05.11.2013 21:28

Sú var tíðin, 1930

BarnaskólinnVertíðaraflinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var sæmilegur í þau skipti sem gaf á sjó, en á land bárust 800 skipspund. 5 vélbátar stunduðu veiðarnar héðan, en af þeim stunduðu tveir bátar veiðar frá Sangerði fyrri hluta vertíðar. Togarar voru nokkuð við veiðar hér í bugtinni og var aflinn mest ufsi. Einn Bakkabátur strandaði við Ölfusárósa í svarta sandbyl en náði sér aftur á flot. Þá strandaði "Olga" frá Eyrarbakka við Þorlákshöfn og eiðilagðist.  "Halkion" frá Eyrarbakka fórst við land á Siglufirði. Hafði rekist á hafís i Húnaflóa og laskast. Helstu áhugamál sjómanna hér voru fyrir dýpkun Skúmstaðaós og byggingu sandvarnagarðs. Lönd Kf. Heklu og Guðm.Ísleifssonar hafði Landsbannkinn tekið upp í skuldir. Löndin hafa síðan verið skurðuð og girt, sem hefur skapað nokkra atvinnu, en löndin átti síðan að gefa mönnum kost á að fá með erfðafestu. Um þetta leiti var verið að gera skipulagsuppdrátt af kauptúninu. Flóaáveitan var fullgerð þetta ár.

Verslun: Þessar voru verslanir á Eyrarbakka: Verslun Guðlaugs Pálssonar, verslun Þorkells Ólafssonar, verslunin Bræðurnir Kristjáns, Eyrarbakkaapotek er rak Lárus Böðvarsson, og vefnaðarvöru seldi Ottó Guðjónsson klæðskeri. Umboðsmaður fyrir Gefjunarvörur var Bergsteinn Sveinsson.

Skipakomur; Timburskip kom hér með vörur fyrir Egil í Sigtúnum.

UMFE: Eiríkur J. Eiríksson, 13 ára gamall verðlaunaður fyrir ritgerð sína. En þar hvetur hann íslendinga til að gefa gaum að arfleið sinni og landsins gæðum. Aukahefti af "Skinfaxa" er helgað félaginu sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt, en þar er saga þess er rakin. UMFE var stofnað 5. maí 1920 í Barnaskólahúsinu. Að auki gaf félagið út tvö blöð, "Geisli" eldri deildarinnar og "Stjarna" blað yngri deildar. Steinn Guðmundsson glímukappi lagði alla keppinauta og vann til 1. verðlauna á kappmóti Ármanns. Jakobína Jakopsdóttir fór utan til Noregs f.h. HSK og UMFE í boði norskra ungmennafélaga.

Pólitík: Bifreiðastjórar á Eyrarbakka mótmæla bensínskatti. Kosningahiti var mikill í fólki hér enda þorpið einskonar átakasvæði milli íhalds og alþýðu. Kjörsókn varð þó í slakara lagi, því af 257 sem voru á kjörskrá kusu 177 eða 68%. (íbúar voru um 620) Fundað var á Eyrarbakka um stofnun samvinnufélags um verslun sunnalands með höfuðstöðvar á Selfossi við Ölfusárbrú og hafnaraðstöðu á Eyrarbakka. Skömmu síðar var Kaupfélag Árnesinga stofnað á Selfossi og var ráðgert að það hefði einig útibú á Eyrarbakka. Bráðabrigðareglugerð var nú í gildi um að vista mætti þurfalinga á Litla-Hrauni við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuði fyrir leti, þrjósku ofl. Félag stofnuðu ungir Sjálfstæðismenn hér og var form. Björn Blöndal Guðmundsson. Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) var og stofnað, Eggert Bjarnason og séra Sigurður Einarsson stóðu að stofnun þess.

Báran: Eyrbekkingar vildu knýja fram kröfu um eina krónu um klst. í vegavinnu og töldu sig reiðubúna til að hefja verkfall unz þeirri kröfu væri fram fylgt. Ekki kom þó til verkfallsins, en samið var um 90 aura á klst. Sem var sambærilegt við almennt tímakaup verkamanna í plássinu. Hafði þá kaup við vegavinnu hækkað um allt að15 aura. Formaður var Andrés Jónsson í Smiðshúsum en síðan Þorvaldur Sigurðsson skólastj.

Hamfarir: Hvítá flæddi yfir Skeiðin og Flóann, Ölfusá mórauð flæddi um Tryggvaskála svo ferja þurfti fólkið þar í land á báti. Lagðist flóðið niður Breiðumýri og Stokkseyrarmýrar allar. Bátur frá Eyrarbakka var fenginn til aðstoðar við björgun fólks og fénaðar á Skeiðum en meira en 100 kindur höfðu þar drepist sem og víðar í Flóa.

Heilsa: Berklaveiki illræmd gekk um landið, en dauði af þess völdum var þó einna minstur á Eyrarbakka. 247 íslendingar voru haldnir berklum þetta ár.

Látnir: Guðmundur Guðmundsson Þurrabúðarmaður í Gýjarsteini (85). Guðmundur Guðmundsson þurrabúðarmaður í Merkisteini (79) Jón Jónsson bakari frá Einarshöfn (75). Jónas Halldórsson þurrabúðarmaður frá Grímsstöðum (70). Ingigerður Vilhjálmsdóttir vinnukona í Einarshöfn (68). Guðlaug í Kirkjubæ Guðjónsdóttir frá Skúmstöðum lést af völdum kolsýrueitrunar af kolaofni (32). Hún var kona Sigvalda M Sigurðssonar (33) Breiðfirðings sem kafnaði í þessu sama slysi um áramótin. Þau voru nýgift og áttu barn sem lifði. Þórarinn Einarsson sjómaður í Nýjabæ (45). Hann lét eftir sig konu og 7 börn ung.

Af ströndinni: Víðreist gerði Guðmundur Gíslason læknis hér á Eyrarbakka, en hann fór við þriðja mann til Grænlands, höfðu þeir með sér 25 íslenska hesta. Flugvél "Súlan" flaug hér yfir þorpið, en flugvélar voru enn sem komið var fremur fágætur farkostur. Kristinn Jónasson var rafstöðvarstjóri hér á Bakkanum og einnig hafði hann til sölu útvarpsviðtæki, Telefunken og Philips, en Ríkisútvarpið var stofnsett þetta ár. Sigurjón Ólafsson listamaður hlaut verðlaunapening úr gulli frá danska listaháskólanum.

Tíðin: Votviðrasamt og heyjannir gengu illa. Óveður mikið 1.des og varð nokkuð tjón á húsum á Borg í Hraunshverfi. Stóra hlaðan á Háeyri fauk upp á mýri. Járnplötur fuku af Deild og rúður úr mörgum húsum.

 

Heimildir: Skinfaxi, Alþýðubl. Morgunbl. Ingólfur. Ægir, Íslendingur, Verkalýðsblaðið,Vísir, gardur.is, 

Flettingar í dag: 219
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 168
Gestir í gær: 118
Samtals flettingar: 2846096
Samtals gestir: 347963
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 06:41:04