Færslur: 2016 Apríl

30.04.2016 21:12

Þuríðarstígur


Stígurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar er nú svo til fullgerður, en aðeins á eftir að malbika yfirborðið. Það hefur verið efst á óskalista margra Eyrbekkinga og Stokkseyringa um árabil að gerður yrði göngustígur milli þorpanna og er sá draumur nú að rætast. Fyrsta skóflustungan af þessum 4 km. langa stíg var tekin föstudaginn 7. september 2012 og var heildarkosnaður með malbiki áætlaður um 75 milj. kr. Borgarverk sá um gerð stígsins og eru íbúar þorpsins þegar farnir að nýta hann til útiveru, en stígurinn liggur m.a. um hinar fornu byggðir Hraunshverfis, er þaðan hin viðfræga sjókona Þuríður formaður bjó og fleyri sögulegar persónur. Þetta er líka hin forna leið til kirkju er Eyrbekkingar áttu kirkjusókn til Stokkseyrar og nokkurn vegin sú leið er austanmenn sóttu til Eyrarbakkaverslunar. Er Eyrbekkingum og Stokkseyringum óskað hér til hamingju með stíg þennann og sveitarfélaginu Árborg þökkuð framkvæmdin.

30.04.2016 20:49

Hallskots-skógur

Í Hallskoti er fallegur trjálundur sem Skógræktarfélag Eyrarbakka hefur tekið í fóstur og áformar þar allmikið ræktunarstarf á næstu árum og er undirbúningur þess þegar hafinn. Þarna er upplagður staður fyrir unga sem aldna til að næra andann og njóta kyrrðarinnar. Hallskot er syðstur þeirra bæja er eitt sinn stóðu í Flóagaflshverfi og dregur líklega nafn sitt af Halli þeim er þar fyrstur byggði og sést þar enn móta fyrir bæjarstæðinu. Þar var brunnur góður sem aldrei þraut og nutu nágranar jafnan góðs af. Jón Sigurðsson í Steinsbæ og síðari kona hans Ingunn Óskarsdóttir hófu umfangsmikla trjárækt í Hallskoti fyrir allmörgum árum og mun það upphafið að þessum skógarlundi í Hallskoti. Ýmsir hafa styrkt skógræktarfélag Eyrarbakka til góðra verka og stendur til að koma upp salernisaðstöðu svo fólk geti dvalið í skóginum og notið umhverfisins daglangt.

30.04.2016 20:45

Hraunprýði


"Hraunprýði" heitir þessi staður, oft nefnt "Kría" eftir listaverkinu sem þar er. Land þetta gaf Guðrún Jóhannsdóttir frá Mundakoti til skógræktar. Ungmennafélag Eyrarbakka hafði svo forgöngu um að girða það, og planta þar fyrstu trjáplöntunum 24. maí 1952 segir á vef Eyrarbakki.is. Nú eru 64 ár síðan og trén orðin allhá. Fallegur, en viðkvæmur mosi prýðir hraunhrjúft landið. þó er varasamt að fara um því víða leynast gjótur. "Krían" er því miður farinn að tapa fjöðrunum og mættu eigendur verksins sýna því og minningu Eyrbekkinganna Ragnars Jónssonar frá Mundakoti (Ragnars í Smára er gaf íslenskri alþýðu listasafn sitt) og listamannsins Sigurjóni Ólafssyni viðeigandi sóma og láta fara fram viðgerð.

30.04.2016 20:27

Sandgræðslan

Árið 1911 var hafist handa við uppgræðslu sanda vestan við Eyrarbakka. Það svæði gekk síðan undir nafninu "Sandgræðslan". Uppgræðsla sandanna fór upphaflega þannig fram að hlaðnir voru lágir grjótgarðar (Sjá mynd) í hæfilega reiti til að stöðva hreyfingu sandsins. Síðar tók Landgræðsla ríkisins við að sá melgresi á sandanna sem eru í dag uppgrónir melgresishólar.  Melgrasfræjum var  sáð á árunum milli 1920-1930, en það var búnaðarfélagið sem stóð m.a. að því. Sigurmundur Guðjónsson frá Einarshöfn (d.1985) var einn ötulasti sáðmaður sandanna hér um slóðir. Þegar sandarnir tóku að gróa hófst þar umfangsmikil kartöflurækt sem stóð í miklum blóma fram yfir 1980, en í dag eru þar aðeins fáeinir garðar enn í notkun. Ágætis tjaldsvæði hefur verið búið til austast í Sandgræðslunni sem er oftast  vel nýtt yfir sumartímann.

30.04.2016 20:18

Friðrik Sigurðsson ÁR 7

Friðrik Sigurðsson ÁR 7 í Þorlákshöfn ( síðar Ólafur GK 33). Friðrik Sigurðsson (1876-1953) útvegsbóndi sem þessi bátur og aðrir þeir sem á eftir komu er kenndur við, var frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka. Friðrik gerði út fiskibát frá Stokkseyri.  Þessi dansksmíðaði 36 tn bátur á myndinni kom til þorlákshafnar  1955, en þar höfðu afkomendur Friðriks ásamt Sandvíkurmönnum stofnað útgerðarfyrirtækið Hafnarnes í Þorlákshöfn. Guðmundur Friðriksson í Þorlákshöfn var skipstjóri á þessum bát. Kona hans var Magnea  Þórarinsdóttir, frá Stígprýði Eyrarbakka. Friðrik Sigurðsson átti bátinn Svanur ÁR 171 sem var 8 tn og smíðaður á Eyrarbakka. Áður átti hann Sæfara ÁR 6  sem var 6tn og smíðaði Bjarni Þorkelsson báða bátanna. Kona Friðriks var Sesselja Sólveig Ásmundsdóttir, en hún lést af slysförum.

Grein eftir Friðrik Sigurðsson http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3278696

  • 1
Flettingar í dag: 415
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260705
Samtals gestir: 33758
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:23:57