Stormflóðið 1990

Stormflóðið.

 Þessi mynd var tekin yfir Íslandi 1993

 

Þann 9.janúar 1990 gekk mikill sjór inn á suðurströndina í kjölfar ofsaveðurs sem þá gekk yfir landið og urðu þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri verst úti í þessum hamförum veðurofsans þegar ein dýpsta lægð sem mælst hefur á síðustu áratugum rann upp að suðurströndinni. Daginn áður hafði verið versnandi veður,stíf austanátt og gekk á með þrumuveðri. Undir kvöld var komið ofsaveður með miklum hvin í lofti, rúður tóku að svigna og veggir húsa nötruðu og skulfu undan veðrinu í mestu rokunum.

 

Aðeins þrír dagar voru í stórstreymi og þar að auki hafði veðurlag á Atlantshafi undangengna daga verið fremur slæmt og úthafsaldan óvenju mikil sem gaf til kynna að flóðahætta væri töluverð í kjölfar lægðarinnar sem nú kom upp að landinu en viðvörun vegna þess var þó ekki gefin út og komu því þessar hamfarir mörgum að óvörum.

 

Loftvog féll hratt þetta kvöld þann 8.janúar og lægðin dýpkaði stöðugt eftir því sem hún nálgaðist landið og var kominn í 943 mb. um miðnættið. Vindur snerist úr ASA hvassviðri í SSV storm þá um kvöldið. Götulýsing datt þá út á Austurbakkanum og mikið særok komið svo vart sást á milli húsa. Á mánudagsmorguninn 9. janúar var há flóð um kl.4 og hálfri stund síðar æddi sjórinn á land í stríðum straumum og gekk inn í nokkur hús við sjávarsíðuna á Austurbakkanum þar sem sjóvarnir voru litlar og þurftu íbúar þar að yfirgefa hús sín. Björgunarsveitin Björg kom þeim til aðstoðar og öðrum íbúum þorpsins og var að störfum alla nóttina enda enn aftaka veður.

 

Beljandi sjór var um allar götur þorpsins og streymdi sjórinn norður yfir Eyrargötu og niður á Túngötu og safnaðist í dælurnar þar norðan við. Á milli húsaraða var sem stórfljót rynni og bar með sér mikinn sand og þara sem stífluðu strax öll göturæsi. Rokið þeytti upp öldutoppum á götunum með miklu sælöðri og seltu sem settist á hús,bíla og hvaðeina.

 

Í birtingu um morguninn var flóðið að mestu sjatnað enda farið að falla út, en við blasti gríðarlegt tjón. Þari, grjótmulningur,aur og spýtnabrak þakti götur. Fisk og selshræ mátti víða sjá, en mest bar á Sæbjúgum sem voru á víð og dreif um þorpið. Um þetta leyti hófst gríðarlegt sandrok úr fjörunni sem fyllti allar lóðir af fínum svörtum sandi sem smaug alstaðar.

 

Mesta tjónið var á fiskvinnsluhúsi Bakkafisks hf. En þar féll suðurveggur salthússinns undan sjávarganginum og þak þess flaug af í heilu lagi. Nokkur einbýlishús skemmdust þegar sjórinn gekk inn í þau og braut undan sér gler og innanstokksmuni. Sjóvarnargarðar brustu víða í plássinu þar sem þeir voru orðnir veikir fyrir.

Sömu sögu má segja af  Stokkseyri, en þar var tjónið ekki síður mikið þar sem sjóvarnargarðar hrundu eins og spilaborgir og grjótið úr þeim dreifðist um allt.

 

Eftir þetta var hafist handa við byggingu á nýjum öflugum sjóvarnargarði við hlið þess gamla, frá Einarshöfn á Eyrarbakka og austur fyrir Stokkseyri (Þar af  nálega 6 km. á lengd í landi hins forna Eyrarbakkahrepps) og lauk því verki endanlega um fimm árum síðar. Hefur ekki flætt hér síðan.

 

 

 

Sjávarflóð og Sjóvarnir

Á Eyrarbakka

 

 


1199 Hið mesta flóð, en afleiðingar óþekktar.
1234 Flóðið mikla. Skipbrot.
1316 Kom flóð svo mikið á Maríumessu (sept.) á 15. nátta tungli að sjór féll á fremri búðir. (vöruhús verslunarinnar)

1343
Þann sama dag (sem skipbrot urðu, var sjógangur svo mikill af stormi og veðri að sjór gekk langt upp um allar búðir á Eyrum....hraktist goðs manna og margir fengu skaða í fiartionni.
Í þessu mikla veðri um haustið, (Næsta dag fyrir Maríumessu síðari) fórust 3 hafskip og druknuðu a.m.k. 15 menn.

1540 Kom mikið stórflóð um haustið. Tók þá af hjalla og hús syðra sem lágt stóðu.
1621 Flóð mikið. Þá voru Einarshafnarhjáleigur sunnan dælu fluttar til að Skúmstöðum.
1630 Fyrsta dag jóla var stormur. Skemdust þá öll tún á Eyrarbakka fyrir ágangi sjávarins, sandi og grjóti.

(1644 er minnst á flóð í annálum en staðsetningar ekki getið)

1653 Stóraflóð eða Háeyrarflóðið: 2.janúar (samkv. gamla tímatali 1652/13. dag jóla) olli stórtjóni á Rauðubúðum við gömlu Einarshöfn, en hún stóð nokkurn vegin þar sem sundtrén eru nú. Sagan segir að tólgarskyldir úr versluninni hafi fundist lengst upp í mýri. Eftir það voru verslunarhúsin og heimabýlið (Gamla Einarshöfn) flutt á Skúmstaði.

 

"Var mikið veður að sunnan og útsunnan með ógurlegum sjávargangi allsstaðar fyrir austan Reykjanes svo tún spilltust, skip brotnuðu mest á Eyrarbakka, Grindavík og Selvogi. Á Eyrarbakka spillti flóðið bæði húsum og fé. Þar inni druknuðu hestar og kýr og sumt úti. Fólk flúði upp á hóla og hæðir meðan verst lét, en einn maður sjúkur druknaði í Einarshöfn. Danskt timburhús tók upp og flaut upp á Breiðumýri. Skaði var mikill á Hrauni (Hraunshverfi) og drapst búfénaður er sjór flóði inn í hús, en fólk flúði upp á húsbita eða út á þekjur. Katrín ekkja er þar bjó missti 80 hundraða í því flóði. þá tók upp skemmu með öllu sem í var og barst hún upp í tjarnir. Kistur og annað lauslegt flaut langt upp í Flóa. Mörg verslunarhús brotnuðu eða skemdust og flutu tré úr þeim allt upp að Flóagafli". (þetta flóð er talið hið annað mesta sem komið hefur.) Heimild: Saga Eyrarbakka.

 

 

1766 Skaðaflóðið: (Ekki meira um það vitað.)

1779 Öskudagsflóðið: Sjór flæðir um Gamla-Hraun og spillir jörðum. Eyddist þá jörðin Rekstokkur.

1784 Litla flóðið: Flæðir um og grefur undan verslunarhúsum.

 

18 janúar og 10.mars 1787 flæðir sjór umhverfis verslunarhúsin á Eyrarbakka. tveimur árum áður hafði D.C. Petersen verslunarstjóri lagt til við Sýslumann Steindórs Finnsonar að byggður verði sjóvarnargarður (bolverk) úr timbri og grjóti til varnar verslunarhúsunum og skipaði sýslumaður sex Bakkamenn í nefnd til að skoða málið. En engar framkvæmdir voru þó hafnar 1787. Í þessu flóði er talið að spillst hafi gjafatimbur frá danmörku til styrktar þeim sem misstu hús í jarðskjálftunum 1785 og farist hafi fyrir að afhenda. Trén flutu upp á mýri en faktor Lassen náði að safna nokkru af þessu timbri saman. 
 

Básendaflóðið 9.janúar 1799. Það olli töluverðum skemmdum á eignum Eyrbekkinga.-Jón Espólín segir pakkhús (Innsk:Byggt 1778 20X13 álnir og stóð austanvent við hin) hafa eyðilagst á Eyrarbakka og þar dreifði sjórinn viðum og varningi um Breiðumýri ofan verslunarstaðarins. Einnig velti sjórinn um öllum stakkstæðum á Eyrarbakka, gróf grundvöll undan flestum húsum þar, spillti vörum og braut malarkambinn. Hús brotnuðu og hey og búpening tók út, 63 hross, 58 kindur og 9 kýr. Alls olli flóðið tjóni á 52 býlum í hinum forna Stokkseyrarhreppi og þar brotnuðu 27 bátar.Tuttugu og níu menn urðu að flýja heimili sín-  (<)  (þetta flóð er talið mesta flóð sem sögur fara af og tjónið óskaplegt með allri byggð á suðurströndinni vestanverðri og tók til að mynda bæinn Salthól af í þessu veðri. Mikið hefur verið ritað um flóð þetta og því óþarfi að endurtaka það allt  hér)

Ofsarok var á útsunnan með miklu hrakviðri og ljósagangi. Lækkaði svo malarkamburinn framan við fjöru að var lítið hærri en fjaran sjálf og stóð fólki mikill ótti af þessari breytingu, þar sem ekkert undanfæri gæfist að flýja flóð sem ættu nú greiðan aðgang inn í þorpið.
Þá lét Lambertsen verslunarstjóri Sunckenberg verslunarinnar sem þá hét, hlaða mikinn garð fyrir framan búðirnar og Húsið sem enn stendur og störfuðu margir Bakkamenn við framkvæmd þessa.  

 

 

24. janúar 1814. Stórflóð veldur tjóni á byggingum á Eyrarbakka. Í framhaldi vill Sýslumaður láta byggja sjávargarð fyrir öllu þorpinu en  ekkert varð þó úr framkvæmdum að sinni. Verslunin lætur þó halda áfram með hleðsluna öðru hvoru og árið 1840 nær garðurinn fyrir öllu Skúmstaðalandi. Árið 1847 veður Guðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka og leggur hann aukin kraft í garðhleðsluna. Lét meðal annars hækka þá og breikka. Þá lét Einar Jónson Borgari, (sá sem Einarshús er kennt við) hlaða garð fyrir sínum verslunarhúsum austan við Gónhól 30 faðma á  lengd og liggur hann 10 föðmum innar en Skúmstaðargarðurinn og stendur sá garðstubbur enn í dag.

 

Nú líður hálf öld án þess að nokkurt markvert gerist.

 

21.september 1865. Stórflóð veldur tjóni á fiskiskipum og sjógarðshleðslum en byggingar sleppa.

 

22.september 1870. Stórflóð sleit upp skip og nokkrar skemmdir urðu í þorpinu.

Aðfararnótt 22.nóvember 1888 gerði sjávarrót með brimgangi, meiri jafnvel en dæmi eru til í manna minnum. Mikið tjón varð á róðrabátum, túnum og kálgörðum við Faxaflóa. Í Reykjavík brotnuðu 20 róðraskip auk skemda á bryggjum og húsum. Á Akranesi skemdust 6 skip og voru þrjú talin ónýt. Í hafnafyrði eiðilagðist nýr uppskipunarbátur frá Knudtsen verslun. Á Álftarnesi eiðilögðust 6 bátar. Í Brunnastaðahverfi brotnuðu 5 skip meira eða minna. Í Höfnum brotnuðu 9 skip. Í Selvogi skemdust nokkur skip, auk girðinga sem féllu og skemda á túnum. Á Eyrarbakka löskuðust 2 róðraskip auk þess sem nýji sjóvarnargarðurinn brotnaði á ýmsum stöðum. 
 

 

16.desember 1889. Stórsjór brýtur sjógarða og skemmir tún og vegi. Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri hefur garðhleðslu fyrir sínu landi enda hafa sjógarðarnir þegar sannað gildi sitt til að verja land og eignir.

 

14.nóvember 1898. Ofsaveður af útsuðri. Sjór nær að flæða yfir sjógarðanna og inn í tvo bæji. Tvö skip verða fyrir tjóni.

 

2.nóvember 1900.  Ofsaveður og sjávarflóð á Eyrarbakka

Fjórir uppskipunarbátar og bryggja P Nilsen veslunarstjóra skemmist. Sjórinn gekk í stórum öldum upp Breiðumýri milli Eyrarbakka og Óseyrarnes og gekk Ölfusá langt upp á land að í Ölfusi utanverðu. Brotnuðu þá einig nokkrir bátar frá ferjustaðnum í Óseyrarnesi.

 

 

15.janúar 1903. Stórviðri af hafi og mikill sjógangur en ekki er vitað um tjón á Eyrarbakka eða nágreni, en í Herdísarvík flæddi sjór inn í bæ og náði sjórinn upp í miðja hurðir og flæddi einig inn á baðstofugólf svo fólk varð að forða sér um bakglugga

 

1906 Ofviðri og dálítið flóð gekk upp Ölfusá. Varnargarðar hafa haldið þessu flóði í skefjum.

Árið 1909 er lokið við gerð sjóvarnargarðsinns og nær hann þá frá Óseyrarnesi við Ölfusárósa í vestri og að Hraunsá í austri, eða fyrir öllu landi Eyrarbakkahrepps. Garðurinn vestur á Óseyrarnes hvarf með tímanum undir sand og er hann að mestu óskemmdur þar undir enn þann dag í dag tæpum hundrað árum síðar.

 

9. febrúar 1913. Ofsaveður. Varnargarðar brotna víða undan sjóganginum. 

 

21. janúar 1916 Lognflóðið: Sjógarðar vestast á Óseyri og í landi Einarshafnar falla undan stórsjóum, olíuskúr og bryggjur skemdust nokkuð. Þetta flóð kom öllum að óvörum og hugsanlega um flóðbylgju að ræða (Tsunami).
 

21. janúar 1925. Stórflóð brýtur sjógarða austan Hraunsár og skemmir garða við Gamla-Hraun og sjór gekk víða í kjallara húsa þegar gerði aftakaveður af suðri (SSA). Þetta flóð kom í björtu og tókst því betur til með björgun fénaðar og annara húsdýra. Margvísleg smátjón hlutust þó af sjógnnginum. 

 

16.september 1936. Stormflóð brýtur sjógarð en lítið tjón á byggingum.

 

19.nóvember 1936. Stórsjór brýtur skörð í sjóvarnargarða.

24. oktober 1938. Ofsaveður og brimsjór. Sjór flæddi inn í kálgarða og upp á veg. Sjór braut sjóvarnargarð við Hraunsá.


15.janúar 1942. Fárviðri. Sjógarðurinn á Eyrarbakka brotnaði. Smærri skemmdir á húsum, heyjum og bátum urðu hér og þar."
 
 

Nú líða rúm þrjátíu ár án þess að nokkurt flóð valdi einhverju því tjóni sem kemst í annála og má því gera ráð fyrir að sjógangur hafi ekki verið umtalsverður,enda fjaran þá orðin vel uppgróin og garðarnir sjávarmeginn víða að hverfa í sand og melgresi. Sumstaðar hafa íbúar gert sér kartöflugarða sunnan garðs og stundað þar ræktun í áratugi án vandræða. Ströndin orðin vel sendin eins og á suðrænni baðströnd.

 

3. nóvember 1975. Stórflóð og fárviðri. Varnargarðar bresta, hús skemmast. Stórtjón  þegar skip og smábátar slitna upp og brotna eða sökkva í höfninni. Frystihúsið skemmist er sjór grefur undan salthúsinu. Fjórir Bakkabátar voru  við landfestar í höfninni þessa nótt og urðu fyrir miklu tjóni. Sólborg ÁR sem var í eigu Einarshafnar hf slitnaði frá og sökk í höfninni. Askur ÁR frá Hraðfrystistöð Eyrarbakka rak upp í fjöru vestan hafnarinnar. Sleipnir ÁR og Skúli Fógeti ÁR sem voru í eigu einkaaðila þeittust yfir hafnargarðinn og mölbrotnuðu. Á einni nóttu hafði um þriðjungur Bakkabáta þarna farið forgörðum.

 

14.desember 1977. Stórsjór gengur á land og flæðir inn í hús. Miklar skemmdir á Stokkseyri. Einn Bakkabátur Bakkavík ÁR var þar við bryggju og slitnaði hann upp í veðurofsanum og stórskemdist. Þá fóru einnig hátt upp í fjöru þrír Stokkseyrarbátar og skemdust þeir einnig.Varnargarðar brustu víða í sjávarótinu og veðurofsanum.

 

9.janúar 1990. Stormflóðið. Mikið tjón á varnargörðum og byggingum og eignum. Tjónið mest á Stokkseyri.

 

 

 

 

Tölfræði.

 

Flóð verða oftast þegar saman fer há sjávarstaða og óvenju djúp lægð sem gengur hratt upp að landinu í kjölfar langvarandi suðlægra átta og storma á Atlantshafi, t.d. leyfa fellibylja við strendur Ameríku. Þá er janúarmánuður líklegastur til að allar þessar aðstæður séu fyrir hendi. Þá má gera ráð fyrir að El Níno fyrirbærið á kyrrahafi hafi einhver áhrif á þetta.

Flettingar í dag: 831
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 208
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 286338
Samtals gestir: 36450
Tölur uppfærðar: 30.12.2024 19:01:02