Móri
Sagan um Móra
Margar heimildir eru til um Móra sem er einn frægasti draugur Íslandsögunnar og átti upphaf sitt að rekja til harmleiks sem gerðist í Hraunshverfi á Eyrarbakka í lok 18,aldar. Móri gekk undir mörgum nöfnum. Svo sem Skerflóðs-móri, Sels-Móri, Kampholts-Móri og Jórvíkur-Móri. Hann varð þó ekki illvígur fyrr en hann kyntist öðrum draug er Móhúsa-Skotta var kölluð. Það gerðist eftir að stúlka ein varð úti. En henni hafði verið úthýst af Jóni ríka í Móhúsum eftir að hafa beðist þar gistingar. Móri og Skotta gerðu síðan mikinn usla og draugagang og fóru mikinn á bæjunum við ströndina um hríð og söfnuðu að sér liði drauga sem herjuðu á þorpsbúa þegar skyggja tók.
Síðar tókst að kveða Skottu niður og lægði þá draugaganginum, en Móri hefur aldrei niður kveðinn verið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og er því enn á kreiki einhverstaðar á Suðurlandinu og eiga menn til að sjá honum bregða fyrir um dimmar nætur í grennd við Hraunsá.
Upphaf Sels-Móra
(Skrásett af Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara)
(Úr bókinni saga Hraunsættarinnar.)
Á Eyrarbakka í Árnessýslu er til draugur sá sem Sels-Móri heitir. Hann er svo undir kominn að maður sá er Einar hét og bjó í Borg* í Hraunshverfi seint á 18. öld. Hann úthýsti dreng nokkrum sem komið hafði flakkandi eins og margt fólk fleira um þær mundir austan úr Skaftafellssýslu eftir að skaftáreldurinn geisaði þar. Þetta var um vetur, en drengurinn bæði svangur og klæðfár og varð því úti nóttina eftir skammt frá Borg og fannst dauður í dæl þeirri er Skersflóð heitir. Þó drengurinn hafi verið grafinn fór smátt og smátt að bera á því að hann fylgdi Einari og niðjum hans. Einkum sagt að hann hafi fylgt Þuríði (síðar formaður á Stokkseyri -innskot) og Salgerði, systurdætrum* Einars (ætti að vera dætrum Einars.-innskot) sem lengi bjó á Efra-Seli og af því að hann var þar lengst viðloða hefur hann verið kallaður Sels-Móri. Ekki er þess getið að hann hafi drepið menn á meðan hann var einn um hituna. En er hann komst í tigi við Móhúsa-Skottu æstist leikurinn.
- Í bókinni Fólkið og Þjóðtrúin eftir Bjarna Harðarson er m.a. frásögn um draug þennan og samband hans við Móhúsa-Skottu, en þar er þess einnig getið að Einar sá er úthýsti Móra hafi búið að Stéttum í Hraunshverfi sem þá var mjög þéttbýlt.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þess getið að draugarnir Norðurkots-Tómas og Móhúsa-skotta hafi verið kveðin niður af Jóni Magnússyni (Klastur-Jóni) á Kirkjubæjarklaustri (á að vera Þykkvabæjarklaustri -innskot) En Móhúsa-Jón hafi kostað þann gerning en ekki viljað greiða nema tvo þriðju umsamins verðs þar sem ekki tókst að kveða Móra niður, sem enn gengur laus með hrekki sína. Annar þekktur draugur sem ekki hefur enn verið fyrir komið enn er Mundakots-draugurinn en hann er talinn meinlaus.
Heimildir; Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Saga Hraunsættarinnar eftir Guðna Jónsson, Fólkið og Þjóðtrúin eftir Bjarna Harðarson,
Önnur Saga af Móra
Piltur nokkur hafði komið út á Eyrar haust eitt í lok 18.aldar til að fara á vertíð eins og algengt var í þá tíð með unga menn í lok sumarverka í nærliggjandi sveitum. Pilturinn var klæddur í ullarföt eins og þá tíðkaðist um sveitabörn en þó í öllu úr mórauðu með barðastóran hatt gamlan og lúinn og var rifið úr hattbarðinu öðru meginn. Af klæðnaðinum fékk hann viðurnefnið Móri. Ekki var vitað með vissu hvaðan þessi piltur kom því hann þekktist ekki, en helst talið að hann væri einn þeirra er flúðu undan Skaftáeldum.
Móri hugðist ganga á milli formanna við ströndina í von um skipspláss þó ekki væri nema í lausamennsku. Það var langt liðið dags og skuggsýnt orðið þegar Móri kemur í Hraunshverfi sem var bæjarþyrping austur af Eyrarbakka. Hann sá að nú var bærast að beiðast gistingar, því kalt var og hryssingslegt. Móra var enda orðið kalt og húngur sótti að eftir daglanga göngu. Þá drepur hann á dyr að Stéttum hjá Einari Eiríkssyni efnalitlum formanni sem reri frá Stokkseyri. Eiríkur þessi bjó áður á Borg en bjó að Stéttum þegar þessi saga gerist (á bilinu 1777-1791.-Ekki er ósennilegt að Móra hafi verið vísað þangað af öðrum bæjum í hverfinu, því bærinn Stéttar voru nokkurn veginn miðsvæðis í Hraunshverfi og því hefði hann að líkindum haft viðkomu hjá Alexíusi á Salthóli. Salthóll brotnaði í stórflóði 1799-) Ekki er vitað hvað Einari og Móra fór á milli en eitt er víst að hvorugt fékk hann pláss hjá Einari né heldur gistingu. Ekki er ósennilegt að Einar hafi bent honum á að leita fyrir sér á Efra-Seli, en býli það liggur nokkurn spöl austur af Hraunshverfi. Skemsta leið þangað lá að dæl þeirri sem Hraunsá rennur úr og nokkur krókur að fara fyrir. Nefnist sú dæl "Skerflóð". Nú var orðið almyrkvað en ljós mátti sjá á bæjum sumum. Móri stefndi því beinustu leið á bæ þann er nefndist Efra-Sel, en vegna ókunnugleika varaði hann sig ekki á flóðinu og lenti þar ofan og druknaði.
Fljótlega fór að bera á reimleikum í hverfinu og var Móra kennt um. Menn fóru að heyra ýmsan skarkala um nætur og sjá furðusýnir af ýmsu tagi þegar skyggja tók á kvöldin og kvað oft rammt að þessum prakkaraskap. Hann átti það til að bregða mönnum fæti þegar minnst varði eða birtast skyndilega við kynlegar aðstæður og hverfa jafn skjótt síðan. Stúlka ein varð úti skammt frá Móhúsum nokkrum árum síðar og varð hún að illvígum draugi. Var hún kölluð Móhúsa-Skotta. Eftir að Skotta hafði kyrkt mann frá Ranakoti á Stokkseyri og komið fyrir í brunni einum, lögðu þau Móri og Skotta lag sitt saman og drápu Tómas frá Norðurkoti á Eyrarbakka eftir að hann fór austur á Stokkseyri um jólin þennan vetur. Þar hafði hann keypti sér hangiketskrof til hátíðarinnar. Í bakaleiðinni skömmu eftir sólsetur réðust þau skötuhjú að honum og drápu. Fannst hann morguninn eftir dauður og allur sundur skorinn, blár og blóðugur. Eftir þetta sáust þrír draugar á ferð og var þá talið að Tómas hefði gengið í félag við Móra og Skottu. Kvað þá svo rammt að reimleikum að engum var fært milli Eyrarbakka og Stokkseyrar eftir að skyggja tók á kvöldin. Skotta, Tommi og Móri fóru líka hamförum á mörgum bæjum í nágreninu og komu stundum við í Norðurkoti. Lék þá bærinn á reiðiskjálfi. Húsmunir fóru á flug og lentu með af miklu afli í veggjum svo stórsá á. Móra var mest kennt um hrekki og sjónhverfingar en Skottu um brambolt manndráp og skemmdarverk.