Færslur: 2015 Apríl

08.04.2015 23:16

Draumsýn á Eyrarbakka

Opinn kynningarfundur var haldinn að Stað um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Eyrarbakka. Höfundar deiliskipulagstillögunar frá Landform kynntu tillöguna og svöruðu fyrirspurnum. Almennt þótti tillagan góð og henni fagnað, en margir þóttust þó sjá fram á að verða komnir í það neðra áður en þessi draumsýn yrði að veruleika.  Margt manna var á fundinum og nokkur umræða skapaðist um nýjan miðbæ á Selfossi, þar sem fyrirhugað er að reisa gerfi- sögualdarþorp í Eyrarbakkastíl og þótti sumum þar vegið að gamla Bakkanum, sem oftlega hefur þurft að sjá á eftir perlum sínum flutta upp að Ölfusárbrú. Var bæjarstjórn  Árborgar nokkuð gagnrýnd fyrir skoðanaleysi um það hvernig "miðbær" þjónaði íbúum sveitarfélagsins best. Óttuðust menn að fyrirhugað  gerfialdarþorp á Selfossi yrði þess valdandi að kippa undirstöðunum undan ferðaþjónustu við ströndina sem hefur verið að byggjast upp á umliðnum árum.

02.04.2015 20:58

Sú var tíðin, 1947

Þetta var árið sem Hekla gaus eftir aldarsvefn og sáust eldarnir vel frá Eyrarbakka. Nokkrir menn á Eyrarbakka sem voru á ferli um kl.6 að morgni 29. mars 1947 sáu gosið hefjast og fjallið hverfa í öskumökk. Miklir dynkir fylgdu í kjölfarið, en veður var stillt og bjart. [Meðal sjónarvotta var Kristján Guðmundsson, en það var venja hans og fl. Eyrbekkinga að gá til veðurs við byrtingu á austurhimni, en úr þeirri átt mátti helst marka veðrabrygði.] Þann 2. apríl féll talsverð brúnleit aska á svell og snjóalög á Bakkanum. Aðfararnótt 13. apríl vaknaði fjöldi fólks á Eyrarbakka við gífurlega sprengingu sem varð í Heklu. Þó kastaði tólfunum að kveldi 27. apríl er gríðar sprengingar heyrðust frá Heklu svo þorpsbúum varð hvelft við. Þá orti Bjarni Eggerts :

 

Ekki er Hekla elda-dauð,

iðkar forna siðinn,

lýsir á nóttum loga-rauð,

lönd og fiskimiðin.

 

Hekla eykur eldana,

ýmsir tjónið kanna.

Færir glóðar-feldana,

fast að byggðum manna.

 

 Þrír bátar 12-14 tn. voru gerðir út frá Bakkanum og gæftir yfirleitt óvenju góðar framan af vertíð en afli tregur. Aflahæstur  Bakkabáta var mb. Ægir, en á Stokkseyri var það mb. Hásteinn [skipstjóri var Svavar Karlsson]. Urðu bátarnir að hætta róðrum snemma í apríl sökum vikurs frá Heklugosinu sem flaut í breiðum um allann sjó og stífluðu kælivatnsinntök, þannig að vélar bátanna urðu fyrir skemdum. Eina rðáðið var að blása vikurinn út með loftþrýstingi. Mikil síldarganga var skamt undan landi við Eyrarbakka í nóvember og fékk mb."Hersteinn" frá Stokkseyri um 200 tunnur í einni veiðiferð. Sveinn Árnason í Akri náði 20 tunnum af síld í nokkur net. Sveinn réri við annann mann um haustið og aflaði vel. Aflanum var öllum ekið í burtu, aðalega til Reykjavíkur.

Rafmagn komst á Eyrarbakka frá Sogsvirkjun í vetrar byrjun og hlutverki ljósavélarinnar að mestu lokið, en hún hafði þá séð þorpsbúum fyrir rafmagni í hátt á þriðja áratug. Sogsrafmagnið var þó háð skilyrðum í fyrstu: Ekki mátti nota það til eldunar eða húshitunar. Frystihús og vekstæði máttu ekki nota rafmagnið um hádegisbilið, (10:45-12:00) þegar notkunin var mest í Reykjavík. Rafmagn komst fyrst á Selffoss 24. ágúst til reynslu, en á Eyrarbakka og Stokkseyri 30. ágúst. Selfyssingar mótmæltu skilyrðunum, því þær ollu truflunum á starfsemi Mjólkurbúsins. [Rafmagnsnotkun Reykjavíkur hafði aukist á fáum árum langt umfram áætlanir og því varð að skamta til Árnesingaveitu.]

 

Hátíðarhöld á Bakkanum:

17. JÚNÍ var haldinn hátíðlegur að Eyrarbakka og hófust hátíðarhöldin með messu í kirkjunni þar sem sr. Árelíus Níelsson messaði. Síðan hófst skrúðganga frá kirkjunni og var gengið að Skólaflöt. Þar flutti Vigfús Jónsson oddviti ávarp, síðan fór fram fánahylling, Fjallkonan flutti ávarp, Sigurður Kristjánsson flutti ræðu, stúlknaflokkur sýndi leikfimi undir stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur og að síðustu fór fram naglaboðhlaup milli kvæntra manna og ókvæntra. Þeir ókvæntu unnu hlaupið. Þá hófst kvöldskemmtun í samkomuhúsinu. Þar var fluttur leikþáttur, kirkjukórinn söng, síðan var upplestur og talkór telpna flutti hátíðarljóð Huldu. Að lokum var stiginn dans lengi nætur og fór skemmtunin öll mjög vel fram.

 

Verkalýðsmál: Á aðalfundi Bárunnar voru eftirtaldir kosnir til forustu: Kristján Guðmundsson, formaður, Eyþór Guðjónsson varaformaður og meðstjórnendur þeir Jón Guðjónsson, Marel Þórarinsson og Sigurjón Valdimarsson. Á fjölmennum fundi Bárunnar sem haldinn var 21. maí 1947 felldi félagið tilmæli Alþýðusambandsins um uppsögn samninga og verkfallsboðun. Dagsbrúnarmenn í Reykjavík fóru hinsvegar í verkfall og í kjölfarið breyddust út samúðarverkföll þar í bæ sem stóðu tæpan mánuð. Fengu Dagsbrúnarmenn 15 aura kauphækkun. Það gilti líka fyrir Vestmannaeyjar, þ.e. að samningar þeirra tóku mið af Dagsbrúnarsamningum.

 

Afmæli:

90. Einar Jónsson er bjó á Grund, [frá Álfsstöðum] en var þá fluttur til Rvíkur. Loftur Arason í Inghól.

80. Guðrún Gísladóttir frá Einarshöfn. bjó þá í Rvík. [ Maður hennar heitinn var Ólafur Árnason frá Þórðarkoti, Sonur þeirra Sigurjón Ólafsson var landsþekktur listamaður.] Sigurður Þorsteinsson, formaður og skipstjóri frá Flóagafli, bjó þá í Rvík. [Sigurður var fróðleiksmaður mikill um sjósókn og verbúðarlíf fyrri tíma. Sonur hans Árni var fríkirkjuprestur í Reykjavík.] Helga Magnúsdóttir símamær. [Maður hennar var hinn landskunni handleiks og fróðleiksmaður Oddur Oddson gullsmiður] Aldís Guðmundsdóttir frá Traðarhúsum. Ágústínus Daníelsson frá Steinskoti. Katrín Jónsdóttir. Katrín Þorfinnsdóttir á Grímsstöðum. María Gunnarsdóttir í Einarshöfn.

70. Bjarni Eggertsson bóndi, búfræðingur og brautryðjandi í ræktunarmálum. Jón Helgason prentari, og útgefandi, bjó þá í Rvík. Gísli Þ Gíslason á Grímsstöðum. Guðlaugur Guðmundsson í Mundakoti, Jón Gíslason sjómaður í Ísaksbæ, Magnús Árnason Skúmstöðum. Magnús Magnússon Nýjabæ, Þorgerður Guðmundsdóttir Sölkutóft.

60. Ámundínus Jónsson í Vatnagarði. Guðmundur Halldórsson Hraungerði, Jón Jakopsson Einarshöfn, Margrét Þóra Þórðardóttir Merkisteini.

50. Ásmundur Eiríksson Háeyri, Einar K Jónasson Garðhúsum, Guðjón Guðmundsson Kaldbak, Guðlaug Jóhanna Guðlaugsdóttir Kirkjubæ, Ingvar J Halldórsson Hliði, Jenný Jensdóttir Þorvaldseyri, Úlfhildur Hannesdóttir Smiðshúsum, Þórdís Gunnarsdóttir Einarshöfn. [Lýður Guðmundsson hreppstjóri í Sandvík varð einnig fimmtugur þetta ár]

 

Hjónaefni:

Guðmundur Pálsson bifreiðarstj. Eyrarb. og Margrét Jónsdóttir Vestm.eyjum.

Andres Hannesson vélstjóri Eyrarb. og Guðleif Vigfúsdóttir í Holti.

 

Bornir til grafar:

Ólafur Ólafsson (83) í Garðbæ.[ Eftirlifandi kona hans var Þórunn Gestsdóttir (Tóta Gests)  gulrófna og fjárbóndi, móðir Ragnheiðar er bjó á Helgafelli. Ólafur var hæglætismaður og starfaði lengst af sem sendill fyrir verslun Guðlaugs Pálssonar.]

Ágúst Þórarinsson (81) frá Stóra-Hrauni. [Hann stofnaði fjölskyldu í Stykkishólmi og var kaupmaður þar.]

Páll Halldórsson (78) skósmiður. [faðir Guðlaugs kaupmanns. Páll var afar lágvaxinn maður og bjó lengst af á Englandi,  giftur þarlendri konu, en þeim varð ekki barna auðið. Tvö börn átti Páll fyrir á Íslandi.]

Ragnhildur Sveinsdóttir frá Heiðarkoti í Hraunshverfi. [Ekkja Þorvalds Magnússonar. Bjuggu þau síðast í Reykjavík.]

Elín Eyvindsdóttir (61) Jónssonar frá Eyvakoti. [Dóttir Ingibjörgu Jónsdóttur í Eyvakoti.]

Stefán Víglundsson (28) verkamaður frá Björgvin. [Hann var einn af stofnendum félags Sósialista á Eyrarbakka.]

Jóhann B Guðjónsson (23) frá Litlu-Háeyri Eyrarbakka var meðal 25 manna sem fórust með flugvél F.Í. 29. maí 1947 á leið til Akureyrar. [Flugvélin var tveggja hreyfla Douglas Dakota vél. Var þetta nýjasta flugvél Flugfélagsins af þessari gerð, og þá tiltölulega nýkomin til landsins, en félagið átti alls þrjár slíkar vélar. Merki vélarinnar var "TF-ISI". Jóhann var bróðir Sigurðar skipstjóra frá Litlu-Háeyri]

Ingvar Níels Bjarkar (4) frá Hvoli. [Hann var sonur sr. Árelíusar Níelssonar og Ingibjörgu Þórðardóttur á prestsetrinu Hvoli á Eyrarbakka.]

 

[Guðmundur Lambertsen (67) í Winnipeg, en hann á ættarsögu að rekja til Eyrarbakka, því afi hans Lambert Lambertsen og langafi Niels Lambertsen voru kaupmenn á Eyrarbakka.]


Sandkorn:

Magnús Magnússon í Laufási hafði með höndum allmikla framleiðslu á holsteini og vikurplötum. Vikurnámu hafði Magnús í vesturfjöru, en framleiðslan fór fram í svokölluðum "Mángaskúrum" norður af Einarshafnar og Skúmstaðahverfi. Til flutninga á vikrinum notaði "Mangi" amerískan hertrukk. Efnið var að stórum hluta Hekluvikur úr eldgosinu þetta ár.

Á veginum milli Eyrarbakka og Selfoss voru 15 smábrýr.[ræsi]

Furðuljós sást frá Eyrarbakka, er sveif á miklum hraða frá austri til vesturs. Það sást einig víða á suðurlandi.

Eyrbekkingafélagið í Reykjavík efndi til leikhúsferðar á Eyrarbakka. Félagið ákvað að gefa Eyrarbakkakirkju vandað pípuorgel og kom það til landsins vorið 1947. Stjórn félagsins skipuðu þeir: Maríus Ólafsson. formaður, Steingrímur Gunnarsson, varafonmaður, Leifur Haraldsson, ritari, Sigurður Þorkelsson, gjaldkeri og Gísli Halldórsson, formaður orgelsöfn- unar. - Meðstjórnendur voru Aron Guðbrandsson og Lárus Blöndal Guðmundsson.

Ungmennafélagið hélt dansleik í samkomuhúsinu Fjölni.

Vigfús Jónsson í Garðbæ var formaður Iðnaðarmannafélags Árnessýslu.

Sigurmundur Guðjónsson var umsjónarmaður sandgræðslunnar á Eyrarbakka.

Leikfélag Eyrarbakka setti upp á fjalirnar leikritið "Maður og kona". Helstu leikendur voru: Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Sigurveig Þórarinnsdóttir, Helga Guðjónsdóttir, Guðmundur Þorláksson og Kjartan Ólafsson. Um haustið var svo "Tímaleysinginn" settur á fjalirnar.

77 ár frá því að Eyrarbakkafélagarnir fóru fyrstir íslendinga til landnáms í Vesturheimi [1870].

240 ár voru frá því að stórabóla kom með Eyrarbakkaskipi hinu síðara og felldi 40 Eyrbekkinga, unga sem aldna, veika sem hrausta. 2 konur og einn karl sem lifðu af bólusótt 36 árum áður féllu þá einig. Eyddust 3 hjáleigur á Eyrarbakka með öllu.

Sveinn Guðmundsson vélfræðingur frá Eyrarbakka stýrði Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík. [Sonur Guðmundar bóksala Guðmundssonar og Snjólaugar Sveinsdóttur.]

Póstur og Sími keypti húsið Mörk, en símstöðin í Ingólfi var flutt þangað.

Kvennakór Ungmennafélags Eyrarbakka söng í Útvarpið.

 

Selfoss: Eldsvoði varð í smiðjum Kaupfélags Árnesinga og horfði illa með slökkvistarf þar til slökkvilið frá Eyrarbakka og Stokkseyri komu á staðinn og réðu niðurlögum eldsinns. Fyrstu hreppsnefndarkosningarnar fóru fram í hinu nýja sveitarfélagi og buðu 5 listar fram. Fyrir óháða gekk Ingólfur þorsteinsson verkalýðsleiðtogi, en fyrir Selfosshreyfinguna var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri og Björn Sigurbjörnsson bankagjaldkeri fyrir Frjálslynda. Sigurður Óli Ólafsson kaupmaður fyrir Sjálfstæðisflokk og Guðmundur Jónsson skósmiður fyrir Alþýðuflokk. Sjálfstæðismenn fengu tvo menn, þá Sigurð Óla og Jón Pálsson dýralækni. Verkamannalistinn "Óháðir" fengu einig tvo menn, Ingólf og Diðrik Diðriksson. Selfosshreyfingin fékk og tvo menn, Egil og Jón Ingvarsson frá Skipum. Þá komst Björn bankagjaldkeri inn fyrir Frjálslynda. Kirkju byrjuðu Selfyssingar að byggja þetta ár. Lögregla var nú á Selfossi [Gísli Bjarnason] og hafði einn bíl til umráða. Þá var þar kominn bifreiðaskoðunarstöð.

 Í Hveragerði og þar í grend kom upp allmikið af nýjum hverum, og breytingar urðu á eldri hverum. Skemmdir urðu á nokkrum húsum bæði í Hveragerði og Gufudal, og á Vorsabæ í Ölfusi hrundi hlöðuveggur og grjótgarður í jarðskjálftum sem voru óvenju tíðir á svæðinu.

 Í Villingahollti brann íbúðarhúsið að Egilstaðakoti.

Á Laugarvatni brann efri hæð skólans svo aðeins stafnarnir stóðu eftir.

 Tíðin: Fyrstu mánuði ársins voru yfirleitt stillur við sjávarsíðuna og kalt. Norðan stormar og frosthörkur annað kastið. Í mars gerði mikinn snjóbyl og lokaðist Eyrarbakkavegur og Hellisheiði vegna snjóþyngsla. Jarðýtur voru umsvifalaust sendar á heiðina til að opna fyrir mjólkurflutninga. Vorið var í votara lagi. Í maí varð jarðskjálftakippa vart á Eyrarbakka er áttu upptök sín við Hveragerði. Illa viðraði til heyskapar og var sumarið óvenju votviðrasamt. Þrumuveður mikið gekk á síðsumars. Í sumarlok flæddi Ölfusá yfir bakka sína og sópaði burt um 1000 hestum af heyi. Haustverkin þurftu einig að bíða vegna óhagstæðs veðurs er batnaði þó er á leið. Náðist þá að mestu uppskera úr görðum fyrir frostin.

 Efnahagurinn 1947: Íbúum á Eyrarbakka hafði fjölgað á nýjan leik eftir áralangt vom. Eyrbekkingar voru nú um 566. Fækkun var á Stokkseyri, en þar lifðu 464 íbúar. Á Selfossi var orðin mikil fjölgun eða yfir 200 manns frá 1945 og töldust Selfyssingar nú vera um 690 og þar með orðið stærsta bygðarlagið í Árnessýslu. Í Hveragerði bjuggu 399 manns. Ströng skömtun var á fjölmörgum influttum vörutegundum vegna gjaldeyrishallæris og dýrtíð var allmikil. Ísfisksölur margra íslenskra skipa erlendis gengu illa og varð að henda miklu magni af fiski.

 

Heimildir: Alþýðubl. Eimreiðin, Heimilisritið 1947, Heimskringla, Morgunbl, Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vikan, Vísir, Þjóðviljinn,

Sú var tíðin: 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910

  • 1
Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260597
Samtals gestir: 33734
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:02:39