21.04.2013 11:40

Sú var tíðin, 1925

Tilgátumynd Íbúar voru 808 á Eyrarbakka árið 1925 og hafði fækkað um 35 frá fyrra ári. Reykjavík sogaði til sín fólk héðan af ströndinni. Þurrabúðir og kot voru smám saman að leggjast í eiði. Höfuðstaðurinn dró til sín námsmenn, sem og verkafólk til ýmsra starfa og sjómenn. Á Bakkanum vonuðust menn eftir símalínu allt vestur til Reykjanes, því bátar héðan fóru oft vestur að Sandgerði til veiða, en 16 ár voru nú liðin síðan símstöð var opnuð á Eyrarbakka. Íslenska sjóstakka vildu sjómenn hér fá í tilraunaskyni í stað erlendra. Bryggjugerðin var hinsvegar mesta framfara skrefið um þessar mundir.

Sjávarútvegur: Aflalaust var við ströndina í janúar,febrúar og mars, en einhverjir bátar reyndu fyrir sér þegar gaf á sjó. Vertíðin hófst svo fyrir alvöru 20. mars og gerðu 24 mótorbátar út frá Eyrarbakka og Stokkseyri. Aflaðist strax ágætlega og menn töluðu um "aflahrotu" hér sunnanlands. Í aprílbyrjun var slíkur landburður af fiski að menn hér mundu ekki annað eins. Heldur dró úr fiskigengd er á leið vertíðina. 3.520 skipspund komu á land á Eyrarbakka og Stokkseyri þessa vetrarvertíð og rúm 500 í Þorlákshöfn. Ekkert aflaðist um sumarið. Útgerðin hér við ströndina vildi láta koma á landhelgisgæslu á fiskimiðum Stokkseyrar og Eyrarbakka, en enskir togarar voru orðnir aðgangsharðir hér á miðunum. Stofnaður var lendingasjóður til að standa straum af hafnargerð er fram liðu stundir.

SkaftfellingurSkipakomur: Mb. Skaftfellingur kom hér 21. maí og síðan eina ferð í mánuði yfir sumartímann.  Mb. Úlfur hafði boðað komu sína, en sneri frá vegna vélarbilunar. "Villemoes" kom með steinolíu til útibús Landsverslunar. "Annaho" kom með salt til Eyrarbakka og Stokkseyrar. "Svanur" kom seint í nóvember með kol til kf. Heklu.

[í Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslum höfðu kaupmenn fengið  hafskip með vörur beint frá útlöndum undangengin þrjú ár, sem skipað var upp á Skaftárós, Vík, Holtsós, Hallgeirsey og í þykkvabæ. Það var Ásgeir Jónasson skipstjóri frá Hrauntúni sem fyrstur sigldi skipinu Borg á þessa staði.]

Sjóslys: Enska togveiðiskipið "Viscount Allenby" strandaði við Þorlákshöfn í brimi og svarta myrkri. Áhöfnin 10 menn björguðust með aðstoð Þorleifs Guðmundssonar og hans manna í Þorlákshöfn [alls 4 menn auk Sigurðar Þorleifssonar sem var 13 ára]. Náðu sjómennirnir að handstyrkja sig á kaðli til lands þar sem þeir voru gripnir úr brimlöðrinu. Skipið sökk skömmu síðar. [Skipstjórinn var Mr. Thomas Wren]

Verslun: Kanpfélagið Hekla á Eyrarbakka byrjaði að byggja bús við Ölfusárbrú. Þar var væntanlegt útibú frá félaginu. [ Kaupfélagið Höfn] C. Pedersen lyfsali á Eyrarbakka fór héðan alfarinn erlendis en áður seldi hann lyfjabúð sína dönskum lyfjafræðingi.

Landbúnaður: Kartöfluræktun á söndunum var orðinn stór útvegur um þessar mundir. Fjár og kúabúskapur var jafnan til hliðar við önnur störf.

Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur og Steindór héldu einkum uppi samgöngum milli Eyrarbakka og Reykjavíkur yfir sumartímann.

Samfélag: Heimilisiðnsýning var haldin hér fyrir tilstulan U.M.F.E. Glímukappar U.M.F.Í héldu sýningu í Fjölni. Á meðal þeirra var Árnesingurinn, Sigurður Greipson, en hann var einnig með íþróttakennslu hér á Eyrarbakka og Stokkseyri. Söngfuglinn Sigurður Birkis söng sig inn í hjörtu Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Jón Jónsson læknir stundaði tannlækningar hér um mánaðar tíma. Þann 6. febrúar voru húsmæður á Eyrarbakka boðaðar á fund, sem halda átti vegna sögusagna um að stofna ætti "her" hér á landi til að berja á alþýðunni. Hvort þessi skröksaga alþýðuleiðtoga landsins hafi fengið Eyrbekkskar húsmæður til að storma á fundinn er hinsvegar ekki vitað. Hvort þessar skröksögur hafi orðið Bjarna Eggerts oddvita að yrkisefni er hann samdi Alþýðustökur sínar einnig óljóst:

Oft eru kvæðin efnissmá

og ekki á réttum nótum.

sem að kveðin eru á

eykta- og gatna-mótum.

 

En þó er gull og gersimar

geymd í þessum sjóðum

og margt af slíku metið var

móti bestu ljóðum.

En það voru fleiri sem kunnu að kveða á Bakkanum, svo sem Sigfús Guðmundsson snikkari sem kvað yfir spilum:

Að spila "vist" er lífsins list

lífgun tvistu sinni,

eins og kyst sé refla-rist

rjóð í fyrsta sinni.

Íþróttamót var haldið að Þjórsártúni og í 100 m. hlaupi fékk 2. verðlaun Kári Sigurðsson, U.M. F. Eyrarbakka (13 1/5 sek.). Annars voru Hrunamenn hlutskarpastir í flestum greinum. Þá var haldin þar iðnsýning í tengslum við mótið. Vefnaður frú Herdísar Jakobsdóttur og nemenda hennar á Eyrarbakka, vakti mikla eftirtekt, einkum fyrir smekkvíslega litablöndun og fögur munstur og mikið þótti og varið í prjónanærföt frá bankastjórafrúnni á Selfossi. Aðalsteinn Sigmundssom skólastjóri sendi út áskorun til Eyrbekkinga, bæði heima í héraði og utanhéraðs um að styrkja skólann, sem ekki var vanþörf á. Söngfélagið Þrestir úr Hafnafirði tók lagið hér á Bakkanum. Þórdís Símonardóttir ljósmóðir settist í helgan stein. Hafði hún þá tekið á móti um 1.500 börnum.

Látnir: Ólafur Teitsson hafnsögumaður Skúmstöðum (86), Magnús Ormsson (83), hann var um langt skeið hafnsögumaður og formaður hér á Eyrarbakka. Sesselja Ólafsdóttir skúmstöðum (73), [ekkja Ebenesers Guðmundssonar gullsmiðs], Jón Hannesson bóndi Litlu-Háeyri (72) Árni Árnason þurrabúðarmaður í Stíghúsi (60), Sigurður Pálsson Laufási (28), [Hann andaðist á Franska spítalanum í Fáskrúðsfirði], Guðríður Guðmundsdóttir Háeyrarvöllum (1).

[Sigurður Eirlksson er um tíma bjó á Eyrarbakka. Hann stofnaði sjómanna félag á Eyrarbakka og Stokkseyri og í Keflavík.]

Sýslan og sveitin: Hugmyndir voru uppi um stofnun héraðskóla Suðurlands að Reykjafossi [nú Hveragerði] í Ölfusi. Skemtisamkomur voru oft í Tryggvaskála við Ölfusárbrú, en þar rak Guðmunda Níelsen veitingahús.

Tíðarfar og náttúra: 14-21 janúar gerði stormviðri og stórsjó. Þann 21. braut sjórinn og eyddi sjávarvörnum við Stokkseyri, Eyrarbakka og Grindavík og flæddi langt upp á land og gerði mikið tjón. Fólk margt flýði úr húsum sínum. Sjógaðurinn frá Stokkseyri að Hraunsá lagðist allur undan sjóganginum. Sömu leið fór sjógarðurinn frá Eyrarbakka og vestur á Óseyrarnes, sem og garðar fyrir Hrauns löndunum féllu víðast. Girðingar allar í sandgræðslunni þar fyrir innan eiðilögðust og hálfgróin sandgræðslureiturinn fyllti af sandi. Steinolíuport kf. Heklu fauk að miklu leyti og skemdir urðu algerar á innsiglingamerkjum [Sundvörðum] og nýlegum ljósabúnaði þeirra. Matjurtagarðar Eyrbekkinga er lágu fleiri hndruð metra með sjógarðinum og biðu sáningar urðu fyrir einhverjum skakkaföllum. Heyskaðar höfðu einnig orðið hér í grend og lítil hlaða fauk á Stokkseyri. Foktjón varð víða í uppsveitum. Úrkomusamt mjög var í Mars, Júní og júlí. Lóan kom þann 2. apríl, en það er sá dagur sem hún hefur oftast komið á  að meðaltali. Nóvember var fremur hlýr á Bakkanum.

Ýmislegt: Það gat verið erfitt verk og ekki hættulaust að sveifa bifreið í gang, en það fékk Guðmundur Halldórsson úrsmiður að reyna, þegar hann ætlaði í smá sunnudagsbíltúr. Þegar bifreiðin hrökk í gang snerist sveifin með af afli og braut handlegg hans mjög illa sem auk þess fór úr liði við úlnlið.

Heimildir, dgablöð 1925: Vísir, Morgunblaðið, Ísafold, Dagblað,Tíminn,

Tímarit 1925: Veðráttan, Ægir,

Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 168
Gestir í gær: 118
Samtals flettingar: 2846116
Samtals gestir: 347966
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 07:06:45