19.09.2024 21:04

Smalahundurinn Tígull

 
 

Maður hét Þorsteinn Helgason bóndi á Hala í Ölfusi og átti hann hund. Hundur sá hét Tígull og var hann líklega einn vænsti smalahundur héraðsins. Einhverju sinni vorið 1859 á Þorsteinn bóndi erindi út á Eyrarbakka, en þangað sóttu bændur verslun hvaðanæva af Suðurlandi. Hundurinn Tígull fylgdi húsbónda sínum að venju þennan dag. Þegar Þorsteinn hefur lokið erindi sínu, verður hann þess var að Tígull er horfinn og finnst hundurinn ekki þrátt fyrir eftirgrenslan og köll. Þorsteinn heldur því heim á Hala án hundsins góða.

Þorsteinn gat þó ekki vænst þess að Tígull rataði heim, því yfir Ölfusá var að fara og engin var brúin í þá daga, heldur voru menn ferjaðir yfir ána á ferjustað, sem í þessu tilviki var á Óseyrarnesi. Líklega hefur Þorsteinn ályktað að Tígull hafi elt einhverja tíkina sem sveimaði um þorpið.
Miðsumars á þorsteinn aftur erindi út á Bakka og spyr hann hundsins á leið sinni. Þá er honum sagt af kunnugum að Tígull hafi flækst að heimili prestsins síra Björns Jónssonar á Stóra Hrauni og ílengst þar, en prestur hafi síðan ljáð syni sínum Markúsi á Borg hundinn til brúks. Þorsteinn fer nú rakleitt að Borg (Bær sá stóð miðja vegu milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.) og heimtar hundinn og lýsir hann eign sína. Þorsteinn kallar svo á hundinn sem gegnir þegar og halda þeir svo heimleiðis.

Þegar Þorsteinn er kominn út á Bakka kemur Markús eftir honum ríðandi og vill nú taka af honum hundinn góða og segir eign föður síns, en Þorsteinn vill ekki láta lausan og kemur til riskinga milli þeirra og barsmíða og beittu hvorir um sig svipu og fúkkyrðum í ríkum mæli og stóð slagurinn lengi vel og bar marga að fyrir forvitnis sakir. En þar kom að um síðir að slagnum lauk og hvor um sig hélt til síns heima. Það er svo skemst frá því að segja að Tígull gengdi Þorsteini og fylgdi honum heim.

Af þessu leiddi síðan kæru og klögumál fyrir landsdómi og urðu lyktir málsins þær árið 1863 að báðir væru sýknir saka og hélt Þorsteinn hundinum.

Flettingar í dag: 1517
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 3735
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 300541
Samtals gestir: 37131
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 11:11:36