Færslur: 2014 September

09.09.2014 22:57

Sú var tíðin 1941


Í byrjun 1941 töldust íbúar Eyrarbakka 603 og var fjölgun nokkur frá fyrra ári. Merkilegt félag var stofnað á árinu, en það var Eyrbekkingafélagið í Reykjavík sem stóð að margskonar menningarmálum á Eyrarbakka, svo sem Jónsmessuhátíð sem var haldin á Eyrarbakka 28-29 júní og voru sætaferðir frá Reykjavík á þessa fyrstu miðsumarhátíð Eyrbekkinga. Var hátíðinn sett á laugardagskvöldi kl. 19 og stóð til kl. 19 á sunnudagskvöld. Sjúkrasamlag hafði verið stofnað á Eyrarbakka fyrir ári og hafði nú sannað gildi sitt. Hugmyndir voru uppi umstofnun Sjóminjasafns á Eyrarbakka sem Eyrbekkingafélagið hugðist standa að. Ætlunin var að reisa sjóbúð og smíða eftirgerð af áraskipi.

 Fyrsta Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka haldin 1941: Fyrir hátíðinni stóð Eyrbekkingafélagið í Reykjavík og "Jónsmessunefndin" á Eyrarbakka. Eina skilyrðið til að fá aðgöngumiða að hátíðinni var að viðkomandi væri Eyrbekkingur í húð og hár. Þáttakan á átíðinni var gífurlega mikil, en 200 "Eyrbekkingar" komu t.d. frá Reykjavík. Lögreglumenn, einig úr Reykjavík sáu til þess að allt færi fram með friði og spekt. Við Vesturbúðina var komið upp stóru hátíðarsviði sem tjaldað var yfir. "Eyrabakkaóðurinn" er samið hafði Maríus Ólafsson, var sunginn af mikilli innlifun og síðan var héraðssöngur Árnesinga kyrjaður, er samið hafði Aron Guðbrandsson, en síðan tók kvartett úr Reykjavík við boltanum og margir fleiri listamenn stigu á stokk. Gjallarhornum, eða hátölurum hafði verið komið fyrir svo víða heyrðist. Dansleikur var þar næst haldinn í Fjölni, stanslaust þar til sól reis á ný. Húsrúm í Fjölni leifði ekki allann fjöldann sem dansleikinn sótti, svo fjöldi fólks dansaði eftir músikkinni á götu úti. Á sunnudag var haldin messa í kirkjunni þar sem predikuðu sr. Gísli Skúlason og Eiríkur Eiríksson.

 Vekalýðsmál: Bestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið, laun hækkuðu um 80% hjá Bárunni.

 Strax um áramótin '40/'41 gerði Vlf. Báran á Eyrarbakka nýjan kjarasamning við Eyrarbakkahrepp [Undirritaður 26.12.1940]. Var þessi verkamannasamningur sá besti sem gerður hafði verið á landinu fram til þessa. Laun hækkuðu úr kr. 1,23 upp í kr. 1,56 ásamt fullri dýrtíðaruppbót sem greidd yrði ársfjórðungslega. [samsvaraði kr. 2.22 á tímann,eða 80% launahækkun, en fram til þessa hafði hæsta kaup á landinu verið greitt á Akureyri kr. 1,50 pr.klst] Kauptaxti þessi gilti jafnframt í bretavinnu í Kaldaðarnesi, en hann var samþykktur af setuliðinu mótbárulaust. Samningur þessi olli m.a. óróa hjá verkalýðsfélögum í Vestmannaeyjum, þar sem venja hefur verið að greiða hærri laun en á Bakkanum. Óróleikinn kom einnig fram hjá mörgum öðrum félögum sem áttu ósamið. Verkfall brast á hjá "Dagsbrún" svo allt hljóp í bál og brand milli atvinnurekenda og verkamanna.[Setuliðið var þá að hefja flugvallargerð í Vatnsmýrinni] Ergelsið og átökin vestan fjalls, urðu til þess að bretarnir komu fram með undirskriftalistalista og báðu verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri að kvitta undir viljayfirlýsingu um að vinna fyrir laun kr.1,75 á tímann, en enginn verkamaður fékst til að undirrita. Ákváðu bretar þá ótímabundna vinnustöðvun. [Grunur lék á að Vinnuveitendasambandið hafi hlutast til um íhlutun bresku hernámsstjórnarinnar í vinnudeilurnar] Kaupgjald við alla skipavinnu var kr.2,96 á tímann, en hinsvegar fátítt orðið að þessi vinna stæði til boða. Fundur var haldinn í Bárunni 27.oktober. Var þar mótmælt einróma lögfestingarfrumvarpi Eisteins Jónssonar ráðherra um kaupgjald og skorað á Alþingi að fella það. Iðnaðarmannafélag Árnessýslu hélt tvo fundi á árinu, en 60 félagsmenn voru dreifðir um alla sýsluna. Atvinna fyrir iðnaðarmenn var frekar lítil á árinu, og laun voru kr. 1,50 á tíman. Vigfús Jónsson á Eyrarbakka var formaður.

 Pólitíkin á Bakkanum: Framsóknarfélagið Eb. hélt sína árlegu kaffidrykkju-árshátíð 11. janúar. Til skemtunar voru ræðuhöld, kvikmyndasýning, Framsóknarvist og dansiball. Um 100 manns sóttu hátíðina.

Sjálfstæðisfélag Eb. hélt sömuleiðis kaffidrykkju-árshátíð þann 25. janúar með ræðuhöldum, söng og dansiballi. Aðal ræðumaður var Jakop Möller fjármálaráðherra. Um 130 manns sóttu hátíðina. Héraðsmót flokksins var svo haldið 6. júlí á Eyrarbakka, og vitanlega hófst mótið með kaffidrykkju. Meðal ræðumanna var Bjarni Benediktsson borgarstjóri Reykjavíkur. Aðsókn á þetta mót var þó undir væntingum.

 Útgerð: Engir bátar gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð, enda fengust ekki sjómenn til starfa. Bretavinnan tók til sín alla menn sem vetlingi gátu valdið. Jón Helgason á Bergi reri þó frá Þorlákshöfn og hét sá bátur "Lambafell" og var 12. tonn. Alls gerðu 9 bátar út frá Þorlákshöfn með samtals 70 manna áhöfn. Jón Helgason var aflahæsti formaðurinn á þessari vertíð, sem var sú 31. hjá honum. Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði og hét sá bátur "Ægir" og var smíðaður á Eyrarbakka á fyrra ári, og var eigandi hans Jón Guðjónsson o. co. Til lendingarbóta á Eyrarbakka voru veittar kr. 23.000 úr ríkissjóði.

 Hernaðarbrölt: Þjóðverjar gera loftárás á Selfoss

 Norskt varðskip sem hér var á ferð 18. febrúar og í þjónustu "Bandamanna" sigldi upp á sker og sat þar fast nokkra stund, eða þar til næginlega var fallið að. Hafnsögumaðurinn á Eyrarbakka tók þá við stjórn, og lagði skipinu á öruggnann stað, þar sem hægt var að kanna skemdir á skipinu

[Bandamenn höfðu nokkur skip við strendur landsins sem unnu við að slæða upp tundurdufl og leggja tundurduflum á vissum svæðum. Norska varðskipið var eitt þeirra.] 

Þýsk herflugvél, Heinkell 111 flaug lágt yfir þorpið að Selfossi 9. febrúar 1941, rendi sér yfir brúna og sneri við. Lét hún svo vélbyssuskothríð dynja á brúnni og hermannabröggum sem þar höfðu nýlega verið reistir vestan brúarinnar og særðust tveir hermenn sem hlupu út í sömu andrá. Á hól þar vestan brúar höfðu bretar sett upp vélbyssustæði og hófu þeir þegar skothríð á flugvélina sem hvarf yfir Ingólfsfjall. 

        [Flugvélina sakaði ekki og hún flaug næst yfir Reykjavík og hrelldi íbúa þar og komst síðan undan. Ummerki sáust á brúarstöplunum eftir árás flugvélarinnar, en þess skal geta að um er að ræða gömlu brúna sem var 50 ára gömul er hér er komið sögu. Þjóðverjum þótti þessi árásarferð 1800 mílna leið vera mikið flugafrek og það þótti bandarísku pressunni líka, því árásin á Selfoss hafði fært átökin um 1000 mílur nær þeim og jafnvel of nálægt, því næðu þjóðverjar Íslandi, þá væri hægðaleikur fyrir þá að gera loftárásir á Bandaríkin. 

Svo komu fleiri þýskar flugvélar, og breska flugsveitin var ávalt of svifasein að taka á móti þeim] 

Vinnu við Kaldaðarnesflugvöll og bækistöðvar setuliðsins þar var svo háttað: Bretar höfðu sjálfir með höndum alla yfirstjórn verkefna á svæðinu. Verktakar að framkvæmdum voru Hjögaard & Schultz og svo Gunnar Bjarnason verkfræðingur, hvor með sinn vinnuflokkinn í akkorði. Voru verkamenn í þessum hópum víðsvegar af landinu, Þó allflestir Eyrbekkingar og Stokkseyringar í umboði síns félags, Bárunnar og Bjarma, nema hann Þórður Jónsson verkamaður, sem var búinn að fá nóg af dvölinni á Ingólfsfjalli og kominn í hörku bretavinnu, og þar svikinn um 20 kr. af launum sínum, sem látnar voru renna til verkamannafélagsins Dagsbrún í Reykjavík, og eins var farið um nokkra aðra landsbyggðamenn, frá Keflavík og Húsavík. Þótti honum það hernám verra en hitt. Síðar, eftir mikil læti, fengu verkamennirnir þetta leiðrétt. Túlkar fyrir verkamennina í Kaldaðarnesi voru aðalega Jóhann Ólafson og Gunnar Benediktsson kennari. [Um 150 verkamenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri unnu fyrir setuliðið í Kaldaðarnesi]

 Slys: Banaslys varð þegar ung stúlka féll af palli vörubifreiðar sem var að flytja allmörg ungmenni af skemtun sem haldin hafði verið á Stokkseyri. Stúlkan hét Kristín Jónsdóttir og var 16 ára. Varð hún undir afturhjóli vörubifreiðarinnar. Piltur sem einnig féll af pallinum meiddist lítilega. [Þetta slys varð kl. hálf þrjú að nóttu, við Hópið á móts við Ós, og lenti vörubifreiðin X-69 þar í lausum vegkanti, með þessum afleiðingum. Foreldrar stúlkunnar voru Sigurjón Kristjánsson frá Grunná í Klumpavík og Helga Jónsdóttir frá Garðbæ á Stokkseyri. Hún bjó þá er þetta gerist, með síðari manni sínum Gesti Sigfússyni og höfðu þau nýlega keypt Frambæ á Eyrarbakka.]

 Stórafmæli:

80 ára afmæli átti Ingibjörg Guðmundsdóttir í Gunnarshúsi hér á Eyrarbakka.

75 ára afmæli, átti Jón Jónsson í Steinskoti, en þangað fluttist hann ungur með móður sinni frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð. Hann réri 50 vertíðir frá Eyrarbakka. Hann var ljóðelskur og sögumaður góður. Sólveig Daníelsen Gísladóttir frá Skúmstöðum. Árið 1898 giftist Sólveig dönskum manni, Carl Andreas Danielsen, en hann fór stuttu síðar í atvinnuleit til Ástralíu og spurði ekki til hans síðan. Sólveig starfaði sem afgreiðslukona hjá verslun I.R.B. Lefolii. Jóhann V Danielsson kaupmaður á Eyrarbakka, hafði þá búið í Rvík síðustu 15 ár.

70 ára: Jón Adólfsson kaupmaður á Stokkseyri. Hann starfaði áður við verslun á Eyrarbakka.

50 ára: Guðrún Jónsdóttir í Kirkjubæ. Eyrbekkingurinn Maríus Ólafsson skáld og heildsali í Rvík.

Silfurbrúðkaup áttu: Læknishjónin Ásta Jónsdóttir og Lúðvík Nordal læknir. Jenný Jónsdóttir og Ólafur Bjarnason á Þorvaldseyri Eb.

 Látnir:  Sigríður Pálsdóttir (95) frá Merkigarði. Guðleif Árnadóttir (91) frá Akri. Ragnheiður Jónsdóttir (86) frá Einarshöfn. Ingvar Friðriksson (86) beykir frá Garðbæ. Jón Guðmundsson (84) frá Gamla-Hrauni. Sigurður Sigurðsson (83) frá Smiðshúsum. Guðrún Þorgrímsdóttir (82) frá Merkisteini. Ingunn Sigurðardóttir (82) frá Ósi. Sveinn Sveinsson frá Ósi. Jónína Jónsdóttir (76) frá Bjarghúsum.. Guðmundur Jónsson (71) fv. oddviti í Einarshúsi. Hann var fæddur á Hrauni í Ölfusi. Þorleifur Guðmundsson fv. alþingismaður, Ísleifssonar á Stóru-Háeyri. Kona hans var Hannesina Sigurðardóttir frá Akri. Kristín Sigurjónsdóttir (17) frá Bræðraborg. Kristín lést af slysförum.

 Fjarri heimahögum: Guðmundur Sigurðsson (62) skipstjóri frá Melbæ Eb. [Sonur Sigurðar Ásmundssonar og Þóru Guðmundsdóttur. Hann var lengi viðriðin Draupnisfélagið] Anna Eiríksdóttir (46) frá Litlu-Háeyri.

 SANDKORN: Prestakall Eyrarbakka, Stokkseyrar og Gaulverjabæjar var nú nefnt "Stokkseyrarprestakall", en þrátt fyrir það var messað í hverri einustu kirkju sem finna mátti í Árnessýslu sunnudaginn 24. ágúst 1941. Eftir þetta messu-maraþon barst þessi prestafylking 20 guðslærða manna sem herfylking hingað til Eyrarbakka, og þar héldu hvor sína messuna Eyrbekkingarnir hr. biskup Sigurgeir Sigurðsson og síra Árni Sigurðsson.  Tvö kirkjuleg erindi voru flutt um eilíft líf og líf þrátt fyrir dauðann, en hið fyrra erindi þótti afar umdeilt , en eins og allir vita þykja Eyrbekkingar langlífið fólk, en vildu þó ekki allir hanga uppi til eilífðar.  Vb. Ægir frá Eyrarbakka tók mótorbátinn "Anna" frá Ólafsfirði í tog, eftir að báturinn varð fyrir vélarbilun í aftaka veðri úti fyrir Reykjanesi. Eyrbekkingafélagið í Rvík kom yfirleitt saman í Oddfellow húsinu. Í Útvarpinu 20. maí hélt Gunnar Benediktsson rithöfundur, erindi um Eyrarbakka. Íþróttanámskeið var haldið hér og sóttu 170 ungmenni námskeiðið. "Sagnir og þjóðhættir" var ný bók sem ritað hafði Oddur Oddson fróðleiksmaður á Eyrarbakka. "Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur" eftir Guðna Jónsson frá Eyrarbakka voru gefnar út. Út kom bókin "Saga Þuríðar formanns" er Eyrbekkingafélagið gaf út.

 Gestir: Hið Íslenska náttúrufræðifélag sótti Bakkann heim.

 Efnahagur og lífstíll: Smjörlíki var nú notað meira til viðbits en smjör. Áfengi, kaffi og tóbak, eru börn farin að neyta um fermingu. Klæðnaður fólks almennt betri hér en víðast  út um land. Kamrar voru enn algengasta salernisaðstaðan, en undantekning að fjós séu notuð til þessara þarfa eins og í sveitum. Barna, unglinga og iðnskóli störfuðu í þorpinu.

 Úr grendinni: Hörður Sæmundsson, 2. vélstjóri, frá Stokkseyri, 20 ára féll útbyrðis af vb. "Pilot" frá Ytri-Njarðvík ásamt 5 öðrum er brotsjór reið yfir bátinn. Félag Sjálfstæðisverkamanna á Stokkseyri, "Málfundafélagið Freyr" nær manni í stjórn verkalýðsfélagsins "Bjarma" á Stokkseyri. Formaður "Freys" var Svanur Karlsson. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, þjóðþekktur maður andaðist á árinu. Tveir snúningsdrengir í Stóru-Sandvik er voru þar að fikta með eld í hlóðum, brendust illa er bensínbrúsi sprakk í höndum þeirra. Breskir hermenn sem voru þar nærri komu til hjálpar og slöktu í þeim. Björgunarsveitin "Tryggvi" var stofnuð [1940] að Selfossi með 65 félögum.

 Tíðarfarið: Veturinn e.á. var einmuna hagstæður þetta árið. Vorið fór vel af stað og var hlýtt og kyrt. Sumarmánuðirnir með ágætum kyrrviðri og hlýindi og tæplega 18 stiga hiti að hámarki. Heyskapartíð ágæt, en vætudagar nokkrir. Haustið byrjaði með hlýindum og rigningartíð. Kartöflu uppskera var með eindæmum góð. Veður urðu síðan óstöðug til vetrar og vindasamari er á leið.

 Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Daily Post,  Heimskringla, Morgunbl. Morgun, Tíminn, Útvarpstíðindi, Þjóðviljinn, Ægir,

  • 1
Flettingar í dag: 385
Gestir í dag: 169
Flettingar í gær: 1389
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 264223
Samtals gestir: 34128
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 11:14:54