Sögubrot.

SJÓFERÐASÖGUR

 

Danskur gufubátur frá um 1900

Bakkabátur skelfir Breska flotann.

 

 

Einarshafnarverslun átti lítinn gufuvélbát sem kallaður var "Hjálparinn" og notaður til strandsiglinga og ýmissa viðvika í viðskiptum verslunarinnar um Suðurland. Dag einn árið 1914 hélt Hjálparinn úr höfn með varning sem fara átti til Vestmannaeyja. Skamt suður af landinu og allt upp í landsteina var floti breskra botnvörpúnga (togara) að ólöglegum veiðum, en þeir spilltu jafnan veiðum Sunnlenskra bátasjómanna.

 

Danir voru þá með eitt varðskip (Valurinn) til gæslu með fiskimiðunum sunnanlands og víðar. Oftast höfðu bretarnir njósn af varðskipinu og gátu því hagað veiðum sínum samkvæmt því. En svo brá nú við þegar Hjálparinn nálgaðist breska flotann að uppi var fótur og fit meðal hinna bresku veiðiþjófa og töldu þeir að þarna væri kominn varðbátur þeim að óvörum. Flotinn tók saman pjönkur sínar í miklum flýti og sumir skáru draslið aftan úr til að geta forðað sér undan hinu meinta varðskipi þeirra kaupmanna á Bakkanum.

 Skonnorta á Helsingjaeyri.

Var skipstjórinn sekur ?

 

Árið 1883 setti Guðmundur Ísleifsson á Stóru Háeyri upp verslun á Eyrarbakka og flutti sjálfur inn vörur fyrir verslunina frá bretlandi og danmörku eins og þá tíðkaðist. Í því tilefni var mágur hans Þorleifur Þorleifsson frá Stóru Háeyri þá liðlega tvítugur að aldri í förum milli Íslands og danmerkur í vöruútvegun.

 

Föstudaginn 10. október 1884 fór Þorleifur um borð í norskt skip frá Stafangri sem lá við bryggju í Kaupmannahöfn og hitti þar fyrir kaptein Jacopsen. Þorleifur hugðist sigla með skipinu til Helsingjaeyrar sér til skemtunar að sögn og taka sér bát þar í land. En nokkru áður hafði hinn norski kapteinn Jacopsen selt saltfiskfarm í skotlandi fyrir Guðmund kaupmann á Háeyri fyrir 5.400 kr  og hafi þeim Þorleifi eitthvað orðið sundurorða viðvíkjandi söluna eftir því sem sögur herma, en Jacopsen átti að gera Þorleifi skil á andviðrinu til vörukaupa í Kaupmannahöfn.

 

Skipstjórinn skýrði svo frá að þann 17.október er þeir voru staddir á siglingu á Eyrarsundi að þá hafi Þorleifur  fyrirvaralaust hlaupið upp úr káetunni þar sem þeir höfðu setið eftir matinn og drukkið kaffi og fleygt sér fyrir borð og druknað á sundinu til Helsingjaeyrar. Fljótlega fóru þó grunsemdir af stað um að dauða Þorleifs hefði borið að með öðrum hætti en kapteinninn hélt fram enda maðurinn léttlyndur og glaðlyndur að sögn kunnugra og ekkert það borið að sem skýrt gæti þessa hegðun.

 

Fyrir sjórétti í Kaupmannahöfn 29.okt 1884 kvað kapteinn Jacopsen atburðinn hafa gerst með eftirfarandi hætti: Jacopsen kvaðst hafa í Skotlandi borgað Þorleifi 1.836 kr. sem Þorleifur átti að nota til að kaupa tóbak og vínföng í Kaupmannahöfn fyrir verslun Guðmundar kaupmanns á Eyrarbakka og koma þeim vörum í Íslandsskip á meðan kapteinn Jacopsen færi til Prússlands (Köningsberg) en kvaðst egi vita hvort þær vörur hefðu skilað sér. Jacopsen siglir aftur til Kaupmannahafnar og kemur Þorleifur þar um borð og sigla þeir saman til Helsingjaeyrar eins og áður sagði.

 

Áhöfn skonnortunar var samdóma í því hversu Þorleifur stökk fyrir borð á siglingu skipsinns til Helsingjaeyrar. Stýrimaðurinn gerði þegar aðvart að maður hafi fallið fyrir borð og voru skipverjar í einum vetvangi komnir um borð í skipsbátinn sem var í eftirdragi og sáu þeir til Þorleifs í kjölfarinu er hann sökk áður en til hans var náð og sagði skipstjórinn að það hefði helst litið út fyrir að Þorleifur hefði að ásetningi forðast að honum bærist hjálpin. Fyrir réttinum var kapteinn Jakopsen úrskurðaður saklaus af dauða Þorleifs.

 

Þær grunsemdir sem menn hér á heima báru til kapteinsinns norska var á þá leið að Þorleifur og Jacopsen hafi deilt hart um þann hlut sem Þorleifur átti að fá úr hendi kapteinsinns fyrir sölu farmsinns í Skotlandi með þeim afleiðingum að kapteininn hafi látið varpa Þorleifi fyrir borð.

 

Þorleifur var sonur Þorleifs ríka Kolbeinssonar (1841-1875) á Stóru Háeyri á Eyrarbakka sem var mikill eignamaður. Þorleifur sonur hans erfði eftir hann miklar eignir sem til hans mundu renna þegar hann næði 25 ára aldri (Fulltíða) en þangað til var Guðmundur Thorgrímssen hans fjárhaldsmaður (curator) en því miður fór nú svona um sjóferð þá. Guðmundur Ísleifsson verslunarmaður var mágur Þorleifs og tók hann við búi Stóru Háeyrar.

 

Heimild: Þjóðólfur 36.og 37 árg -Ísafold 11 árg.

Dæmigerð dönsk Skonnorta frá þessum tíma.

Hrakingar

Farmskipið Ingólfur lagði úr höfn frá Hafnarfyrði 11 febrúar árið 1900 með með salt og aðrar vörur sem fara áttu til Stokkseyrar. Þegar skipið var statt út af Reykjanesi brast á mikið veður af austri og rak skipið til hafs um 118 mílur útsuður af Reykjanesi og var í 17 daga í þessum hrakningum. Skipstjórinn Ólafur B Wage náði loks landsýn út af Hjörleifshöfða og kom hann skipi sínu heilu og höldnu til Stokkseyrar þann 28.febrúar. Voru skipverjarnir fjórir orðnir bæði matar og vatnslausir þó vel hefði verið sparað til á meðan þessum hrakningum stóð. Menn á Stokkseyri sem höfðu átt von á skipinu þann 12. febrúar töldu nú víst að skipið hefði farist í óveðrinu en voru nú ekki síður glaðir að sjá skipið renna  um innsiglinguna í skerjagaðinum, en þó var skipið nokkuð laskað sem ekki var furða eftir hrakning þessa. Mest öllu saltinu um 100 tunnum urðu skipverjar að moka út fyrir borðstokkinn til að létta skipið þegar veðrið lék þá hvað verst svo að einungis 20 tunnum af salti var landað á Stokkseyri.

Skipsstrand.


 

Þann 18 apríl árið 1900 strandaði á Þykkvabæjarfjörum vöruskip sem sigla átti með varning til Ólafs kaupmanns Árnasonar á Stokkseyri. Það hafði verið hvassviðri þennan dag og skipið því lagst við akkeri en slitnaði upp og rak á land við Þykkvabæ seinnipart dags og skolaði fjórum mönnum fyrir borð og druknuðu þrír en einum náði stýrimaður skipsins að bjarga með því að varpa út kaðli sem skipverjinn gat vafið um sig. En í þeim svifum kom ólag á skipið þannig að stýrimaðurinn féll við og lærbrotnaði. Þegar menn komust í land eftir að fjarað var undan skipinu var stýrimaðurinn fluttur til bæja og hlúð að honum eftir föngum meðan héraðslæknisinns í Rángárvallasýslu var vitjað en hann kaus að kalla sér til aðstoðar Guðmund Guðmundsson héraðslækni á Stokkseyri því tvísýnt var talið um líf stýrimannsinns vegna blæðinga og átti Guðmundur því um langan veg að fara í þessa læknisvitjun.


  
Ískyggilegt veður!


Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu  að veðurhorfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.

Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil, svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en alli á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir.

Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.

Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.

Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi.

Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.

Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi ásamt áhöfnum hafi verið bjargað um borð í franska skútu úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.


"Först du róer hjá Torfur".

Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnatt á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröð!"

Þangflyksa stöðvaði lekann.

Ægir hét bátur frá Keflavík og voru á honum 5 menn. Þar á meðal var Sverrir Bjarnfinnsson síðar skipstjóri á Eyrarbakka. Einhverju sinni árið 1941 voru þeir staddir á stími norðvestur af Garðskaga þegar gerði slæmt veður og mikill leki kom að bátnum svo að drapst á vélinni og bátinn rak þá stjórnlaust undan veðri og vindum. Áhöfnin greip til handpumpunar og pumpaði án afláts frá sunnudegi til aðfaranætur fimmtudags. Mannskapurinn var nú aðframkominn af þreytu þegar lekinn skyndilega hætti og lensidælan tók að hafa undan.

Það hafði heyrst frá talstöð Ægis og var nú gerð víðtæk leit að bátnum. Togari hafði numið hjálparbeðni frá áhöfninni og gaf Slysavarnarfélaginu upp staðsetningu Ægis norðvestur af Snæfellsnesi. Því miður reyndist þessi staðsetning röng, því báturinn var í raun allmiklu sunnar sem varð til þess að skipin leituðu á vitlausu svæði.

Togarinn Óli Garðar frá Hafnarfirði var að koma úr siglingu og var hann nú sendur út til leitar og fann hann loks Ægi um 16 sjómílur úti í Breiðubugt. Togarinn dró síðan Ægi til Akranes þar sem báturinn var settur í slipp þar sem í ljós kom að þangflyksa hafði lokað gatinu sem myndast hafði á botni bátsinns og gert það að verkum að lensidælan hafði undan.

Svo mikil tíðindi þótti þetta að það var skráð í Öldina okkar.
Heimild: Morgunblaðið 5.jún 1983

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 169
Flettingar í gær: 1389
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 264191
Samtals gestir: 34128
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 08:37:44