30.04.2013 22:59

Sú var tíðin, 1926

 Árið 1926 var síður en svo auðvelt ár fyrir íbúa strandarinnar. Taugaveiki, sjóhrakningar í tvígang, stórbruni á Stokkseyri, samdráttur í verslun og fólksfækkun. Þorpsbúar létu þó ekki deigan síga. Sjógarðar sem féllu í flóði fyrra árs voru nú endurnýjaðir að fullu. Skólpræsi voru hér ekki komin en almennt voru kamrar við hvert hús. Brunnvatnið var enn við líði, en brunnarnir ótryggir margir hverjir. Sjúkrahúsbyggingin hafði nú staðið auð í ára raðir vegna fjárskorts og allar rúður í því brotnar. Samþykkti sýslan nú að veita fé til að fullgera "Eyrarspítala". [ Í desember var húsnæði spítalans, (Litla-Hraun) auglýst á uppboði hér á Eyrarbakka] Útvarpstæki voru mjög farin að riðja sér til rúms um þessar mundir. Járnbrautarhugleiðingar voru ekki alveg horfnar úr umræðunni, þó ekkert hafði áunnist í þá átt í allmörg ár og enn var rætt um byggingu hafnar í Þorlákshöfn með sama árangri. Deilt var hart um hvar byggja ætti Héraðsskóla sunnlendinga, en valið stóð um Reykjafoss í Ölfusi, eða að Laugarvatni, var þá samþykkt að leysa málið með undirskriftasöfnun um hvor staðurinn yrði fyrir valinu. Framræsla á mýrinni var talsvert í umræðunni og leiðir til fjármögnunar á því stórvirki. Eyrbekkingar og aðrir landsmenn gengu að kjörborðinu í tvígang og var kjörsókn þannig: Á Eyrarbakka kusu 170 af 270 á kjörskrá, á Stokkseyri 80 af 240, í Sandvíkurhreppi 28 kjósendur. Annars var kjörsókn dræm í sýslunni. Í síðari kosningunum sem voru til Alþingis kusu 130 á Eyrarbakka. Bátabryggjan var fullgerð, steinsteypt og að nokkru leyti með járnbindingum. Hún var 70 m löng, 6 m breið og náði hún fram að stórstraumsfjöru. Bryggjan kostaði öll um 33.000 kr. Í flestum minni verslunarstöðum landsins var fólksfjölgun, en á öðrum fækkaði fólki stöðugt til nálægra kaupstaða. Eyrarbakki og Stokkseyri fóru ekki varhluta af nálægð sinni við Reykjavík, með batnandi samgöngum. Á Eyrarbakka bjuggu nú 754 að jafnaði á árinu 1926 og hafði fækkað um 54 frá fyrra ári. Margt kemur til, bílaöldin var runnin upp, togaraútgerðir og fiskvinnsla í stæstu kaupstöðum við Faxaflóa, tækniframfarir og vélvæðing ýmiskonar, atvinnumöguleikar, menta og heilbrigðisstofnanir á sömu stöðum, en á meðan að Árnessýsla fékk litlu áorkað í sömu átt og enn flest sem áður var í búskaparháttum og sjósókn. Hafnleysið hrjáði þegar millilandaskipin stækkuðu og vélvæddust og þurftu meiri þjónustu við land en áður.

Verslun: Þrátt fyrir töluverða fólksfækkun undangengin ár voru verslanir hér enn margar, svo sem Kf. Hekla sem barðist í bökkum, nú sem aldrei fyr1, Verslun Andrésar Jónssonar, Timburverslun Sigurjóns P Jónssonar, Verslun Guðlaugs Pálssonar, Verslun Ólafs Helgasonar. Hinsvegar dró Jóhann V Daníelsson verslun sína saman á þessu ári, með því að selja út allann vörulager. Flutti hann síðan til Reykjavíkur. Steinolíuútibúið hóf að selja bensín um þessar mundir.

1.[ Kaupfélagið Hekla hafði nú starfað á Eyrarbakka í 22 ár og var í upphafi lítið og fámennt félag sem óx fljótt fiskur um hrygg og efldist mjög fram undir fyrra stríð. Félagið keypti Lefolii verslun árið 1919 og landeignir þess. Gekk það svo í Samvinnufélögin 1922. Um nokkurt árabil hafði reksturinn verið í járnum og ólukkan elti. Félagið varð fyrir margvíslegu tjóni og þurfti að sæta afarkostum á aðfluttningsgjöldum. Verðhækkun, gengistap, hávextir og aukin samkeppni sökktu því í skuldafen. Til að bæta gráu ofan á svart, þá fórst kolaskip er til þess átti að koma og oft þurfti að afskrifa ýmsar vörur sem skemdust í flutningi. Eignir félagsins utan verslunarrekstrar voru helst: Jarðir tvær (Einarshöfn og Skúmsst.), með hafnrétti, skipt í leigulönd, nálægt 50 þurrabýla. Íbúðarhús tvö, peningshús, hlaða, skemmur nokkrar, bökunarhús, íshús, sölubúðir tvær stórar og fjögur vöruhús mjög stór. Fjöldi manna starfaði hjá félaginu. Mikil kreppa blasti því við Eyrbekkingum nú þegar Sparisjóðurinn var fallinn og hugsanlegs gjaldþrots Kf. Heklu]

Stórbruni á Stokkseyri: Aðfaranótt 10. desember 1926 brunnu Ingólfshúsin á Stokkseyri til kaldra kola. Ingólfshúsin samanstóðu af 7 verslunar og pakkhúsum. Þar á meðal íshús fullt af kjöti og fiski. Íbúðarhús tvö voru einig á torfunni. Margir urðu þar fyrir geysilegu tjóni, svo sem Ásgeir kaupmaður Eiríksson sem tapaði vörum sínum í eldinn þrátt fyrir að þeim hafi verið bjargað útfyrir. Magnús Gunnarsson, en vörum hans var rutt út og tvístrað hingað og þangað, út í kirkjugarð og um allar trissur þó ekki brynni hjá honum. Sigurður Heiðdal og Böðvar Tómasson, Jón Sturlaugsson og Jón Jónsson, töpuðu ýmist veiðarfærum báta sinna, útbúnaði öllum og beitu. Jón Jónasson hreppstjóri misti nær fulla hlöðu af heyi. Hafði sparisjóður [Árnessýslu] Eyrarbakka þá aðeins nokkrum dögum fyr, selt eða leigt eitt húsið, en tveir ungir menn hugðust hefja þar verslun. [Ingólfsfélagið varð gjaldþrota um 1924]. Þegar eldsins var vart var þeyttur brunalúður. Stokkseyringar og Slökkviliðið á Eyrarbakka, sem og þorpsbúar, allir sem vettlingi gátu valdið, þustu á vettvang með öll slökkviáhöld sem fyrir fundust í þorpunum ásamt dælum slökkviliðsins, en þrátt fyrir það varð ekkert við ráðið. Svo magnaður var eldurinn í verslunarhúsunum að nálægir símastaurar fuðruðu upp sem eldspítur. Sex önnur nálæg íbúðarhús tókst að verja, en í einu þeirra var símstöð Stokkseyrar. Þegar eldtungurnar náðu sem hæst, var talið glójart og lesljóst allt undir Ingólfsfjall að sögn.

[Slökkviliðsstjóri var Einar Jónsson. Húsin sem brunnu voru: Ingólfshúsið, í fyrstu bygt af Grími Gíslasyni í Óseyrarnesi.  Íshús Jóns Sturlaugssonar. Zöllnershús, afar stórt og vandað pakkhús reist af Copland og Berrie um 1900. Varmidalur, verslunarbúð Ásgeirs Eiríkssonar. Heyhlaða og nokkrir geimsluskúrar undir veiðarfæri. Tjón Stokkseyringa var gríðarlegt í öllu tilliti. Húseignirnar voru auglýstar til sölu í nóvember 1926, í heilu lagi eða hver fyrir sig, með lóðarétti eða til niðurrifs.]

 

Skipakomur: Lagarfoss kom hér við miðsumars og Gullfoss losaði í Þorlákshöfn vörur til Eyrarbakka, ásamt farþegum nokkrum, en aðrar skipa og bátaferðir er ókunnugt um. Vélbátaferðir voru þó nokkuð tíðar frá Eyrarbakka og Stokkseyri til Vestmannaeyja, sem og til Reykjavíkur.

Sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði hægt hjá mótorbátum, en ágætur ýsuafli á róðrabátum. Í mars og apríl aflaðist með ágætum, þá er gaf á sjó. Þeir sem sóttu vestur á Selvogsbanka náðu oft góðum afla. Um haustið veiddist mikið af síld í reknet, og var mikið af því saltað í tunnur en einnig ísfryst í beitu. Hámeri spillti þó veiðinni mikið og stórfiskur var um allann sjó utan skerja. Um miðjan september voru kominn um 40 tonn af síld á land. Sæmilegur fiskafli var á haustvertíð.

[300 síldartunnur voru fluttar út héðan]

 

Sjóhrakningar: Þann 13. apríl 1926 reru 17 bátar af Eyrarbakka og Stokkseyri og fóru flestir vestur undir Selvog (2 ½ klst sigling frá Stk). Þegar á daginn leið gerði landsynningsrok og brim svo mikið, að aðeins 8 bátarnir gátu lent heima, en hinir urðu að láta fyrirberast úti á rúmsjó. þegar sýnt þótti, að bátarnir næðu ekki landi var símað til stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það, að skip á þessum slóðum, sem til næðist yrðu beðin að koma bátunum til hjálpar. Var þá strax sent skeyti til allra skipa á þessu svæði og þau beðin að líta eftir bátunum. Strax um kvöldið voru fimm íslenskir togarar komnir á vettvang til hjálpar, þeir Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra, Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir einn bátinn "Trausta" frá Eyrarbakka og dróg hann til Reykjavíkur, en Skallagrímur bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", einig frá Eyrarbakka. Liðaðist hann sundur og sökk, en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum, Hannes ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til Vestmannaeyja. Þann 8. apríl gerðist viðlíka atburður þegar allir bátar Stokkseyringa og Eyrbekkinga lokuðust úti vegna brims, en að þessu sinni var ekki skaðræðis sjór, en allhvöss norðanátt svo menn biðu rólegir af sér brimhretið. Það var svo ekki fyrr en daginn eftir og fram á kvöldið sem bátarnir náðu lendingu. Svo óheppilega vildi til að "Trausti" brotnaði þá mikið í lendingunni. Er hér var komið höfðu Eyrbekkingar tapað tveim vélbátum frá veiðunum.

["Öðling" áttu Árni Helgason í Akri, Guðmundur Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson á Litlu Háeyri, sem var þá háseti á Skallagrími og í þeirri einkennilegu stöðu að heimta skipverja og nágrana úr helju. Formaður á "Trausta", var Jón Jakopsson í Einarshöfn en átta voru í áhöfn hans. Skipstjóri á "Gylli" var Ingvar Einarsson frá Reykjavík. Þótti þessi hjálp frá togurunum mikið afrek enda einsdæmi hve mörg mannslíf voru hér í húfi, eða um 100 manns og engan þeirra sakaði. Á "Hannesi Ráðherra" var skipstj. Guðm. Markússon, og "Earl Kitchener",  var skipstjóri Alexander Jóhannsson, en þeir aðstoðuðu Friðrik Sigurðsson, form. á vélb. "Svanur" og  Jón Helgason, form. á vélb. "Freyr" að koma bátum sínum ólöskuðum til Vestmannaeyja.]

Samfélag: U.M.F.E tók upp á þeirri nýbreittni að halda einskonar kvöldvökur, þar sem piltarnir hnýta net, skera í tré o. fl. Stúlkurnar sauma, prjóna o. s. frv. Á meðan las einn upphátt: Þjóðsögur, kafla úr íslendingasðgum, kvæði o, fl.  Á miðri vöku var drukkið kaffi. Allir höfðu með sér kaffi mal að heiman, sykur og brauð, og var öllum forðanum steypt saman. í vökulokin var húslestur og sálmar sungnir. Þessi háttur varð mjög vinsæll í báðum deildum (aldursflokkum). Í félaginu voru þá 150-160 félagar.  Stofnuð var ný stúka á Eyrarbakka með 24 félögum. Hét hún "Alda" en stúkan, sem var hér áður, "Eyrarrósin" féll niður. Glímukappar komu og héldu sýningu fyrir þorpsbúa, áður en farið var utan til Danmerkur, en þar stóð til að kynna íslenska glímu. Á meðal þeirra var Björn Blöndal Guðmundsson verslunarmaður og Kári Sigurðsson trésmiður, báðir frá Eyrarbakka. Þeir komu svo heim með Gullfossi og stigu í land í Þorlákshöfn. Í skátafélaginu Birkibeinum voru 21 skáti, en félagið var nú 5 ára. Ketill Gíslason var flokksforingi. Félagið var fátækt og átti erfitt um vik með að afla sér styrkja til að efla félagið. Pólitískir forustumenn heimsóttu Bakkann, svo sem kratinn Jón Baldvinson o.fl. Þá kom hér Dr. Heinrich. Erkes, háskólabókavörður í Köln og alþekktur Íslandsvinur á þessum árum. Hingað komu líka skátar úr Reykjavík, "Væringjar" og komu þeir fótgangandi alla leið. Flöskuskeyti rak hér á fjörur og var það frá erlendu skipi. Rauðikrossin hélt hér hjúkrunarnámskeið í boði kvenfélagsins, 33 stúlkur sóttu. Leiksýningar vorur reglulega haldnar í samkomuhúsinu Fjölni af leikfélaginu hér.

Samgöngur: Sigurður Óli Ólafsson var með fastar ferðir milli Eyrarbakka og Reykjavíkur þrjá daga í viku, bæði með fólk og flutning.  Bílafloti hans var, Ford fólksbíll, Overland fólksbíll, Dodge vöruflutningsbifreið, tveir Cevrolet hálfkassar og nýr Buick. [Eitthvað af þessum bílaflota var til sölu.] Vörubílastöðin í Reykjavík sendi hingað vörur eftir þörfum. Aðrir í þessari samkeppni um farþeganna var Bifreiðastöð Steindórs með Buick bifreiðar og Bifreiðastöð Reykjavíkur, sem var aðalega útbúinn Fíat-bifreiðum.

Heilsufar: Taugaveiki kom upp á heimili Gísla héraðslæknis og Aðalbjörgu konu hans og þrem öðrum húsum. Höfðu 5 til 10 manns tekið veikina. Unglingsstúlka, fósturdóttir þeirra læknishjónanna, Vígdís Ólafsdóttir lést fljótlega af völdum veikinnar og nokkru síðar dóttir þeirra, Valgerður Aðalbjörg, 7 ára, og síðan Karen Ólafsdóttir í Garðbæ, er þar lá þar veik.  Var talið að smitið hafi borist með mjaltakonu einni er stundaði kýrnar á Garði, ( þar voru tvær kýr) og í mjólk er keypt var til heimilis læknisins. Gerðar voru fyrirbyggjandi ráðstafanir með aðstoð landlæknis. (Auk Gísla Péturssonar var læknir hér Lúðvík Nordal). Ljótt slys varð um áramót, þegar drengir voru að leika sér að því að sprengja flugelda, og tókst svo hrapallega til, að einn drengurinn misti tvo fingur af annari hendi.

Látnir: Guðríður Guðmundsdóttir, Vinaminni (81), Jón þurrabúðarmaður, Guðmundsson, Eyvakoti (78), Gísli bóndi Ólafsson, Stekkum (71), Valdís Vigfúsdóttir Skúmstöðum (Götuhúsum), Ástmundur rafvirki Guðnason, Einarshöfn (25), Karen Ólafsdóttir Garðbæ (22), Vígdís Ólafsdóttir Læknishúsi (20), Ásmundur Guðnason togarasjómaður frá Einarshöfn,(26) eftir langvarandi vanheilsu. [Hann var einkasonur Guðna Jónssonar og Sigríði Vilhjálmsdóttur], Valgerður Aðalbjörg Gísladóttir, Læknishúsi (7).

[Ásgeir Blöndal fv. héraðslæknir f. 1858. Valgerður Magnúsdóttir,Vívatson í Norður Dakota f.??. Kristín Helgason í Chicago f.1838]


Sveitin: Skemtisamkoma var haldin við Ölfusárbrú þann 22. ágúst, en mánuði áður hafði komið þar við þýsk hljómsveit, Hamburger Philharmonisches Orchester. Um miðjan desember stóðu þar 10 bílar fastir í snjó og komust hvergi og urðu 30 manns að gista í Tryggvaskála af þeim sökum. Þá varð bruni við Ölfusá (Selfossi). Brann þar vörugeymsluskúr sem verslunin Höfn (útibú Heklu) átti og voru aðallega geymd í skúrnum kol, steinolía og bensín. Skúrinn brann til ösku.

 

Tíðarfar og náttúra: febrúar  var mjög hlýr, hæst fór hitinn hér í 8,3°C. Í mars var úrkomusamt og talsvert yfir meðallagi. Í apríl fór hitinn hæst í 12,3°C. Í maí 17.9°C hæst, en stormasamt var þó þennan mánuð. Sæörnin (Haförn) var að hverfa úr Árnessýslu. Nokkrir ernir höfðu á árunum áður hafst við í Ölfusi og afréttum Gnúpverjahrepps en drepist flestir af refaeitri. Nú var talið að aðeins einn eða tveir Sæernir væru eftir í Sýslunni og héldu þeir til í Ölfusi. Í júní mældist hæst 20°C, og hagstæð tíð. Vinna hófst við að hefta sandfok og girða sandgræðslureitinn á ný eftir sjávartjón síðasta vetrar. Þá var safnað talsvert af melfræjum um haustið til frekari uppgræðslu. Í júli var heitast 20,7°C á Eyrarbakka, en annars var úrkomusamt. Í ágúst fór hitinn í 19.1°C, annars votviðrasamur. Kartöfluræktun var hér mikil sem áður og var uppskeran mestmegns seld í verslunum í Reykjavík. Snemma í september fór hitinn í 16.1°C en um miðjan kom frostið. Í lok oktober mældist 10 stiga frost, en mánuðurinn var kaldur, sem og nóvember, en þá mældist 9 stiga frost og í desember var það mest -11°C. Sjógangur var mikill og brotnaði sjógarður vestan við þorpið [80m kafli] og árabátur sem þar var. Einnig bryggja nokkuð.

Aths. Þar sem heimildir í blogþáttunum "Sú var tíðin" eru unnar mestmegnis úr fréttum blaða og tímarita er ekki hægt að ábyrgjast að heimildir þessar séu áræðanlegar í öllum tilvikum. Leitast er við að telja ekki upp atriði eða atvik sem augljóslega eru röng, eða mikill vafi leiki á, ella hafi komið í ljós leiðrétting eða gagnrýni annarstaðar í sömu heimildargögnum.

Heimild: Dagblöð og vikurit 1926: Aldan, Morgunblaðið, Vísir, Ísafold, Dagblað, Verkamaðurinn, Tíminn,

Önnur rit: Árbók Héraðssambandsins Skarphéðins - 1926. Templar, Hlín,Veðráttan, Búnaðarrit, Óðinn, Liljan, Íþróttablaðið, Tímarit verkfræðifélagsins, Ægir, Samvinnan,

Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 168
Gestir í gær: 118
Samtals flettingar: 2846176
Samtals gestir: 347969
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 08:15:44