15.04.2013 17:15

Sú var tíðin, 1924


Íbúar á Eyrarbakka árið 1924 voru 843* og hafði þeim fækkað um tæp 11% frá fyrra ári. Samskonar þróun átti sér stað á Stokkseyri. Vinnuaflsskorturinn í Reykjavík hefur ráðið mestu um fólksfækkun hér, þar sem atvinna við ströndina var meira árstíðarbundin og annars stopul. Sjúkrahúsbyggingunni sem var nær lokið var nú í biðstöðu þar sem fé skorti til áframhaldandi framkvæmda. Vonir stóðu til að "Eyrarspítali" yrði útbúinn röntgentækjum þegar framkvæmdir kæmust aftur í gang. Engin vatnsveita var komin á Eyrarbakka, og var það farið að há framtíðarþróun þorpsins, en þannig vatnsöflun var hér ýmsum örðuleikum bundin. Brunnvatnið varð því enn að nota sem fyr.

Atvinna: Atvinna var næg á meðan vertíðinni stóð. En búist var við almennu atvinnuleysi yfir sumarið, þar sem gert var ráð fyrir, að  framkvæmdir við Flóáveituna myndu liggja niðri þetta árið, en við hana unnu að jafnaði fjöldi manna af Eyrarbakka og Stokkseyri. Eitthvað var þó unnið við vegavinnu á Eyrarbakkavegi, suðurlandsveg og í uppsveitum sýslunnar. Vinna við bryggjuframkvæmdir voru líka einhverjar, en oft var hagur manna þröngur. Ungir menn héðan einhverjir réðu sig til sjós fyrir "sunnan", þá einkum á togara og landvinnu, en eftirspurn eftir duglegu verkafólki var mikil á Reykjavíkursvæðinu og ásókn í fólk héðan. Kom það sjaldnast aftur sem farið var.

Verslun og þjónusta: Sparisjóður Árnessýslu fjármagnaði kaup á nær öllum mótorbátum sem gerðir voru út hér í sýslunni auk veiðarfæra og reindist það heldur bratt veitt. Átti hann nú í vanda vegna rekstrartaps og varð að leita á náðir ríkisins. Tap sjóðsins umfram eignir nam þá um 14 %, eða tæp 500 þúsund kr sem á vantaði. Var þá lagt til að sjóðurinn mundi sameinast Landsbankanum og var það samþykkt á hluthafafundi gegn 75 % tryggingu innistæðna1. Tapið orsakaðist sumpart af því að vertíðin 1923 brást að mestu og síðan vegna mikils verðfalls á fiski. Almennt voru bankar landsins (Landsbanki og Íslandsbanki) að tapa af sömu ástæðum og einnig vegna gengistaps. Órói var enn vegna olíusölunnar hér, en landsverslun seldi olíufatið héðan 9 kr. dýrari en í Reykjavík. Olían fékst þá lækkuð nokkuð, eða svo munaði 7 kr. Olíuportið kölluðu gárungarnir "Héðinsskans".

Skipaferðir: Skipakomur höfðu verið  venju fremur miklar, þetta sumar. Eimskipið "Gullfoss" kom til Eyrarbakka 11. júli og náði að skipa upp megninu af þeim vörum er hingað áttu að koma. Kom það aftur hér mánuði síðar og tók héðan 500 balla af ull. "Willemoes" skip Landsverslunar kom tvívegis um sumarið og skipaði upp steinolíufarmi til olíuverslunarinnar hér, en í þriðju ferð sinni fékk skipið ekki samband við land þar sem allur mannskapur var í heyskap um þessar mundir,og fór það því að svo búnu 2. Strandferðaskipið "Skaftfellingur" kom og sótti fullfermi af fiski til útfluttnings. Tvö skip komu til Kf. Heklu, annað með kol og hitt með salt, kom það frá Spáni og var 14 daga á leiðinni upp. Svo kom Esjan og tók ull hjá kf. Heklu.

Sjávarútvegur: Sjómenn hér fluttu nær allt slóg sem til féll út á grunnmiðin. Var talið að fiskur héldist við lengur á miðunum væri þetta gert, þó ekki hafi verið þess vegna að nú bar svo við að óvenju vel aflaðist á vetrarvertíð og á stundum mokafli svo jafnvel að með fádæmum var. Saltlaust var orðið um miðja vertíð og var þá snarlega brugðist við um að fá saltskip hingað svo veiðar gætu hafist að nýju. Um 15% aflans var ekki verkaður til útfluttnings. (19.500 stk. ýsur og 2.264 stk. ufsi og keila). Á Eyrarbakka og Stokkseyri voru gerðir út 20 mótorbátar, allir undir 12 tn. Teinæringar voru 5 og 1 sexæringur. Sjómenn voru samtals 255 á þessum veiðistöðvum, þ.a. 162 á mótorbátum. Var þessi vertíð sú besta hingað til, sem sögur fóru af.

Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur (B.S.R.) hélt uppi fólksferðum milli staðanna, Eyrarbakka, Stokkseyri og Reykjavíkur tvisvar í viku yfir sumartímann og Bifreiðastöð Steindórs einn dag í viku. Bifreiðastöð Eyrarbakka (B.S.E.) var hinsvegar með daglegar ferðir milli þessara staða. Að B.S.E. stóðu Sigurður Óli Ólafsson, Steingrímur Gunnarsson, Bjarni Kr. Grímsson og Einar Einarsson. Vöruflutningabílar komu daglega úr Reykjavík, aðalega með verslunarvarning. Stöku ferðir áttu hingað aðrar bifreiðastöðvar, svo sem "Sæberg" í Hafnafirði.

Samfélag: Skátarnir ("Birkibeinar") gáfu út blaðið "Áhugi", en ritstjórar þess voru Björn Guðmundsson og Ketill Gíslason. Blaðið fjallaði aðalega um íþróttir og skátastarf. Íþróttamót var haldið við Þjórsárbrú. Í kappglímu drengja unnu til verðlauna 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M. F. Eyrrarbakka. 2. verðl. Dagbjartur Bjarnason frá U. M. F. Stokkseyrar. Í 100 m. hlaupi, l.verðl. Kári Sigurðsson frá U. M. F. Eyrarbakka. Í 100 m. hlaupi drengja 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M. F. E. Í langstökki, l.verðl. Kári Sigurðsson frá U. M. F. E. Í Hástökki, 1. verðl. Kári Sigurðsson frá U. M. F.E. Flesta vinninga á mótinu, 15 stig, hlaut U. M. F. Eyrarbakka. Fékk það að verðlaunum skrautlegt skjal, er teiknað hafði Sigurjón Ólafsson málaranemi á Eyrarbakka. Lítið fór fyrir pólitískri umræðu, en þó dúkkaði upp "Harð-jaxlinn" og grínistinn Oddur Sigurgeirsson sem boðaði bolsévisma í Eyrarbakkaborg, eins og hann kallaði staðinn og Bjarna Eggerts oddviti var borgarstjórinn í hans augum. Jafnaðarmannafélag Árnesinga, stjórnmálafélag innan Alþýðuflokksins, var stofnað á Eyrarbakka 24. nóvember. Stofnendur voru 56 af Eyrarbakka, Stokkseyri og víðar úr sýslunni.

Látnir: Jóhann Magnússon Einarshöfn (87), Guðbjörg Eyjólfsdóttir Hópi (84), Helga Ingvarsdóttir Túní (74), Þuríður Guðmundsdóttir Eimu (73), Sesselja Helgadóttir Gamla-Hrauni (35), Jóhanna Benediktsdóttir Litlu-Háeyri (27), Margrét Jóna Einarsdóttir grund (14), Ingileif Sigríður Pálsdóttir Sandvík (1), Sigurður Guðmunsson Háeyrarvöllum (1), Jón Eyvindur Sigurðsson Götuhúsum (0) Sveinbarn Eyvindsdóttir Bakaríi (0),

Byggingar: Steinskot II var byggt þetta ár.

Ýmislegt: P. Níelsen í Húsinu og fv. verslunarstjóri Lefolii verslunar var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar er hann varð 80 ára. Hann var fæddur í Ring-Köbing á Jótlandi, en kom hingað 1872, og varð þá bókhaldari við Lefoliisverslun á Eyrarbakka. Forstjóri hennar var þá Guðmundur Thorgrímsen. P. Nielsen kvæntist dóttur hans Eugeniu, 25. júlí 1880,  og tók hann við forstöðu verslunarinnar af tengdaföður sínum 1. janúar 1887. Hvatamaður hafði hann verið að ýmsum þörfum framkæmdum og velferðamálum. Hann stofnaði  m.a. ábyrgðarsjóð fyrir róðrarbáta og kom ýmsum umbótum af stað. Hann var auk þess mikill hvatamaður fyrir náttúruvernd á Íslandi. Þá gaf hann Barnaskólanum mest allt Náttúrugripasafnsitt3.  Sláturfélag Suðurlands gerði tilraun til að slátra fé Árnesinga að Borg í Grímsnesi. Það þótti tilkomumikil sjón þegar tvær sjóflugvélar enskar, flugu hér yfir á leið til Reykjavíkur. Það bar við að Hvítá þornaði upp að öllu dagstund þann 29. febr.

Þjóðarhagur: Nefnd var sett á fót til að annast gengisskráningu krónunnar og festa gengi hennar. Dollarinn kostaði 7 kr. og 56 aura, en dönsk króna kostaði 125, kr. og 69 au. Verslunin greiddi 5% af hreinum arði til útsvars. Fiskveiðiárið var eitt það mesta í sögunni og landbúnaðarvörur voru í góðu verði til útfluttnings.

?

1.  Vegna slæmrar stöðu Sparisjóðsins var haldinn fundur með innstæðueigendum 6. okt. 1923. Fundur þessi var afarfjölmennur og niðurstaðan varð þá helst sú, að sjóðurinn héldi áfram að starfa og ynni töpin upp aftur. Á  fundi þessum var kosin nefnd til nánari athugunar á málinu. Nefnd þessiboðaði svo aftur til fundar með innstæðueigendum þann, 24. nóv s.á. Var þá aftur fjölmennur fundur haldinn um málið og skýrði þá nefndin frá störfum sínum: að hún hefði reynt að ná samkomulagi við bankana [Landsbankann og Íslandsbanka] um, að annarhvor þeirra tæki hann að sér, en alt kom fyrir ekki, og nú sæi hún ekki annað ráð vænna, en að sjóðurinn héldi áfram og reyndi að hafa sig upp aftur.Nefndin hóf á ný  samningaumleitanir og sótti aftur í sama horfið, að Landsbankastjórnin vildi fá sjóðinn með sem mestum afföllum, 25% af innstæðueigendum og landið ábyrgðist 5%, alt svo með 30% afföllum. En svo fóru leikar, að landsábyrgðin fékst ekki, og enn var haldinn fundur um málið með innstæðueigendum 2. júlí 1924 og kom þá fram það tilboð, að Landsbankinn væri fáanlegur til þess að hirða sparisjóðinn, ef innstæðueigendur vildu fórna til þess ¼ af innstæðufé sínu. Fundurinn beygði sig undir þessa vandræða úrlausn, að undanteknum fáum mönnum, sem ómögulega gátu felt sig við þessa bóndabeygju. En sögu stærsta og öflugasta sparisjóðs landsin lauk hér.  [Ransóknarnefnd skipuð heimamönnum mat tapið 6% í ljósi bætts hags til sjávarins á vertíðinni 1924, en rannsóknarnefnd ríkisins mat tapið rúm 14 % m.v. þann aflabrest sem varð 1923].

2. Eftir að " Es. Willemoes" fór héðan óafgreitt,  í þriðju ferð sinni, varð allmikið hafarí út af þessu, þar láðist afgreiðslumanni að láta skipstjóra olíuskipsins vita að ekki yrði hægt að losa skipið fyrr en á flóði næsta dags, þar sem allir verkfærir menn voru við heyskap. Olían var síðan sótt til Reykjavíkur og flutt hingað á mótorbátunum.

3. Náttúrugripasafn P.Níelsens sem hann afhenti Barnaskóla Eyrarbakka til varðveislu var þannig a. m. k.:  23 uppsettir ísl. fuglar, sumir sjaldgæfir; 45 teg. ísl. fuglaeggja - þar á meðal flestar sjaldgæfari teg. -, mikið safn ísl. og erlendra bergtegunda o.m.fl.  fylgdi gjöfinni nákvæm skrá yfir safnið. Skápur, fylgdi gjöfinni er mátti rúma mikla viðbót.

* Íbúatal unnið úr mannfjöldaskýrslum árin 1921-1926, heildarfjöldi skráðra íbúa 1924 en ekki m.v. 1.des þ.á.

 

Heimildir, dagblöð 1924: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið, Tíminn, Vísir, Skutull, Ísafold, Lögrétta, Hænir,Vörður, Harðjaxlinn.

Tímarit 1924: Ægir, Áhugi, Tímarit Verkfræðifélags Íslands, Þór,

Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 168
Gestir í gær: 118
Samtals flettingar: 2846176
Samtals gestir: 347969
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 08:15:44