Sagan um Mundakotsdrauginn,
Bærinn Stóra-Háeyri er fornt býli á Eyrarbakka. Stóru-Háeyringar áttu eitt sinn fjárhús þar sem Þorleifstóft heitir langt upp á mýri um klukkustundar gang frá bænum. Þorleifstóft stóð austur undir mörkum Hraunslandsinns í vestur frá Stokkseyrarseli. Önnur mun eldri fjárhústóft stóð góðan spöl þar framan af. Sú tóft nefndist Bárðartóft og var kennd við Bárð sem einu sinni bjó á Litla-Hrauni (Bærinn Litla-Hraun sem fangelsið er kennt við) Enn framar og austar stóðu þrjár tóftir sem Hraunsborgir nefndust. Þar voru fjárhús frá Stóra-Hrauni á fyrri tíð. (Stóra-Hraun var lengi prestsetur og um 1900 var prestur þar sr.Ólafur Helgason.)
Einu sinni bar svo við að smali frá Stóru-Háeyri, sem gegndi fé upp á mýri, fór í beitarhúsin á aðfangadagskvöld jóla. Þegar liðið var á jólahátíðina þetta kvöld var farið að undrast um smalann sem ekki hafði komið til baka. Þegar smalinn hafði ekki skilað sér á jóladagsmorgun var farið að leita hans og var víða farið í eftirgrenslan, en árangurslaust.
Á annann dag jóla, þá um morguninn fannst hann dauður og illa útleikinn niður við sjó í Mundakotslendingu (þar sem Mundakots menn tóku skip sín upp neðan við kirkjugarðinn beint undan Mundakotsvörðu)
Litlu síðar dreymir húsmóður smalanns, að hann kemur til hennar og segir henni hvernig farið hafði fyrir sér. Þegar hann var á heimleið frá beitarhúsunum, hafi draugur eða einhver óvættur undið sér að honum, sótt á hann og villt hann, svo að hann var lengi nætur að ráfa um mýrina. Loks hafði honum með naumindum komist fram í Fælu (Fæla var fjárrétt Bakkamanna og stóð þar sem fangelsið Litla-Hraun er nú) og legið þar alla nóttina og allan jóladaginn og mátti sig hvergi hræra sökum kulda og vosbúðar. Hann kvaðst hafa séð þegar fólk var að fara til kirkju austur til Stokkseyrar, eins,er fólkið kom til baka að messu lokinni. (Kirkjan á Eyrarbakka var þá ekki risin) Hafi þá verið svo af honum dregið að hann gat hvorki staðið á fætur né gefið nokkurt hljóð frá sér til að gera vart við sig.
Nóttina eftir hafði draugurinn komið að honum aftur, hálfu verri en í fyrra sinnið, tætt hann fram í sjó og gert þar útaf við hann.
Þess var fljótt vart að smalinn lá eigi kyrr. Urðu margir varir við afturgöngu hans, skyggnir menn og óskyggnir. Leitaðist hann einkum við að villa menn, ef þeir voru einir síns liðs seint á ferð og teyma þá út í ófærur. Komust margir í hann krappan af völdum draugsa. Þótti ekki síst verða vart við hann í Mundakoti, helst í fjárhúsunum þar og neðan við vörðuna og var hann því ýmist kallaður Mundakotsdraugur eða Vörðudraugur.
Skammt fyrir austan vörðuna stóð rétt sem Steinskotsrétt var kölluð og bar oft við að menn villtust þar. ( Þar sem Steinskotsrétt stóð er nú kirkjugarður)
Í Mundakoti bjó lengi maður að nafni Þorkell Einarsson formaður(1829-1865) og þótti skyggn. (Hann var faðir Guðmundar á Gamla-Hrauni sem er langa langafi Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra í Hafnafirði.) Það er haft fyrir satt að Þorkell hafi oft séð drauginn og er eftirfarandi frásögn höfð eftir Guðmundi á Gamla-Hrauni:
Einu sinni sem oftar bar svo við á vökunni, að Þorkell fór út að gá til veðurs. þegar hann lauk upp bæjarhurðinni, sá hann að draugsi stóð á hlaðinu beint framundan bæjardyrunum.(Guðmundur var þá nálægt fermingar aldri svo þetta hefur verið um 1843 en Guðmundur er f. 10. júlí 1830,)
Guðmundur hafði gengið fram með föður sínum. Kallaði hann þá til hans og sagði " Komdu hérna undir höndina á mér drengur minn, ég ætla að sýna þér nokkuð" Guðmundur brá svo fljótt við og hljóp svo hratt að Þorkeli að hann hrökk fyrir, en við það missti hann sjónar af draugnum.
Sagðist Guðmundur alltaf sjá eftir því hve fljóthuga hann hafi verið.
það var vani Þorkels á veturna að fara undir vökulokin vestur í lambhús til að hrista upp fyrir lömbum og athuga hvort þau hefðu fyllt sig vel. Bar þá svo við eitt kvöld þegar hann var komin inn fyrir gaflinn á húsinu, að hann sér allt í einu hvar draugurinn stendur í einu horninu og einblínir á hann. Myrkfælinn var Þorkell ekki,en þetta kom honum svo á óvart, að honum var mjög hverft við og flýtti sér út. Eftir það leið fullur hálfur mánuður, svo hann fór aldrei vestur í lambhús að kvöldi til.
Ekki fara margar sögur af afrekum þessa draugs á síðari tímum,en eitt er víst að Mundakotsdraugurinn eða Vörðudraugurinn er einn fárra drauga sem ekki hefur tekist að kveða niður, svo eins er víst að hann sé enn á sveimi á þessum slóðum og bíði þess að slokkni á rafljósunum svo hann geti látið að sér kveða á ný í félagi við Móra gamla sem enn leikur lausum hala, nema ef vera kann að þeir séu báðir búnir að nema ný lönd vestur í Hafnafirði.