Hvalreki

http://www.klimaforschung.net/wale/wale1.jpg

 

það var líklega í vetrar lok 1972 að stórhveli rak á land á Eyrarbakka vestan við Einarshöfn undan Sundvörðum. Hér var á ferðinni dauður Sandreyður og lá hann með bringuna upp og lafandi tungu,en að öllu leiti mjög heill að sjá. Líklega var hann meira en 8 m á lengd (fullvaxinn Sandreyður er á bilinu 12-20 metrar og vegur 20-30 tonn) og þungur eftir því svo honum yrði vart mjakað í heilu lagi.

 

Næstu daga gerðu þorpsbúar sem og utanbæjarfólk sér ferð vestur á sand til að berja þetta risa spendýr augum. Menn skröfuðu um hvað best væri við skepnuna að gera. Sumir töldu best að brenna hana á staðnum enda nógur eldsmatur í öllu lýsinu, en aðrir sögðu best að grafa kvikindið í sandinn. Sumir göntuðust með að það mætti nú kannski skera hvalinn og selja kjötið til að styrkja hreppsjóðinn.

 

Nokkrum dögum síðar barst sú fregn að varðskip kæmi til að draga skepnuna á haf út þar sem henni yrði síðan sökkt á sextugt sædýpi. Einn seinnipart dags safnaðist nokkur hópur fólks á sjógarðinn því varðskipið Óðinn var á leið inn sundið. Einhverjir töldu að það kæmi inn í höfnina en aðrir voru vissir um að það væri of grunnt fyrir varðskipið og það myndi leggjast við ankeri úti á sundinu sem það og gerði. Varðskipið lá svo hreyfingalaust á sléttum sjónum vestan við hafnargarðinn fram á næsta morgun.

 

Þegar féll að var léttabáti skotið út frá varðskipinu og í honum voru nokkrir sjóliðar sem drógu línu á eftir sér upp í fjöru. Þegar í fjöruna var komið drógu þeir línuna af kappi þar til sver spilvír úr varðskipinu var kominn í land, en þá var hafist handa við að skera af sporðinum og bora göt til að þræða vírinn í gegn og læsa hann saman. Sýni voru einnig tekin úr hvalnum og tungan numin burt og sögðu gárungarnir það vera til þess að hann kjaftaði ekki frá neinu.

 

Þegar þessu var lokið var tekið að falla það mikið út að framhald aðgerða var frestað þar til á næsta flóði sem yrði þá um nóttina og voru því fá vitni af því þegar hvalurinn var dregin til hafs á ný þar sem hann fékk votan legstað einhversstaðar suður af Eyrarbakkabaug.

 

Vita meira um hvali

Flettingar í dag: 172
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260462
Samtals gestir: 33682
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:51:10