04.04.2013 23:18

Sú var tíðin, 1923

Íbúar á Eyrarbakka voru 893 að tölu árið 1923 og hafði orðið all nokkur fólksfækkun frá fyrra ári, (5,5%) eða um 52 og hafði þá íbúum fækkað frá því mest var árið 1919 um 72 einstaklinga.1 Veðurstofa Íslands setti upp veðurathugunarstöð hér á Eyrarbakka.2 Gísli Pétursson héraðslæknir tók þá að sér veðurathuganir fyrir stofnunina. Hugmyndir um Járnbraut frá Reykjavík og hingað austur yfir fjall voru enn til umræðu á þessum tímum. Rafljós voru sett upp á sundmerkin og látin loga þegar bátar voru á sjó, en annars ekki. Alþingi lagði til  2/3  af lofaðri styrkupphæð, eða 50.000 kr. til byggingu "Eyrarspítala", en ekki tókst að fjármagna sjúkrahúsið að fullu. Andróðurs gætti frá Reykjavík og einnig innan sveitar. Húsið var ekki tekið í notkun á þessu ári eins og stefnt var að. Lúðvík læknir Nordal, sem dvaldi hér á Eyrarbakka til skams tíma, sem praktiserandi læknir, og tilnefndur læknir á Eyrarspítala væntanlegum, hugðist sigla utan þetta sumar með hvatningu góðra manna til frekara náms í skurðlækningum. Alþingi lagði til til bryggjugerðar á Eyrarbakka 1/3 kostnaðar eða 10.000 kr. Gistihúsið Fjölnir var nú leigt út, en þar var einnig samkomusalur Eyrbekkinga. Kosið var til Alþingis og var kosningaþáttaka á Eyrarbakka 70%.  Pólitíkin var sérstaklega hörð og óvægin, eignuðust sumir við það vini en aðrir óvini. Þingmenn sunnlendinga urðu : Magnús Torfason sýslumaður, og Jörundur Brynjólfsson bóndi í Skálholti, fyrir Framsókn. Eitt hús var byggt hér á árinu, og heitir það Laufás.

[1 Þessi þróun hélst við næstu áratugina. Í Hagtíðindum  voru skráðir íbúar á Eyrarbakka 1923 taldir 810, en íbúatalan 893 hér að ofan er unnin úr mannfjöldaskýrslum Hagstofu Íslands 1921 til 1925]

[2 Athuganir hófust í mars og var meðalhitinn fyrir þann mánuð  4,7°C og SA áttir ríkjandi.]

Olíustríðið: Landsverslunin sem nú hafði einkasölu á olíu, keypti lóð af Guðmundi Ísleifssyni á Háeyri fyrir steinolíugeymslu og var þegar hafist handa við að girða hana af. 3 "Willemoes" skip ríkissjóðs kom síðan hingað 27. júní hlaðið steinolíu, en þá kom babb í bátinn, því umboðsmaður þess hér hafði ekki báta á egin vegum til að landa olíunni úr "Willemoes" og sýnt að hann fengi ekki báta heimamanna til verksins. Kaupfélagið Hekla átti báta, löndunarbryggju og olíugeimsluskúra, en af pólitískum ástæðum líklega fékk það ekki umboð Landsverslunar til olíusölu. Guðmundur í Heklu var áður umboðsmaður hér fyrir ameríska steinolíufélagið, á meðan það réði lögum og lofum hér á landi og fyrir Landsverslun hefði því þótt ílt að lúta höfði og biðja Guðmund í Heklu um greiða. Var þá brugðið á það ráð að leigja báta af Stokkseyringum og flytja olíuna úr Willemoes sem lá á Einarshöfn og þaðan, austur í Háeyrarlendingu. Af þessu spunnust miklar pólitískar þrætur í landsmálablöðum.

 [3 Steinolíugeymslan og olíuportið var nokkurnveginn þar sem Olísbúðin stendur nú. Áður fyr var olían flutt á trétunnum, en járntunnur komu þetta ár. Ögmundur Þorkellson var afgreiðslustjóri olíuútibúsins hér.]

Sjávarútvegur: Gæftarleysi háði veiðum hér við ströndina oft fyrri hluta vetrarvertíðar og komið fram í apríl er bátar gátu stundað sjóinn að ráði. Gerðir voru út 12 mótorbátar og tvö róðra skip. Þessir voru formenn: Árni Helgason, Akri. Jón Bjarnason, Björgvin. Páll Guðmundsson, Eyri. Jóhann Jóhannsson, Brennu.  Jón Helgason, Bergi.  Jón Jakobsson, Einarshöfn. Jóhann Bjarnason, Einarshöfn. Jóhann Loftsson, Sölkutóft.  Kristján Guðmundsson, Stighúsi. Kristinn Vigfússon, Frambæ. Vilbergur Jóhannsson, Haga. Guðfinnur Þórarinsson, Eyri.  Á opnum skipum: Sigurður Ísleifsson og Tómas Vigfússon. Hugmyndir voru uppi um að kanna möguleika á hákarlaveiðum yfir sumarið, en þekkt hákarlamið voru hér fyrir utan.

Verslun og Þjónusta: Kaupfélagið Hekla Sf. hóf að flytja inn útlendan áburð um þessar mundir. Kaupfélaginu sem nú var að nafninu til "Samvinnufélag" stóð til boða að ganga í "Sambandið" en félagið afþakkaði það.4 Á Selfossi hafði verslun Egils Thorarensen vaxið nokkuð, en sú verslun var í einskonar viðskiptasambandi við Kf. Heklu. Sparisjóður Árnessýslu var á sínum tíma stærsti sparisjóður landsins, en nú var hann í vanda staddur vegna óvarlegra útlána og átti í stökustu erfiðleikum með að greiða út innistæður. Var framtíð sjóðsins í megnri óvissu allt þetta ár og gengu sparisjóðsbækur einhverjar kaupum og sölum með afföllum.

[4 K.f. Hekla var nú skráð "Samvinnufélag" (Sf.) í stað hlutafélags (Hf.)]

Atvinna og landbúnaður: Verkamenn og  sjómenn hér við ströndina höfðu sér til stuðnings, sægjulönd og skepnur eða garða, en stunduðu auk þess almenna eyrarvinnu og sjóinn eftir tökum. Kartöfluveiki kom hér fyrir í nokkrum görðum og var gerð gangskör til að útrýma henni að undangenginni ransókn.

Félagsmál: Almennt voru fundir hér vel sóttir, hvort sem heldur var hápólitískur fyrirlestur á landsmálavísu eða alvarleg innansveitarmál, hitnaði oft í kolunum þegar svo bar undir. Félagsmenn U.M.F.E voru 114. Starfsemi félagsins var fólgin í fundahöldum, þar sem rædd voru ýms mál, svo sem heimilisiðnaður, bindindismál, dýraverndun, trjá- og blómarækt og íþróttir. Félagið gekst m.a. fyrir iðnsýningu, sem haldin var á Eyrarbakka og gaf út tvö blöð, hét annað "Geisli" en hitt "Stjarna". Í Fjölni var sett upp leikúsverkið "Almannarómur", leikrit Steins Sigurðssonar.

Samgöngur: Nýja bifreiðastöðin í Reykjavík hóf samkeppni við aðrar Reykvískar bifreiðastöðvar um ferðir þaðan austur til Eyrarbakka. Þótti það tíðindum sæta að bifreiðarnar voru aðeins 4 tíma á leiðinni að vetrarlagi (mars), en farið var hluta leiðarinnar á harðfenni.


Látnir: Vilborg Ingvarsdóttir í Norðurkoti (95). Guðrún Jónsdóttir í Eyvakoti (87). Gróa Jónsdóttir í Gróubæ (80). Guðfinna Einarsdóttir í Hallskoti (80). Magnús Magnússon þurrabúðarmaður í Nýjabæ (74). Stefán Ögmundsson þurrabúðarmaður í Merkigarði (71). Auðbjörg Eyvindsdóttir á Stóra-Hrauni (70). Halldór Þorvaldsson, þurrabúðarmaður í Eimu (58). Jónína Anna Torfadóttir í Steinsbæ (57). Ólafur Helgason í Nýjabæ (56). Guðbjartur Óskar Vigfússon, drengur á Gamla Hrauni (7).

Margrét Jónsdóttir (Bjó í Reykjavík en ættuð af Eyrarbakka, Jóns Þorsteinssonar og Sólvegar í Eyfakoti. Margrét var blind.) Ólafur Þorsteinsson verkfræðingur (frá Garðbæ hér á Eyrarbakka, en bjó í Reykjavík. f.1884)

Sýslan og sveitin: Guðmunda Nílsen keypti gistihúsið "Tryggvaskála" á Selfossi og endurnýjaði þar mest allann húsbúnað og auk þess endurbætti hún húsið að mun. rak hún þar sumarhótel og veitingahús. Á pólitískan útifund fjölmenntu bændur í næðingi og kulda að Selfossi þetta haust, í trássi við bann guðsóttans manna, enda var þá sunnudagur. Á Stokkseyri fóru fram hafnarumbætur og klappir sprengdar. Kaupfélag Grímsnesinga varð að hætta rekstri með 30.000 kr. tapi.

Tíðarfarið og náttúran: Snjóléttur vetur. Hiti í janúar var undir meðallagi en yfir í febr, og mars. Sandgræðsluverkefni sem staðið hafði yfir frá 1920 var sýnilega tekið að skila árangri, því gróður hafði aukist mikið á sandsvæðinu vestan þorpsins, einkum var það sandarfi og melgras, sem þar óx. Sandurinn var þá búinn að fylla þar djúp síki og seftjarnir.

Hagur: Gengi krónunar gagnvart viðskiptalöndum var afar lágt og ríkisskuldir miklar.

Heimildir, dagblöð 1923: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið, Tíminn, Vísir,

Tímarit: Ægir, Skinfaxi, Búnaðarrit, Vörður, Tímarit Verkfræðingafélags Íslands, Tímarit íslenskra samvinnufélaga,

Flettingar í dag: 163
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1008
Gestir í gær: 78
Samtals flettingar: 506165
Samtals gestir: 48726
Tölur uppfærðar: 9.7.2025 10:37:29