12.06.2021 23:21

Dæmigerður smábóndi


Líf smábóndans á Bakkanum  á fyrri hluta 20. aldar:
Smábóndinn bjó í litlu íbúðarhúsi á einni hæð með kjallara, átti 2 til 3 kýr nokkrar kindur, hænsn og áburðarhesta. Fjós og lítið útihús ásamt hlöðu. Konu og krakkastóð. Stundaði vetrarvertíð hjá einhverjum útvegsbóndanum upp á hlut þegar gaf á sjó frá febrúar og fram í miðjan maí. Nokkuð af aflanum vann hann í skreið og lagði upp í versluninni sem af mátti missa. Um vorið og sumarið pjástraði hann við eigið skeppnuhald og heyskap. Fór í uppskipunarvinnu þegar bauðst, eða tók törn vegavinnu í nærliggjandi sveitum. Hann átti kanski árabát og lagði fyrir grásleppu, tíndi söl og verkaði og stundum heppnaðist honum að skjóta sel. Haustið fór mest í stúss heima fyrir, slátrun og sláturgerð, ullarverkun og aðdyttur. Um veturinn fram að vertíð var lítið við að vera annað en reglulegar gegningar.

Hjá húsmóðurinni var nægur starfi allt árið um kring. Hún kveikti upp í eldamaskínunni, sótti vatnið í brunninn sá um matseld, frágang og tiltekt. Barnauppeldið var á hennar herðum, klæði og skæði. Prjónelsi, saumaskapur og þvottar og baðvatn. Þegar bóndinn var fjarri bættust gegningarnar við og vinna við heyskap og sláturgerð var ekki undanskilin húsmóðurstarfinu. Stálpuð börn tóku virkan þátt í heimilisstörfum og hverju sem til féll við búskapinn.

Þá var farið til messu á sunnudögum að hlýða á predíkun prestsins. Á fremstu bekkjum sat fyrirfólkið, héraðslæknirinn, sýslumaðurinn lyfsalinn og kaupmennirnir ásamt frúum sínum og börnum. Framarlega voru líka sýsluskrifarinn, póstafgreiðslumaðurinn, vegaverkstjórinn, sandgræðslustjórinn og símaverkstjórinn með sínu liði. Útvegsmenn, bakarinn, steinsmiðurinn og trésmiðirnir, beykirinn, skósmiðurinn, úrsmiðurinn gullsmiðurinn, rokkadreyjarinn og ullarragarinn deildu þeim bekkjum sem eftir voru. Smábóndinn tróð á svalaloftinu með sínu skilduliði og öðru tómthúsfólki og ungdómi sem horfðu niður á hinn fagra flokk kirkjugesta og spáðu kanski meira í fagurkæddar og barmamiklar ungfrúrnar en tilkomumikla predikun guðsmannsins.

Þegar út var komið tóku menn spjallið um tíðarfarið og gæftirnar en konurnar krítiseruðu ræðu prestsins og hvort kirkjukórinn hafi mögulega sungið betur núna en síðast.

Flettingar í dag: 102
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 2843114
Samtals gestir: 346723
Tölur uppfærðar: 20.9.2021 07:10:47