Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


ALMANAKIÐ

S E P T E M B E R M Á N I N N


          
 

 
 Fullt tungl  2
SEPT
2020  Kornmáni
 Síðara kvartil 10 SEPT 2020
 Nýtt tungl
 Fyrsta kvartil
17
23
SEPT
SEPT
2020
2020  


Færslur: 2008 Janúar

10.01.2008 22:56

Heimavarnarliðið á Eyrarbakka

Danskir búningar frá 1911Það var eitthvað í fréttum ekki alls fyrir lögu að við íslendingar ættum einn hermann sem í haust var kallaður frá störfum í hinu stríðshrjáða landi Írak og er hér náttúrlega um valkyrju að ræða og þokkadís af Bakkanum.
Fyrir margt löngu áttu Eyrbekkingar vel æfðann og vígreifan her, þó ekki stór væri og ekki hátt færi. Þegar fyrri heimstyrjöldin skall á 1914 tók  J.D.Níelsen (f.1883) í húsinu sig til og æfði um 15 menn undir strangri herþjálfun að danskri fyrirmynd. Herflokkur þessi hlaut fljótt viðurnefnið "Leikfimiflokkurinn". Níelsen var þaulvanur æfingum úr danska hernum og þeim aga sem þar tíðkaðist. Þannig þjálfaði hann mannskapinn bæði í líkamsæfingum og byssuæfingum, sem og skotfimi. Æfingarnar minntu íbúa þessa friðsæla þorps einkennilega á ófriðarbálið út í heimi þegar Leikfimiflokkur Níelsens gekk marserandi fram og aftur með byssur við öxl í garðinum við Húsið. Ekki er vitað til að nokkur maður hafi meiðst við æfingarnar eða að nokkurn tíma hafi þurft að grípa til vopna þessa heimavarnarliðs í raun.

J.D. Nielsen verslunarstjóri hélt þessum æfingum áfram um nokkur ár og báru æfingarnar stöðugt meiri keim af íþróttum, en skotæfingar voru þó fastur liður eins og áður. Stöðugt bættust fleiri ungir menn í hópinn og voru einkum tveir sem sköruðu fram úr, en það voru þeir Níls Ísakson og Gísli Jóhannsson. 
(Byggt á heimildum úr Suðurlandi 1915-1916.) 

09.01.2008 22:24

Veðráttan breytt.

það sem af er mánuðinum höfum við verið blessunarlega laus við rokið og rigninguna sem barið hefur landsmenn í allt haust og fram til áramóta og njótum nú fremur hægviðris af norðaustri, en það hefur jafnframt kólnað í veðri. Fyrstu vikuna í janúar var hiti yfir frostmarki yfir hádaginn, en þessa vikuna hefur verið frost flesta daga og smá snjóföl yfir. Spáin hljóðar upp á éljaveður út vikuna með einhverju kuldakasti og strekkingi.

06.01.2008 21:46

Hundurinn Tígull

Maður hét Þorsteinn Helgason bóndi á Hala í Ölfusi og átti hann hund. Hundur sá hét Tígull og var hann líklega einn vænsti smalahundur héraðsins. Einhverju sinni vorið 1859 á Þorsteinn bóndi erindi út á Eyrarbakka, en þangað sóttu bændur verslun hvaðanæva af Suðurlandi. Hundurinn Tígull fylgdi húsbónda sínum að venju þennan dag. Þegar Þorsteinn hefur lokið erindi sínu, verður hann þess var að Tígull er horfinn og finnst hundurinn ekki þrátt fyrir eftirgrenslan og köll. Þorsteinn heldur því heim á Hala án hundsins góða.

Þorsteinn gat þó ekki vænst þess að Tígull rataði heim, því yfir Ölfusá var að fara og engin var brúin í þá daga, heldur voru menn ferjaðir yfir ána á ferjustað, sem í þessu tilviki var á Óseyrarnesi. Líklega hefur Þorsteinn ályktað að Tígull hafi elt einhverja tíkina sem sveimaði um þorpið.
Miðsumars á þorsteinn aftur erindi út á Bakka og spyr hann hundsins á leið sinni. Þá er honum sagt af kunnugum að Tígull hafi flækst að heimili prestsins síra Björns Jónssonar á Stóra Hrauni og ílengst þar, en prestur hafi síðan ljáð syni sínum Markúsi á Borg hundinn til brúks. Þorsteinn fer nú rakleitt að Borg (Bær sá stóð miðja vegu milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.) og heimtar hundinn og lýsir hann eign sína. Þorsteinn kallar svo á hundinn sem gegnir þegar og halda þeir svo heimleiðis.

Þegar Þorsteinn er kominn út á Bakka kemur Markús eftir honum ríðandi og vill nú taka af honum hundinn góða og segir eign föður síns, en Þorsteinn vill ekki láta lausan og kemur til riskinga milli þeirra og barsmíða og beittu hvorir um sig svipu og fúkkyrðum í ríkum mæli og stóð slagurinn lengi vel og bar marga að fyrir forvitnis sakir. En þar kom að um síðir að slagnum lauk og hvor um sig hélt til síns heima. Það er svo skemst frá því að segja að Tígull gengdi Þorsteini og fylgdi honum heim.

Af þessu leiddi síðan kæru og klögumál fyrir landsdómi og urðu lyktir málsins þær árið 1863 að báðir væru sýknir saka og hélt Þorsteinn hundinum.

05.01.2008 17:02

Þorleifur ríki Kolbeinsson

Þorleifur KolbeinssonÞeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðarnir voru hlaðnir á Bakkanum. (1830 og síðar.) Verkamenn við hleðsluna í þá tíð töldu laun sín vart hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson (1798-1882),sem þá var ungur maður, seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum, enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á vinnu hans stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.

Eitt sinn þegar Þorleifur ríki Kolbeinsson frá Háeyri stóð yfir fátækum sveitabónda einum sem var að losa um böndin á böggum sínum fyrir utan búðina hans á Eyrarbakka með þeim hætti að skera á böndin með kuta sínum, lék bóndanum forvitni á að vita hvernig Þorleifur hefði orðið svona ríkur sem sögur fóru af og innti hann Þorleif svars. "Ég leysti hnútana en skar þá ekki" svaraði Þorleifur.

Þorleifur var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og átti hann ótal jarðir, þar með talið Þorlákshöfn. Hafði hann góðar tekjur af jörðinni, einkum af gjöldum sem hann heimti af formönnum sem þar lögðu upp og höfðu þar aðstöðu. Efri-Vallarhjáleigu í Gaulverjarbæjarhreppi arfleiddi hann að Barnaskólanum á Eyrarbakka og hálft afgjald jarðarinnar átti að nota til að kosta fátæk börn til náms en hinn hlutann átti að setja á vöxtu. Kvað hann svo á um að aldrei mætti jörðin seljast og skildi um aldur og ævi vera eign Barnaskólans á Eyrarbakka.

02.01.2008 12:44

Á þessu ári.

Kvenfélag Eyrarbakka verður 120 ára 25. apríl nk. Stofnendur félagsins voru 12 konur og meðal þeirra var Eugenia Nielsen fædd á Eyrarbakka 1850 og ein af dætrum Guðmundar Thorgrímsen verslunarstjóra og Sylvíu konu hans. Eugenia var hjálparhella fátækra og sjúkra þorpsbúa. Hún sat yfir hinum veiku og hjúkraði og sendi eftir meðulum. Einhverju sinni var Eugenia spurð hvort hún væri læknir, þá svaraði hún: "Nei það er ég ekki, en ég hef vit á því hvenær þarf að sækja lækni"!  Formaður Kvenfélags Eyrarbakka er Eygerður Þórisdóttir

Ungmennafélag Eyrarbakka verður 100 ára þann 5.maí nk. Núverandi formaður er Bjarni G. Jóhannsson.

Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka verður 80 ára. Hún var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu Þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson ritari. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Formaður sveitarinnar í dag er Guðjón Guðmundsson.

Óseyrarbrú verður 20 ára. Brúin er 360 metra löng og kostaði smíði hennar um 280 miljónir króna. Öflug barátta fyrir brúargerðinni hófst upp úr 1975 (brúin hafði í raun verið lengi á óskalista og komst á brúarlög árið 1952 fyrir tilstilli Sigurðar Ó. Ólafssonar og Jörundar Brynjólfssonar) og var markmiðið með henni að efla atvinnustarfsemi á Eyrarbakka og Stokkseyri tengdri útgerð frá Þorlákshöfn. Einn ötulasti baráttumaður fyrir brúnni var Vigfús Jónsson fyrrum oddviti á Eyrarbakka.
Brimið á Bakkanum óskar svo öllum lesendum sínum gleðilegs árs.

01.01.2008 12:42

Árið kvaddi með hvassviðri.

Desember var stormasamur á landinu og úrkoma mikil. Verstu stormarnir gengu yfir þann10. des13. des og 14 des. en allra mesti vindhraði mældist á Bakkanum 34 m/s í hviðum í óveðrinu þann 30.des.

Úrkoma mánaðarins reiknast 240 mm sem er vel yfir meðallagi en þó ekki met að þessu sinni. Mánuðurinn var yfirleitt mildur en kuldakafla gerði um jól með snjókomu. Mesta frost mældist -11°C á Bakkanum þann 28.desember.

Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 830
Gestir í gær: 221
Samtals flettingar: 2649091
Samtals gestir: 301607
Tölur uppfærðar: 21.9.2020 09:49:48


Sjólag og horfur

 

                                                        Dregur smám sama úr brimi næstu daga
 
 
 Sjáðu Brimið - Eyrarbakki Iceland


F U L L T T U N G L

eftir

10 daga

Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit