Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


F U L L T T U N G L

eftir

13 daga

ALMANAKIÐ

F E B R Ú A R  M Á N I N N

          
 Fyrsta kvartil  1 Febrúar  2020  
 Fullt tungl  9 Febrúar  2020 Þorra tungl 
 Síðara kvartil  15 Febrúar  2020  
 Nýtt tungl  22 Febrúar  2020  Góa
  


Flokkur: Grúsk

06.11.2010 23:29

Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.

Skipin á legunniEyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".

Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.

Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.

Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938

29.10.2010 00:31

Síberíuvinnan

"Síbería"Síberia var hún kölluð, en átti þó ekkert skylt við Rússland. Mýrlendi ofan við Eyrarbakka var kölluð þessu nafni og þar sóttist margur verkamaðurinn eftir vinnu við að grafa skurði og framræsta mýrina í fyrri kreppunni, en vinna þar hófst fyrst 1935. Það voru þúsundir atvinnulausra sem mældu  götur höfuðborgarinnar og ástandið í sunnlennskum þorpum var lítt skárra. Þetta var fólk úr ýmsum áttum, með alskonar skoðanir og margskonar áhugamál. Allir áttu það þó sameiginlegt að vera kúgaðir og sviptir réttinum til mannsæmandi lífs og tryggðar framtíðar. Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir hvern þann sem var svo heppinn að fá vinnu í "Síberíu" þó vinnubúðirnar þar væru lítt frábrugðnar fangabúðum  einhversstaðar í Síberíu Rússlands þess tíma eða jafnvel verri og vetrarkuldinn mikill og líklega nafnið þannig til komið. Í byrtingu hvers morguns þrömmuðu um 60 karlar út í frostið sem oft var um 10 stig á þessum vetrum, íklæddir stígvélum með vetrarhúfu bretta niður fyrir eyru og gekk hver flokkur að sínum skurði og var svo unnið framm í myrkur en þá dunduðu menn við tafl og spil fram að háttatíma. Nokkrar bækur voru til úr bókasafni vegavinnumanna og voru þær lesnar spjaldanna á milli. Síberíuvinnan var atvinnubótavinna á vegum ríkisinns og  var 12 daga úthald. Í mýrinni höfðu verið reistir nokkrir timburbraggar sem voru alveg óeinangraðir og í þeim ávalt mikill saggi. Syðsti bragginn var kallaður "Róttæki bragginn" af einum vinnuflokknum, því þar voru margir róttækir menn saman komnir og ræddu og funduðu gjarnan um þjóðfélags og verkalýðsmál og fundu menn þar mest að lýðræðisskortinum í vekalýðsfélögunum og þá einkum í "Dagsbrún" sem þá hét og var félag verkamanna í Reykjavík. Það fundu menn því til foráttu að þar hafði alræði fámenn klíka en allur þorri félagsmanna var að heita valdalaus.

Á næstu 70 árum á eftir ávannst þó margt í bættum kjörum verkafólks sem svo fáeinum "snillingum" tókst að eiðileggja á einni örskot stund. Á margan hátt standa atvinnulausir nú í sömu sporunum og mennirnir í mýrinni árið 1937, að vera sviptir réttindum til mannsæmandi lífs og standa nauðugir frammi fyrir ótryggri framtíð.

heimild: Þjóðviljinn jan.1937

19.09.2010 01:46

Einn liður í Concorde ævintýrinu gerðist á Eyrarbakka.

Dectramastur í BretlandiÍ júní árið 1967 var hafist handa við að reisa Dectravita á Eyrarbakka með mestu leynd og um tveggja ára skeið var þetta eitt best varðveitta leyndarmál Póst og fjarskiptastofnunar. Í þá tíð þótti ekki æskilegt að veita of miklar upplýsingar vegna þeirra tækni nýjunga sem í þessu kerfi fólust. Dectravitinn á Eyrarbakka var annað tveggja staðarákvörðunarkerfa sem Decca Navigator Company LW í Bretlandi kom upp, en það fyrirtæki rak fjölda Decca staðsetningarkerfa víðsvegar um heiminn, en þau voru þó ekki nærri eins fullkomin og Dectrakerfið sem sérstaklega var hannað fyrir breska flugherinn en einnig fyrir Concorde þoturnar sem gátu flogið í 40-80 þúsund fetum, en fram að því gátu þotur aðeins flogið upp í 35 þúsund fet. Dectravitinn saman stóð af tveim möstrum ca 80 metra háum og einu stöðvarhúsi sem stóðu á flötunum fyrir austan Borg. Höfðu tveir menn á Eyrarbakka eftirlit með þessu merkilega hernaðarleyndarmáli. Einhverju sinni þurfti að mála möstrin og voru þá fengnir til þess Indíánar, en þeir þóttu alveg lausir við lofthræðslu. Möstrin voru síðan felld einhverntíman á 7.áratugnum þegar betri staðsetningatækni (GPS) var komin til sögunar. Verst er þó að eiga ekki mynd af þessu fyrirbæri en hér til hliðar er mynd af litlu (18m) Dectramastri í Bretlandi.

11.05.2010 22:15

Freyja ÁR 149

Freyja ÁR 149Báturinn var smiðaður á Eyrarbakka 1916 úr eik 9.br.l. með 10 ha.Dan vél. Eigendur af Freyju voru Jóhann E Bjarnasson o.fl. Eyrbekkingar. Báturinn slitnaði af legu á Eyrarbakka í des. 1936 og sökk. Engan sakaði.


Heimild Íslensk skip.

10.05.2010 23:55

Björgvin ÁR 55

Björgvin ÁR 55Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1916 og voru eigendur Jóhannes Sigurjónsson, Þorkell Þorkellsson og Guðmundur Sigurjónsson á Stokkseyri.1942 var Báturinn seldur til Bolungarvíkur. Hét þá Björgvin ÍS 48. Báturinn slitnaði upp af festingum í illviðri og brotnaqði í spón.

07.04.2010 09:23

Morinsheiði eða Morrisheiði

FimmvörðuhálsMargir hafa velt því fyrir sér í tengslum við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, hvernig sérkennilegt nafn á títtnefndri heiði "Morinsheiði" sé til komin.

Nafnið á heiðinni er búið til af Jóni Söðla Jónssyni * frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð sem var leiðsögumaður ensks Íslandsvinar, á þessum slóðum á seinni hluta 19. aldar. Sá hét William Morris (1834-1895) rithöfundur og skáld og kom hann tvívegis til Íslands. Heiðina nefndi Jón eftir honum og kallaði Morrisheiði. William Morris nam svo vel íslenska tungu, að hann þýddi á ensku íslendinga sögur, þar á meðal Völsungu og Eyrbyggju. Jón söðlasmiður, eða Jón söðli, eins og hann var almennt kallaður, átti heima í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, þekktur fræðaþulur en þótti sérkennilegur. Hann var stundum fenginn til að fara í lestaferðir og sagnir gengu um það að honum hafi hætt við að vera nokkuð lengi í ferðalögum. Eitthvert haust var hann sendur suður í Reykjavík með tvo hesta í taumi. Segir fátt af ferðum hans, fyrr en hann kom að Sandhólaferju á austurleið. Þá hafði tognað ískyggilega úr reisunni hiá Jóni, enda veisla orðið einhvers staðar á vegi hans. Á Hlíðarenda bjó Gunnar Hámundarson, þar átti Bjarni skáld Thorarensen einnig heima um hríð, í Nikulásarhúsum, eyðibýli hið næsta, ólst Nína Sæmundsson, myndhöggvari upp, í Hlíðarendakoti voru æskuslóðir Þorsteins skálds Erlingssonar.
           Jón Söðli Jónsson            William Morris
                          Jón Söðli                               Morris
* Menn eru þó ekki á einu máli um hvort Jón Söðli hafi í raun búið þetta nafn til og verið getur að það sé seinni tíma tilgáta. Einnig þarf að hafa það í huga að áræðanlegar heimildir um nafngiftina hafa ekki fundist.

Við sjávarsíðuna var stundum talað hér áður fyrr um að  mor og mistur byrgði allt útsýni frá Austurfjöllum fram til Vestmannaeyja, og er svo tekið til orða í "Vöku 1.árg. 1927"

05.04.2010 00:21

Þá fóru allir í sauna

Finnskt sauna frá fyrri tíð."Á Eyrarbakka hefir verið opnuð gufubaðstofa á vegum Ungmennafélagsins á staðnum". Svo hljóðandi fyrirsagnir mátti finna í víðlesnustu blöðum landsins árið 1940. Gufubaðstofa þessi var byggð haustið 1939 fast við samkomuhúsið Fjöni og var þetta baðhús einkum í tengslum við leikfimisalinn. Baðstofan var 22 fermetrar og innréttuð á þrem pöllum að hætti finnskra baðhúsa eða Sauna. Ofninn var einnig af finnskri gerð sem hitar grjót, sem vatni er síðan stökkt á. Þá var í húsinu aðstaða fyrir gæslumann. Baðhúsið var fjármagnað með styrkjum og samskotafé. Í forustu fyrir þessu framtaki voru að öðrum ólöstuðum, hinir drífandi ungu menn Vigfús Jónsson og Bergsteinn Sveinsson.

Þessi mynd er af ofninum og blásara, sem Haukur Magnússon í Reynisdal smíðaði úr strandjárni og var í baðstofunni í MýrdalViða tíðkuðust gufuböð á vegum ungmennafélaga í tengslum við héraðsskólanna þar sem aðgangur var að heitu vatni, svo sem á Laugarvatni, en sennilega var gufubaðstofan í Reynishverfi í  Mýrdal sú fyrsta hérlendis að finnskum hætti, eðaTeikning af gufubaðstofu UMFE a.m.k. til almenningsnota og naut hún mikilla vinsælda. Var sú baðstofa  tekin í notkun 1939, en ungmennafélagið Reynir stóð að gerð hennar og var hún byggð við barnaskóla sveitarinnar.

Hér má sjá uppdrátt af saunabaði UMFE sem var áfast samkomuhúsinu Fjölni.

21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

16.03.2010 23:43

Hjálparinn

Dráttarbáturinn Hjálparinn EyrarbakkaHinum óar útá sjó,

ýtir Jóhann djarfur nóg,

aflakló um ýsumó

aldrei þó hann bresti ró.

Hafs um leiðir Hjálparinn

hraður skeiðar vélknúinn.

Hrannir freyða um hástokkinn,

hvín í reiða stormurinn.

M/b Hjálparinn var 13,20 tonn, byggður á Borgmundarhólmi og seldur, þá nýr árið1907 til Lefolii verslunar á Eyrarbakka. Vélin var af gerðinni Alfa 16-20 hestafla lágþrýstivél. Hlutverk hans var að vera lóðsbátur og til aðstoðar kaupskipunum sem þurftu að athafna sig á Einarshöfn. Þar að auki var Hjálparinn hafður til flutninga til næstu verstöðva svo sem  með salt og annan varning til Vestmannaeyja og Grindavíkur. Áður höfðu tveir gufubátar gengt þessu starfi. Annar var M/S Njáll, en hann slitnaði af legufærum sínum í sunnan fárviðri og rak á land, en þó án þess að brotna og náðist hann á flot vorið eftir. Á undan Njáli var gufuvélbáturinn Oddur við þessi störf til fjölda ára, en hann rak á land í Grindavík árið 1904. Þar var hann að losa vörur frá Eyrarbakka, en átti að því loknu að halda til Reykjavíkur og hafa þar vetursetu.

Verkafólk á Eyrarbakka með sekki úr vöruskipunumÞó Hjálparinn væri minni en fyrirrennarar hans og vélarafl takmarkað, þá reyndist hann furðu vel. Í hjáverkum átti Hjálparinn að stunda fiskveiðar í þorskanet, sem þá voru svo til ný af nálinni, en þegar fram liðu stundir var lítið úr fiskveiðum sökum anna. Á haustinn var Hjálparinn tekinn upp í Skúmstaðalendingu, en þar hafði verið komið fyrir dráttarbraut og gangspili og dráttarbáturinn látinn standa þar inn af sjógaðshliði fram á næstu vertíð.

Þeir sem sigldu Hjálparanum heim frá Borgmundarhólmi þann 18. maí 1907 voru: Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Skúmstöðum, Friðrik Bjarnason og  Vilhelm Jakop Andeas Olsen, vélamaður frá Fredrikshavn og komu þeir til Eyrarbakka 13.júní og unnu þeir á skipinu það árið, en síðasta kaupskip héðan þá um haustið var skonnortan "Svend".

Næsta ár var formaður á Hjálparanum, Jón Sigurðsson í Túni (Síðar Melshúsi) og vélstjóri var Brynjólfur Vigfússon í Mekisteini, en til skams tíma var Jóhann Bjarnason í Einarshöfn með bátinn og eru formannsvísur hans hér að ofan kveðnar á vertíð 1914. Af öðru tilefni kvað Magnús Teitsson þessa vísu:

VerslunarhúsinHjálparinn um fiskafrón

flytur drengi ósjúka.

Buddunum hann Brennu-Jón

biður upp að ljúka.

Tilefnið var að ferjutollur var rukkaður af farþegum með Hjálparanum til og frá Þorlákshöfn og sá um það Jón Ásbjörnsson í Brennu. Tollinum var síðan skilað til ferjubóndans í Óseyrarnesi. Þegar styrjöldin skall á 1914-1916 voru siglingar frá útlöndum aðeins heimilar á ákveðnar tollhafnir og var ákveðið að Reykjavík yrði tollhöfn fyrir Suðurland og lögðust þá Eyrarbakkasiglingar af. Hjálparinn var of lítill til að sinna strandsiglingum með vörur frá Reykjavík og var hann því seldur til Vestmannaeyja til fiskiveiða. Í stríðslok höfðu þau stakkaskipti orðið að Reykjavík hafði alfarið tekið við því hlutverki sem Eyrarbakki hafði áður sem höfuðstaður verslunar og menningar og þess skamt að bíða að saga Eyrarbakkaverslunar tæki enda.

Meira: Brimbarinn

Heimild: Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.
Þennan dag:1764 Konungsveiting: Þorleifur Nikulásson á Eyrarbakka sótti um til konungs að verða vicelögmaður. 1972 Flæddi inn úr sjógarðshliðum. 1986 100 ára afmælisminning Guðmundu Nílsen í kirkjunni. 1987 Vetur gengur í garð.

05.11.2009 23:19

Barnaleikir

Börn að leikVorið 1961 gerði  Brynjólfur Brynjólfsson ljósmyndari Tímans sér ferð út á Bakka og tók meðal annars þessa skemtilegu mynd af nokkrum strákum við leik með skútu eins og altítt var meðal pilta í þá daga og væntanlega urðu þeir allir sjóarar. Myndin er fremur óskýr og erfitt að greina hvaða piltar eru á myndinni, en gamann væri ef einhver kannaðist við þá.

Það voru til allmörg skipslíkön á þessum árum sem notuð voru á þennan hátt og fróðlegt væri að vita hvort einhver þeirra séu enn til í fórum manna.

31.10.2009 22:38

Þangvinnslan

Þangskurður á EyrarbakkaSumarið 1960 hófu Eyrbekkingar að vinna þang af fullum krafti. Óskar Sveinbjörnsson forstjóri Korkiðjunnar í Reykjavík, og Plastiðjunnar HFá Eyrarbakka tók að sér vinnsluna til að byrja með. Höfðu 15 manns atvinnu af þangskurðinum, þar af 4 menn við mölun í beinamjölsverksmiðjunni og tveir bílstjórar sem óku þanginu úr fjöru. Afraksturinn gat orðið 10,5 tonn af þangi á dag, en til þangskurðarinns voru notaðar sveðjur og þanginu fleytt í net. Þangskurðamennirnir höfðu til umráða eina trillu og minni róðrabát. Úr hverju tonni mátti vinna rúm 200 kg af þangmjöli sem selt var á erlendan markað. Mjölgerðin fór fram yfir sumartímann á meðan lítið hráefni barst frá fiskvinnsluhúsunum. Búið var til sérstakt fyrirtæki um þangmjölsframleiðsluna, Þörungur H.F. en aldrei kom þó til þess að byggð yrði sérsök þangvinnsluverksmiðja á Eyrarbakka, en fyrir mörgum árum hófst þangvinnsla á Reykhólum í Breiðafirði og starfar sú verksmiðja enn. Ströndin við Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar mestu þangfjörur í evrópu og hefur sú auðlind staðið ónýtt í hálfa öld.


Þörungaeldsneyti ()
Fjörugögn.
Gvendargrös ()

Þann 9. ágúst 1961 brann mjölverksmiðjan til kaldra kola.

21.10.2009 23:56

Saga BES er löng

Jakopína kennari og nemendurÞegar Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var settur í fyrsta

sinn fyrir 150 árum var Ísland fátækasta land í Evrópu sagði forseti Íslands eitt sinn þegar hann heimsótti börnin í BES. Nú eru árin að verða 157 síðan fyrsta skólahúsið var reist, en saga BES er þannig í hnotskurn:

1850 Undirbúningsfundur á Stokkseyri.

1851 Fjölmennur framhaldsfundur.

1852 Skólahús reist á Eyrarbakka; timburhús með íbúð fyrir kennara á lofti. Hús fyrir skólahald leigt á Stokkseyri.

1852 Hinn 25. október er skólinn settur í fyrsta sinn.

1868 Kennsla felld niður vegna örbirgðar fólks.

1874 Makaskipti á húsum. Skólinn fer í svonefnt Kræsishús til 1880.

1875 Skólinn fær 200 kr. styrk úr landsjóði.

1878 Sjálfstæður skóli settur á Stokkseyri.

1880 Stærra skólahús reist á grunni Kræsishúss á Eyrarbakka.

1885 Skólahús byggt á Stokkseyri; "Götuskóli".

1887 Sveitarstjórn tekur að sér umráð yfir fjármálum skólans.

1907 Fræðslulög sett; skólaskylda frá 10 ára aldri.

1909 Skólaskyldan á E. og S. leiðir af sér fjölgun nemenda.

1909: Skólahús byggt í túni Eystri-Móhúsa á Stokkseyri.

1913 Byggt skólahús á Eyrarbakka sem stendur enn.

1926 Handavinna verður fastur liður í kennslu. Áður höfðu konur kennt hana kauplaust.

1936 Ný fræðslulög; skólaskylda frá 7 ára aldri.

1943 Unglingaskóli Stokkseyrar starfar til 1949. Hann er einkaskóli.

Starfaði einnig 1933-1935.

1950 Kennsla hafin í nýju skólahúsi á Stokkseyri. Er enn í notkun.

1951 Skólarnir eignast kvikmyndavélar á árinu 1951 til 1960.

1965 Skólinn á Stokkseyri eignast nýja Husqvarna-saumavél og átta

notaða hefilbekki. Síðar voru gefnar fleiri vélar af Kvenfélagi og Foreldrafélagi, sem stofnað var 1975.

1973 Vestmannaeyingar flytja á svæðið vegna gossins í Heimaey.

Nemendum fjölgar.

1973 Byrjað að kenna 6 ára börnum og leyfi fengið fyrir kennslu 9. bekkjar.

1980 Skólarnir eignast ljósrita, og fljótlega myndvarpa.

1982 Byggt við skólahúsið á Eyrarbakka.

1989 Tvær tölvur keyptar til skólans á Stokkeyri.

1990 Skólaskylda 6 ára barna. Skólaskyldan verður 10 ár.

1993 Einsetning skóla á Stokkseyri.

1994 Tölvuútskrift einkunna.

1994 Íþróttahús Stokkseyrar og Eyrarbakka vígt.

1996 Skólarnir sameinaðir undir nafninu Barnaskólinn á Eyrarbakka

og Stokkseyri.

1998 Sameining sveitarfélaga í Árborg.

1999 Skólinn verður þróunarskóli í upplýsingatækni.

Heimild: Theodór Guðjónsson, skólastjóri á

Stokkseyri 1971-1997 Morgunblaðið 2002.


2008-2009 Nýr barnaskóli byggður á Stokkseyri, en ákveðið hafði verið árið 2006 að byggja upp húnsæði fyrir skólahald á báðum stöðum með aðstöðu fyrir 6. til 10. bekk á Eyrarbakka (1. áfangi) og aðstöðu fyrir 1. til 5. bekk á Stokkseyri (2. áfangi). Áætlað er að bjóða 1. áfanga verksins út í lok árs 2006 og 2. áfanga í lok árs 2008. Þessum áföngum var síðar snúið við og byrjað á Stokkseyri eftir töluverða seinkun á áætluninni þó það skipti ekki höfuð máli.

Hugmyndum um eina skólabyggingu á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar var  á sínum tíma ýtt út af borðinu af einhverjum undarlegum ástæðum, en hefði augljóslega komið sér betur nú, því trúlega verður að byggja skólann hér fyrir samskotafé ef marka má áherslur sveitarfélagsins Árborgar í uppbyggingarmálum.

14.10.2009 22:39

Þennan dag 1975

Aðins útveggirnir stóðu eftir brunannVeiðafærahús HE brann. Þar voru geymd veiðafæri margra báta, m.a. öll humartroll Hraðfrystistöðvarinnar auk einnar 3 tn. trillu. Veiðafærageimslan var annarsvegar í gömlu trésmiðjunni og sambyggðum 300 fermetra bragga sem lengi var skreiðarskemma. Eldsins varð vart laust eftir miðnætti og urðu bæði húsin fljótlega alelda. Slökkvilið Eyrarbakka barðist við eldinn með hjálp slökkvuliðsins á Stokkseyri til kl 7 um morguninn. Húsinn brunnu bæði til grunna og nam tjónið miljónum á þávirði. Eldsupptök voru ókunn.
þannig leit skemman út

Flettingar í dag: 432
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 2483751
Samtals gestir: 275519
Tölur uppfærðar: 25.2.2020 20:31:09


Sjólag og horfur

 

 
 
 Ölduspá 24. 2. 2020Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit