla vertíðina og létti ekki fyrr en um vorið þegar sjómennirnir fóru heim. Sumir þóttust hafa séð draugsa á ferli í plássinu. Nokkrir sjómenn sáu drauginn í líki grárrar meri. Á meðal sjónarvotta voru karl nokkur og kerling, einkennileg bæði og forn í skapi. Þau ristu rúnir á móti draugnum og komu honum þannig fyrir og var þeim launað það ríkulega. Var þessi draugur jafnan nefdur Stokkseyrardraugurinn eða Ranakotsdraugurinn. En á Stokkseyri var þó ekki laust við draugagang, því þar kvað oft að öðrum draugum, svo sem Stokkseyrar-Dísu, Skerflóðs-Móra og Traðarholts-draugnum. Var þetta félegur söfnuður að mæta.

Heimild: Alþ.bl.151 tbl 1943- Valgerður Þórðardóttir frá Traðarhollti ofl.

15.11.2010 01:37

Töfradrykkurinn

Það hefur sennilega verið árið 1765 sem Sunnlendingar gátu keypt sér te í fyrsta skipti, en það ár flutti Eyrarbakkaverslun inn 20 kíló (40 pund) af telaufi, en árið 1762 hafði verið flutt inn lítið eitt af tei á Faxaflóahafnir. Sá eðaldrykkur sem Sunnlendingar urðu sólgnastir í, kaffi var flutt inn 1791, tæp 50 kíló og fór innflutningur á kaffibaunum hægt stigvaxandi upp frá því. Það hafa þó aðeins verið prófastar, verslunarstjórar og sýslumenn sem ánetjuðust kaffinu, því þessi drykkur var nær alveg óþekktur meðal almennings fram að aldamótunum 1800 en þá fóru bændur að kaupa kaffi til hátíðarbrigða. Var þá svo lítið drukkið af kaffi að 1 kg dugði alþýðuheimili í eitt ár. Hálfri öld síðar var almenn kaffineysla komin í 100 kg á ári á venjulegu heimili, sem voru að vísu mannmörg á þeim árum, en í dag mætti áætla að kaffineysla íslendinga sé svipuð að meðaltali á heimili árlega. Árið 1855 var flutt inn 15.5 tonn af kaffi á Eyrarbakka og árið 1859 kemur kaffibætirinn (Export) til sögunar og er Eyrarbakkaverslun sú eina sem flytur hann inn fyrst í stað. Um miðja 19.öld er kaffi daglega á borðum á næsta öllum heimilum á Eyrarbakka. Þá var farið að nota rjóma út í kaffið og kom það víða niður á smjörframleiðslu, þar sem eftirspurn eftir rjómanum jókst mjög eftir því sem kaffidrykkja varð almennari. Upp úr miðri 19. öld fór að bera á ýmsu framandi kryddi og rúsínum og árið 1866 var sennilega boðið upp á hrísgrjónagraut í fyrsta skipti á Eyrarbakka, en það ár hóf Eyrarbakkaverslun innfluttning á hrísgrjónum. Um svipað leiti og te og kaffinnflutningurinn hófst kom einnig sykurinn í búðirnar og hefur hann verið óaðskiljanlegur þessum töfradrykkjum síðan.


Heimild: Fálkinn 17.árg. 1944

14.11.2010 00:57

Franska skútan "Isabella"

Skerjagarðurinn á StokkseyriÖldum saman stunduðu frakkar fiskveiðar ásamt fleiri þjóðum á Íslandsmiðum og þegar leið fram á 19. öldina jukust athafnir þeirra við strendur landsins til mikilla muna. Talið er að á milli 200-300 franskar skútur hafi stundað veiðar við landið þegar mest var.

Dag einn síðari hluta vetrarveríðar árið 1898 voru öll skip Stokkseyringa að veiðum þar útundan í góðu veðri. Þegar menn voru í óða önn við línudráttin, sáu þeir hvar frönsk skonnorta kemur af hafi með neiðarflagg uppi. Þegar hin hvíta og fríða seglþanda skúta hafði nálgast Stokkseyrarskipin, tóku flestir formennirnir til við að róa skipum sínum á móts við hana. En um leið og þeir lögðu upp að síðu hennar komu skipverjar með pínkla sína og hentu þeim niður í bátana og komu svo sjálfir á eftir (18 menn). Skildist Stokkseyringum að skútan væri hrip lek og mundi sökkva þá og þegar. Jón Sturlaugsson var þá einn kunnasti formaður á Stokkseyri og fór hann ásamt nokkrum formönnum öðrum um borð í skútuna til að kanna ástand hennar, en frakkarnir fengust hvergi til að vera lengur um borð. Jóni lék hugur á að vita hvort ekki væri ráðlegast að sigla skútunni inn á skipalægi eða til lands, því ekki væri þessi skúta Stokkseyringum ónýtur fengur þó lek væri. (Hún hét "Isallai" en sumir kölluðu hana "Ísabellu")

                    

Á Stokkseyri var þá aðeins eitt stórskipasund er nefnt var "Hlaupós" og liggur nokkru austar en Stokkseyrarsund. Á sundinu var þá dálítill brimsúgur, og  hægur SA kaldi, en formönnunum kom saman um að skútan væri ekki svo nærri því að sökkva að óhætt væri að sigla henni um Hlaupósinn og inn á skipalægið. Jón Sturlaugsson tók nú að sér stjórn skútunnar og hafði með sér nokkra af hásetum sínum og gekk sú sigling að óskum og hinu tignarlega skipi var síðan lagt inn á legunni, en ekki var afráðið hvað skildi síðan við það gera.

Var nú afráðið nokkru síðar að bjóða skonnortuna á uppboði og kom þá fyrir nokkuð óvænt að hæstbjóðandi var bóndi austan úr fljótshlíð, Guðmundur Jónsson í Múlakoti, en ei sagði hann neitt um hvað hann vildi með þetta hafskip gera. Komst þá sú saga á kreik að Eyrbekkingar, erkiféndur þeirra Stokkseyringa hefðu fengið bónda til að bjóða í það svo það færi á lægra verði en ef Eyrbekkingarnir hefðu sjálfir att kappi um þetta fagra fley, og líklega hafa þeir ætlað að gera við það og selja síðan með miklum hagnaði, enda var lekinn ekki ýkja mikill þegar betur var að gáð. En hvað sem því leið, þá hafði forsjónin þegar ákveðið að þessi knerri skildi ei framar sigla, eins og Fransmennirnir höfðu óttast þó á annan veg væri.

Stuttu eftir uppboðið gerði mikið veður af hafi og slitnaði skipið af festum og brotnaði í skerjagarðinum og var það síðan rifið. En Fransmennirnir fengu inni í húsi sem var í smíðum á Stokkseyri og eflaust hefur þar verið glatt á hjalla, en sagt er að Fransmennirnir hafi fúlsað við hangiketi, en þótt betri matur í hrafnakjöti og frönsku kexi.

Heimild: Fálkinn 26.04.1940 http://sites.google.com/site/franskispitalinn/

09.11.2010 00:52

Gæðingurinn Goti

HestarGuðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka átti um sína daga marga og góða reiðhesta og keypti þá jafnvel langt að. Einn þeirra var grár gæðingur er Goti hét og ættaður norðan úr Skagafirði. En hestinn átti áður Ari Arasen læknir á Flugumýri. Goti var mikill gæðagripur og vitrastur allra hesta og hafði Thorgrímsen á honum miklar mætur.

Eitt sinn ætlaði Thorgrímssen að ríða til Reykjavíkur og var þá Goti sóttur og rekinn heim ásamt mörgum hestum, en þá kom í ljós að hann hafði misstigið sig og var drag haltur. Hann var því ekki notaður í ferðina, heldur sleppt aftur í hagann. Öðru sinni er Thorgrímsen ætlar til Reykjavíkur var Goti sóttur með hestunum, en er þá aftur orðinn draghaltur án þess að sjá mætti einhverja ástæðu fyrir heltunni og var Gota þá sleppt í hagann eins og í fyrra sinnið. Hálfri stund eftir að menn voru farnir var Goti orðinn alveg heill. Í þriðja sinnið sem verslunarstjórinn hugði til Reykjavíkur fór á sömu lund, klárinn var drag haltur og stakk við fót, en nú sá Thorgrímsen við honum, því hann grunaði klárinn um tilraun til skrópa, og tók hann því með engu að síður. Það reindist líka svo, því hálftíma síðar var Gota batnað af skrópasýkinni og stakk hann ekki lengur við fót. Í hvert sinn þegar Goti var sóttur með mörgum hestum, vissi hann að langferð væri fyrir höndum og tók þá til bragðs að leika sig haltann til að sleppa við ferðina.

Heimild: Oscar Clausen-Vitrir hestar, lesb.mbl 24.09.1939

Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 2483759
Samtals gestir: 275520
Tölur uppfærðar: 25.2.2020 22:03:57


Sjólag og horfur

 

 
 
 Ölduspá 24. 2. 2020Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit